Bessastaðir

Einar Laxness skrifar í  Sögu árið 1977 um „Konungsgarðinn á Bessastöðum„; „Plan og Prospect af Bessesteds kongsgaard“, árið 1720:
Bessastadir 1789„Bessastaðir á Álftanesi komust í eigu Noregskonungs á miðri 13. öld, þegar eignir Snorra Sturlusonar voru gerðar upptækar eftir dráp hans. Á miðri 14. öld mun staðurinn hafa orðið það, sem síðar var nefnt „konungsgarður“, þ. e. embættisaðsetur æðsta erlenda fulltrúa konungs á Íslandi, hirðstjóra, síðar höfuðsmanns, eða umboðsmanns hans, svonefnds fógeta. Íslenzkir menn, sem höfðu hirðstjóravöld, sátu á höfuðbólum sínum.
Eftir einveldistöku í Danmörku 1661 og erfðahyllingu í Kópavogi 1662 urðu breytingar í stjórnsýslu á Íslandi, sem komust í framkvæmd á árunum 1683—88. Þá var í stað höfuðsmanns skipaður landfógeti 1683 til að annast fjármál og verzlun og stiftamtmaður (stiftbefalingsmaður) 1684 til að annast æðstu stjórn Íslandsmála í umboði konungs. Þar sem embætti stiftamtmanns var í upphafi einungis tignarstaða, sem í var skipaður Ulrik Christian Gyldenlove, 5 ára gamall launsonur Kristjáns konungs V., var sérstakur fulltrúi hans, amtmaður, skipaður 1688 með búsetu á Íslandi og skyldi annast dómsmál og kirkjumál. Þessir tveir embættismenn, landfógeti og amtmaður, áttu báðir að hafa aðsetur í konungsgarði á Bessastöðum. Má því gera ráð fyrir, að þar hafi löngum verið veglegri húsakynni en annars staðar á landinu.
bessastadir 19. oldUm 1720 var svo komið, að konungsgarður var í mjög bágbornu ástandi. Það staðfestir sú lýsing, sem Peder Raben stiftamtmaður hefur komið á framfæri við konung í gegnum rentukammer í Kaupmannahöfn, en amtmaður var þá Niels Fuhrmann og landfógeti Cornelius Wulf. Í skjölum rentukammers frá þessum árum er að finna uppdrátt af Bessastöðum, — „plan og prospect af Bessesteds kongsgaard“, — sem sýnir glögglega húsaskipan á þessum tíma á staðnum. Í hinum dönsku skýringum við uppdráttinn eru öll uppistandandi íveruhús, svo og kirkja, sögð „brostfældig“, þ.e. hrörleg, svo að þau eru næsta ónothæf. Ennfremur er þarna að finna teikningu af nýrri byggingu, sem gerð er tillaga um að reisa. Þessar myndir, sem ekki hafa birzt áður, fylgja hér með, lesendum Sögu til fróðleiks um það, hvernig konungsgarður á Bessastöðum leit út á öndverðri 18. öld. Þær eru varðveittar á Þjóðskjalasafni.
bessastadir nuAfleiðing umkvartana stiftamtmanns um slæmt ástand húsa á Bessastöðum, leiddi einungis til þess, að reist var nýtt timburhús á árunum 1721—25 (fyrir rúmlega 1000 ríkisdali); um það bil tveimur áratugum síðar var ástand þess orðið svo slæmt, að þar fóru fram endurbætur (fyrir um 1500 rd.) 1748—52. Ekki voru þær endurbætur til frambúðar, því að 1760 var ákveðið að reisa nýtt hús úr steini fyrir amtmann einan, þar sem landfógeti (Skúli Magnússon) hafði fengið byggða Viðey og stjórnin látið reisa þar stórhýsi (1752—54). Þannig reis hin nýja Bessastaðastofa á árunum 1761—66, sem hýsti amtmann og frá 1770 stiftamtmann til 1805, þegar latínuskólinn var þangað fluttur, en stiftamtmaður hvarf til Reykjavíkur; þessi Bessastaðastofa stendur enn, nú sem forsetasetur.
Kirkjan á Bessastöðum, sem sést á uppdrættinum, mun reist um 1620 og hlaut gagngerðar endurbætur síðar á 17. öld. 1720 er henni lýst, eins og öðrum staðarhúsum, sem „brastfældig“. Samt stóð þessi kirkja uppi lengi enn, því að nýju steinkirkjunni, sem ákveðið var að reisa 1773, var ekki lokið fyrr en upp úr 1790, og í raun ekki fullgerð fyrr en um 1820. Er það sú kirkja, sem enn stendur.

