Áhugasömum og leitandi er hér með upplýstar um helsta ágæti Grindavíkur.
Bærinn hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sagan er svo til við hvert fótmál og minjar allsstaðar. Saga jarðfræðinnar (tiltölulega nýleg landssköpun) er hvergi eins áberandi og útivistar- og gönguleiðir með þeim fjölbreyttustu á öllu landinu.
Áhugaverðir staðir eru allt umhverfis og í bænum. Má í því sambandi nefna að vestanverðu Junkaragerðið ofan við Stórubót, Gerðisréttina, Virkið, Staðarbótina, Staðarbótarflórgólfið, Stóra-Gerði, Kóngsklöppina, Hvirfla, Staðarbrunninn, fiskibyrgin ofan við Húsatóttir, „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni og „Brauðhellinn“ í Eldvörpum. Miðsvæðis eru þyrnirunnar er uxu er blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust, Fornuvör, Einarsverslunina, Járngerðardysina eða gröftinn í gegnum eiðið – inn í Hópið. Ekki má gleyma gömlu kirkjunni og Flagghúsinu.
Að austanverðu eru minjarnar í Þórkötlustaðanesinu og fiskigarðarnir, byrgin í Strýthólahrauni, þurrkgarðarnir í Slokahrauni, dysin ofan við Hraun, Gamlibrunnur, kapellan frá því um 1400, Húshellir sá sem Grindvíkingar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu aftur, Hraunsvörina o.fl. o.fl.
Að norðanverðu eru merkar minjar vegagerðarinnar, s.s. við Hesthúsabrekkuna, Baðsvallaselin, steinbyrgin við Bláalónsafleggjarann, í Arnarsetri (á Gíghæð), Innra-Njarðvíkurselið við Seltjörn ásamt hlöðnum mannvirkjum, uppgerður Skipsstígurinn að hluta á bak við Lágafell o.fl. o.fl. Þá eru ótaldir Gálgaklettarnir í Hagafelli og Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli, Hópsselið utan í Selshálsi og jafnvel Hraunselið utan í Núpshlíðarhálsi sem og Baðsvallaselin og Selsvallaselin,sem voru lengst af aðalsel Grindvíkinga. Hraunsselið er merkilegt fyrir það að það var síðasta selið, sem aflagt var á Reykjanesi, eða árið 1914.
Þá eru í landi Grindavíkur ýmsir aðrir merkilegir staðir, s.s. Selatangar, sem eru heimur út af fyrir sig, með sjóbúðum, þurrkbyrgjum, viðveruhellum, Smíðahelli, 5 hlöðnum refagildrum og hlöðnu fjárskjóli. Að ekki sé talað um Óbrennishólma með tveimur fjárborgum, líklega þeim elstu á landinu, hlöðnum garði, sem Ögmundarhraun rann að um 1150, leifar af fornum garði o.fl.
Húshólmi er með, auk tótta gömlu Krýsuvíkurkirkju, tóttir gamla bæjarins, forns skála, sem hraunið stöðvaðist við, miklar garðhleðslur, sjúbúð, fjárborg, stekk, selsstíg og gerðis utan í hraunkantinum. Utan í Borgarhól er gömul fjárborg skammt frá veginum. Ofan við Selöldu eru tóttir Fitja, fjárhúss á Strákum, tóttir bæjarins Eyri og tóttir Krýsuvíkursels. Utar á heiðinni er Jónsbúð og fallega hlaðið hús. Í Krýsuvíkurhrauni er m.a. Arngrímshellir (Gvendarhellir), en hans er getið í þjóðsögunni af Grákollu. Þar hjá eru Bálkahellir og mikið fjárskjól í Fjárskjólshrauni. Þá eru dysjar Herdísar og Krýsu þar ofar, auk fjölmargra annarra mannvirkja.
Ofan Ögmundarhrauns eru rúningsrétt í Stóra-Hamradal, fallega hlaðinn fjárhellir sunnan Vigdísarvalla, auk Vigdísarvalla sjálfra. Á öllu þessu svæði eru fjölmargar gönguleiðir, bæði fornar og nýjar. Má í því sambandi nefna Prestastíginn frá Höfnum, Skipsstíginn frá Njarðvíkum, Sandakraveginn yfir að Skála, Drumbsdalaveginn yfir að Krýsuvík, Skógfellaveginn frá Vogum o.fl. Þá eru svæðin sunnan Vigdísarvalla mjög fýsileg, s.s. Bleikingsdalur og hraunið ofanvert, auk svæðisins í kringum Lat. Í hrauninu undir honum er fallega hlaðið sæluhús.
Fagradalsfjallið hefur upp á fjölmargt að bjóða. Þar er mjög fallegt umhverfi inni í og utan með fjallinu. Gígurinn nyrst í því er einstakur, auk þess sem útsýni yfir Merardali, Þráinsskjöld og upp á Selsvelli er hvergi fallegra í góðu veðri.
Í Geldingadal á Ísólfur á Skála að hafa verið dysjaður að eigin ósk „því þar vildi hann hvíla þar sem sauðir hans undur hag sínum svo vel“. Sunnan Borgarfjalls er t.d. Borgarhraunsborgin, gamalt mannvirki frá Viðeyjarklaustri, auk hleðsla utan í hraunköntum. Þar er og fallega hlaðinn Borgarhraunsréttin utan í hraunkanti. Uppi við Nautshóla, í Fagradal, er Dalssel, eitt seljanna frá Grindavík, a.m.k. um tíma. Jarðfræðiskoðun er hvergi betri en í Eldvörpum, í Arnarsetri, á Núpshlíðarenda, í gígum Ögmundarhrauns og sunnan við Stóra-Skógfell. Í Fagradalsfjalli eru leifar þriggja flugslysa frá stríðsárunum.
Framangreint er einungis brot af því sem Grindvíkingar hafa að bjóða ferðafólki. Þar er fleira en BARA Bláa lónið, þótt margir standi í þeirri trú. Saltfisetur grindjána er t.d. eitt af því merkilegra, sem gert hefur verið í ferðamennsku á liðnum árum.
Grindavík hefur upp á allt að bjóða, sem áhugasamt útivistarfólk hefur áhuga á. Það er í næsta nágrenni við mesta fjölbýlissvæði landsins.
Grindvíkingar eru glaðvært og frásagnasafaríkt fólk, sem gaman er að sækja heim.
-ÓSÁ tók saman.