Jóhannes Reykdal

Við Reykdalsstífluna neðan Lækjarkinnar er upplýsingaskilti Byggðasafns Hafnarfjarðar um Hörðuvallastöðina og fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi. Á því má lesa eftirfarandi texta og sjá meðfylgjandi myndir:

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin – skilti.

„Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldara á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. Hörðuvallahúsið er fyrsta rafstöðvarhús sem reist var á Íslandi.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal – minningarskjöldur við fótstall styttu af Jóhannesi á Reykdalsstíflunni ofan Hörðuvallarstöðvarinnar.

Þessi nýja virkjun var tekin í notkun haustið 1906 og var gerð fyrir 37 kW en vegna vatnsleysis gat hún aldrei framleitt meira en 22 kW. Árið 1909 keypti Hafnarfjarðarbær báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi og í kjölfarið var stofnuð rafljósanefnd. Rafmagnssölunni var þannig háttað á þessum árum að einungis var hægt að fá rafmagn á svokölluðum ljósatíma en hann var frá því að skyggja tók og fram til miðnættis á tímabilinu 15. ágúst til 15. maí. Á öðrum tímum var ekkert rafmagn að fá.

Jóhannes Reykdal

Tréstokkurinn milli Reykdalsstíflunnar og Hörðuvallastöðvarinnar.

Árið 1914 var vatnsstokkurinn frá stíflunni og niður að stöðvarhúsi orðinn svo lélegur að ákveðið var að stytta hann og rafljósastöðin færð frá íbúðarhúsinu í nýtt hús er stóð mun nær stíflunni.

Jóhannes Reykdal

Stytta af Jóhannesi Reykdal á Reykdalsstíflunni.

Fljótlega var ljóst að þessar tvær rafstöðvar nægðu ekki til að veita þá raforku sem Hafnarfjarðarbær þurfti á að halda. Margar leiðir voru skoðaðar en að lokum var brugðið á það ráð að reisa dísilrafstöð við Strandgötu og var það fyrirtækið Nathan & Olsen sem átti og starfrækti þá stöð.

Reykdalsstífla

Reykdalsstífla.

Það var árið 1922 sem sú stöð tók til starfa og sá hún bænum vestan lækjar fyrir rafmagni en eldri stöðvarnar sáu um þann hluta bæjarins sem var sunnan lækjar. Þetta fyrirkomulag stóð stutt því að árið 1923 var neðri rafstöðin lögð niður og þremur árum síðar var svo komið að Hörðuvallastöðin gat ekki lengur séð íbúum sunnan lækjar fyrir nægilegu rafmagni. Var hún þá einnig lögð niður og eftir það sá stöð Nathan Olsen öllum bænum fyrir raforku.

Stöðvarstjórar við Hörðuvallastöðina voru Jón Þórðarson (1906-1908), Þórður Einarsson (1908-1914) og Árni Sigurðsson (1914-1926).“

Jóhannes Reykdal

Endurgerður tréstokkurinn milli fyrrum Hörðuallarafstöðvarinnar og Reykdalsstíflu.

Jóhannes Reykdal

Á upplýsingaskilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við Austurgötu nálægt Læknum er eftirfarandi texti og myndir um fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi:

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal – Skilti um fyrstu almenningsrafveituna á Íslandi við Lækinn.

„Árið 1901 flutti ungur trésmiður til Hafnarfjarðar, Jóhannes J. Reykdal, en hann hafði þá nýlokið námi í iðn sinni í Danmörku. Til Hafnarfjarðar kom hann í þeim erindagjörðum að stofna hér trésmíðaverksmiðju en hann taldi að Hamarskotslækurinn væri ákjósanlegur aflgjafi fyrir vélar verksmiðjunnar. Í verksmiðju þessari, sem tók til starfa árið 1903, voru átta trésmíðavélar sem allar voru knúnar áfram af fallorku lækjarins.

Jóhannes Reykdal

Í trésmiðju Jóhannesar Reykdal við Lækinn.

Það var þannig gert að 94 metra langur tréstokkur var reistur og í honum var vatninu veitt í vatnskassa sem áfastur var við húsið. Fallhæð vatnsins í kassanum var tæpir fjórir metrar og í honum var 11 kílóvatta hverfill. Frá hverflinum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu og þaðan lágu svo reimar upp í gegnum gólfið í tvær hreyfivélar sem aftur knúðu trésmíðavélarnar.

Jóhannes Reykdal

Upplýsingaskilti um fyrstu rafvæðinguna á Íslandi við Lækinn.

Í frétt Heimskringlu af stofnun verksmiðjunnar sagði meðal annars: “Lækurinn í Hafnarfirði er um aldir og áratugi búinn að renna út í fjarðarbotninn án þess að miðla nokkru af afli sínu mönnum til nytsemdar. Nú er mannshöfnin búin að beizla hann, og er það allrar virðingarvert. Vonandi, að ekki líði langar stundir þangað til hann vinnur fleiri þarfaverkin Hafnfirðingum til þarfa og sóma t.d. að lýsa upp hús og götur þar í bænum.” Það var einmitt raunin, því árið 1904 keypti Jóhannes níu kílóvatta rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils.

Í kjölfarið réð hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýzkalandi, til að annast lagningu raflagnanna til húsa í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Á þess­um tíma bjuggu 1.079 manns í Hafnar­f­irði.

Reykdal

Reykdalshúsið við Brekkugötu.

Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals við Brekkugötu.

Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að sinna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var ráðist í að reisa aðra, mun stærri, rafstöð við Hörðuvelli sem tekin var í notkun árið 1906. Trésmíðaverkstæðið seldi Jóhannes tólf Hafnfirðingum árið 19111 en þeir mynduðu sameignarfélag um reksturinn undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverzlun Hafnarfjarðar, Flygenring & Co. og starfaði hún um áratugaskeið í bænum.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes við fyrsta rafalinn á trésmíðaverkstæðinu við Lækinn.

Guðmundur Björgvin Jónsson

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar frá Brekku, „Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, útg. 1987, segir bæði frá hreppamörkunum sem og misskiptu mannlífinu fyrrum:

Skógfellastígur

Merkin við „gömlu götuna“ millum Voga og Grindavíkur. Skv. landamerkjalýsingunni voru mörkin miklu mun norðaustar en nú er sýnt á kortum.

