Hafravatn

Við norðurbakka Hafravatns er upplýsingaskilti. Á því stendur:

Hafravatn

Hafravatn – skilti.

Hafravatn – Vatnsvík
Héðan má fara hringleið um Uxamýri í áttina að Reykjum og síðan upp með Varmá og áfram að Borgarvatni. Þaðan er gengið að Hafravatnsrétt og til baka meðfram Hafravatni. Syttri hringur er að Borgardal og yfir Reykjaborg og síðan niður að Hafravatnsrétt og meðfram Hafravatni til baka. Einnig liggur gönguleið héðna á Úlfarsfell og ennfremur er hringleið umhverfis Hafravatn.

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár: Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Hafravatn

Hafravatn – skilti.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímansfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, Varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistak á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulega minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði
Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður
Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, upp dalina og fellin. Ofan til eru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkra tegundir úr íslenskri flóru.“

Hafravatn

Hafravatn – skilti.

Rauðhólssel

Gengið var upp í Fornasel á Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar, í Auðnasel og áfram upp í Rauðhólssel. Þaðan var gengið til baka niður heiðina með viðkomu í Flekkuvíkurseli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – stekkur.

Fornasel er austan við svofnefnda Strokka. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessm slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni. Selið sést vel frá Strokkum og er stutt að ganga að því, hvort sem er frá Reykjanesbrautinni eða línuveginum. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár eða fjórar tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt ofan við hólinn að austanverðu er lítið vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á lengd, um 2 m á breidd og er grjóthleðsla í kring.

Fornasel

Fornasel.

Auðnasel er norðaustur af Knarrarnesseli. Þangað var um 15 mín. gangur. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýholt. Margar tóftir er þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestan af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu.
Í landamerkjalýsingu Auðna og Landakots frá árinu 1886 er Stórhæð nefnd og sagnir eru til um að setið hafi verið yfir sauðum í Stórhæð.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ofarlega í heiðinni eru nokkir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsbvól. Aðalbláberjalyng er mjög skaldgæf jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Kálfatjarnarbræður sögu Herdísi Jónsdóttur, f: 1858, hafa komið í selið sem barn. Þar voru þá eingöngu hafðar kindur.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursel, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.
-Örnefni og göngileiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Fjárskjólshraun

Gengið var niður Fjárskjólshraun og að opi Fjárskjólshraunshellis, sem fannst fyrir skömmu í grónu jarðfalli í hrauninu. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess.

Fjárskjólshraun

Á leið í Fjárskjólshraun. Keflavík að handan.

Komið var niður í skúta undir berghellunni, en með því að fara til hægri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri.

Fjárskjóshraun

Í helli í Fjárskjóshrauni.

Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnum á einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.
Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Ekki var komist inn í meginrásina að þessu sinni. Líklega má telja svæðið í kring hellavænlegt og því vel þess virði að gefa því nánari gætur við tækifæri. Frést hefur af opi þarna nokkru austar, skammt neðan við þjóðveginn, sem á eftir að staðsetja og skoða.
Frábært veður.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Grímshóll

Gengið var frá Vogum, litlu vinalegu þorpi á norðurströnd Reykjanesskagans, nánar tiltekið við Stakksfjörðinn, um Reiðskarð og upp á Vogastapa. Stapagötunni var fylgt upp á Grímshól og síðan haldið niður Stapann að norðanverðu, niður í Innri-Njarðvík.

Vogar

Vogar.

Gengið var framhjá Síkjunum vestan Voga, yfir Kristjánstanga og með Vogavíkinni. Haldið var áfram gömlu þjóðleiðina upp Reiðskarðið áleiðis upp á Stapann, eða Vogastapa eins og hann einnig er nefndur. Eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál, en að ofan eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gömul þjóðleið, Stapagatan, liggur um Stapann endilangan. Fyrr á öldum lá gatan ofan á Stapanum, en í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti. Mjög villugjarnt er á Gamla-Stapavegi og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Uppi á Stapahorninu, á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar, er slétt svæði, en á því var reist herskálahverfi árið 1942, sem kallað var Dailey Camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey Camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, nokkuð háir, með stuttu millibili. Þeir eru einu sýnilegu minjarnar um hersjúkarhús þetta.
Undir Stapanum eru tóftir Brekku, Stapabúðar, Hólmabúða og Kerlingarbúðar.

Þjóðsaga tengist Grímshól, efstu hæðinni á Stapanum. Á hólnum er útsýnisskífa og þaðan er fallegt útsýni til allra átta.

Stapagata

Gengið um Reiðskarð – gömlu Stapagötuna.

Þjóðsagan segir frá Norðlingum þá er þeir fóru suður í verið. Er þeir voru á Grímshól gerði byl. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Grænaborg

Grænaborg.

Grænaborg, fjárborg, er skammt frá Stapagötunni stuttu áður en komið er niður í Innri-Njarðvík. Þá er stutt eftir niður að Stapakoti, syðsta kotinu í byggðalaginu.

Skemmtileg og þægileg gönguleið er tengir saman byggðina í Vogum annars vegar og í Innri-Njarðvík hins vegar.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Stapagata

Stapagata.

Ögmundarstígur

Gengið var yfir Sveifluháls eftir gamalli þjóðleið frá austri til vesturs, framhjá Drumbi og áfram niður í Bleikingsdal.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Lækur rennur þar niður hraunið sunnan Vigdísarvalla, um svonefnda Suðurvelli og Klettavelli ofan við Krýsuvíur-Mælifell og niður Ögmundarhraun. Hann kemur úr hvilftunum suðvestan Hettu í Sveifluhálsi og hefur smám saman rutt á undan sér sandi og leir úr hlíðunum, líkt og Selsvallalækurinn og Sogadalslækurinn. Gróið er á bökkum læksins, því meira sem norðar dregur. Ljóst er að fé hefur nýtt sér vatnið í gegnum tíðina og launað fyrir sig með því að leggja sitt af mörkum við uppgræðsluna næst læknum. Til skamms tíma náði lækurinn niður í hraunið norðan þjóðvegarins milli Krýsuvíkur og Ísólfsskála, en nú er hann kominn suður fyrir hann og ætlar greinilega alla leið áfram til sjávar, jafnvel þótt það taki tíma.
Læknum var fylgt niður að Ögmundardys, við gömlu þjóðleiðina yfir hraunið. Dysin er við austanvert hraunið, við eina stubbinn, sem enn er óbreyttur frá því sem var. Gatan var jafnan lagfærð með seinni tíma vegarlagningum (1932) og síðar.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Þjóðsagan segir að áður en gatan var rudd varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi vildi ei gefa dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Jónsson, jarðfræðingur segir aldur Ögmundarhrauns vera C14 945 ± 85, þ.e. að hraunið hafi runnið árið 1005?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 61 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=276
-J.J. 81

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Kolhólasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.
Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu (6359266-2214691), en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.

Kolhóll

Kolhóll.

Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar.

Auðnasel

Auðnasel – varða.

Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.

Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel og sunnan Fornuselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.

Auðnasel og Breiðagerðissel eru saman í einni selstöðu. Um er að ræða nokkrar selsamstæður frá mismunandi tímum, auk tilheyrandi mannvirkja og vatnsbóla.

Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Seltún

Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um „Krýsuvík„:

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna pess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig að minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.

Þórður Jónsson

Þórður Jónsson frá Eyrarbakka.

Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka. Árið 1861 segir hann þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík.
Búandi Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.
Á heimajörðinni Krýsuvík: Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Arnarfelli og Fitjum. Í Vigdísarvöllum 2 búendur. Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot. Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“

Krýsuvík

Krýsuvíkurengjar.

Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð — fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.
Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrirsauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð. Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík. Kleifarvatn fjær.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu bnennisteinsnámur í Krýsuvík, ogvar brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu pá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Krýsuvíkurkirkja
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og messaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.
Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um í Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.

Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.
Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum.

Guðmundur Ísleifsson

Hjónin Guðmundur Ísleifsson, útvegsbóndi og kaupmaður, og Sigríður Þorleifsdóttir, húsfreyja, Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, ásamt börnum sínum.

En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.
Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið.

Hellugata

Forn gata um hraunhelluna við Herdísarvík.

Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdísarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum,

Kapelluhraun

Ferðamaður á leið um Kapelluhraun.

Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stiga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa, En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breytingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við blíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Fólk framan við Nýjabæ í Krýsuvík um 1930.

Mér, sem þetta ritar, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhrið þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Þá bjó í Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kend verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka staði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar — atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargleg verða eins haldgóð til að viðhalda karlmensku og hreysti í búskapnum í Krýsuvík, skal ósagt látið.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Í Alþýðublaðinu 1935 fjallar Þórður Jónsson frá Eyrarbakka um Krýsuvík.
Krýsuvík

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson gaf fyrr á árinu (2024) út bókina „Uppvaxtarárin„. Áður hafði hann gefið út bókina „Glettur – lífsins saga„, sem er söguleg frásögn viðkomandi frá uppruna hans í annars dæmigerðu útvegsbyggðalagi við suðurströndina.

Uppvaxtarárin er svolítið meira en söguleg skáldsaga drengs á aldrinum 6-16 ára í þéttbýlisbyggðarlagi á höfuðborgarsvæðinu.

Uppvaxtarárin

Uppvaxtarárin – bókakápa.

Lögð er áhersla á nokkra hversdagslega þætti æskunnar; uppvextinum, umhverfinu og samtíðarfólki, en lesandanum er að öðru leyti leyft að leggja út frá efninu. Gerð er þó krafa um að lesandinn reyni a.m.k. að setja sig í spor drengsins, hugsi jafnvel út fyrir eigin skynjun og upplifun, bæði í tíma og rúmi, enda ekki ólíklegt að hann hafi mögulega sjálfur upplifað sumt af því sem fram kemur í sögunni – ekki síst ef hann hefur alist upp við takmarkaða möguleika til lífsviðurværis.
Á uppvaxtarárunum er ekki alltaf allt sem sýnist. Framtíðin bíður þá oftar en ekki upp á annað en líðandi stundin gefur til kynna. Spurningin er þó jafnan um að kunna að nýta sér það sem reynslan hafði upp á að bjóða. Meginþættirnir eru ávallt hinir sömu í lífi hvers manns (og konu), hverjar svo sem aðstæðurnar eru.

Miklar samfélagsbreytingar urðu á skömmum tíma á sjöunda áratug síðustu aldar. Hér hefur móðir sex ungra barna takið sig upp með litlar veraldlegar eigur og flutt með þau í annað byggðalag – að gefnu tilefni. Henni er ætlað í sögunni að vera svipur hins áþreifanlega og nálæga – kennari jafnt sem verndari barna sinna og bjargráður á meðan var…

Bókin, sem er 52 bls, var gefin út í 5 árituðum eintökum.

Ómar Smári

Höfundur með bókina á gamals aldri.

Alfaraleiðin

Nemar á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands skrifuðu um „Reykjanesbrautina fyrr og nú“ árið 2009:

Eiríksvegur

Eiríksvegur, vagnvegur, ofan Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd.

„Þegar rýnt er í sögu Reykjanesbrautarinnar, veg númer 41 í þjóðvegakerfi Vegagerðarinnar, er ljóst að hún er merkileg að mörgu leyti og hefur brautin gegnt mikilvægu hlutverki bæði fyrir íbúa Suðurnesja sem og aðra landsmenn. Hún markaði tímamót í sögu almenningssamgangna á Suðurnesjum þegar hún var lögð, síðar steypt og svo aftur þegar hún var tvöfölduð. Fyrstu skrefin í gerð hennar úr slóða í veg, sem hæfði öðru en hestvögnum, voru erfið m.a. vegna afstöðu ráðamanna og peningaskorts. Á þessum tíma bjó fólk jafnvel enn í torfkofum og fátækt var landlæg. En með þrjósku, baráttu og miklum vilja hafðist gerð Reykjanesbrautarinnar sem hefur svo breyst og þróast í áranna rás og óhætt er að segja að ástand hennar sé með besta móti í dag. Við munum fara yfir sögu hennar og skoða hvernig hún hefur breyst frá slóða í veg eins og hann lítur út í dag.

Slóðinn – Alfaraleið; Almenningsvegur; Stapagata

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Vegurinn suður á nes er ævaforn; mannsfætur og hestshófar höfðu meitlað hann í hraunið í gegnum árin og aldirnar. Árið 1861 tók hins vegar gildi tilskipun um vegi á Íslandi og var þar lagður grunnur að skipulegri vegagerð hérlendis; þjóðvegir skyldu vera 5 álna (um 3,14 m) breiðir, ruddir á fastlendi, hlaðnir á votlendi, með brúm á mýrum og yfir ár og læki (Bjarni Guðmarsson 1997a:24).
Svo er veginum lýst suður á nes í Sögu Keflavíkur en þá er átt við hina gömlu þjóðleið sem lá frá Innnesjum, þ.e. Hafnarfirði, til Útnesja, þ.e. Voga, Njarðvíkur, Keflavíkur, Hafna, Garðs og Sandgerðis.

Almenningsvegur

Almenningsvegur og aðrir vegir á Vatnsleysutrönd.

Vegurinn frá Hvaleyri í Hafnarfirði til Kúagerðis var nefndur Alfaraleið en vegurinn frá Kúagerði til Voga Almenningsvegur eða Menningsvegur. Síðasti hluti þessarar gömlu þjóðleiðar, þ.e. leiðin frá Vogum til Njarðvíkur, var nefnd Stapagata. Vegur þessi var vel varðaður og stutt á milli varða sem vísuðu ferðalöngum rétta leið. Á leiðinni, við Kúagerði, var afbragðs áningarstaður þar sem nóg var af góðu vatni í tjörninni. Einnig var þar stór og góður hagi í grenndinni (sbr. Ferlir). Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig þessa gamla þjóðleið lá en hún er merkt með gulu og síðan er brautin eins og hún er í dag merkt með gráu.

Almenningavegur

Almenningsvegurinn genginn.

Árið 1893 lagði Jens Pálsson alþingismaður og Útskálaprestur fram frumvarp til vegalaga sem tók gildi ári síðar. Þar var kveðið á um að flutningsbrautir skyldu lagðar um þéttbyggðustu héruð landsins sem auðveldaði yfirferð hestvagna sem nú voru teknir að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þetta frumvarp hefði getað komið sér einkar vel fyrir þá sem bjuggu suður með sjó en því var ekki að heilsa. Á þessum árum voru strandsiglingar við lýði á Faxaflóasvæðinu og þótti það vera betri kostur fyrir íbúana þar og því kom ekki til álita að leggja veg. Á þessum tíma má kannski segja að barátta Suðurnesjamanna hafi byrjað en þeir voru að sjálfsögðu ekki ánægðir með þessa lyktan mála.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Það var síðan árið 1899 sem frumvarp um vagnfæran veg á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var lagt fram á þingi. Þá eins og endranær voru skiptar skoðanir um ágæti slíks vegar. Því var það ekki fyrr en árið 1903 að ákvörðun var tekin um að vegur skyldi lagður milli Hafnarfjarðar og Vogastapa (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:25-26).
Það sést glöggt á eftirfarandi frásögn að menn urðu að beita öllum brögðum til að þessi akvegur yrði lagður:
Þegar Björn Kristjánsson var orðinn þingmaður Gullbringusýslu vildi hann láta gera akveg milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Þar var þá algerlega veglaust nema hestastígur, troðinn á þúsund árum. Þingmenn voru tregir að veita fé í þennan veg. Þá fékk Björn hesta handa öllum þingmönnum, sem áttu þá sæti í fjárveitinganefnd og bauð þeim í skemmtiför til Keflavíkur. En þegar nokkuð var komið út í hraunið dró úr ferðahug gestanna. Þeir óttuðust tjón lífs og lima, ef lengra væri haldið út í þessa ófæru. Þeir sneru við, en veittu fé til að gera veginn (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).