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Skýringar á dönsku, sem fylgja uppdrætti af konungsgarði
á Bessastöðum 1720 (stafrétt):
A. Amptmandens Huus, som hand boer udi, er bögt af Tömmer og Deler, er Gammelt og megit bröstfeldig.
B. og C er tuende öde Pladser huor paa har Staaet huuse til forne Amptmanden tilhörte.
D. huus for Amptmandens Folk, Opbögt af Jord og Steen, mens formedelst dets Bröstfeldighed, bliver neppe halfdeelen nötted.
E. et huus huor udi har veret en mölle tilforne huuset er böggit af Steen og Jord, dog Saaledis forfaldet at det snart af ingen nottis.
F. Landfogdens huus huor udi hand Boer er bogit af Jord og Tömmer, er gammelt og megit bröstfeldig.

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

G. Kaldis St. Nicolay Kierke er bogt af Tre og Deler, megit forfalden og bröstfaldig.
h. Indgangen till Kongsgaarden.
i. Dören paa Amptmandens huus.
k. Dören till Möllehuuset.
1. Dören till Amptmandens Folkes huus.
m. Dören till Landfogdens huus.
n. Denn Store kierke Dör.
o. Een liden dör paa Kierken.
p. Een liden opkastning af Jord, om kring Kierken, som giör Kirkegaarden.
q. Tuende—Jordhöyer, saaledis opkasted Jefnsides af huerandre, med en gang imellem dem lige for Kierke Dören.“

Heimild:
-Saga, 15. árg. 1977, Einar Laxnes, bls. 223-226.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gránuhellir

Gengið var um Brunatorfur (Brunntorfur/Brundtorfur) með það fyrir augum að koma við í nálægum seljum, Fornaseli og Gjáseli, og reyna að endurfinna Gránuhelli; fornt fjárskjól, sem getið er um í örnefnalýsingu.
GjaselFERLIR fann hellinn fyrir nokkrum árum, en týndi honum síðan aftur. Mjög erfitt er að staðsetja opið, einkum þegar allt er gróið að sumri til, en því auðveldara að vetrarlagi. Landslagið þarna er keimlíkt; mosa- og kjarrvaxnir hraunhólar og – hryggir. Hlaðinn gangur er framan við opið á hellinum og inni er rými fyrir u.þ.b. þrjátíu kindur. Birkihríslur eru við opið og þekja þær innganginn að hluta.
Síðan hefur verið farið tíu sinnum á vettvang með það að markmiði að reyna að staðsetja opið, en án árangurs.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a. um selin: „Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnar-holtsvörðu lá landamerkjalínan…

Granuhellir-2

Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.“
Hér er augljóslega um nokkra misvíxlun að ræða. Í fyrsta lagi er nöfnum seljanna ruglað saman, nema hér sé um sannnefni að ræða og aðrar lýsingar séu rangar. Sannanlega lítur Gjáselið út fyrir að vera eldra en Fornasel af ummerkjum að dæma. Litlaholt er suðvestur af Gjáseli en ekki Fornaseli. Rústir kvía eru norðan undan núverandi Gjáseli, en slíkar eru sunnan við Fornasel. Ef tekið er mið af því að Gjásel hafi verið Fornasel ætti Gránuhellir suður og upp af selinu (Fornaseli skv. örnefnalýsingu). Ekki er loku fyrir það skotið að hellir kunni að leynast suður af Fornaseli og að Gránuhellir, sem fannst og leitað var að nú, kunni að vera gleymdur fjárhellir.