„Hreppurinn nær frá miðjum Vogastapa og byggðin með sjávarströndinni að jafnaði hvergi fjær sjá en 1 km þar til hún endar við Hvassahraun, en hreppamörk eru hin sömu og fyrrnefnd sýslumörk við Markaklett. Austan Hvassahrauns er Hvassahraunsbót og eystra nesið heitir Hraunsnes, en það vestara Stekkjarnes. Við Hraunsnes er Markaklettur.
Eins og áður segir eru sýslur beggja vegna línunnar frá Markakletti að Markhelluhól. Þar um er framhald sýslumarka til vinstri en hreppamörk til hægri og stefna þau vestan við Trölladyngju. Er þá Grindavíkurland vinstra megin og Vatnsleysustrandarland hægra megin, en við Trölladyngju og austurkant Höskuldarvalla eru óviss mörk. Á þessu svæði beygir línan beint vestur að Lilta-Keili, síðan lítið eitt til vinstri í Hagafell, þaðan aftur til hægri í Kálffell og enn til vinstri að Litla-Skógfelli í stóran klett, sem stendur við gamla götuslóð þar er sést vel enn. Þessar bugðóttu línur hreppamarkanna eru umdeildar.

Arnarklettur

Arnarklettur.

Frá Litla-Skógfelli er farið í norður beina línu í Arnarklett, sem stendur nálægt hraunjarðrinum austur af Seltjörn. Við klettinn mætast þrír hreppar. Síðasti áfanginn er frá Arnarkletti í sjó fram að vesturþúfu við Innri-Skor í Voga-Stapa. Þarna eru einni umdeild mörk, ein landlýsingin segir í miðja Skor, sem er mjög ónákvæmt.
Þar með er lokið landleiðinni um hreppamörkin en sjávarmegin lemja bárur Stakksfjarðar landið allt, að markakletti austan Hvassahrauns.
Þegar um er að ræða býli og búendur allt fram á annan og þriðja tug þessarar aldar [þeirrar síðustu], kemur í ljós að stéttarskipting var sérstaklega áberandi, sér í lagi þegar illa áraði og veiðivon í sjó og veðurfar í landi brást þeim er byggði afkomu sína á sávarafla og landbúnaði. Þá urðu þeir er minna máttu sín, að gera sér að góðu að heyra í og horfa á þá ríku. Vil ég hér nefna flokka:

Steinsholt

Steinsholt í Vansleysustrandarhreppi – dæmi um kotbýli.

1) Bændur á lögbýlum, er stunduðu bæði landbúnað og sjávarútveg, höfðu kaupafólk, vermenn og leiguliða þar sem landrými var umtalsvert.
2) Grasbýlingar, sem bjuggu í hjáleigum eða húsum á lögbýlisjörð, höfðu gransnyt án beitilandsréttar.
3) Tómthúsmenn, er höfðu efni á málnytu þ.e. ekkert grasland til að fæða kind eða kú og urðu því að vinna fyrir öllum nauðþurftum hjá öðrum og greiða leigu til landleiganda þess er hús þeirra stóðu á. Í mesta lagi gátu tómthúsmenn (kotungar) útbúð kálgarð, en þó aðeins með leyfi landeiganda.

Stapi

Brekka undir Stapa – dæmi um dugmikla Grasbýlinga.

4) Vinnufólk, húsfólk eða húshjón, bæði konur og karlar, sem var kaupafólk, ýmist árstíðarbudnið eða ársráðið. Þeir sem þóttu duglegir og voru eftirsóttir gátu unnið sig upp og orðið sjálfstæðir eignamenn.
5) Þeir aumustu sem ekki gátu uppfyllt kröfur þær sem til þeirra voru gerðar og áttu oft ekki annan kost en að verða þurfamenn eða niðursetningar“.

Af framangreindri lýsingu Guðmundar Björgvins á aðbúnaði fólks á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. virðist lítið hafa breyst – ef horft er til nútíðar…

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Njarðvík

Í Skýrslu Reykjanesbæjar um „Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð“ árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.

Innri-Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Hítardalsbók segir: “Maríukirkja og hins [heilaga] Þorláks biskups í Njarðvík á eina kú, altarisklæði tvö, et cetera” Bókin gæti verið frá 1367 en líklegt er þó að kirkjan sé frá 13. öld í gömlum ritum er talað um KirkjuNjarðvík, sem ekki er óumdeilt að hafi verið notað um bæinn. Þegar á miðöldum eru Njarðvíkurjarðirnar tvær.
Kirkjueignir á Suðurnesjum komust í eigu konungs árið 1515 og voru í eigu konungs í 275 ár eða til ársins 1790. 17. Febrúar 1790 kaupa bræðurnir Ásbjörn og Egill Sveinbjarnarsynir kirkjujörðina Innri-Njarðvík ásamt hjáleigunum. Hákoti, Stapakoti, Tjarnarkoti, Móakoti og Hólmfastskoti.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Halldór Jónsson, hertekni, var hertekinn í Tyrkjaráninu í Grindavík 1627, en Halldór kom aftur til Íslands.
Sonur hans, Jón Halldórsson lögréttumaður, sat jörðina Innri Njarðvík frá 1666. Ásamt konu sinni Kristínu Jakobsdóttur. Jón fæddist að Járngerðarstöðum í Grindavík árið 1623 en dó í Innri Njarðvík 19. apríl 1694.
Jón Halldórsson barðist fyrir því að kirkja yrði reist í Innri Njarðvík. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf leyfi þann 16. september 1670, með þeim skilmálum að Jón sæi til þess að allur tilkostnaður við embættið og þjónustu forsmáðist ekki á nokkurn hátt. Auk þess fékk Jón leyfi landfógeta Jóhanns Kleins til að byggja kirkjuhúsið, en Brynjólfur gaf leyfi til guðsþjónustugjörðar.