Suðurnesjavegurinn

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegur vestan Þorbjarnarstaða.

Framkvæmdir við akveginn, þ.e. Suðurnesjaveg, hófust síðan árið 1904 og var Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði verkstjóri þess. Vegagerðin hófst við sýslumannshúsið í Hafnarfirði og fyrsta árið var lagður um tveggja kílómetra langur spotti. Þremur kílómetrum var bætt við árið eftir og árið 1906 bættist enn við veginn eða um 2,5 km. Þá náði vegurinn loks að Hvassahrauni árið 1907. Árið 1908 náði vegurinn að Stóru-Vatnsleysu og ári seinna, eða um vorið 1909, var málið rætt á sýslunefndarfundi í Keflavík og þá var ákveðið að vegurinn skyldi ná alla leið til Keflavíkur. Vegakaflarnir mættust loks í Vogunum árið 1912 en vinnan Keflavíkurmegin hafði byrjað árið 1911.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík suður til Keflavíkur. Það er skemmtilegt að segja frá því að á sama tíma og karpað var um hestvagnaveg voru bifreiðar að ryðja sér rúms á Íslandi þannig að þessi vegur átti eftir að greiða leið þessarar nýju tækni. Árið 1913, þegar hestvagnavegur milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur var fullbúinn, tókst bifreið í fyrsta sinn að komast til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997a:27, 25-30). Fyrsta bifreiðin, sem vitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til Íslands þann 20. júní árið 1913 og fór hann leiðina til Keflavíkur þá um haustið (sbr. Guðlaugur Jónsson 1983:63 65).

Reykjanesbraut

Suðurnesjavegur – fyrsta bílferðin. Keilir í bakgrunni.

Fyrsta langferð þeirra félaga í bifreiðinni var til Keflavíkur, og kveðst Sveinn hafa valið þá leið fyrst, af því að honum hafði verið sagt að þar væri vegurinn einna bestur. Það reyndist og rétt vera að öðru leyti en því að krókar miklir voru á honum í hraununum og hættulegir ókunnugum vegfaranda á hraðskreiðu farartæki. […] Í þessari ferð var bifreiðin fullsetin, því að auk þeirra Sveins og Jóns Sigmundssonar voru þeir með í ferðinni, Björn, bróðir Sveins, Gísli Sveinsson, síðar sendiherra og Baldur Sveinsson, blaðamaður.

Keflavíkurvegur

Gamli og nýi Keflavíkurvegurinn hlið við hlið sestan Kúagerðis 1962.

Allt gekk vel suður eftir en er komið var á Vogastapa á heimleiðinni um kvöldið hætti vél bifreiðarinnar að ganga, höfðu leiðslur stíflast af hinni illa hreinsuðu brennsluolíu (Guðlaugur Jónsson 1983:65).

Samkvæmt frásögninni hér á undan er greinilegt að það var tímafrekt að aka þessa leið. Um haustið 1913, eftir að hvert hraðametið af öðru hafði verið slegið, tókst að fara þessa leið akandi á rétt innan við tveimur klukkustundum. Það þótti nokkuð gott miðað við að ferðalagið hafði áður tekið um átta til tólf klukkustundir (sbr. Bjarni Guðmarsson 1997b:46).

Keflavíkurvegur

Unnið við nýja Keflavíkurveginn.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig vegurinn leit út í þá daga. Hafði mikil vinna verið lögð í hann eins og hægt er að ímynda sér eftir um átta ára framkvæmdir.

Eftir að lagningu vegarins lauk tók við eilíf barátta um að halda veginum við en hann vildi grafast niður og verða ein klöpp. Það fór illa með bifreiðarnar sem um hann fóru enda var hann lagður fyrir hestvagna. Þó má segja að þá hafi grunnurinn verið lagður að veginum eins og við þekkjum hann í dag (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegurinn – steypti vegurinn

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegur – fyrsti Fordbíllinn hér á landi.

Keflvíkingar eru vaskir menn og djarfhuga. Nú ættu þeir að senda bíl eftir þingfulltrúa sínum og fjárveitinganefnd og aka með þá á þeim tíma dags, þegar umferð er mest og halda þessum framagestum síðan góða veizlu í höfuðborg Suðurnesja, en skora jafnframt á þá að sýna nú landsföðurslegt lundarlag og lofa að gera versta veg landsins öllum vegum betri með skynsamlegu átaki í nokkrar vikur (Jónas Jónsson frá Hriflu 1955:5).
Svo komst Jónas frá Hriflu að orði árið 1955 þegar til tals kom að nú þyrfti að gera almennilega við veginn margumrædda. Skúli Vigfússon atvinnubílstjóri á Suðurnesjum skrifaði síðan grein árið 1956 í Faxa, blað Suðurnesjamanna, þar sem hann gagnrýndi hvernig staðið væri að lagfæringum á Suðurnesjaveginum.

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Árið 1942, þegar setuliðið flutti til Suðurnesja, var þess fyrsta verk, að lagfæra allan veginn frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Þær endurbætur hófust með því, að vegurinn var allur breikkaður, en áður var þar hvergi hægt að mætast á stórum bílum, nema á útskotum, þar sem þau þá voru fyrir hendi. Eftir þessa miklu lagfæringu var borið ofan í allan veginn, og var þar sannarlega ekki klipið við nögl sér, ekki saltað í hann eins og við bílstjórar köllum ofaníburð Vegagerðar ríkisins hér á Suðurnesjum (Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Unnið við Keflavíkurveginn.

Á þessum árum buðust Bandaríkjamenn til þess að leggja til vélakost og liðsafla frá vegadeild hersins ef ríkisstjórnin kostaði lagfæringuna á veginum. Því miður varð aldrei neitt úr því að þiggja boðið og töldu menn það vera sökum þess að Íslendingar vildu ekki standa í þakkarskuld við Bandaríkjamenn. Svona flæktist stoltið fyrir mönnum í þá daga og eyðilagði það margar bifreiðarnar sem þarna ók um á þessum árum. Talið er að meðalaldur þeirra bifreiða, sem oft fóru um þennan veg, hafi verið um tvö ár en þá var viðhalds- og bensínkostnaður orðinn það mikill að það borgaði sig varla að gera við þá. (sbr. Skúli Vigfússon 1956:18).

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur.

Háværar raddir um að leggja yrði nýjan veg með bundnu slitlagi tóku að fá hljómgrunn árið 1958 þegar vegamálastjóri kom fram með þá yfirlýsingu að með tilkomu sementsverksmiðjunnar á Akranesi yrði Suðurnesjavegurinn sennilega fyrstur til að verða steyptur (sbr. Faxi 1958). Í byrjun árs 1960 fór boltinn loks að rúlla eftir þessar yfirlýsingar vegamálastjóra. Það var svo í lok ársins 1960 sem framkvæmdir hófust við nýjan Suðurnesjaveg sem nú gengur undir nafninu Reykjanesbraut. Þá hafði Ingólfur Jónsson, þáverandi samgönguráðherra, skýrt frá framkvæmdunum sem fólu í sér að fyrst yrði steyptur 15 km kafli og seinna yrði lokið við afganginn af leiðinni sem yrði alls 37 km allt frá Engidal til Keflavíkur.

