Krýsuvík

“Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600. Síðar varð þarna útkirkja frá Strönd í Selvogi, og seinast útkirkja frá Stað í Grindavík þangað til hún var lögð niður fyrir 12 árum. Stendur þó húsið enn.
Gamalt íslenskt orðtak segir: “Honum líður eins og andskotanum í Krýsuvík”. Er þá átt við að einhver lifi eins og blóm í eggi. En varla geta það nú talist nein meðmæli með Krýsuvík, að andskotanum líði þar sérstaklega vel. Og bágt á maður með að trúa því, að þar sé vistarvera hans, þegar maður kemur þar um sólríkan sumardag.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Manni finnst miklu fremur að þarna hljóti að vera góðra vætta vé, því að það er ótrúlega mikil viðbrigði að koma í þenna fagra gróðurreit utan úr hinni ömulegu auðn, sem er allt um kring. En málshátturinn mun eiga rót sína að rekja til þess, að þarna eru margir bullandi brennisteinshverir og sumir ægilegir. Og í meðvitund fyrri kynslóða var náið samband milli brennisteinshvera og Vítis.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði og eru nú 6 ár síðan.

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

En þó hefur ekki verið mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn hefur hann aldrei gefist upp, heldur þraukað þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður heitir Magnús Ólafsson, og er nú 67 ára að aldri.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

-Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið, segir hann, en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var hann ánægður.
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sér ekki á Magnúsi að hann hafi gugnað neitt við einveruna. Hann er ern og teinréttur eins og herforingi.

Ég gerði mér ferð suður í Krýsuvík í sumar til þess að sjá þenna einkennilega mann. Kom ég þar um kvöld. Þá var besta veður, logn og hlýtt, og kvöldsólargeislarnir léku fagurlega um Arnarfell og grónar grundir. En á Krýsuvíkina og kirkjuna varpaði Bæjarfellið svörtum skugga. Það er ekki jafn langur sólargangur þar, eins og annars staðar í þessari fjallakvos.
Magnús bauð mér inn til sín. Hann var nú ekki einn, heldur voru hjá honum fjórir dvalargestir, hjón með tvö börn. Þrengslin voru mikil, en þar sem hjartarrúm er, þar er líka húsrúm.

Krýsuvík

Fjárskjólið í Bæjarfelli.

-Það hefur nú stundum verið þrengra hjá mér en þetta, sagði Magnús. Einu sinni í vetur gistu hjá mér 20 Grindvíkingar. Þá var þröngt. Það komust ekki allir fyrir á gólfinu og urðu sumir að sofa fyrir framan.
Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt um 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Ég komst að því, að hann er kvæntur og á fjögur upp komin börn. Hann sendi fjölskylduna til Hafnarfjarðar fyrir nokkrum árum, til þess að börnin gæti gengið í skóla. Og svo ílengdist fjölskyldan þar, og hefur ekki komið til hans aftur. Hann gerði eina tilraun til þess að yfirgefa Krýsuvík og setjast að hjá konu og börnum í Hafnarfirði. En hann hélst þar ekki við nema einn vetur. Þá fór hann aftur suður í Krýsuvík. Ég spurði hann hvernig á því hefði staðið.

-Það var stopul vinna í Hafnarfirði, og ég hafði meiri löngun til þess að huga um kindur en snapa eftir vinnu þar.

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól.

Þetta er sjálfsagt alveg satt, en ég hygg þó að fyrst og fremst hafi það verið fjallabyggðin, sem seiddi hann til sín. Maður getur orðið ótrúlega fast bundinn sínum heimahögum. Úr fjarlægð halda þeir í mann og seiða mann til sín með einhverjum töframætti. Og ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið óyndi, sem flæmdi Magnús burtu úr Hafnarfirði. Sumir geta hvergi yndi sitt fest nema á einum vissum stað.
Ég reyndi að leiða talið að því við Magnús, hvort honum hefði ekki liðið illa þarna í einverunni.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

-Nei, mér hefur liðið ágætlega. Það er einna verst hvað kalt er í kirkjunni. Hún er svo gisin og gólfgöld. Þó ég kyndi eldavélina í mestu frostum og hún hitni svo, að 20 stig séu uppi við loftið, þá er svo kalt við gólfið að skórnir mínir verða stokkfreðnir undir rúminu. Og svo angrar rottan mig. Það varð einu sinni beinlínis stefnivargur af henni hérna. Nú hefur henni heldur fækkað aftur, en hún grefur sig alltaf inn íkirkjuna. Þó að ég troði í götin á kvöldin sem best ég get, rífur hún það allt úr á nóttunni og er komin inn til mín áður en ég veit af.
En hvernig er með aðdrætti og mat?

-Ég þarf nú ekki á miklu að halda. Mjölvöru hafa Grindvíkingar flutt til mín, en annað sæki ég í Hafnarfjörð. Og matreiðslan veldur mér ekki neinum vandræðum. Ég lifi mestmegnis á trosfiski, ét hann bæði heitan og kaldan svo að segja í öll mál og þykir það dýrindis matur.
Hvað geturðu haft þér til afþreyingar á veturna?
-Ég á nokkrar kindur og það fer drjúgur tími í að hugsa um þær. En þegar ég hef innt gegningar af höndum, þá sest ég við tóvinnu. Ég tæti allan veturinn.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Ekki var hann fús á að segja mér hvað hann ætti margar kindur, en í tveimur fjárhúsum er þær á veturna. Magnús hefur tekið að sér að verja túnið í Krýsuvík fyrir ágangi og fyrir það fær hann að vera þarna og hefur nytjar túnisins á eyðihjáleigunni Suðurkoti og annan heyskap eftir þörfum.

En hvað um einmanaleikann?
-Það koma æði margir hérna til mín og margir hafa gist hjá mér. Þeir hafa ekki tekið til þess hvernig húsakynnin voru og viðtökurnar.

Krýsuvíkurheiði

Krýsuvíkurheiði – smalabyrgi.