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Jón lét byggja kirkju sem var vígð 13. nóvember 1670 af sr. Rafni Ólafssyni á Stað í Grindavík. Kirkjan fékk hálfkirkjurétt en Njarðvíkingar voru þó enn bundnir Kálfatjarnarkirkju og skyldaðir til að gjalda henni kirkjugjöld, urðu miklar rekistefnur út af þessu fyrirkomulagi.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Kálfatjarnarprestar þjónuðu kirkjunni til ársins 1700 er Jón biskup Vídalín, lét lögtaka að hálfkirkjan í Njarðvík væri orðin alkirkja og skyldi vera annexía frá Hvalsnesi.
Sama ætt hefur búið á gamla stórbýlinu Innri-Njarðvík í yfir 300 ár. Saga ættarinnar og Njarðvíkurkirkju er samofin þar sem bændurnir voru einnig kirkjuhaldarar. Síðasti fulltrúi ættarinnar var Jórunn Jónsdóttir (1884-1974). Hún bjó í húsinu Innri-Njarðvík frá upphafi sem var byggt árið 1906 ásamt eiginmanni sínum Helga Ásbjörnssyni (1867-1953) en þau giftust árið 1905.
Húsið og jörðin voru komin í eigu athafnamannsins Eggerts Jónssonar frá Nautabúi í Skagafirði fyrir dauða Helga. Afkomendur Eggerts ákváðu að gefa Njarðvíkurbæ húsið við lát Jórunnar og erfingjar hennar gáfu innbúið.

Njarðvík

Minnismerki um Jón Thorkellius í Innri-Njarðvík.

Merkir og þjóðkunnir menn eru af Innri-Njarðvíkur ættinni, nefna má, Jón Þorkelsson Thorkillius (1697-1759) kallaður faðir barnafræðslunnar á Íslandi og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), hann var fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík.
Ari Jónsson lét byggja kirkjuna upp að nýju árið 1827, var það fyrsta altimbraða kirkjan.
Árið 1811 verður Njarðvíkurkirkja annexía frá Kálfatjarnarkirkju en áður hafði henni verið þjónað frá Hvalsnesi í um eina öld. 1815 var það staðfest með lögum að Njarðvíkurkirkja skyldi vera lögð til Útskála, en kirkjan var þó þjónað frá Kálfatjörn.
Ásbjörn Ólafsson hafði forgöngu um að byggja nýja timburkirkju um 1859.
Árið 1884 var ljóst að sú kirkja þarfnaðist verulegra viðgerða, í kjölfarið var ákveðið að byggja steinkirkju.

Njarðvík

Njarðvík – Áki Grenz.

Magnús Magnússon kallaður múrari átti heima í Miðhúsum í Garði, hafði lært steinsmíði við gerð Alþingishússins árið 1880-1881, hann var sjómaður, fórst 1887, 45 ára gamall, Ekki er vitað hverjir trésmiðir voru en máli var Árni Pálsson, faðir Ástu málara.
Grjótið var sótt í heiðina fyrir ofan byggðalagið og niður í Kirkjuvík, var dregið á sleðum þegar klaki og snjór voru.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Árið 1917 var Innri Njarðvíkurkirkja lögð niður, en sóknin lögð til Keflavíkur. Árið 1943 vannst loks sú barátta að endurvekja kirkjuna og var þegar hafist handa, var farið í miklar viðgerðir, til dæmis var nýr turn settur á kirkjuna samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar. Búnir voru til nýir gluggar, þeir steyptir o.fl
Kirkjan var endurvígð 24. september 1944 eftir miklar viðgerðir. Kirkjan fór í gegnum annað viðgerðartímabil sitt á árunum 1980-1990 undir umsjón Harðar Ágústssonar og Leifs Blumenstein.

Njarðvík

Stapakot, uppgert kotbýli frá fyrri tíð í Njarðvíkum og nútíma Víkingasafnið að baki.

Kirkjan er friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Kaldakvísl

Undir Helgafelli í Mosfellshreppi voru stórir herkampar, s.s. Camp Treffert og Camp Helgafell. Þar var og Helgafellsspítali (Sacred Hill Hospital). Í dag (2023) er fátt um minjar er gefið gætu til kynna sögu mannvirkjanna, sem þarna voru reistar. Þó má enn sjá þar steypta vatnsgeyma, grunn varðskýlis ofan við gömlu Köldukvíslsbrúna, sem byggð var 1912 og sorpbrennsluofn. Undir ofanverðum bökkum Köldukvíslar að sunnanverðu má enn berja augum leifar herbúðanna, sem af einhverri ástæðu hefur skipulega verið ýtt fram af brúnunum.

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal við vatnstanka sem reistir voru fyrir kalt og heitt vatn í hlíðum Helgafells í Mosfellsdal ofan við stærsta spítalann á hernámsárunum.

Í Læknablaðinu 2013 er umfjöllun Friðþórs Eydals um herspítalana á stríðsárunum undir fyrirsögninni „Merkileg saga herspítalanna á Íslandi„.

„Þetta er efni sem hafði safnast upp hjá mér og ég fann ekki stað í þeim bókum og ritgerðum sem ég hef skrifað um hersetuna og dvöl varnarliðsins á Íslandi,“ segir Friðþór Eydal sem um árabil var upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hefur rannsakað hersetuna flestum öðrum betur.

Í óbirtri ritgerð sem Friðþór hefur tekið saman og nefnist Herspítalar Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld rekur hann umfang þessarar starfsemi sem flestum núlifandi Íslendingum er með öllu ókunn og kemur eflaust mörgum á óvart hversu stór hún var í sniðum. Það átti sér skýrar ástæður sem Friðþór gerir glögga grein fyrir.

Helgafellsspítali

Vatnsstankarnir ofan við Kampana milli Helgafells og Köldukvíslar.

„Heilsufar hermanna er mikilvægur þáttur í skipulagi og viðbúnaði herliðs svo baráttuþrek og tiltækur liðsafli sé ávallt í hámarki. Heilbrigðisþjónusta hersins líkist því sem almennt tíðkast en þó með tveimur mikilvægum undantekningum þar sem ekki er gert ráð fyrir þjónustu við börn og aldraða en bráðaþjónusta, skyndihjálp flutningar og umönnun sjúkra og særðra af völdum styrjalda og farsótta er mikilvægur hluti starfsins,“ segir Friðþór.