Gjasel-3

Ummerki við hann benda frekar til þess. Leitað hefur verið að meintum helli suður af Fornaseli, en hann ekki fundist (fram að þessu a.m.k. hvað sem síðar verður). Mjög erfitt er að finna skjólin í hrauninu vegna þess hversu smáholt eru mörg og sprungin og jarðföll víða.
Eftir u.þ.b. tveggja klst. leit sunnan og vestan við Gjásel, fannst „Gránuhellir“ loks vestnorðvestur af því. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hlaðna ganginum niður í hellinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Gránuskúti

Í Gránuhelli.

 

Garðar

Stefán Júlíusson skrifaði í Alþýðublaðið árið 1958 um „Garða á Álftanesi„:
„Fyrir nokkru var ég beðinn að tala á samkomu í, félagsheimilinu á Garðaholti, og var þess helzt óskað, að ég segði eitthvað frá Görðum á Álftanesi. Eg varð við þeim tilmælum og flutti þar óskrifaða og sundurlausa pistla um staðinn eftir prentuðum heimildum. Nú hef ég hripað inntakið í rabbi þessu Gardakirkja-21niður og birtist það hér. Aðeins vil ég taka það skýrt fram, að ég er enginn fræðimaður, og því ber ekki að líta á þetta sem ritgerð, heldur er hér á ferðinni leikmannsþáttur um merkan stað. —
Garðar á Álftanesi hafa löngum verið ein mesta jörð á Innnesjum, og í margar aldir þótti Garðaprestakall eitt af vildarbrauðum hér á landi. Vafalaust hefur það verið að miklu leyti vegna útræðis, en útræði hefur verið frá Görðum, Álftanesi og Hafnarfirði svo lengi sem sögur herma; Garðar, ásamt býlunum í kring, mynda heilt byggðarhverfi, sem ávallt er kallað Garðahverfi. Þessi býli eru öll gamlar hjáleigur frá Görðum, og hafa þau verið milli tíu og tuttugu. En ýmis önnur býli í Garðahreppi voru einnig eign Garðakirkju, enda lítur helzt út fyrir, að kirkjan hafi um eitt skeið átt mestan hluta hreppsins.
Garðar á Álftanesi eru ekki nefndir í Landnámu, en um landnám á þessum slóðum segir svo: „Ásbjörn hét maður Özurarson, bróðurson Ingólfs. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.“ Um Ásbjörn segir ekki meira í Landnámu, en minnzt er þar á, að einn afkomandi hans hafi búið á Seltjarnarnesi. Ekki er líklegt, að Ingólfur Arnarson hafi gefið svo nánum frænda sínum, sem Ásbjörn var, lélegt land, jafnvel þó hann hafi kosið að hafa hann nálægt sér. Þótt hraun hafi þá verið í upplandi Ásbjarnar eigi síður en nú, hefur „Álftanes allt“ verið hlunnindaland, ekki sízt fyrir sjósóknara. Og öll holtin beggja vegna Hafnarfjarðarhrauns og eins Garðaholt, hafa þá verið viði vaxin.
Gardakirkja - 22Það furðulega í þessum fræðum er, að Skúlastaðir fyrirfinnast hvergi í landnámi Ásbjarnar