Í sumar komu hingað tveir enskir hermenn í bíl alla leið heim í hlað. Þeir komu frá Grindavík og voru að leita að Þjóðverjum. En það var enginn Þjóðverji hér. Englendingarnir voru svangir og báðu um mat. Ég hafði ekki annað til en nokkrar flatbrauskökur, sem ég hafði bakað um morguninn. Og þeir átu þær með góðri lyst. Svo buðu þeir borgun, en ég sagðist ekki selja greiða. Þá sóttu þeir reyktóbaksbauk út í bílinn og gáfu mér.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það leið að kvöldi. Sól var gengin til bak við fjöllin og nöpur gola stóð ofan frá Kleifarvatni. Magnús spurði hvar ég hefði hugsað mér að vera í nótt. Ég hafði nú ekki afráðið neitt um það, hélt að ég gæti fengið að sofa í heyi hjá honum. Nei, það gat ekki komið til mála. Þarna var engin hlaða, heykuml var á bersvæði og ekki hægt að hafast við í því, sagði hann.
-En þér er velkomið að sofa hérna í bælinu mínu.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Og það varð úr, að ég svaf hjá honum um nóttina og leið ágætlega. Tvisvar varð ég var við að hann fór á fætur og út. Heyrði ég hann þá hóa úti fyrir og hundgá mikla. Hann var að stugga kindum burt frá túninu. Það er ónæðisamt að verja ógirt tún, þar sem þúsundir fjár eru allt um kring.
Það er alltaf einhver mannaferð á vetrum milli Selvogs og Grindavíkur. Þetta er löng leið og getur hæglega breyst veður í lofti á skemmri tíma heldur en þarf til að ganga hana. Og þá er gott að geta leitað skjóls í Krýsuvík. Ég minnist þess þó ekki að hafa heyrt minnst opinberlega á þörfina á því. Má vera að það hefði verið gert ef Magnús hefði ekki verið þarna og tekið að sér að skjóta skjólshúsi yfir hvern sem kom, og gera öllum greiða er hann gat bestan í té látið.
Hann á heiður skilið fyrir það og væri launa vert.”

Við þetta má bæta við eftirfarandi frá Lofti Jónssyni í Grindavík, en hann kom ungur í Krýsuvíkurkirkju þegar Magnús bjó þar:

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

“Ég man nú ekki svo vel eftir öllum aðstæðum inni hjá Manga í Krýsuvík (Magnús Gíslason). Hér var hann alltaf kallaður Mangi í Krýsuvík. Þó man ég eftir óumbúnu rúmfleti inn við gafl í suð-austur horninu. Lítið borð var þarna og tveir stólar. Ekki man ég eftir eldavél sem þó hlýtur að hafa verið einhvers staðar. Ég man ekki eftir grátunum sem hljóta að hafa verið uppi, því það hafa verið mikil helgispjöll að fjarlægja þær. Fjöldamörgum árum síðar átti ég leið þarna um í bíl. Kirkjan var þá læst en þegar kíkt var á glugga sást að mýsnar voru búnar að naga neðan af stóllöppunum, misjafnlega mikið, þannig að þeir voru ekki góðir til ásetu.”

-Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Herdísarbærinn er snotur, þótt ekki sé hann stór. Þar er stofa byggð forkunnar vel úr völdum viði að mestu. Er það unninn rekaviður úr fjörunni þar. Tvöföld súð er í baðstofunni og tröð á milli.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúð.

Bærinn stendur á ofurlítilli flöt, rétt á tjarnarbakkanum, og stendur lágt. Hefur það oft hefnt sín, að hann stendur ekki hærra, því að þegar stormaflóð koma af hafi, gengur sjór yfir malarkambinn, inn í tjörnina og fyllir hana svo, að hún flóir yfir alla bakka og inn í bæ. Stórfenglegasta flóðið kom veturinn 1925. Þá gerði storm af hafi í stórstraum og belgdi sjórinn inn á víkina, svo að hann gekk yfir allan kambinn og langt út í hraun í allar áttir. Flóðið kom þegar inn í bæinn og varð fólkið að flýja þaðan.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Bóndi tók eitthvað af sængurfötum og batt þau upp í sperrukverk. Hafðist svo fólkið við í hlöðu uppi á túninu á meðan mesta flóðið var. Stóð hlaðan mikið hærra en bærinn, en þó komst flóðið þangað. Þegar fjaraði og fólkið leitaði til bæjarins, voru sængurfötin uppi í sperrukverkinni rennblaut og sást á því, að baðstofan hafi fylst af sjó upp í mæni. En þungi vatnsins inni í bænum hafði orðið svo mikill þegar fjaraði frá úti, að hann sprengdi gaflinn úr baðstofunni fram á hlað, svo skolaði vatnið þar út með sér körfustól og ýmsum öðrum húsgögnum, sem voru í baðstofunni.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Austan við bæinn stóð stór timburskemma á háum grunni og var í henni geymt mikið af þungavöru. Þó var flóðið svo aflmikið, að það velti skemmunni um koll og setti hana rétt fyrir framan fjósdyrnar, svo að ekki varð komist í fjósið í nokkra daga.

Eftir þetta mikla flóð hvarf silungsveiði úr tjörninni um nokkur ár.

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

Ætla menn að ýmist hafi flóðið skolað silungnum til sjávar og víðsvegar upp um hraun. Eitthvað hefur þó orðið eftir af hrognum og seyðum, því að nú er veiðin orðin álíka mikil og hún var áður.
Herdísarvík er gæða jörð til lands og sjávar. Þar gengur sauðfé sjálfala allan ársins hring, ef ekki kemur þeim mun harðari klakavetur. Fjörubeit er góð og varla tekur fyrir beit í hrauninu, enda kemur það sér vel, því að engar eru engjarnar og ekki hægt að slá eitt ljáfar utan túngarða. En fjárgeymsla er mjög erfið.

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Ólafur Þorvaldsson, sem þar býr nú, hefur raunsnarbú, og er fyrirmyndar bragur á öllu hjá honum. Hann setur um 500 fjár á vetur hvern. En hann segir að ekki veiti af tveimur fullorðnum mönnum til þess að fylgja fénu allan veturinn, myrkranna á milli, bæði í fjöru og hrauni, að koma því í hús á kvöldin og til beitar snemma á morgnana. Hann kveðst þó oftast taka lömb á gjöf, og í vetur sem leið öll lömbin nema 20, sem gengu algerlega úti, en þau bera nú öllum hinum, enda munu þau hafa verið tápmest. En hér er sama sagan nú og annars staðar, að sauðfjárræktin er dýr, en veitir lítið í aðra hönd. Það er af sú tíðin er menn gátu fætt og klætt sig og sína með afurðum 50-60 fjár. Í haust varð Ólafur að borga 150 dilka í landskuld og kaup eins manns. Hugsið ykkur það, 150 dilka, fyrir utan allt það, sem þurfti til bús að leggja!