Helgafell

Herkampar milli Köldukvíslar og Helgafells. Sá má gömlu brúna yfir Köldukvísl frá árinu 1912, en áður var þar vað á ánni. Bretar settu upp herspíatla í Stúdentagarðinum við Háskóla Íslands (Gamla-Garði) sumarið 1940 og einnig í gamla Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi sem var lítið notur um þær mundir. Jafnframt hófu þeir byggingu stórs braggahverfis á Ásum við rætur Helgafells fyrir spítalasveitina svo skila mætti stúdentum Gamla-Garði. Framkvæmdir hófust haustið 1940 og nefndust búrðirnar Helgafell Hospital. Samþykkti bæjarráð Reykjavíkur, sem hafði forgangsrétt á heitu vatni frá Reykjum, að selja Bretum vatn til þess að hita upp spítalann. Bygging spítalans reyndist tafsöm vegna tíðarfars og skorts á aðföngum en 711. byggingarsveit breska hersins (711 General Construction Company, Royal Engeneers), sem hafði verið með höndum, vann jafnframt að nokkrum öðrum umfangsmiklum verkefnum og hafði aðsetur í spítalabröggunum á framkvæmdatímanum.
Helgafellspítali á Ásum við Þingvallaveg var nær fullbyggður sumarið 1942. Neðst á myndinni t.v. sést heitavatnslögnin frá Reykjum og vatnsgeymar fyrir heitt og kalt vatn oafn við spítalabúrinar. Vesturlandsvegur lá í kröppum sveig niður að gömlu brúnni á Köldukvísl og skapaði verulega slysahættu í hálku. Neðar við ána til vinstri sér hvar hafin er smíði nýrrar brúar sem bætti umferðaröryggi um Vesturlandsveg til muna.
Skálunum var upphaflega ætlað að standa á víð og dreif til öryggis gegn loftárásum en frá því var horfið í hagræðingarskyni og flestar byggingarnar tengdar saman með göngum sem vatns- og raflagnir lágu einnig um. Eftir að spítalinn var fjarlægður var svæðið nýtt sem malarnáma en vatnsgeymar standa enn sunnan við veginn. – F. Eydal

Camp Traffert

 Mynd þessi er merkt bandarískum landgönguliða að nafni Taffert sem tók hana á sínum tíma ásamt fleirum frá Camp Whitehorse sem var við svonefnda Ullarnesbrekku vestan við Helgafell. – F. Eydal

„Herflokkar hafa sérþjálfaða sjúkraliða sem veita bráðaþjónustu á vettvangi, hjúkrunarsveitir annast flutning særðra og reka sjúkraskýli skammt að baki víglínunnar. Sérþjálfað læknalið annast greiningu og skyndiaðgerðir til undirbúnings fyrir flutning á stærri sjúkraskýli eða spítala. Á erlendri grund er tekið tillit til fjarlægða og annarra aðstæðna í skipulagi spítalaþjónustu ásamt flutningi illa særðra eða sjúkra til heimalandsins.“

Helgafell

Braggagrunnur ofan gömlu brúarinnar yfir Köldukvísl, sennilega varðskýli.

Allt þetta þarf að hafa í huga þegar skoðað er hversu hratt breski herinn og síðar sá bandaríski komu upp fullkominni spítalaþjónustu við herlið sitt hér á landi og hversu hratt öll ummerki um þessa miklu starfsemi hurfu í stríðslok. Hreyfanleiki er lykilorðið enda er gert ráð fyrir því að víglínur færist til og þjónustan sé þétt að baki hinnar stríðandi fylkingar.

Helgafell

Minjar ofan Köldukvíslarbrúar, sennilega sorpbrennsuofn.

Friðþór kveðst hafa rannsakað talsvert skjalasöfn breska hersins og þess bandaríska í leit sinni að gögnum um herspítalana á Íslandi. „Ég hef fyrst og fremst leitast við að skilgreina kerfið sem unnið var eftir fremur en leita uppi sögur af einstaklingum. Hernaður bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni var af stærðargráðu sem heimsbyggðin hafði aldrei kynnst áður og hernámið á Íslandi var hluti af því.“

Herliðið nam tæpum helmingi þjóðarinnar

Helgafell

Leifar kampanna milli Helgafells og Köldukvíslar undir bökkum.

Breski herinn steig hér á land þann 10. maí 1940 og tilgangurinn var að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi. „Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en með samningi Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna tók bandarískt herlið við vörnum landsins og leysti breska hernámsliðið af hólmi. Hernámi Breta lauk því formlega 22. apríl 1942 og meginliðstyrkur breska hersins hélt af landi brott en breski flotinn og flugherinn störfuðu áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.“

Helgafell

Leifar kampanna milli Köldukvíslar og Helgafells undir bökkum.

Herafli bandamanna í landinu var alls nærri 50.000 þegar mest var sumarið 1943 og hafði um 80% liðsins aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn voru aðeins 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000. „Þegar komið var fram á sumarið 1943 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja í Ísland og var stór hluti herliðsins þá fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu.“

Friðþór segir að hernaðaryfirvöld hafi í áætlunum sínum gert ráð fyrir að þurfa fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir allan þennan fjölda hermanna, enda Ísland afskekkt og spítalar ekki fyrir hendi nema fyrir landsmenn sjálfa. „Bandaríkjaher gerði ráð fyrir að forföll vegna veikinda, slysa og hernaðar gætu numið 5% af heraflanum á hverjum tíma og hagaði heilbrigðisþjónustunni í samræmi við það. Viðmið breska hersins voru helmingi lægri, eða 2,5% en þó var þörfin fyrir sjúkrarými strax í upphafi mjög mikil, því á fyrstu vikum hernámsins komu hingað um 17 þúsund hermenn.“

Kaldakvísl

Brúin yfir Köldukvísl – byggð 1912, á tímum hestvagnatímabilsins.