Keflavíkurvegur

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Öllum undirbúningi undir steypu átti að vera lokið vorið 1965. Kostnaðurinn var áætlaður um 240 milljónir króna og gaman að segja frá því að fyrirhugað var að breikka veginn í framtíðinni sem átti þó ekki eftir að gerast í nánustu framtíð (sbr. Faxi 1964).
Eins og áður sagði hófust framkvæmdir við steypta veginn árið 1960. Þá um sumarið var mælt fyrir nýjum vegi og var ákveðið að hafa vegstæðið frá Hafnarfirði og suður fyrir Hvassahraun með tilliti til þess hvar flugvöllur gæti hugsanlega komið í framtíðinni. Á þessum tíma hafði vegurinn inn í Hafnarfjörð verið færður upp fyrir bæinn sökum mikillar umferðar sem lá í gegnum hann. En sú umferð var m.a. tilkomin vegna framkvæmda við Keflavíkurflugvöll. Það var svo föstudaginn 25. nóvember 1960 að Vegagerðin hóf framkvæmdir við undirbyggingu vegarins og stóðu þær framkvæmdir yfir þar til þeim lauk þann 26. október 1965 en þá var vegurinn formlega opnaður eftir um fimm ára vinnu.

Keflavíkurvegurinn

Keflavíkurvegurinn steyptur (MWL).

Vegagerðin sá um undirvinnuna til Kúagerðis en þegar þangað var komið tóku Íslenskir Aðalverktakar við og kláruðu undirvinnuna ásamt því að steypa veginn (sbr. Vegminjasafnið 1983).
Steypti vegurinn markaði ekki einungis tímamót í sögu Suðurnesjamanna heldur einnig í sögu vegagerðar á Íslandi því hann var fyrsti steypti vegurinn í þjóðvegakerfi landsins.
Flutningsgeta jókst gífurlega í kjölfarið og öll umferð bifreiða milli Suðurnesjanna og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Þetta olli einnig straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að atvinnulífið á Suðurnesjum efldist þó nokkuð (sbr. Alþingi 1990).

Ingólfur Jónsson

Ingólfur Jónsson (1909-1984).

Steypti vegurinn var formlega opnaður þann 26. október árið 1965. Þeir sem fyrstir fóru um hann voru þáverandi vegamálastjóri og Ingólfur Jónsson samgönguráðherra á þeim tíma en þeir þurftu ekki að greiða vegatoll. Það var aftur á móti Valgeir Sighvatsson bifreiðarstjóri sem fékk miða nr. 1 þar sem hann var í áætlunarferð á rútubifreið sem hann ók. Valgeir sagði að mikil bylting hafi orðið að fá þennan veg þar sem áður hafi tekið um tvær stundir að aka frá Reykjavík til Keflavíkur (sbr. Valgeir Sighvatsson 2009). Valgeir kemur svo aftur við sögu Reykjanesbrautarinnar síðar.
Þegar vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar með tilheyrandi aukinni umferð.

Framkvæmdin við Suðurnesjaveginn var viðamikil og efnisfrek.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut ofan Straums 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá vegamálastjóra er Suðurnesjavegur byggður samkv. þýzkum stöðlum um fyrsta flokks þjóðvegi. Lega hans í hæð og fleti er reiknuð fyrir 100 km. á klst. Akbrautin er 7,5 m. breið og tveggja metra breiðir vegbakkar hvorum megin hennar. Í undirbyggingu vegarins hafa verið notaðir um 1.500.000 rúmmetrar af fyllingarefni og spprengdar [sic] hafa verið úr vegarstæðinu 55.000 rúmmetrar af klöpp og fjarlægðir 200.000 rúmmetrar af moldarjarðvegi, 32.785 metrar af akbrautinni er úr 22 cm. þykkri steinsteypu og í hana hafa farið 55.200 rúmmetrar af steypu og 160 tonn af steypustyrktarjárni. 3.780 km. af akbrautinni er úr malbiki, 9 cm. þykku, nema stuttur tilraunakafli, þar sem malbikið er 5 cm. Í þennan hluta akbrautarinnar hafa farið 5.650 tonn af malbiki með 400 tonnum af asfalti (Faxi 1965:146).

Gjaldskylda

Reykjanesbraut

Keflavíkurvegurinn – gjaldskýli ofan Straums.

Kostnaður við slíkar vegaframkvæmdir er umtalsverður og því þurfti að leita leiða til að afla fjár til verksins. Ákvörðun um að setja upp tollskúr var tekin þar sem ökumenn skyldu greiða sérstakt gjald aðra leiðina til að mega aka veginn. Sú ákvörðun átti eftir að skapa mikla óánægju meðal fólks, sér í lagi meðal Suðurnesjamanna, og upp hófust mikil blaðaskrif um málið. Fólk var mjög undrandi yfir því að slíkt gjald skyldi aðeins lagt á þennan eina veg og taldi það vera mismunun þar sem að þetta þekktist hvergi annars staðar á landinu. Vegatollur þessi var notaður til að borga lánið sem tekið hafði verið til að gera veginn.

Krýsuvíkurvegur

Gamli Krýsuvíkurvegurinn við Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

Vegaframkvæmdir voru yfirleitt kostaðar með framlagi ríkissjóðs (Ingvar Guðmundsson 1965:193-197). Sagan segir að margur hafi ekið Krýsuvíkurleiðina til að sleppa við að greiða gjaldið en það þótti afar hátt í þá daga.
Tollur þessi var við lýði frá árinu 1965 til loka ársins 1972 en þann 31. desember það sama ár var innheimtu umferðargjalds hætt (sbr. Vegminjasafnið1983).

Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Lónakots.

Umferð um Reykjanesbrautina hefur aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina og því miður með aukinni slysatíðni. Augljósar úrbætur voru að aðskilja akstursstefnur til að draga úr slysum.
Tillaga til þingsályktunar á Alþingi um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var fyrst flutt af Kolbrúnu Jónsdóttur og Júlíusi Sólnes á þinginu árið 1987 til 1988. Þar kom meðal annars fram að Reykjanesbrautin í þáverandi mynd fullnægði engan veginn þeim kröfum sem gerðar voru til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin taldi ekki nauðsynlegt að aðskilja aksturstefnur fyrr en umferðarþunginn næði 8.000-10.000 bifreiðum á sólarhring. Umferðin á Reykjanesbrautinni hafði aukist jafnt og þétt og fjöldi bifreiða sem um hana óku náði yfir 8000 bifreiðum á sólarhring í september 1988. Þrátt fyrir það fékk sú umræða engan hljómgrunn í það skiptið (sbr. Alþingi 1990).

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut – tvöföldun vestan Hafnarfjarðar.

Lagning fullkominnar hraðbrautar með aðskildum akstursstefnum þótti mörgum jafn nauðsynlegt og það var að leggja veg með bundnu slitlagi á milli Keflavíkur og Reykjavíkur áður. Í janúar 1992 bárust samgönguráðherra áskoranir frá um fjögur þúsund manns um nákvæma athugun á hugmynd nokkurra aðila um tvöföldun Reykjanesbrautar. Á árunum 1987–1992 voru þingsályktunartillögur, um tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, fluttar sex sinnum á Alþingi (sbr. Alþingi 1992). Á meðan umferðarþunginn jókst ár frá ári og þrátt fyrir tíð umferðarslys var lítið aðhafst.“

Nú er unnið að tvöföldun á síðasta Reykjanesbrautar millum Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar, þ.e. frá gatamótum Krýsuvíkurvegar og Hvassahraun. Framkvæmdunum á að vera lokið snemmsumars 2026.

Heimild:
-Reykjanesbrautin fyrr og nú – Birgitta María Vilbergsdóttir, Elín Ólafsdóttir og Karl Einar Óskarsson, Háskóli Íslands 2009.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut tvöfölduð ofan Straums.

Breiðagerði

Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, skrifaði um Vatnsleysströndina í Sunnudagsblað Tímans árið 1964 undir fyrirsögninni „Suður með sjó„:

Goðhóll

Goðhóll.