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Tún eru tvö í Herdísarvík og fást af þeim í meðal ári um 170 hestar. Ekki kemur til máls að tvíslá, því að kúnum þarf að beita á túnin undir eins og þau eru hirt, því kúahagar eru þar engir og hestahagar ekki heldur. Veitti ekki af að gefa kúm og hestum allan ársins hring. Hestar eru því verstu ómagar þarna, en ekki verður komist hjá því að hafa þá, vegna þess hve bærinn er afskekktur og langt til aðdrátta. Nú seinustu árin hefur Ólafur þó fengið vörur sínar með bíl til Grindavíkur og þaðan með “trillu”-báti til Herdísarvíkur. Er það kostnaðarsamt, en verður þó ódýrara heldur en að flytja allt á hestum þessa löngu leið, og verða fyrir vikið að hafa marga hesta á fóðrum.

Herdísarvík

Herdísarvíkurfiskgarðar.

Í Herdísarvík eru margar og merkilegar fornleifar frá þeim tímum er útgerð var stunduð þar í stórum stíl. Þar standa enn fornar sjóbúðatættur, og í brunahrauni austan við bæinn og alla leið upp undir fjall má líta óteljandi hraungarða hlaðna af mannahöndum, hvern við annan. Þetta er þurrkreiturinn, þar sem fiskurinn var hertur. Fiskverkunaraðferðin í þá daga var þannig, að fiskurinn var fyrst slægður og flattur og síðan kasaður. Þótti það mikill vandi að kasa vel og öll verkun komin undir því. Ekkert vatn mátti komast í fiskinn og hann varð að kasast þannig, að hann yrði ekki maltur við þurrkun, en til þess þurfti allur safi að síga úr honum áður en hann var breiddur til þerris.

Herdísarvík

Fiskigarðar.

Fiskurinn var kasaður þannig, að eftir að hann var flattur, var hann lagður utan á annan og stungið niður á hnakkakúluna, hver fiskur utan í annan, og skaraðir þannig, að vatn gæti ekki komist á milli þeirra. Í þessum kösum stóð svo fiskurinn allan veturinn, eða þangað til vorþurrkar komu. Þá var hann borinn á bakinu upp um allt hraun og breiddur á garðana. Varð þetta oft langur burður, en sá var kostur við það að hafa þyrrkgarðana úti í hrauninu, að minni hætta var á að fé færi í fiskinn, en það er sólgið í hann, ef það kemst á bragðið.
Af hinum fornu sjóbúðum er nú fátt eftir, en þær hafa verið rammbyggilega hlaðnar úr brimsorfnu hnullungagrjóti og standa þykkir veggirnir lítt hrundir enn í dag. Eru sumar búðirnar 30 fet á lengd að innanmáli og má á því sjá, að þar hafa verið stórar skipshafnir.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskbyrgi.

Svo lagðist útgerð að mestu niður í Herdísarvík um all langt skeið, svo að þar var oft ekki nema eitt skip. En fyrir aldamótin hófst útgerð þar aftur með nýjum krafti. Veturinn 1896 gengu þaðan t.d. 8 skip. En þá var fiskverkunaraðferðin breytt og var þá farið að salta allan fisk. Nú risu þarna upp nýjar sjóbúðir, og standa tvær þeirra enn, en annarri hefur verið breytt í hlöðu og hinni í fjárhús og verður því ekki lengur séð hvernig umhorfs hefur verið þar inni á meðan þetta voru mannabústaðir.
Allir sjóbúðaveggir eru hlaðnir úr hnullungagrjóti og þykkir mjög. Búðirnar eru 30-40 fet að innamáli og munu oft hafa erið 15-16 manns í hverri, því þá var róið þarna á tíæringum og auk þess voru landmenn við aðgerð og söltun, og svo þjónusta.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Búðirnar sneru frá norðri til suðurs og á suðurstafni eru dyr, og reft yfir með þrælsterkum viðum. Stafnar eru hlaðnir úr grjóti eins og veggir, og mæniás lagður á milli þeirra og nokkrar stoðir undir, og standa þær auðvitað á miðju gólfi. Í sumum sjóbúðum voru sperrur og skarsúð, en flestar munu hafa verið þannig, að síreft hefur verið báðum megin á mæniás úr klofnum rekaviði. Hafa raftarnir verið nokkuð mislangir og sköguðu því sumir út úr þekjunni, sitt á hvað. Heldur munu sjóbúðir þessar hafa verið óvistlegar, en sennilega hefur verið hlýtt í þeim.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.

Frammi á sjávarkambi er þyrping af húsarústum. Nokkuð af þeim hefur sjór brotið, en sumar tætturnar standa óhaggaðar. Þarna var saltgeymsla og beitugeymsla, lýsisgeymsla o.s.frv., en úti munu menn hafa beitt, engu síður en einni. Er þar til marks um það, sem sagt er um áleitni sauðfjár við útróðrarmenn, að þeir máttu ekki víkja sér frá beitningartrogunum inn í sjóbúðirnar. Gerðu þeir það, þá var “kind á hverjum öngli” þegar þeir komu út aftur.

Heimild:
-Herdísarvík – 1925 – Árni Óla.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Herdísarvík var löngum happasælt fiskver. Oftast nær var ekki róið lengra en út á víina, og fekkst oft góður afli. Á seinni árum voru menn farnir að róa í Selvogssjó. Fiskgöngur koma þarna oftast nær beint af hafi, og voru þær taldar bestar, þegar ekki fylgdi síli. Eftir sumarmál var fiskur vanur að draga sig frá landi út á svonefndar “Forir”, og aflaðist þá oft vel þar í vertíðarlok.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs af Herdísarvík.

Nú hefur engin útgerð verið í Herdísarvík um mörg ár, en fiskur gengur þar að, ekki síður en áður. Er til marks um, að í vetur reru þar tveir menn um tíma á svolitlu bátkríli. Fóru þeir rétt fram fyrir landsteinana með handfæri og drógu þar bandóðan rígaþorsk. Voru þeir fljótir að hlaða, því að “báturinn lá með borðstokknum” þegar komnir voru í hann 100 fiskar. En alls fengu þeir um 1000 til hlutar – og allt fast uppi við landsteinana.

Úr Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Selsvellir

Hér verður lýst þróun í atvinnu- og byggðamálum á Reykjanesskaga og reynt að rýna svolítið í framtíðina í þeim efnum.

Selalda

Strákar – fjárhús frá Fitjum í Krýsuvík.

Byggðin á Reykjanesi (Suðurnesjum) var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Einstaka bæir voru bundir litlum gróðurblettum þar sem þá var að finna eða hægt var að rækta upp með sæmilegu móti. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegnum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja margt fjár og höfðu fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. Það var aðallega tvennt er einkenndi atvinnuhætti á Reykjanesi í u.þ.b. eitt þúsund ár, allt frá byrjun og langt fram á 19. öldina; annars vegar seljabúskapurinn á sumrin og hins vegar vermennskan yfir veturinn.