Bretar þurftu að hafa snör handtök sumarið 1940 svo herlið þeirra gæti tekist á við íslenska veturinn. Tóku þeir ýmsar byggingar í Reykjavík á leigu, meðal annarra Menntaskólann í Reykjavík, Gamla-Garð og Laugarnesspítalann og komu upp sjúkraaðstöðu í þessum byggingum. Friðþór birtir í ritgerð sinni fróðleg bréfaskipti breska sendiherrans, Howards Smith, við yfirboðara sína í London þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi góðra samskipta við íslensk yfirvöld svo ekki verði trúnaðarbrestur milli hersins og landsmanna. „Howard sagði málið sérlega viðkvæmt vegna þess að herinn hafði víða fengið inni í skólum um sumarið og ekki kæmi annað til greina en að skila því húsnæði að hausti eins og lofað hefði verið.“

Helgafell

Braggar í Camp Helgafell.

Friðþór segir það lífseigan misskilning varðandi hernámið að Bretar og síðar Bandaríkjamenn hafi farið fram með nokkrum yfirgangi og tekið það sem þeim sýndist til sinna afnota. „Staðreyndin er sú að Bretarnir leigðu allt húsnæði og lóðir sem þeir notuðu í upphafi hernámsins á markaðsverði og gerðu formlega samninga í flestum tilfellum. Verðbólgan sem varð í kjölfar hernámsins var engu lík og peningar streymdu frá hernum til landsmanna. Fólk flykktist af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og eftirspurn eftir húsnæði margfaldaðist og leiguverð hækkaði. Það hafði ekki áhrif á leigusamningana sem Bretar höfðu gert og því fengu þeir það orð á sig að vera nískir og borga miklu minna en aðrir. Þetta var auðvitað ómaklegt.“

Herspítalar um allt land

Helgafell

George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Herspítalarnir risu hratt og víða um land. Samgöngur á landi á þessum tíma voru lélegar svo ekki sé meira sagt, svo herdeildirnar sem sendar voru út á land urðu að vera sjálfum sér nægar um flesta hluti. Því risu spítalar utan Reykjavíkursvæðisins að Reykjum í Hrútafirði, að Hrafnagili í Eyjafirði og á Reyðarfirði og Seyðisfirði. Á Suðurlandi var reistur spítali í Kaldaðarnesi við flugvöllinn sem Bretar byggðu þar og einnig voru settir upp spítalar á Suðurnesjum, þeirra stærstur við Vogastapa.

Stærstu spítalarnir voru eftir sem áður í Reykjavík og nágrenni og reis mikið spítalahverfi í mynni Mosfellsdals við rætur Helgafells, svo og handan við fellið í landi Álafoss þar sem nú er Reykjalundur. Í Reykjavík voru sem áður sagði þrír spítalar. Þegar mest var voru á vegum herliðsins sjúkrarúm fyrir allt að 3000 hermenn en þessi viðbúnaður reyndist að miklu leyti óþarfur þar sem aldrei kom til innrásar Þjóðverja í Ísland og því varð ekkert úr þeim hernaðarátökum í landinu sem spítalarnir voru undirbúnir fyrir.

Camp Casman

Læknar 92. spítalasveitarinnar gera aðgerð á hermanni í sjúkraskýlinu í Camp Cashman í Ytri-Njarðvík sumarið 1943.

„Bandaríkjamenn gerðu mjög metnaðarfulla áætlun um byggingu herspítala í landinu til að mæta stóráföllum af völdum farsótta og hernaðar. Þegar flest var árið 1942 voru 3277 bandarískir heilbrigðisstarfsmenn á landinu, þar af 234 læknar, 49 tannlæknar, 8 dýralæknar og heilbrigðisfulltrúar og 258 hjúkrunarkonur. Strax í árslok 1943 hafði þeim fækkað í 1163 og í stríðslok voru heilbrigðisstarfsmenn hersins 429.“

Helgafellsspítali var mjög stór á hvaða mælikvarða sem er og varð eins konar landspítali bandaríska herliðsins. Þar voru 1000 legurúm og starfsfólkið var 660 þegar flest var. Hverfið samanstóð af tugum stórra bragga, þar sem voru leguskálar, skurðstofur, heilsugæsla, tannlæknar, íbúðir starfsfólksins og birgðastöðvar. Í dag sjást engin ummerki um spítalann önnur en rústir vatnstanka á hæðinni fyrir ofan spítalasvæðið. Allt á það sér sögulegar skýringar en í stríðslok gerðu íslensk yfirvöld áætlun um að afmá sem flest ummerki hernámsins og lét smám saman fjarlægja alla bragga sem herliðið skildi eftir.

Helgafellsspítali

Sjúkrastofa Helgafellspítala.

„Hér á landi voru reistir um 12.000 braggar fyrir herliðið til íbúðar og umsvifa. Veruleg fækkun varð í herliðinu sumarið 1943 og stóðu þá mörg braggahverfi eftir auð en herinn hafði enga þörf fyrir þau eða tök á að rífa þau nema með miklum tilkostnaði. Samdist svo um að íslenska ríkið keypti vægu verði alla bragga og önnur mannvirki utan Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar og endurseldi landsmönnum til þess að standa straum af kostnaði við umsamdan frágang á landi sem herliðið hafði haft á leigu. Fjölmargir braggar dreifðust þannig víða um land, meðal annars til bænda sem nýttu þá sem útihús og áhaldageymslur sem víða eru enn í fullri notkun. En fyrir vikið standa eiginlega engin upprunaleg braggahverfi eftir sem sögulegar minjar nema hluti hverfisins á Miðsandi í Hvalfirði. Segja má að nánast einu stríðsminjarnar sem eftir standa hafi dagað uppi fyrir trassaskap landeigenda sem fengu greiðslu fyrir að laga sjálfir til eftir herinn.“

Helgafell

Camp Helgafell.

Þörfin fyrir sjúkrarýmin reyndist minni en áætlað var enda var heilsufar hermanna á Íslandi betra en hernaðaryfirvöld höfðu gert ráð fyrir. „Engir teljandi sóttfaraldrar komu hér upp á stríðsárunum eins og búast mátti við. Slys voru þó alltíð enda umsvif hersins mikil, aðstæður framandi og náttúruöflin óblíð og skammdegið mikið. Mikil umferð ökutækja á lélegum vegum leiddi til tíðra umferðarslysa. Fátítt var að hermenn særðust í orustu en mikill fjöldi skipbrotsmanna var settur á land í Reykjavík. Voru margir illa á sig komnir af meiðslum og hrakningum og fengu aðhlynningu á spítölum hersins.