Özurarsonar. Hefur þetta verið mönnum ráðgáta löngum, og ýmsum getum hefur verið að því leitt, hver hafi verið landnámsjörðin. Hafa ýmsir viljað halda Bessastöðum fram, en aðrir hallast að minni jörðum og ómerkari. Allt frá því ég fór að leiða hugann að þessum efnum, hefur mér þótt einsætt, að Garðar væru landnámsjörðin. Þetta var aðeins leikmannstilgáta, dregin af aðstæðum og landslagi, en aldrei hef ég getað sleppt þessari hugmynd, þótt ýmsir hafi statt og stöðugt haldið öðru fram. Sú gáta verður aftur á móti aldrei ráðin, hvernig Skúlastaðir háfa breytzt í Garða, ef hér er þá ekki um einskæra villu að ræða í Landnámu. Vera má einnig,að bærinn hafi verið nefndur svo um skeið, og þá einmitt á þeim tíma, er höfundur Landnámu þekkti til.
Eg átti margar ferðir hjá Görðum í uppvexti mínum á leið „fram á Álftanes“, en ég ólst upp í hrauninu nálægt miðju vegar milli Hafnarfjarðar og Garða. Aldrei taldi ég þá Garða vera á Álftanesi, því að innnesið var almennt talið byrja vestan Álamýrar og Selskarðs.
Hins vegar sá ég þetta í bókum og þótti skrýtið. En þótt vegur Bessastaða væri þá þegar orðinn meiri, en Garðar að setja ofan, fannst mér alltaf meira til Garða koma. Mér þótti sennilegt, að einmitt þar hefði frændi Ingólfs, landnámsmaðurinn Ásbjörn Özurarson, viljað búa, Staðurinn blasir við sól og firði, að baki bungumyndað holt, skógi vaxið á landnámstíð; víðsýnt er og fagurt heima á staðnum, sér inn til fjalla, út á flóann og „fram á nes“. Þetta var kjörið bæjarstæði landnámsmanns. Auk þess eru Garðar svo að segja í miðju landnámi Ásbjarnar, en Álftanesið hlýtur að hafa talizt byggilegasta skákin í því. Og nafngiftin, Garðar á Álftanesi, virtist einmitt benda til þess, að höfuðbólið ætti nesið allt.
Eitthvað á þessa lund voru æskuhugmyndir mínar um Garða sem landnámsjörðina, en nú hefur merkur fræðimaður í þessum efnum, Magnús Már Lárusson prófessor, í rauninni tekið af skarið. Hann segir svo í grein, sem hann reit í síðasta jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar: „Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar — „.
Fram til ársins 1891 var allt það land, sem nú er Bessastaða hreppur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, einn hreppur, og hét hann Álftnesheppur. Náði hann þannig yfir allt landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frá Hvassahrauni að Hraunsholtslæk, og þó heldur betur, því að enn eru býlin Vífilsstaðir, Hofsstaðir og Arnarnes í Garðahreppi. Hafa þessi býli vafalaust fallið undir Garðakirkju síðar. Þegar Álftaneshreppi var skipt árið 1891 í Garða- og Bessastaðahrepp, hef ur verið farið að líta á Bessastaðahrepp einan sem Álftanes, og þannig er það í rauninhi kallað nú, en hið forna Álftanes hefur verið milli Hafnarfjarðarbotns og Arnarvogs, eða vestan vegarins, þar sem hann liggur frá Hafnarfirði að Silfurtúni. Eins verður ekki fram hjá því gengið, að Bessastaðakirkja hefur jafnan verið útkirkja frá Görðum, en í Görðum hafa margir höfuðklerkar setið öld fram af öld.
Gardakirkja-23Hér verður ekki á nokkurn hátt leitazt við að rekja sögu Garða á Álftanesi. Samt langar mig til að stikla hér á stóru í persónusögu staðarins, þó aðeins eftir prentuðum heimildum, enda nægir það til að sýna, hvert höfuðból og merkiskirkju staður jörðin hefur verið frá öndverðu.