Strýthólahraun.

Minjar í Strýthólahrauni við Grindavík.

Hvergi voru fleiri verstöðvar við strendur landsins en á Reykjanesskaganum. Bændur stunduðu þaðan veiðar sem og aðkomumenn víða af landinu. Efldi það samskipti og fjölbreytni mannlífsins, auk nýrra menningarstrauma á hverjum tíma. Verin voru eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls um tíma og undirstaða útflutningsverslunar landsmanna.
Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beita úthagann. Lífið á Reykjanesskaganum snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Öskjuholtsskjól

Öskjuholtsskjól – fjárskjól.

Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis en annars staðar á landinu. Þau voru tímabundnar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Selin eða selstöðurnar í heiðunum hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað.

Nessel

Nessel í Seljadal.

Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru t.d. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum, en alls má líta þar minjar 34-40 selja, sum frá fyrstu tíð. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina. Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914. Seljabúskapurinn á Reykjanesskagnum gefur góða mynd af umfangi fjárbúskaparins á svæðinu og þróun byggðar og atvinnuhátta – þar sem allt líf fólks snérist meira og minna um sauðkinda, a.m.k. um allnokkurn tíma.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.

Á árunum 1940-70 tók íslenskt atvinnulíf stakkaskiptum, auk þess sem tilkoma hersins breytti verulega atvinnuháttum á Suðurnesjum. Ekki var t.d. hægt að manna róðrabáta á útgerðarstöðunum fyrstu tvö árin eftir tilkomu hans þar sem flestir atvinnufærir menn fóru til starfa fyrir herinn.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Patterson.

Það var í fyrsta skipti sem sumir þeirra fengu greitt í peningum fyrir vinnu sína. Þéttbýliskjarnar tóku að myndast. Grindavík er ágætt dæmi um breytingar og þróun þéttbýlis og atvinnuhátta á Reykjanesi. Bærinn er. einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna landsins sem mestum afla skila á land á hverju ári. Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Frá miðri 19. öldinni og fram yfir 1930 var mannfjöldinn á Suðurnesjum milli 2000 og 3000, en á 18. öld og fram á þá 19. var íbúafjöldinn á bilinu 1000-1500. Eftir miðja 20. öld og fram til dagsins í dag hefur íbúafjöldinn vaxið hröðum skrefum og byggist það mikið til á sjávarútvegi og þjónustugreinum. Á síðustu öld fækkaði jafnt og þétt í dreifbýli á svæðinu, á sama tíma og þéttbýlisstaðir uxu að sama skapi. Meginþættir atvinnulífs á Suðurnesjum hafa verið öflugur sjávarútvegur og starfsemi á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum. Iðnaður og byggingastarfsemi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er hlutfallslega minni en annars staðar og á höfuðborgarsvæðinu, en munurinn jafnast þegar varnarframkvæmdir eru teknar með.

Duushús

Duushús í Keflavík.

Verslun og þjónusta er miklu minni í sveitarfélögunum á Suðurnesjum en annars staðar. Á síðustu árum hefur sjávarútvegur minnkað nokkuð, einkum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði, en annars staðar á Suðurnesjum hefur þessi atvinnugrein að mestu haldið í horfinu sé miðað við fjölda starfa og unnið aflaverðmæti. Segja má þó að í heildina sé atvinnulíf nokkuð einhæft á smærri stöðunum, en benda má á í því sambandi að Suðurnes er eitt atvinnusvæði og samgöngur eru yfirleitt góðar.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – Meeks.

Árið 1984 voru 7850 ársstörf á svæðinu, þar af rúmlega 20% á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum, en um fjórðungur starfsfólks þar kemur af höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru ársverk fólks með lögheimili á Suðurnesjum um 6900 samtals. Fólksfjölgunin hefur verið 50-100% á síðustu áratugum, en gert er ráð fyrir að mannafli á Suðurnesjum aukist um 2500 manns á næstu 20 árum.

Mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, t.d. með aukinni þjónustu og með því að nýta þá kosti sem svæðið býður upp á. Þá er aðstaða mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi. Reiknað er með aukningu í fiskeldi, iðnaði og þjónustu í sveitarfélögunum. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn í Garðabæ.

Ný íbúðarvæði hafa verið tekin í notkun í öllum sveitarfélögunum. Vilji til uppbyggingar og nýbreytni er fyrir hendi. Fólki fjölgar og fjarlægðin við höfðuborgarsvæðin er frekar af jákvæðum toga en neikvæðum. Vegalengdir frá og til vinnu skiptir fólk ekki eins miklu máli og áður var. Mikilvægt er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, aðstaða til fiskeldis, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu og jarðfræðilegu möguleika til stóreflingar ferðaþjónustu, vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.ósá

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði.

Heimildir:
-Annálar 1400-1800.
-Ferðasögur (Eggert og Bjarni, Olavius 1777, SvPá, Þorv. Th, Jón Th….).
-Frá Suðurnesjum : frásagnir frá liðinni tíð. – Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960
-Íslenskir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson, III. útg. 1961
-Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – Daniel Bruun – Steindór Steindórsson þýddi – 1987
-Jarðabækur (1686 – 1695 – 1703 – 1874 ).
-Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu – Skúli Magnússon
-Selatangar – verstöð og verkun.
-Sigrún Guðmundsdóttir í Grindavík – viðtal 2003.
-Svæðisskipulag Suðurnesja 1987-2007 – 1989.
-Tómas Þorvaldsson í Grindavík – viðtal 2003.
-Um sel og selstöðu í Grindavíkurhreppi 1979 – Guðrún Ólafsdóttir.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.
-www.ferlir.is
-www.grindavik.is

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Á Selatöngum eru minjar gamallar verstöðvar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Núverandi minjar eru líkast til u.þ.b. tveggja alda gamlar. Þær hafa eflaust tekið breytingum allnokkrum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík. Á Selatöngum má enn sjá greinilega tóftir tveggja búða (Vestari búð og Austari búð) auk þess sem sést móta fyrir útlínum þeirrar þriðju miðsvæðis. Þar eru og a.m.k. þrjú verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiski, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, þurrkreitir, brunnur, smiðja, skútar með fyrirhleðslum, hesthús, Nótarhellir (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór, Sögunarkór og Smíðahelli, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra. Vestan við Seltanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði “Ketillinn” í Katlahrauni og fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna.

Selatangar

Jón Guðmundsson við brunninn á Selatöngum.