Kynsjúkdómar fátíðir

Helgafell

Söng- og leikkonan Marlene Dietrich að spjalla við sjúkling á Helgafellsspítala í september 1944. Hún heimsótti herafla Bandaríkjamanna, hitti íslensku ríkisstjórnina og hélt tónleika.

Kynsjúkdómar þóttu sérlega fátíðir meðal hermannanna hér á landi og var það talið því að þakka að skipulagt vændi þekktist ekki í landinu og að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu mun yfirgripsmeiri heimildir til að hefta útbreiðslu slíkra sjúkdóma en gerðist í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Geðheilsa er einn þeirra þátta sem gefa verður ríkan gaum þegar milljónir manna eru skyndilega kvaddir til herþjónustu og stífrar herþjálfunar við framandi aðstæður og langdvalar langt frá sínum nánustu. „Herliðið á Íslandi fór ekki varhluta af geðrænum kvillum en þó var það ekki algengara en annars staðar þrátt fyrir einangrun, skammdegi og leiða sem fylgdi einhæfum lifnaðarháttum. Herstjórnin lagði mikla áherslu á að halda hermönnunum að venjubundnum störfum, stífum æfingum og íþróttaiðkan og skipulagði fjölbreytta afþreyingu til að halda uppi baráttuþreki hinna ungu hermanna.“

Gamli-Garður

Herspítali við Gamla-Garð í Reykjavík.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld nutu að mörgu leyti góðs af hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem herliðið starfrækti. Ágæt samvinna var á milli þessara aðila um sóttvarnir og heilbrigðiseftirlit enda lagði herstjórnin mikla áherslu á slíkt í öllum viðskiptum við innlenda aðila. „Dýralæknar hersins leiðbeindu um eftirlit með matvælaframleiðslu enda keypti herliðið kjöt og mjólk af landsmönnum og var náið samstarf um eftirlit og lækningar búfjársjúkdóma en berklar voru til dæmis nokkuð útbreiddir í íslenskum nautgripum.“

Helgafell

Braggi ofan Köldukvíslar. Sennilega sami bragginn og grunnurinn hér að ofan.

Margir þeirra lækna sem fylgdu hernum voru í hópi færustu sérfræðinga hver á sínu sviði og var eflaust talsverður fengur að komu þeirra hingað til lands fyrir íslenska læknastétt sem einangraðist að miklu leyti frá umheiminum á stríðsárunum. „Margir landsmenn nutu sérfræðiþjónustu breskra og bandarískra lækna og hjúkrunarliðs þó þjónustan hafi fyrst og fremst verið ætluð herliðinu. Nokkur dæmi voru einnig um að hermenn hlytu umönnun íslenskra lækna og að Íslendingar fengju meðferð á herspítölum sem höfðu ýmsar tækninýjungar og nýjustu læknislyf sem landsmenn höfðu ekki, eins og undralyfið pensillín sem þá var einungis notað af hernum. Það væri vissulega fróðlegt að rannsaka þá sögu betur og þá hvaða áhrif spítalarekstur breska og bandaríska hersins á stríðsárunum hefur hugsanlega haft á þróun íslenskrar læknisfræði,“ segir Friðþór Eydal að lokum.

Heimild:
-https://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/03/nr/4797
-Læknablaðið, 03. tbl. 99. árg 2013.
-Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940–1944, Friðþór Eydal 2022.

Helgafell

Úr „Sacred Hill Hospital“ sem var Helgafellsspítali.

Staðarberg

Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun austan við Staðarhverfi í Grindavík.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli. Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega undan Staðarberginu sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu. Þegar hún var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var heil fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 75. hlaðna refagildran, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi. Nýlega fannst gömul refagildra austan við Ísólfsskála. Fyrir nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til að Nesinu. Í dag eru u.þ.b. 90 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum.
Fyrir skömmu var skoðuð önnur hlaðin refagildra í Básum ofan við Staðarberg (sjá að neðan). Án efa kunna fleiri hlaðnar refagildrur að leynast þarna í hraununum.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Refagildra

Refagildra í Básum.

Þórusel

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ árið 2011 er getið um Steinsholt, kot milli Vogastapa og Voga. Kot þetta var ekki langlíft, einungis í ábúð um fimm ára skeið. Eftirstandandi minjarnar segja þó sögu:

Steinsholt

Steinsholt.

„Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll“, segir í örnefnaskrá (AG).
„Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.“ segir í örnefnaskrá (GS). Steinsholt var byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæðinu. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa.

Steinsholt

Steinsholt – bæjarstæðið.

Getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannlíf og mannvirki í hreppnum„. Þar segir: „Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879.“

Steinsholt

Steinsholt – útihús.

Á þessum stað eru 6 tóftir; torf- og grjóthlaðið gerði, tóft í SV horni gerðisins, tóft fast NNA við NNA-enda gerðisins, tóft um 45 m SA, tóft fast SV við Gamla-Keflavíkurveg (samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur var þarna íbúðarhúsið í Steinsholti) og tóft vestan í Steinsholti og var hún smiðjan í Steinsholti samkvæmt „Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“.

Steinsholt

Steinsholt – smiðja.

Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, skrifuð af Guðmundi Björgvin Jónssyni og útgefin 1987 segir:
„Guðmundur Magnússon koparsmiður, f: um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Guðmundur var frá Reynivöllum í KJósarsýslu og bjó um 1856 í Garðhúsum í Vogum er var í eigu Stóru-Voga. Hann hafði í fyrstu ráðskonu er hann svo kvæntist. Árið 1958 voru þau húshjón í Stóru-Vogum og árið 1859 voru þau komin í Hólmabúðir. Árið 1870 fóru þau aftur að Stóru-Vogum uns þau fluttu að Steinsholti 1874. Enn má sjá þar klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði sem eldsmiðju.

Steinsholt

Steinsholt – matjurtargarður.

Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin sögð bláfátæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak upp í fjöru án manntjóns. Skipið var Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði. Hét skip þetta Fjallkonan. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi.