Byggðin á Vatnsleysuströnd skiptist í hverfi. Utan Strandarheiðar verður fyrst fyrir Kálfatjarnarhverfi, þá Þórustaðahverfi og Auðnahverfi, Kálfatjörn og kirkjustaður. Nafn á að vera dragið af því, að kálfar af sækúakyni eiga að hafa komið úr Naustakotstjörn við sjávargötu Kálftirninga. Í fornum máldaga er staðurinn nefndur Gálmatjörn, en það er marklaust nafnabrengl. Ekki vilja sagnir hlíta því, að kirkja hafi frá upphafi staðið að Kálfatjörn, heldur á hún að vera flutt þangað undan ágangi sjávar, annaðhvort frá Þórustöðum eða Bakka, austasta bænum í hverfinu. Sá bær var fluttur tvisvar undan sævarbroti á 18. öld.

Kálfatjörn

Kálfatjörn.

Að Kálfatjörn stendur ein af stærstu sveitakirkjum hér á landi. Hún var reist 1893, og voru þá rúmlega 900 manns í sókninni og um helmingi fleiri á vertíðum. Nú teljast sóknarbörnin um 370, og vermenn eru hættir að sækja á Vatnsleysuströnd. Þar var prestssetur til 1919, en þá var staðurinn gerður anniexía frá Görðum á Álftanesi og situr presturinn nú í Hafnarfirði.
Kirkjugarðurinn á Kálfatjörn er heimatilbúinn, mold hefur verið ekið í hann, til þess að unnt væri að grafa menn þar skikkanlega, en jarðvegur er víðast grunnur á Ströndinni.
kalfatjarnarkirkja-21Einn af Kálfatjarnarklerkum var Ámundi Ormsson, d. 1670. Á hans dögum bjó Björn Sturluson smiður á Bakka. Þeir voru báðir hagyrðingar. Björn var bendlaður við víg og óttaðist líflátsdóm, en var að lokum sýknaður.
Sveinbjörn Hallgrímsson er einn af mestu afreksmönnum, sem þjónað hafa Kálfatjarnarsókn. Hann vígðist aðstoðarprestur þangað 1842 og bjó í um skeið í Halakoti í Brunnastaðahverfi. Byltingarárið mikla 1848 stofnaði hann ásamt Páli Melsteð sagnfræðingi hálfsmánaðarblaðið Þjóðólf. Það varð langlífasta og eitthvert áhrifaríkasta málgagn, sem út hefur komið hér á landi.
KálfatjörnAðstoðarpresturinn frá Kálftjörn er fyrsti íslenzki blaðamaðurinn. Ármann á Alþingi, Fjölnir og Ný félagsrit voru gefin út í Kaupmannahöfn. Nú réðust Íslendingar heima fram á ritvöllinn, tóku að gagnrýna stjórnarvöldin, krefjast aukins þjóðfrelsis og lýðréttinda. „En látum oss þá vakna, Íslendingar, látum þjóðlyndi og þjóðrækni ná því valdi yfir hugum vorum, svo að vér álítum engin þau málefni oss óviðkomandi, sem að einhverju leyti horfa til heilla fyrir land vort.“ — Þannig hljóðar ávarp Sveinbjarnar ritstjóra í fyrsta tölublaði Þjóðólfs. Hann hefur eflaust hvatt sóknarbörn sín af stólnum í Kálfatjarnarkirkju til þjóðrækni, djörfungar og framtaks. Hann var ættaður úr Innri-Njarðvík, systursonur Sveinbjarnar Egilssonar rektors.
Holmfastskot-21Þingstaður hreppsins var að Kálfatjörn fram til ársins 1818. Þá voru hreppsþingstaðirnir að Kálfatjörn, Bæjarskerjum á Rosmhvalanesi og Járngerðarstöðum í Grindavík af lagðir, en þingstaður fyrir alla þrjá hreppana settur í Njarðvíkum. Þá voru Njarðvíkurnar einnig sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi, og hélzt það til 1885, en þá voru þær gerðar að hreppsfélagi með Keflavík. Þessar breytingar á hreppaskiptingu eru sprottnar af fólksfjölgun á Ströndinni á 19. öld. Á fornum þingstöðum hefur víða verið helgistaður í heiðnum sið, og svo mun einnig á Kálfatjörn. Nokkru fyrir vestan bæinn er hóll, Goðhóll, og stóð þar kot í eina tíð. Hér hefur sennilega staðið hof þeirra Strandara.

Hólmfastskot

Hólmfastskot (Bræðrakot).

Einn afburður á Kálfatjarnarþingi er frægur að endemum í Íslandssögunni. Árið 1698 seldi bóndinn á einni hjáleigunni á Brunnastöðum, Hólmfastur Guðmundsson, 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd í Keflavík, en samkvæmt kaupsvæðaskiptingu átti hann að verzla í Hafnarfirði. Kaupmaðurinn þar, Knud Storm, hafði ekki viljað nýta þessa vöru, en samt sem áður kærði hann Hólmfast fyrir verzlunarbrot og fékk hann dæmdan í háa sekt. Hólmfastur átti ekkert fémætt nema gamalt bátskrifli, og Knud Storm vildi ekki nýta það fremur en vöru bóndans og krafðist húðláts.

Aslaksstadir-23

Skúr austan Atlagerðis.

Var Hólmfastur bundinn við staur á Kálfatjarnarþingi og húðstrýktur miskunnarlaust að amtmanni viðstöddum, en því skotið til konungs, hvort hann skyldi ekki dæmdur til þrælkunar á Brimarhólmi. Hér var þó of langt gengið. Hinn danski lögmaður, Láritz Gottrúp, kærði meðferðina á Hólmfasti fyrir konungi, og síðar tóku þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín málið upp, og hlaut Hólmfastur nokkrar miskabætur. Eftir þetta var gerræði kaupmanna hnekkt að nokkru. Píslarnar við staurinn á Kálfatjarnarþingi voru ekki færðar til einskis.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hólmfastur; minnismerki.

Hólmfastur Guðmundsson býr á Bræðrakoti, hjáleigu frá Innri-Njarðvíkum, árið 1703 og telst þá 56 ára. Árið eftir strýkingu Hólmfasts (1699) fékk Knud Storm menn á Kálfatjarnarþingi til þess að veita sér siðferðisvottorð, þar sem segir m.a., „að Knud Storm hafi umgengizt frómlega og friðsamlega við sérhvern mann… og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér skylduglega viljum gjarna óska, að fyrr vel nefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessun sömu höndlan fram halda og hljóta (bæði hér á landi og annars staðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Kristum“.
LandakotLandakot er austast í Auðnahverfi. Þar bjó Guðmundur Brandsson, þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1849-1861. Á alþingi barðist hann einkum fyrir því, að öllum flóum og fjörðum yrði lokað fyrir erlendum fiskiskipum, en danska stjórnin var ekki mjög skelegg í landhelgismálum Íslendinga, eins og kunnugt er. Guðmundur drukknaði undan Flekkuvík við þriðja mann haustið 1861.
Á Auðnum bjó Guðmundur Guðmundsson, einn af gildustu bændum á Ströndinni seint á 19. öld, átti 8 til 10 báta, auk þess þilfarsbát og rak stórbú. Á einum af bátum hans reri Kristleifur Þorsteinsson fræði maður á Stóra-Kroppi 1882. Báturinn fórst í stórviðri út af Vogavíkinni. Kristleifur bjargaðist við annan mann, en 5 drukknuðu.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Stóra-Knarrarnes.

Knarrarnes, stóra og litla standa utan við Breiðagerðisvíkina. Við forna heimreið að Stóra-Knarrarnesi er grágrýtisbjarg og á það klöppuð þessi vísa:
„Seytján hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von; ~
svo þá gjörði sem hér stár,
sá hét Bjarni Eyjólfsson. Bjarni, sem rislaði sér við að festa nafn sitt á steininn, var gildur bóndi Á Knarrarnesi um 1700. Menn vilja eigna honum ýmsar steinsmíðar fornar, áletranir á legsteina og jafnvel hleðslu Staðarborgar.
Gerðistangaviti stendur yzt á Atlagerðistanga, reistur til þess að vísa skipum leið milli Keflavíkur og hafna í Innnesjum og bátum til strandar við Stakksfjörð.