Garðar á Álftanesi munu aðeins vera nefndir í einni Íslendingasögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem gerist um miðja 10. öld. Þar er sagt, að Þormóður búi í Görðum á Álftanesi. „Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar frá Borg.“ Hrafnkatla mun yfirleitt talin skáldsaga, skrifuð á ofanverðri 13. öld, en samt verður það ljóst af þessu, að höfundi hefur fundizt sjálfsagt, að í Görðum byggju merkismenn, sem tengdir voru sjálfum Mýramönnum.
Í Sturlungu er Garða á Álftanesi að minnsta kosti tvívegis getið. Í Þórðar sögu kakala stendur svo: „Þenna vetur var Þórður Bjarnarson í Görðum með Einari Ormssyni, frænda sínum. Hann hafði verit með Órækju í Reykjaholti at drápa Klængs Bjarnarsonar. Ormr Bjarnarson reið við tólfta mann í Garða til Einars. Komu þeir þar síð um kveldit í þann tíma, er þeir Einarr ok Þórður ætluðu at ganga til baðs. Tóku þeir Ormr Þórð þar höndum. Leiddu þeir hann þá inn til stofu. Þórðr varð við alla vega sem bezt ok bauð fyrir sig allt þat, er honum sómdi. En þá er hann sá, at Ormr vildi ekki annat hafa en líf hans, þá beiddist hann prestfundar. Ok svá var gert. Eftir þat var hann leiddr í ytri stofuna. Lagðist Þórðr þá niðropinn ok bað þá hyggja at, hvárt honum blöskraði nökkut. Ormr fekk þá mann til at höggva hann. Sá hét Einarr munkr. Eftir þat reið Ormr heim austr á Breiðabólstað.“
Þessi atburður gerðist árið 1243. Af frásögninni má fá ýmsar upplýsingar um staðinn. Bóndinn, Einar Ormsson, er Svínfellingur að ætt, afkomandi Flosi Þórðarsonar, eða Brennu-Flosa. Voru þeir Svínfellingar mikils háttar menn, enda ein merkasta ætt á Sturlungaöld. Er því fullvíst, að Garðar hafa verið stórbýli, er svo ættgöfugur maður bjó þar. Þá kemur fram að kirkja er á staðnum, og þar er prestur. Ekki er líklegt, að kirkjan hafi verið nýreist, enda má gera ráð fyrir, að kirkja hafi mjög fljótlega verið reist á þessu forna höfuðbóli. Hins vegar er bóndinn ekki prestur, heldur hefur hann prest, en það var stórbændasiður á fyrstu öldum kristninnar á landi hér. Á öðrum stað í Sturlungu, Íslendingabók, stendur svo: „Gizurr jarl reið suðr á Kjalarnes ok gisti í Görðum á Álftanesi at Einars bónda Ormssonar. Var honum þar vel fagnat ok var þar nokkurar nætr.“
Þessi atburður gerðist árið 1264. Eru nú liðin tuttugu ár frá því, sem um getur í fyrri tilvitnunni, og enn er Einar Ormsson bóndi í Görðum. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, að hann hefur verið stórbóndi, því að varla hefur Gizur jarl gist nema á höfuðbólum. Ekki er þess getið, hvernig Einar fékk Garða til ábúðar, enda skiptir það ekki máli fyrir það efni, sem verið er að leitast við að draga hér fram: Garðar á Álftanesi voru; mikið höfuðból á Sturlungaöld.