Þórusel

Þórusel.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ 2011 er getið um „Vogasel“ millum Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautar, heldur þó nær brautinni. Ekki er getið hver heimild um „Vogasel“ er á þessum stað. Vogasel; Gömlu-Vogasel og Nýju-Vogasel, eru hins vegar uppi í Vogaheiði, sunnan Brunnastaðasels. Hins vegar er í heimildum getið um „Þórusel“ þar sem „Vogasel“ er sagt vera.

Þórusel

Þórusel.

Lýsing á Þóruseli, sem var heimasel þar sem einu mannvirkin voru stekkur og hlaðið skjól, passar við lýsinguna: „Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá.
Í heimaseli hélt smali fé sínu til haga, en selsmatsseljan kom í selið að morgni og fór heim að kveldi, enda skamma leið að fara. Svæðið í kringum Þórusel er vel grasi gróið, sem bendir til selstöðu. Stekkurinn gefur til kynna að í selinu hafi verið u.þ.b. 20 ær. Slík fjölg hefur þótt góð í seli fyrrum. Ofan við stekkinn er hlaðið skjól, líklega smalaskjól.
Þórusel er að öllum líkindum heimanfærð selstaða eftir að aldagamlar selstöður í heiðinni lögðust af um 1870. Að þeim gegnum færðust fráfærur nær bæjum vegna mannfæðar og breyttra búskaparhátta. Yngstu minjar selsbúskapsins má finna í stekkjum heimatúnanna, jafnan í jaðri túngarðsins.

Þórusel

Þórusel – uppdráttur.

Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun. Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.“

Þórusel

Þórusel.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi„, útg. 2007 segir m.a. um Þórusel:
„Heimildir úr Brunnastaðahverfi segja Þórusel vera á sléttlendinu suður og upp af Gíslaborg og innan við Vogaafleggjarann en ólíklegt hefur verið sel þar. Heimildir frá Vogamönnum segja Þórusel hafa verið ofan við Reykjanesbraut en eðan Hrafnagjár og þær verða látnar gilda hér þó svo að einnig sé ósennilegt að þar hafi verið selstaða“.

Vogasel

Nýju-Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars staðar segir: „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæðið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan við Vigaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er ur Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð“.

Vogasel

Vogasel eldri.

Í bók Sesselju segir um Vogasel: „Utan í Vogaholti að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel.
Þar sjáum við þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli“.
Í „Strönd og Vogar segir Árni Óla um „selstöður í heiðinni“: „Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera“.
Seltóftir „Nýja-Vogasels“ hafa enn ekki verið skráðar – sjá Ferlir.is; – Nýjasel – Pétursborg – Oddshellir – Vogasel – Ferlir

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Ari Gíslason.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961.

Vogasel

Vogasel yngri.

Zeppilin yfir Reykjavík 17. júli 1930.

Þýska loftfarið Zepperlin kom nokkrum sinum við ofan Reykjavíkur á ferðum sínum milli Evrópu og Ameríku á fjórða áratug 20. aldar.
Fimmtudaginn 17. júlí 1930 um klukkan 11:00 horfðu Reykvíkingar t.d. undrandi upp til himins þegar hið glæsilega þýska loftskip Graf Zeppelin sigldi í átt að borginni.

Zeppilin

Zeppilin yfir nýbyggðum Landsspítalnuum.

Hægt og tignarlega nálgaðist það, grár líkami hans ljómaði í sólarljósinu. Það flaug mjög hægt yfir borgina í hringlaga mynstri og fegurð hennar heillaði alla sem urðu vitni að þessari miklu sjón. Þetta var sannarlega ógleymanlegt atriði þar sem Ísland hefur aldrei fengið betri fluggest. (Fálkinn, ágúst 1930)
Við lestur þessa texta í dag er eins og litla þorpið Reykjavík hafi fengið heimsókn frá geimskipi. Árið 1930 var Ísland enn mjög afskekkt og óljóst eyríki sem barðist við að halda í við nútímavæðinguna í Norður-Evrópu. Svartsýni var að aukast þar sem viðkvæmt hagkerfi Íslands hafði orðið fyrir alvarlegum áhrifum af upphafi kreppunnar miklu árið áður. Flugvélar voru sjaldgæf sjón, svo það hlýtur að hafa verið „sannlega ógleymanlegt atriði“ þegar þetta glæsilega þýska loftskip birtist fyrir ofan Reykjavík í júlí 1930.

Zeppilin

Zeppilin í Reykjavík 30. júlí 1930.

Zeppelinar sigldu um heiminn til að sýna og prófa loftskipin. Zeppelin-fjölskyldan flutti farþega og póst í flugi yfir Atlantshafið á þriðja áratugnum fyrir Hindenburg-slysið 1937 og önnur pólitísk og efnahagsleg álitamál, sem flýttu fyrir því að loftskipin féllu. Ísland var heimsótt a.m.k. í annað sinn árið 1931.

Forsætisráðherra Íslands sendi skipstjóra Zeppelin símskeyti í kjölfar heimsóknar hans 1930:
„Kommadant, Graf Zeppelin.

Zepperlin

Þróun Zepperin loftfaranna.

Í nafni íslensku þjóðarinnar býð ég þig, herra Kommandant, velkominn til Íslands. Ég bið ykkur að senda ríkisstjórn Þýskalands okkar innilegustu þakkir fyrir þann velvilja sem þeir hafa sýnt okkur með því að senda Graf Zeppelin til Íslands og bera því kveðjur Þýskalands á 1000 ára afmæli Íslands.

Hinar minnstu þýsku þjóða tekur náðarsamlega við þessari kveðju þeirrar stærstu. Heppnin fylgir þér, herra Kommandant, á ferð þinni til Íslands og heimferð til Þýskalands. Sendum bróðurkveðjur okkar frá Íslandi til Þýskalands“.

Yfirmaður Zeppelin var Ernst Lehmann. Hann lést daginn eftir að Graf Zeppelin hrapaði, af sárum.

Um klukkan 19:25 að staðartíma í New Jersey 6. maí 1937 kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.

Zeppilin

Zeppilin yfir New York 1933.