Undirritaður gekk einn góðan sumardag árið 2002 um Selatanga með Jóni Guðmundssyni frá Ísólfsskála, sem hann man eftir minjunum eins og þær voru þegar hluti verstöðvarinnar var enn í notkun. Hann lá þar með föður sínum í Vestustu búðinni árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Jón minnist þess vel að reki var reiddur þaðan að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem mótar enn vel fyrir og liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta, en víða sjást för eftir hófa og fætur liðinna alda í klöppinni. Austari Rekagatan liggur til norðurs vestan vestari Látra. Rekagötunar voru einnig nefndar Tangagötur og jafnvel Lestargötur, allt eftir notkun og tilgangi á hverjum tíma.
Tækifærið var notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu Jóns. Fylgir það þessum skrifum. Sennilega er þetta eina kortið, sem dregið hefur verið upp af þessari verstöð, þeirri einu sem eftir er á Reykjanesi.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Jón sýndi undirrituðum m.a. Smíðahellinn, Sögunarkórinn (Mölunarkórinn), Nótahellinn, hlöðnu refagildrurnar, brunninn, búðirnar, fiskvinnslubyrgin, þurrkbyrgin, þurrkgarðana, smiðjuna, skútana, lendinguna og Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu
innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar). Á sléttri klöpp neðan við Dágon eru klappaðir stafirnir LM (landamerki). Þá benti hann á lendinguna, skiptivöllinn o.fl. Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að meta aðstæður á staðnum með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon . Einnig hefur hann brotið niður byrgi og búðir næst ströndinni. Til merkis um það hefur miðverkunarhúsið syðst á Töngunum látið mikið á sjá á skömmum tíma. Fyrir ári síðan var það að mestu heilt, en sjórinn hefur nú brotið niður suðurhlið þess.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir telja það mjög fornt, en það hefði í rauninni verið hlaðið af föðurbræðrum hans frá Vigdísarvöllum skömmu eftir aldarmótin 1900 vegna þess að fé þeirra Vígdísarvallamanna hefði tíðum leitað í fjöruna og þeir þá átt í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafi skútinn verið hafður þarna fénu til skjóls.
Verstöðin hefur sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið (Ögmundarhraun) er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er þar litlu austar, í eyði. Reru frá Selatöngum meðal annarra skip Skálholtsstóls, auk þess menn alls staðar af landinu lágu þar í veri. Síðast var róið 1884, en selveiðar voru stundaðar nokkur ár eftir það. Þó var oft lent síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á Selatöngum sjást enn miklar rústir verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Á görðunum, sem enn sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem sjóbúðir eða byrgi. Vestan við Selatanga er hellir sem hafður var til eldamennsku – mötuneyti þess tíma. Einnig má sjá þar refagildrur frá síðustu öld.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Selatöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Í skýrslu um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað segir m.a. um Selatanga:
1703: “Jörðin á í sínu landi, en þó allfjarri, skipsuppsátur og brúkar heimabóndinn það um vertíð fyrir sig og hjáleigumenn sína. Öngvar eru þar verbúðir aðrar. Og er þó lending merkilega slæm, heitir “plátsið” á Selatöngum”, segir í jarðabók Árna og Páls.
1756: “Selatangi við Krýsuvík er lítill, en vel fallinn til sjósóknar, en ströndin er klettótt og lending ill sakir brima”, segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Selatangar

Miðrekar.

“Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Seltangar…. Á Seltöngum var fyrrum mikil útróðrastöð og verstöð. Er þar enn allmikið af búðarústum og fiskigörðum til herslu á fiski.
Hér er mikið af hraunhellum, þótt flestir séu þeir litlir, voru þeir notaðir til ýmissa hluta og hlutu nöfn af. Nokkru eftir 1880 lagðist útræði hér niður að fullu og öllu”, segir í örnefnalýsingu Krýsuvíkur.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

“Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út á Selatanga er]…. Veiðibjöllunef… Austan við Veiðibjöllunef kemur Mölvík… þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun… Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram…. Fyrir austan Nótarhellir er sandfjara og síðan taka við Selatangar”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.
“Nokkuð austan við bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar”, segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Friðlýstar minjar: “Verbúðartóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul mannvirki í henni fornu verstöð á Selatöngum”.

Selatangar

Selatangar – austasta verbúðin.

Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur.
Til er gömul þula sem telur 73 (aðrir segja 82) menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafði orðið mötustuttur í verinu….. Líklegt er að bæði Krýsuvíkurbændur og Vigdísarvallabændur hafi gengið til skips, en ekki haldið til í verinu.
Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þó þar talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884, skv. upplýsingum á skilti við bifreiðastæðið. Heimildir eru þó um að þarna hafi verið útræði frá Skála 1913.

Selatangar

Gengið um Katlahraun og nágrenni.

Guðrún Ólafsdóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: “Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar. Á vestustu hraunnibbunni er verbúð og rústir, auk garðhleðsla. Á næstu nibbu austan við eru rústir sömuleiðis, en hraunnibban er aðgreind frá þeirri vestari af sandi. Hinar rústirnar eru svo á þriðju nibbunni sem myndar samfelldara og stærra svæði en hinar og þar eru líka flestar rústirnar. Austast á þessu svæði er önnur verbúðartóft og byrgi í líkingu við það sem er vestast.

Selatangar

Selatangar – Smíðahellir.

Utan í hraunflákanum að austan eru fyrirhleðslur við skúta sem virðast hafa verið notaðir af fé. Margar hleðslurnar hafa farið verulega illa í flóðum undanfarin ár. Verbúðartóftin vestari er undir hraunbrúninni og er mjög fallinn, þó má greina húsaskipan. Rústin er hlaðin úr grjóti og torfi en hraungrjót er meginbyggingarefnið, enda hefur skort torf í hraunhafinu sem umlykur Selatanga að sjó. Við rústina að norðan- og sunnanverðu eru byrgi sem þarf að varðveita. Allt í nágrenninu eru svo hlaðnar rústir sem þarf að huga að. Nokkur byrgi eru uppistandandi og vel farin og slaga þau uppí að vera mannhæðarhá…. Stórflóðin á undanförnum árum hafa farið illa með rústirnar. Rústirnar eru á hraunnibbum sem skaga út frá Ögmundarhrauni og utan í þeim”.

Selatangar

Fjárskjól í Katlahrauni.

“Á Selatöngum var allmikil útgerð frá Skálholti í eina tíð, en lagðist fyrst niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 og svo að fullu og öllu milli 1880 og 1890. Þarna eru byrgi og búðatættur, sem eru nú friðlýstar. Dágon var klettur á kampinum suður af vestustu sjóbúðinni á Selatöngum, en er nú hruninn… Skiptivöllur er smáhæð fyrir austan Dágon, grasivaxinn að ofan. Sjóbúðirnar standa austan undir Skiptivelli á hraunnefi”, segir í örnefnaskrá Ísólfsskála.