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir.

Ásláksstaðahverfi stendur á tanganum inn af vitanum. Það var útvegur eins og annars staðar á ströndinni. Þar drápu klausturmenn úr Viðey danskan mann veturinn 1540, en sá hafði verið í flokki Diðriks af Mynden, er hann rændi Viðeyjarklaustur á hvítasunnunni sumarið áður. Þá þeir fóru í ver um veturinn, „fóru þeir í Vatnsleysu á skipi og gengu þaðan um nóttina á Ásláksstaði og drápu Jóachim.“ Hann var sá 13., sem tekinn var af lífi fyrir klausturránið. „Þótti mönnum það mikil og góð landhreinsun.“

Móakot

Móakot.

Á Ásláksstöðum stendur timburhús reist úr viði þeim, sem var á skipinu Jamestown, er strandaði í Höfnum 1881.
Á Þórustöðum og í Óttarsstaðahverfinu standa einnig hús, sem reist voru úr því timbri. Brunnastaðir voru metnir einna dýrastir jarða á Vatnsleysuströnd um miðja 19. öld. Þar var eitt bezta útræði á Ströndinni og skammt að sækja á stórgjöful mið. „Um miðja öldina voru margir bændur þar, en allir fátækir og reru hver hjá öðrum á tveggja manna förum, því að ekki áttu allir bát. En svo fluttust að Brunnastöðum tveir miklir athafnamenn, sinn á hvora hálflenduna, og þá skipti um.“
ÞórustaðirGuðmundur Ívarsson hét annar frá Skjaldarkoti í Kálfatjarnarhverfi. Um 1865-1870 lét hann smíða sér teinæring, og var það um skeið eitt bezta skipið við Faxaflóa. „Um 1880 átti Guðmundur auk þess 3—5 sex manna för. Var þá mannmargt hjá honum, allt að 50-60 manns í heimili, því að skipverjar höfðu allir aðsetur þar heima, því að verbúðir þekktust varla.“
Jón Breiðfjörð Jónsson hét hinn. Hann fluttist að Brunnastöðum um 1870 og Iét þá breyta áttæring í þilfarsbát. Um 1890 er talið, að hann hafi gert út 6—8 skip, en auk þess rak hann verzlun. Þá fóru erfið ár í hönd. Erlendir togarar streymdu inn á Faxaflóa, eyðilögðu bátamiðin og aflinn brást. Jón varð að taka 1000 króna bankalán og þótti það stórfé. Hann gat ekki staðið í skilum og varð gjaldþrota og dó skömmu síðar. Hann hafði hýst bæ sinn af stórmennsku, en eftir gjaldþrotið lentu eignirnar í braski og húsin brunnu 1905. Þá var uppgangstími Vatnsleysustrandar á enda um skeið.

Brunnastaðir

Barnaskóli var reistur að Brunnastöðum 1870-1872. Séra Stefán Thorarensen gekkst fyrir skólastofnuninni, og naut hún nokkurs styrks úr Thorchilliisjóði. Þar var Pétur Pétursson, faðir dr. Helga Pjeturs, kennari um skeið. Þetta er einn af elztu barnaskólum á landinu.
Bieringstangi er fyrir sunnan Brunnastaðahverfið, kenndur við Moritz W. Biering kaupmann (d. 1857). Þaðan hefur lengi verið stundað útræði, og þar er stærsta vörin á ströndinni. Um 1840 er þar risin fisktökustöð, salthús og fisktökuhús, sennilega frá Flensborgarverzluninni í Keflavík. Á lofti þeirra voru verbúðir, en í kring stóðu þurrabúðirnar Vorhús, Hausthús og fleiri. Einnig var þar önnur útgerðarstöð, Klapparholt. Eldra nafn á verstöð þessari er Tangabúðir.
bieringstangi-22Á Bieringstanga var reimt eins og á fleiri verstöðvum. Draugurinn var erlendur að uppruna, gekk með hvíta húfu, en ekki mórauða og var því nefndur Tanga-Hvítingur. Hann gerði mönnum ýmsar glettur eins og drauga er siður, og neyttu menn ýmissa bragða til þess að losna við kauða. Eitt sinn skaut bóndinn í Halakoti hann með úlfurhnappi, en það átti að vera draugum öruggt skeyti. Hvítingur sundraðist í eldglæringar við skotið, en skreið saman aftur og hélt uppteknum hætti fram um 1890, en hvarf um þær mundir að sögn.
HalakotHalakot er syðst í Brunnastaðahverfinu.
Þar bjó Ágúst Guðmundsson Ívarssonar á árunum frá 1910-1941. Eftir hann er greinagott rit um sjósókn og búskap á Vatnsleysuströnd á tímabilinu frá því um 1860 og fram um 1900. Hann var formaður frá 1888 til 1940 og missti aldrei mann í sjó og engin slys urðu á skipshöfn hans.
Stakksfjörður gengur inn úr Faxaflóa milli Keilisness og Stakks, kletts undan sunnanverðu Hólmsbergi norður af Keflavik. Á firði þessum voru fræg fiskimið og við hann stóðu og standa enn miklar verstöðvar.

Vogar

Minni-Vogavör.

Á Stakksfirði og undan ströndinni ræktuðu menn fiskimiðin í gamla daga engu síður en túnin. Flestir formenn sóttu á sín sérstöku mið og fluttu þangað slor, fiskúrgang, jafnvel hundsskrokka og annað þess kyns, sem til féll. Það var kallað að bera niður, og sævargróðrar hvatinn nefndist niðurburður, samanber áburður. „Öll þorskgota var borin niður þar á hraunið (Vogahraun) og mikið af slori, og fiskurinn hændist þar að niðurburðinum og varð mestur, þar sem mest var borið niður,“ segir Ágúst frá Halakoti. „Svo gjörðu margir fleiri meðfram öllum Strandarbrúnum og bættu veiðina.“ Ræningjafloti eyðilagði miðin um skeið, en verstöðvar hafa eflzt að nýju við Stakksfjörð á síðustu áratugum.
Vogar, dálítið þorp, stendur utan til við Vogavík. Þar er höfn, hafnargarður og bryggja, frystihús, söltunar- og fiskvinnslustöð. Þar eru gerðir út 2 til 3 vélbátar, 50—100 lestir að stærð. Útgerð hefur lagzt niður á Vatnsleysuströnd, en bændur þar hafa ekki með öllu slitið vinfengi við sjóinn. Synir sjósóknarans, Ágústs í Halakoti, stunda hér útgerð. Hér fjölgar íbúunum, þótt þeim fækki á Ströndinni og fornar útvegsjarðir eins og Stóra-Vatnsleysa og Flekkuvík leggist í eyði.
Storu-Vogar-22Höfuðbólið var Stóru-Vogar. Hét áður Kvíguvogar, kennt við sækýr eins og Kálfatjörn. Þar var kirkjustaður fram yfir siðaskipti. Kirkjuhóll nefnist hóll fyrir sunnan veginn, þar sem ekið er inn í Vogaþorpið. Þar á kirkjan að hafa staðið. Nú eru Stóru-Vogar í eyði, og mikill reykháfur trónar upp úr bæjarrústunum. Í túnfætinum ofan við vörina liggur steinn. Eitt sinn á skip Jóns Daníelssonar að hafa steytt á honum í lendingu. Á næsta flóði óð Jón bóndi eftir bjarginu, stakk sjóvettling í munn sér og orgaði ógurlega við átökin. Hér liggur það, einustu minjar um hinn jötuneflda Vogabónda. Minni-Vogar eru í byggð, og í landi þeirra standa fiskvinnslustöðvarnar nýju. Þannig fer um hverfula heimsins dýrð.