Um var að ræða LZ 129 Hindenburg (Luftschiff Zeppelin #129; Skráning: D-LZ 129), sem var þýskt loftskip sem flutti farþega í atvinnuskyni, aðalskip af Hindenburg flokki, lengsta flokki flugvéla og stærsta loftskip miðað við rúmmál. Það var hannað og smíðað af Zeppelin Company (Luftschiffbau Zeppelin GmbH) og var rekið af þýska Zeppelin flugfélaginu (Deutsche Zeppelin-Reederei). Það var nefnt í höfuðið á Paul von Hindenburg fieldmarshal, sem var forseti Þýskalands frá 1925 til dauðadags 1934. Það kviknaði í því og eyðilagðist þegar reynt var að leggja að bryggju við viðlegustöng sína á flotaflugstöðinni í Lakehurst. Slysið olli 35 bana (13 farþegum og 22 áhafnarmönnum) af 97 manns um borð (36 farþegar og 61 áhöfn) og til viðbótar banaslysi á jörðu niðri.

Hamfarirnar voru umfjöllunarefni fréttamynda, ljósmynda og hljóðritaðra sjónarvotta. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram bæði um orsök íkveikju fyrir eldsvoðann sem fylgdi í kjölfarið. Umfjöllunin braut traust almennings á risastóru, farþegaflutningastífu loftskipinu og markaði skyndilega endalok loftskipatímabilsins.

Zeppilin

Um klukkan 19:25. að staðartíma kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst, New Jersey, 6. maí 1937. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.

Heimild m.a.:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Hindenburg_disaster

Bergsstaðir

Bergskot, einnig nefnt Auðnakot, á Vatnsleysuströnd getur í dag varla talist minnugt mörgum. Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ árið 2011 er m.a. fjallað um kotið.

Bergskot

Bergskot – túnakort 1919.

„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergsstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu.

Bergskot

Bergskot – tóttir. Bergsstaðir fjær.

Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergsstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést á hólnum (Bergkotshól). Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Bergskot

Bergkotsbrunnur.

Bergkotsbrunnur var austan við bæinn. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,“ segir í örnefnaskrá.

„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar. … Túnið fyrir sunnan bæinn var nefnt Suðurtún. Það nær að Höfðatúni. Grjótgarðar skýldu túninu að, en grjótgarðslögin sjást enn að mestu leyti og skilja túnið frá óræktuðum móum og klöppum,“ segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn sést enn á stuttum kafla.

Bergskot

Bergskot.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Auðnahverfi. Þar segir m.a.: „Innströnd byrjar við syðri landamerki Breiðagerðis. Auðnahverfi liggur þar innar. Þar eru bæirnir Auðnir, Höfði og Bergskot sem fyrrum nefndist Auðnakot og svo er eitt tómthús, Hóll.
Vestast í fjörunni er Bergskotsvör eða Bergskotslending. Milli fjöru og túna Auðnahverfis er Auðnakampur og þar á er sjávargarðurinn. Liggur hann allt inn að mörkum milli Auðnahverfis og Landakots. Við Bláklett taka við Bergskotsfjörur og þá taka við Höfðafjörur og þar er Höfðavör.
Bergskot stóð á Bergskotshól í Bergskotstúni en neðan hólsins.

Bergskot

Bergskot – útihús.

Ari Gíslason skráði örnefni fyrir Auðnar og Höfða. Þar segir: „Upp af Höfðatúni er gamalt býli sem heitir Bergskot og upp af því er Bergskotshóll með steinum eftir endilöngu og grasigrónum sprungum. Efri-Sundvarðan hefur verið nefnd fyrr og stendur hún á Þúfuhól sem er skammt austan tómthúsið Hól. Þá er talið að allt sé búið fyrir neðan veg.

Í ritinu „Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd“ frá árinu 1987 segir Guðmundur Björgvin Jónsson m.a. eftirfarandi um Bergskot: „Bergskot var einnig nefnt Borghús. Um 1900 voru í Bergskoti Árni Sæmundsson, f. 1862 og kona hans, Sigrún Ólafsdóttir, f. 1872.

Jón Guðbrandsson

Jón Guðbrandsson.

Árið 1902 flutti fjölskyldan burt úr hreppnum til Reykjavíkur en þá komu að Bergskoti Árni Þorláksson og kona hans, Helga.
Bergskot var í upphafi tómthús og áttu búendur þar ekki annarra kosta völ en að vinna hjá öðrum fyrir öllum nausynjum og var því oft stuttur stans á þessum kotum, enda var Árni Þorláksson ekki lengi í Bergskoti.
Næst komu í Bergskot Þórarinn Einarsson, 24 ára, með foreldra sína, Einar Einarsson og konu hans, Margréti Hjartardóttur. Þórarinn giftist Guðrúnu Þorvaldsdóttur frá Álftártungukoti í Álftaneshreppi. Þau voru þar til 1925. Þá voru þau búin að eignast jörðina sem þá var orðin grasbýli. Þegar Þórarinn keypti Höfða þá sameinuðust jarðirnar og er svo enn.
Þegar Jón Guðbrandsson, tengdasonur Þórarins, byggði upp Bergskot og kallaði nýja húsið Bergsstaði, þá fylgdi gamla Bergkotsjörðin ekki með“. sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Bergskot

Bergskot – túnakortið frá 1919 lagt ofan á loftmynd frá 2022.

Breiðagerði

Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17, bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.

Breiðagerði

Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.

Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.

Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir hann m.a. frá Breiðagerði: „Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.“
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.

Breiðagerði

Brunnurinn í Breiðagerði.

Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
„Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppfært túnakort.

Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,“ segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakortið frá 1919 sett ofan á nútíma loftmynd ásamt skráðum fornleifum.

Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.“

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:

Breiðagerði

Breiðagerði – útihús.

„Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.“

Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:

Breiðagerði

Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.

„Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.“

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Í skýrslu um „Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd“ árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.

Breiðagerði

Breiðagerðisvör.

Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.

Breiðagerði

Breiðagerði 2022 – loftmynd.

Í „Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
„Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti „þarfanaut“ og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að „reka á eftir“ og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.

Breiðagerði

Breiðagerði – sundvarðan Neðri.

Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.“

A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.

Breiðagerði

Breiðagerði – Sundvarðan Efri.

„Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,“ segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem „garður“!?