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

“Á Selatöngum sjást byrgi og búðatættur, eldhús og önnur mannvirku, enda var þarna allmikil útgerð fyrir eina tíð…”, segir í Örnefnaskrá AG um Ísólfsskála.
Árið 1799 skemmdust nær öll mannvirki á reykjanesi er voru næst sjónum. Auk þess hefur sjórinn verið að naga smám saman af ströndinni í gegnum aldir. Ljóst er því að núverandi minjar á Selatöngum geta varla verið eldri en frá því um 1800. En þær eru eftir sem áður minnismerki um verstöð á Selatöngum um langan aldur og áþreifanlegur vitnisburður um sjósóknina fyrrum og horfna starfshætti.

ísólfs

Gengið um Selatanga.

Sjá má mikinn fróðleik um Selatanga í bæklingi Ferðamálafélags Grindavíkur – Seltangar, merkar minjar í umdæmi Grindavíkur.

ÓSÁ tók saman.

Selatangar

Selatangar – vel má sjá hversu erfitt útferið hefur verið utan við Tangana.

Óttarsstaðaselsstígur

Gengið var um Straumsselsstíg/Rauðamelsstíg/Hrauntungustíg norðan við Hrútafell. Þeim síðastnefnda var fylgt um Hörðuvelli, Einihlíðar, Dyngnahraun og Mosa. Þar beygir stígurinn inn í Skógarnef og til norðurs vestan við Óttarsstaðasel. Norðan við selið liggja Rauðamelssígur og Óttarsstaðaselsstígur saman. Stígurinn hefur stundum verið nefndur Mosastígur milli Mosa og Óttarsstaðarselsstíg. Einnig Skógargata inn í Skógarnef. Leiðinni var fylgt áfram niður á Alfaraleiðina utan við Smalaskálahæð, yfir hana og áfram niður fyrir Rauðamel.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fornar leiðir; Ólafur Þorvaldsson.

Sennilega er eðlilegast að nefna Hrauntungustíginn kaflann frá Hádegisskarði að Sauðabrekkum, Straumsselsstíginn kaflann frá Straumi upp fyrir Hrúthólma að gatnamótum Rauðamelsstígs og Rauðamelsstíginn kaflann, annað hvort frá Óttarsstöðum, eða mótum hans og Óttarsstaðarselsstígs norðan selsins að gatnamótum Straumsselsstígs norðan Hrútafells. Kaflinn frá þeim gatnamótum að Ketilsstíg gæti heitið hvort sem er Rauðameslsstígur áfram og/eða Straumsselsstígur.
Ólafur Þorvaldsson getur hvorki um Rauðamelsstíg né Straumsselsstíg í grein sinni um “Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Ætla mætti af því að þar hafi ekki verið alfaraleiðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hraunin voru á þessum tíma ekki heldur hluti af Hafnarfirði heldur Garðahreppi. Af þeirri ástæðu hefur hann e.t.v. ekki talið ástæðu til að fjalla um þá stíga sérstaklega. Með greininni fylgir þó uppdráttur af hinum fornu slóðum og á honum eru bæði Straumsselsstígur og Rauðamelsstígur merktir skilmerkilega.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Auk þess að skoða Rauðamelsstíg frá Hrútafelli var skoðuð gata út frá norðvestanverðum Hrúthólma að Mávahlíðum. Gatan er á sléttu helluhrauni og bæði breið og greinileg á köflum. Ein lítil varða er á milli hólmans og fellsins. Þegar komið er að hlíðum þess liggur gata til suðurs með því austanverðu. Einnig til norðurs sömu megin. Að þessu sinni var fyrstnefnda gatan rakin áfram vestur yfir lágan sandháls og niður hlíðina að norðvestanverðu. Þar sést stígurinn vel þar sem hann liðast um slétta hraunhelluna neðanverða, áleiðis að Dyngjurana. Þar kemur hann inn á Rauðamelsstíginn.
Ástæða þótti til að skoða þessa leið sérstaklega, bæði vegna þess að hún er einstaklega falleg og greiðfær og auk þess er hún skemmtileg hliðar- og hringleið frá Rauðamelsstíg. Og ekki skemmir tignarleiki Mávahlíðanna fyrir útsýninu á leiðinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Þegar gengið er eftir Rauðamelsstíg frá Hrútafelli er í fyrstu gengið um slétt helluhraun. Stígurinn er vel greinilegur. Þegar nálgast tekur lága mosavaxna hraunbrekku mjókkar stígurinn. Hann liggur síðan gróinn, en þó greinilegur, með fallegum hraungíg og síðan áfram að norðurenda Fíflavallafjalls. Austan við endann er djúp gígskál og er stígurinn með austurbarmi hennar. Norðan skálinnar beygir stígurinn til norðurs þar sem hann liðast niður mosahlíð niður að Hörðuvöllum. Á leiðinni greinist stígurinn í nokkrar götur, en þær eru kindargötur er myndast hafa í mosasléttuna. Áberandi og breiður stígur liggur þó yfir að suðurhlíðum Mávahlíðar og er þar enn einn stígurinn í stígakerfi svæðisins.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur að Óttarsstaðaseli.