Storu-Vogar-25

Stóru-Vogar 1960.

Frændi og fóstri Steinunnar gömlu hét Eyvindur Honum gaf hún Vatnsleysustrandarhrepp, land milli Vogastapa og Hvassahrauns, fyrir alls ekki neitt. Hann bjó að Kvíguvogum.
Á Heiðarbæ i Þingvallasyeit bjó Hrolleifur Einarsson, Ölvissonar barnakarls. Ölvir, afi hans, hafði verið mikill víkingur, en skemmti sér ekki við það að henda börnum á spjótsoddum, eins og þá þar víkingasiður. Því hlaut hann auknefnið barnakarl. Heldur þótti Hrollleifi leið murtuveiðin á Þingvallavatni, sem reyndar hét Ölfusvatn í þann tíð, og lítið skyn bar hann á náttúrufegurðina þar efra. Hann bauð Eyvindi jarðaskipti, en skoraði hann á hólm, vildi hann ekki ganga að kaupunum. Ekki leizt Eyvindi ráðlegt að berjast við Hrolleif og fluttist að Heiðarbæ. Þar festi hann ekki yndi og leitaði að nýju á náðir Steinunnar frænku, en hún setti hann niður á Bæjarskerjum. Þannig hófst fólksflóttinn til Suðurnesja þegar á landnámsöld.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1965.

Í byrjun 18. aldar býr Jón Daníelsson hinn sterki í Stóru-Vogum (d. 1855). Hann keypti jörðina og sat þar fyrstur sjálfseignarbænda frá því á miðöldum. Jón lét smíða sér skútu og var aflasæll og auðugur og talinn fjölkunnugur. Hann á að hafa komið fyrir draugum, rekið illa anda úr mönnum og kunnað skil á töfrasteinum, sem gerðu menn fiskisæla. Þá sótti hann í„Mölvík undir Vogastapa. Sonur Jóns Daníelssonar var Magnús. Hann lærði siglingafræði og skipasmiðar i Kaupmannahöfn 1816 og var skipstjóri og skipasmiður í Vogum og tók sér ættarnafnið Waage. Sagt er að hann hafi smíðað „nálægt 100 róðrarskipa og báta og tvo þilfarsbáta frá stofni“. Hann varð fyrstur til þess hér á landi að rita um nauðsyn sjómannafræðslu og bauðst til þess að kenna mönnum fræði sín, en ekkert er vitað um það, á hvern hátt menn færðu sér það í nyt.

Þilskip

Þilskip.

Bændaánauð og einokun hafði sogið svo merg úr bændum við Faxaflóa, að þeir áttu varla sjófæra fleytu stærri en tveggja manna för, þegar líður á 18. öld. Þegar slakað var á ánauðinni og einokunarfjötrunum, færðist þegar nýr þróttur í atvinnulífið.
Þrír bændur urðu fyrstir til að rétta úr kútnum, hófu skipasmíðar og útgerð í miklu stærri stíl en áður hafði þekkzt. Jón Daníelsson í Vogum er frægastur, en nafni hans Sighvatsson í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvík tók að sér að smíða skútu með aðstoð Gísla Péturssonar, skipasmiðs á Óseyri við Hafnarfjörð, árið 1814.

stapinn-22

Stapinn; Brekka og Hólmurinn.

Ekki leizt nágrönnum hans gæfulega á þessar tiltektir kotbóndans, en hann lét hrakspár ekkert á sig fá, og þrem árum síðar hljóp fyrsta þilskipið af stokkunum í Njarðvík. Meðan Jón vann að smíði skipsins, dvaldist Jón Norðfjörð, sonur hans, í Kaupmannahöfn og lauk þar stýrimannsprófi 1817. Hann stýrði skútu föður síns fyrstu árin, en síðar tók bróðir hans, Pétur við stjórninni.
Ari Jónsson, bóndi í Innri-Njarðvík, gerðist þriðji bilskipseigandinn við Vogastapa. Árið 1818 eiga skip þessara þriggja bænda öll að hafa verið við veiðar og reynzt mestu happaskip. Þau voru smá, ekki mikið yfir 10 lestir, en boðuðu þó þáttaskil í fiskveiðum Íslendinga. Í kjölfar þeirra sigldu stærri skútur, þegar leið á öldina. Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti …er fyrsti kotungurinn hér syðra, sem hófst algerlega af sjálfum sér, alinn upp í fátækt, og varð einn af gildustu útvegsbændum. Gengi bænda við Vogastapa kveikti mönnum vonir um betri daga á Íslandi.

Skúta

Skúta.

Skútuöldin við Faxaflóa hefst í Vogum árið 1863. Þá keypti Egill Hallgrímsson bóndi í Austurkoti ásamt öðrum félögum sínum í hreppnum skútuna Lovísu um 45 rúmlestir að stærð. Í Vogum er bezt höfn frá náttúrunnar hendi við Vatnsleysuströnd og eina bjarglega skútuhöfnin. Lovísa og aðrar skútur þeira Vogamanna efldu hér stórútgerðarstöð.
Þilskipin, sem þeir Jón Daníelsson létu smíða og smíðuðu um 1817, voru bátar ekki haffærandi. Þau voru þáttur í miklum vexti bátaflotans á fyrri helmingi 19. aldar og lögðu grunn að skútuöldinni, næsta stigi í fiskveiðasögu íslendinga.
Egill Hallgrímsson (1817—’83) gerði út marga báta, að sögn, rak lýsisvinnslu, fisk- og saltverzlun og hafði margt í vöfunum. Hann hafði Lovísu í beinum siglingum til Spánar, sendi þangað fisk og keypti salt. Árið 1870 tók sonur hans, Klemenz við skipstjórninni, en hann var einn af mestu sjósóknurum á Suðurnesjum um sína daga.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

Einn af landsetum Egils var Nikulás Jónsson í Norðurkoti. Hann gerði út áttæring og sexmannaför, 5—6. Bátaútvegurinn hélt velli, þótt skútur bættust í hóp fiskiskipa. Það var skammt á miðin og uppgripaafli oft á tíðum. Ágúst í Halakoti segir, að þorskur hafi gengið „alla leið inn undir lendinguna á Hólmanum undir Grímshól og Mölvík og allt Hólhraunið og upp undir Stapann og Vogabrúnir. Á öllu þessu svæði var oft svo mikill fiskur í þorskanet, að daglega var þangað sótt fullfermi og sum skip tvær til þrjár hleðslur á dag bæði í net og á færi, og var hvergi jafnstór fiskur sem þarna undir Stapanum, á Vogabrúnum og um allt Vogahraun“.
Árið 1892 átti Klemenz Egilsson í Minni-Vogum nýjan áttæring. Þá var slíkt mokfiski undir Stapanum, að skipshluturinn greiddi bátsverðið á einni vertíð. En þar með var lokið auðsæld gullkistunnar, en óvæntir atburðir fóru í hönd. Þessi afli lifir enn í minni Vogamanna, og þeir kenna togveiðum um, að hann er þrotinn.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Kristjánstangi gengur út í miðja Vogavík. Þar stóð salthús í eina tíð. Vogastapi, grágrýtisberg, hefst utan Vogavíkur, um 80 m. á hæð. Stapinn nefnist Kvíguvágabjörg í Landnámu, en Gullkistan í sóknarlýsingum 19. aldar „af því mikla fiskiríi, er tíðkað var á færi í hrauninu þar rétt upp undir“. Skúli Magnússon landfógeti segir um 1785: „Nú á tímum eru beztu fiskimið í Gullbringusýslu á vetrarvertíð á svæðinu frá Keflavík um Njarðvík, Stapa og inn eftir ströndinni til Brunnastaða. En bezt eru þau talin undir Stapa, þar sem þorskurinn gýtur jafnvel á þriggja faðma dýpi, tekur hann þar bezt beitu að næturlagi, þegar dimmt er. Þarna hafa fiskiveiðar tekið miklum framförum síðan 1756, vegna þess að þorskanet hafa verið tekin í notkun.
Ágúst frá Halakoti segir, að það hafi verið gaman að róa undir Vogastapa, „að skríða þar út með landinu í lygnum og sléttum sjó og taka svo nógan, fetan og stóran þorsk í netin. – – – Það verður tæplega sagt um of af þeirrí fiskimergð, sem gekk sum árin undir Vogastapa, enda var hann áður fyrr kallaður Gullkista Íslands og bar það nafn með rentu.“ Hann telur, að á árunum frá 1870-’94 hafi gengið um 200 skip úr Brunnastaðahverfinu, Vogum og Njarðvíkum. „Þegar fiskur var kominn undir Stapann, þá sóttu allir þangað, — sömuleiðis allir Vatnsleysingar, ef ekki var fiskur á Vatnsleysuvík. Var því oft ærið þéttskipað, þegar allir voru komnir undir Stapann.“