Ólafur teiknar Rauðamelsstíginn þarna niður hlíðina á uppdrátt er fylgdi umræddri grein hans í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48 (útg. 1949), í beina stefnu á Ranann. Stígurinn beygir þó þarna til vesturs og síðan aftur til norðurs. Tekinn er bogadreginn krókur niður fyrir hærri hraunkant að neðanverðu. Kannaður var möguleiki á beinni leið þarna niður eftir, eins og uppdrátturinn sýnir, en stór gjá hindrar þar umferð.
Norðan við Ranann sést vel niður eftir stígnum þar sem hann liðast áfram til norðvesturs niður hlíðina, áleiðis að Lambafelli. Stígurinn er þarna nokkuð breiður, en ástæðan er sú að bíl hefur verið ekið eftir honum upp á brúnina og áfram upp fyrir enda Fíflavallafjalls. Gamla stíginn má þó sjá á köflum til hliðar við slóðann. Norðaustan við Lambafellið eru gatnamót og það greinileg.
Rauðamelsstígurinn liðast áfram til norðurs, en önnur gata liggur þarna til suðurs austan Lambafellsins. Líklega er þar um að ræða hestagötu er lá áfram inn með Eldborg, Trölladyngjurótum og áfram inn á Selsvelli þar sem hún hefur m.a. mætt Þórustaðastíg um hálsinn yfir til Vigdísarvalla. Auk þess hefur þarna legið leið t.a.m. til og frá Selatöngum. Á heforingjaráðkorti frá 1908 (endurgert 1936) sést gatan liggja áfram upp í Sogin og einnig inn með Núpshlíðarhálsi.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígurinn liðast nú í gegnum hraunið, um þriggja metra breiður á kafla. Hestagatan, klöppuð í slétt bergið, sést þarna á nokkrum stöðum. Hún er lítillega til hliðar við meginleiðina. Með lagni má sjá lægðir í óhreyfðum mosanum og fylgja götunni nokkurn spöl. Síðan þrengist hann verulega og verður ógreinilegri. Einungis ein varða, og það vel mosaskeggvaxin, er við norðurenda hans – þar sem hann kemur niður í Mosana. Mosinn á vörðu þessari er sérkennilegur og öðruvísi en almennt gengur og gerist. Þarf ekki að undra að til skuli vera hátt í átta hundruð mosategundir hér á landi.
Þarna er gott útsýni yfir norðvestanverðar Einihlíðar. Stórbrotið er að sjá hvernig nýjasta hraunið, sennilega frá því í goshrinunni á 12. öld (1151-88) hefur runnið sem foss fram af og niður hlíðarnar á tveimur stöðum.
Þegar staðið er þarna virðist eðlilegra að stígurinn hafi legið svo til beint og á ská um hlíðina ofanverða til suðurs. Hún virðist greiðfær, en ekki mótaði fyrir heilstæðum stíg þar þrátt fyrir greinanlega útidúra.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur – vörður við gatnamót stígsins, Óttarsstaðaselsstígs og Skógargötu um Mosa.

Þegar niður á slétt helluhraun Mosanna er komið má sjá móta fyrir hestagötu klappaða í hraunhelluna við hlið hinnar almennu. Mosinn hefur víðast hvar þakið hana, en ef vel er að gáð má sjá götuna á köflum.
Ofarlega í Mosunum greinist gatan í tvennt; annars vegar beint áfram að Bökkuklettum og hins vegar til norðvestur niður með brún Eldborgarhrauns. Þá leið er m.a. hægt að komast niður í Seltóu í Afstapahraui og þræða síðan Tóurnar langleiðina niður að Kúagerði.

Þegar komið er niður að hraunnefi er skagar inn í Mosana úr norðaustri greinist gatan. Hin breiða almenna heldur áfram niður eftir, áleiðis að Bögguklettum, sem eru tveir klofnir klettastandar í annars sléttri hraunhellunni. Nýlegra hraun, mjög þunnfljótandi, hefur runnið líkt og vatn niður sléttlendið, smurt sig upp á klettana og síðan sjatnað á ný. Hraunhellan er ekki nema nokkrurra sentimetra þykk og hefur forstveðrun náð að brjóta hana í smærri einingar á stórum köflum.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Hin gatan liggur til norðausturs með hraunbrúninni. Gróið er í kantinn svo ekki skal undra að hestamenn skuli hafa valið þess leið um Mosana. Leiðirnar tvær koma síðan saman á ný norðan Böggukletta þar sem hún kemur inn á lítillega hækkun í hrauninu.

Hestagatan sést vel svolítinn spöl. Þá greinist stígurinn í tvennt; annars vegar til hægri, sem hefur verið meginleiðin, bæði breið og greinileg og liggur áleiðis inn í Skógarnef, og hins vegar (að öllum líkindum) hestaleiðin (beint áfram), niður með hraunbrún Skógarnefsins. Þar liðast hún um grónina undir hraunbrúninni. Þessar leiðir koma síðan saman á ný við tvær vörður við norðanvert Skógarnef.

Skógarnef

Skógarnef – varða.

Stígurinn í gegnum Skógarnefið er óglöggur vegna þess að gróið hefur yfir hann að mestu. Ef vörðum er hins vegar fylgt þvert í gegnum Nefið má fylgja stígnum eins og hann var. Hann sést undir klapparhæðarbrún og síðan vel skömmu áður en komið er út úr því að norðanverðu. Þar er verklega hlaðin varða, líklega landamerkjavarða á sléttlendi, og síðan tvær aðrar er áður var minnst á.
Héðan er stígurinn vel varðaður niður að gatnamótum Óttarsstaðarselsstígs norðvestan selsins, skammt neðan Meitlanna. Sunnanverð vesturhlíð Almennings er þarna vel gróin og liggur Rauðamelsstígur á ská til norðurs um gróninga og hraunbolla. Nota þarf fulla athygli til að fylgja stígnum rétta leið um þetta svæði. Varða við skjól vestan Óttarsstaðasels sést í norðaustri og þegar lengra er komið sést selsvarðan ofan við selið. Frá gatnamótunum, þegar gengið er til suðurs milli vörðubrotanna er beint sjónlína í Trölladyngju.

Almenningur

Almenningur – kort.

Stígur gengur upp frá Óttarsstaðaseli að Búðarvatnsstæðinu og síðan áfram upp að norðanverðum Mávahlíðum. Þar kemur hann inn á stíg þann er fyrr var líst frá Hrúthólma að hlíðunum. Vörður eru við stíginn á stöku stað. Að og frá Búðarvatnsstæðinu er hann vel áberandi.
Við fyrrnefnd gatnamót eru tvær fallnar vörður, næstum jarðlægar. Frá þeim liðast Óttarsstaðaselsstígur (Rauðamelsstígur) niður hraunið, niður Bekkina, að og yfir Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja og áfram áleiðis að Óttarsstöðum. Áður en námurnar voru teknar í notkun í Rauðamel hefur stígurinn legið norðan við Melinn og síðan áfram að Óttarsstöðum. Námurnar hafa tekið hann í sundur á stuttum kafla, en stígurinn kemur á ný í ljós norðvestan við þær. Þar lauk göngunni að þessu sinni.

Almenningur

Almenningur – vörðukort (ÁH).

Rauðamelsstígurinn er vel greinilegur mest alla leiðina milli gatnamótanna norðan Hrútafells að Óttarsstöðum.
Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman norðvestan við Ketilinn. Auk þess er vel vörðuð leið upp frá Lónakotsseli að Sauðabrekkum, en hennar hefur hvergi verið getið svo vitað sé. Stundum var um fleiri en eina götu að velja á köflum sömu leiðar.
“Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma”. Á þessu gamla færeyska orðtaki byrjar Ólafur Þorvaldsson lýsingu sína á “Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar” er birtust í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

“Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn sem þar hafa ferðast; um alla þá erfiðleika sem þeir áttu við að etja á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru – en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim sem um þær fóru á sínum tíma.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t.d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og líka oft pottuðu hestskónöglum hefur sorfið götur oft 10-20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir hefur umferð hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Óvíða sér nema eina götu í hraunlendi eða þar sem grágrýtsiklappir eru. Þó ber aðeins út af. Þar sem vegir lágu um svona ógreitt land urðu menn oft að teyma lestir sínar hverja á eftir annarri. Vegna þess að aðdráttarferðir manna voru á nokkuð ákveðnum tíma, sér í lagi á vorin, sammæltust oft menn úr sömus veit til slíkra ferðalaga, og gátu oft slegist í förina fleiri menn með hesta í hópnum þar sem hver maður var oftast með 5-8 hesta. Þegar menn fóru lausríðandi og leið þeirra lá um slíkt land urðu þeir að “lesta sig” sem kallað var, gátu ekki riðið hlið við hlið, og var þetta stundum kallaður “gæsagangur”. Aftur á móti þars em götur lágu eftir grónu landi, t.d. grasdölum, árbökkum eða meðfram sjó, sjást sums staðar allt að tuttugu götur hlið við hlið, þá gátu menn teymt lestir sínar samsíða, eða ef lausir voru, riðið hver við annars hlið, spjallar saman, rétt milli sín tóbaksílát og ef til vill vasafleyg sem hressti þá og lífgaði á margra daga lestarorri.”

Reipshögld

Reipshögld.

Ólafur heldur áfram að lýsa hinum gömlu götum: “Oftast nær var það svo að þeir sem fóru um þessar gömlu götur, þó lausríðandi væru, urðu að fara hægt yfir landið, þar eða þær götur voru víða þröngar eða ógreiðar yfirferðar. Þetta hafði vitanlega sína ókosti og líka kosti. Ókostirnir voru helst taldir þeir að menn voru lengur en ef gatan hefði verið greið – einnig það að oft voru á þessum götum klif eða skarpar beygjur sem varð að fara hægt yfir og fyrir, og gátu baggar rekist í og hrokkið af klakk. Sáust þess stundum merki meðfram fornum götum að slíkt hafði hent, þó jafnvel sjaldnar en búast mátti við. Athugull ferðamaður komst stundum auga á brotna högld af reipi utan við veginn, kom þá stundum í ljós, ef menn nenntu að taka upp og skoða þetta gamla, þögla vitni hinar fornu og miklu umferðar, að það var komið um óravegu, jafnvel yfir fleiri sýslur, úr fjarlægum landsfjórðungum. Reipshagldirnar voru þá alltaf brennimerktar bæði nafni eiganda og hreppsbrennimerki.

Skeifa

Skeifubrot í alfaraleið.

Það ber einnig við að menn sjá við þessar gömlu götur skeifubrot eða jafnvel heila skeifu, sem er kannske orðin tvöföld að þykkt frá uppruna af ryði og sandi samanblönduðu, má oft merkja aldur hennar bæði af lagi og gatafjölda…
Þá er að geta kostanna við þessar gömlu götur að nokkru, þeir voru ef til vill færri en ókostirnir, en þó skal nefnt hér t.d. aðþar gáfust ótal tækifæri til athugunar á því sem fyrir augu bar, svo sem landslagi, kennileitum, hvernig örnefni hefðu myndast o.fl. Út frá ýmsum þessum athugunum spunnust oft milli samferðamanna fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Rauðamelsstígur

Rauðameslsstígur – vörður.

Til var það á leiðum milli byggðalaga, þar sem talin var hálfnuð leið, að menn nefndu t,d, Hálfnaðarklett, Hálfnaðarhól, Hálfnaðarskarð, Hálfnaðarsprungu. Öll þessi leiðarmerki af núttúrunnar hendi eru nú týnd eða að týnast með niðurlagðri umferð um fornar slóðir.”
Rétt er að láta þessi síðustu orð Ólafs Þorvaldssonar verða áhrínins- og áminngarorð til handa núlifandi kynslóð. Ástæðulaust er að láta þennan miklvæga þátt forsögunnar týnast eða gleymast. Glötuð gata er glataður menningartengill milli fortíðar og nútíðar. Framtíðin mun ekki varðveita slík verðmæti nema vitneskjunni verði komið á framfæri.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum.
Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu t.a.m. Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur. Drumbsdalastígur þræðir sig áfram frá Bleikingsvöllunum sunnan Vigdísarvalla austur að Krýsuvík.
Rauðamelur var áður fyrr tveir rauðir gjallhólar en eru nú malargryfjur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Stígurinn, sem lá frá Rauðamel í suðurátt er, sem fyrr segir, nokkuð greinilegur á köflum og heitir ýmist Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur en þegar ofar dregur mun hann heita Mosastígur og liggja upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Vænlegt er að stika Rauðamelsstíg. Mikilvægt er að gera það eins nákvæmlega og vandlega og hægt er. Þetta er falleg, merkileg og áhrifarík leið yfir skagann. Hún var örugglega ein af höfuðleiðum vermanna og annarra ferðalanga sem komu langt að og fóru þessa leið (og margar aðrar) í vetríðarbyrjun síðla á þorranum eða byrjun góu og í lok vorvertíðar í maí. Hver veit nema þetta hafi einnig verið flutningsleið brennisteinsmanna að og frá Krýsuvík á meðan Þýskubúð var kaupvangur í Straumsvík á 15. öld og hluta 16. aldar og brennisteinninn var nýttur í Baðstofu og við Seltún.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Umferð um Rauðamelsstíg hefur verið lítil sem enginn í áratugi, allt frá því að bíllinn kom til sögunnar. Víða er stígurinn að gróa upp og sennilega verður ekki langt að bíða þess að hann hverfi algerlega. Ástæða er til að hvetja fólk, sem treystir sér til, að feta hann og viðhalda þannig þessari gömlu þjóðleið. Fé hefur verið rekið um stíginn, en auk þess hefur hann verið farvegur fólks og fararskjóta um langan aldur. Það ber hin djúpmarkaða gata greinilegan vott um.
Eftir að hafa skoðað Rauðamelsstíginn vaknar grunur um að hann hafi verið hluti af mun eldri, almennari og lengri leið, þ.e. gleymdri götu, sem legið hefur frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin, en þar Krýsuvíkurleiðin einungis verið hliðarstígur frá Lambafelli. Þær grunsemdir verða gaumgæfðar nánar á næstunni.

Gengnir voru 21 km á 6 klst og 46 mín. Frábært veður um frábært land.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Rauðamelur

Litli Rauðamelur við Rauðamelsstíg.