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Kvíjuvogabjörg hlutu að nafnfesti þjóðsöguna um Marbendil og sækýrnar. Löngum hefur margs konar hjátrú verið tengd Vogastapa, hann verið talinn bústaður álfa, og þar hefur þótt reimt. Margir urðu úti á Stapanum og hröpuðu fyrir björg, og eiga þeir að vera þar enn á flökti. Stapadraugar eru taldir með afbrigðum kurteisir, taka jafnvel ofan höfuðið fyrir tækni nútímans.
Grímshóll heitir efsta bunga Stapans. Hann á að vera kenndur við Grím Rangæing, sem varð eftir af vermönnum og réðst til vistar hjá Stapabónda og gekk þar að eiga heimasætuna.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Undir Vogastapa er dálítið undirlendi, ef að er gáð, en hefur verið miklu meira áður, því að sjór hefur brotið hér land.
Hólmbúðir eru forn verstöð undir Stapa. Hólminn er nes, sem gengur út í Vogavík gegnt Vogabæjum. Þar eru rústir af fornum fiskbyrgjum, grjótgörðum (fiskgörðum), „anleggshúsum“ Knudtzons gróssera reistum á 4. tug síðustu aldar, og þurrabúð, sem stofnuð var þar 1830. „Anlegg“ nefndust salt- og fisktökuhús
stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er, að hér hafi verið gerðir út 18 til 20 bátar, þegar bezt lét á síðustu öld. Um 1900 lagðist Hólminn í eyði um skeið, unz Haraldur Böðvarsson hóf þar útgerð 8 lesta báts. Mjór er mikils vísir. Þetta var upphafið að útgerð Haralds Böðvarssonar á Akranesi, en í Hólmanum starfaði hann aðeins í þrjú ár.

Brekka

Brekka undir Stapa 1928.

Þurrabúðir stóðu á strandræmunni undir berginu, og urðu sumar að grasbýlunum um það er lauk. Brekka, reist árið 1848, hélzt í byggð fram um 1930. en þá flutti síðasti búandinn þaðan og reisti sér hús í Vogum. Það er fyrsta „þurrabúðin“ sem rís þar í hverfinu á þessari öld. Stapabúð, reist 1872. Þar var búið til 1896, og hefur búðin hangið uppi að nokkru tii skamms tíms. Kerlingabúðir voru nokkru utar. Um Reiðskarð lágu fornu reiðgöturnar upp Stapann. Kvennagönguskarð er utar, liggur um grasigróna brekku. Brekkuskarð er utan við Hólm og Rauðastígur nokkru utar.
Mölvík er undan Grímshóli. Þar var uppgripanetaveiði, og þar tíndi Jón Daníelsson töfrasteina mönnum til fiskisældar.
Hinn blómlegi útvegur við Vogastapa hlaut snögg endalok árið 1894.
„Þá komu togararnir hér, fóru á grynnstu mið og sópuðu á burt öllu lifandi úr sjónum, svo að fjöldi manna varð að flýja úr beztu veiðistöð þessa lands, sem var við sunnanverðan Faxaflóa allt að Garðskaga.

Stapakot

Stapabúð undir Stapa.

— Þess vegna voru 1000 netakúlur seldar á uppboði eftir Guðna Jónsson á Brekku á 5 krónur, og stórjörðin Stóru-Vogar var boðin upp til skuldalúkningar á 2000 króna láni í Landsbankanum, og enginn bauð yfir það. — Þannig var hernám Engiendinga við Faxaflóa 1895.
—Hvernig því lyktar það herrans ár 1940, get ég engu um spáð“. segir Ágúst Guðmundsson.
Annar sjósóknari af Vatnsleysuströnd, Benjamín Halldórsson frá Naustakoti, segir, að oft hafi mátt telja á Vogavík 50-100 enska togara, sem leitað höfðu vars undan ofviðrum, en stunduðu veiðar á Faxaflóa. Á leiðinni út köstuðu þeir á víkinni og toguðu frá landi.
reidskard-25Eitt sinn strandaði enskur togari upp í fjöru undan Útskálum með vörpuna aftan í sér. Þetta var á aðfangadagskvöld. Skipverjar sáu ljósadýrð í kirkjunni og héldu, að þar væri togari í aðgerð og stefndu þangað. Þá var strandgæzla nær engin, svo að bændur voru varnarlausir gegn þeim ræningjum, sem óðu að landi og eyddu byggðina. Aðgerðarlausir vildu þeir þó ekki vera. Þeir fluttu hraungrýti út á miðin í þeirri von, að það eyðilegði vörpurnar, en ekki bægði það veiðiþjófum frá landi. Það er ekki mjög blómlegt umhorfs á Vatnsleysuströnd: byggðin er slitin, stórbýli í eyði og húsakostur á sumum jörðum lítt breyttur frá því í lok 19. aldar.
VogarHér hefði orðið samfelld byggð og borg stæði í Vogum, ef ræningjaflotinn hefði ekki lagzt að landi. Nú flosnuðu menn upp og flýðu byggðina, en miðin, sem þeir höfðu ræktað um aldir, lögðust i örtröð og auðn.
Gildustu útvegsbændur þraukuðu aflaleysið, keyptu sér skútur og sóttu dýpra, og síðar hófst vélbátaútvegur. Fyrsta vélbátinn keypti Ásmundur Árnason í Hábæ í Vogum árið 1907. Vogamenn höfðu verið brautryðjendur í þilskipaútgerð, en nú voru þeir orðnir eftirbátar annarra, eins og bezt sést á því, að vélbátaútvegur hófst hér á landi 1902 og efldist mjög á næstu árum, en vélbátar náðu ekki til Voga fyrr en 5 árum síðar. Hin fisksælu mið voru þrotin og útgerð gekk illa.
VogarÁ styrjaldarárunum glæddist afli að nýju, og um 1920 eignuðust bændur á ströndinni trillubáta. Ekki varð sú útgerð þeim mikil féþúfa. Það er fyrst með tilkomu 25 til 50 lesta vélbáta um 1940, að útgerðin tók að hjarna við að nýju í Vogunum. Í hönd fóru friðunarár heimsstyrjaldar innar. Þegar togaraflotinn birtist að nýju og allt sótti í sama horfið og áður, var Faxaflóa lokað fyrir togveiðum árið 1952 og fiskveiðilandhelgin færð út 1958. í Vogum hefur risið upp vísir að þorpi. en bílabrautin nýja sneiðir þar hjá garði, og íbúarnir eru uggandi um, að straumur tímans muni fylgja brautinni til bæjanna fyrir utan Vogastapa.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 20. sept. 1964, bls. 880-883.

Breiðagerði

Við lendingu Breiðagerðis.