gardakirkja-24

Vera má, að ætt Ásbjarnar landnámsmanns hafi skipt á Görðum og annarri jörð, t.d. á Seltjarnarnesi, nema Einar hafi verið kvæntur inn í ættina eða tengdur henni á annan hátt. Garða ef ekki mikið getið í prentuðum heimildum á næstu öldum, en þó koma þeir allmikið við sögu í deilumálum Staða-Árna biskups Þorlákssonar við leikmenn á ofanverðri 3. öld. Þessar deilur voru sem kunnugt er um það, hvort kirkjan skyldi eiga jörðina, þar sem, hún stóð, og aðrar jarðir, sem undir kirkjustaðinn lágu. Í Árna biskups sögu eru Garðar ávallt kallaðir Garðastaður, og eru þeir nefndir í sömu andrá og merkustu kirkjustaðir landsins á þeirri tíð. Settust leikmenn og klerkar á jörðina á víxl, eftir því hvorum veitti betur, Árna biskupi eða foringja leikmanna, Hrafni Oddssyni. Þessir atburðir hafa gerzt eftir daga Einars bónda Ormssonar. Gera má fastlega ráð fyrir því, að prestur hafi verið ábúandi í Görðum frá því staðamálum lauk fyrir 1300 til ársins 1928. En átökin um Garða síðast á 13. öld benda til þess, að kirkjan hafi þá þegar átt nokkurn hluta jarðarinnar og fleiri jarðir í kring. Og upp úr þessu tóku kennimenn að gerast héraðshöfðingjar og stórbændur.
Um siðaskiptin situr í Görðum sr. Einar Ólafsson, umboðs maður Skálholtsbiskups, þ.e. síðasta kaþólska biskupsins, Ögmundar Eálssonar, og hins fyrsta lúterska, Gizurar Einarssonar. Þá átti Skálholtskirkja orðið víða ítök, enda segir Magnús Már Lárusson prófessor í fyrrnefndri grein, að Skálholtskirkja hafi eignazt nokkrar minni jarðanna í Álftaneshreppi þegar um 1200. Einar Ólafsson var fyrst prestur í Nesi við Seltjörn, síðan í Laugarnesi, en fluttist þá að Görðum og var þar prestur í 21 ár, eða þar til hann gerðist ráðsmaður í Skálholti árið 1552. Það er eftirtakanlegt, að hann sækir að Görðum frá Nesi og Laugarnesi, en báðar þessar jarðir voru vildar setur fyrr á tímum.
Eftir siðaskipti sitja margir frægir klerkar Garðastað, og verða nú heimildir auðugri. Hér verður þó aðeins hlaupið á nokkrum staksteinum, ella yrði of langt að rekja. Fyrst skal getið tveggja nafnkunnra feðga, sr. Þorkels Arngrímssonar og Jóns biskups Vídalíns. Sr. Þorkell var sonur Arngríms lærða Jónssonar, sem einna frægastur var Íslendinga á sinni tíð, vegna vináttu við og embætti fyrir Guðbrand biskup Þorláksson og varnar- og kynnisrit hans á latínu um Ísland og Íslendinga. Var sr. Þorkell fyrsti lærði íslenzki læknirinn, en hann var prestur í Görðum frá 1658 til dauðadags 1677. Nam hann læknisfræði í Kaupmannahöfn og Noregi og e.t.v. víðar og fékkst nokkuð við lækningar. Um hann hefur Vilmundur landlæknir Jónsson skrifað merka bók, Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar, sem Háskóli Íslands mun hafa tekið gilda sem doktorsritgerð, en landlæknir hirti ekki að verja, Sr. Þorkell átti þrjá syni, sem allir voru miklir lærdóms- og merkismenn, og allir fæddir í Görðum.
Þeir gardakirkja-26voru: Þórður, sem fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði, síðar rektor í Skálholti, en mikið orð fór af lækningum hans, Jón biskup Vídalín og Arngrímur, rektor í Danmörk, sem dó ungur. Þeir foræður voru allir miklir gáfu- og atgervismenn og skáld góð, en ekki að sama skapi gæfumenn; voru þeir drykkfelldir nokkuð, og Þórður læknir þó mest, en svo var faðir þeirra einnig. Jón Vídalín var prestur í Görðum í þrjú ár, en var þó löngum aðstoðarmaður biskups í Skálholti, enda fór hann frá Görðum í Skálholt árið 1698. Í Ferðabók Sveins Pálssonar segir svo á einum stað (október 1791): „Eftir skamma dvöl á Bessastöðum fór ég að Görðum. Þar (þ.e í Görðum), á Bessastöðum, í Nesi hjá Birni lyfsala og í Reykjavík hjá Scheel fangaverði eru beztir matjurtagarðar og þessar slóðir. (Markús) prófastur Magnússon í Görðum hefur meira að segja fengið flestalla bændur í sóknum sínum til að gera kálgarða, og sjá þeir sér auðvitað hag í því. Hann er áreiðanlega beztur búhöldur hér sunnan lands — án þess þó, að embættisrekstur hans bíði nokkurt tjón við það. -Meðal annars hefur að hans ráðum verið gert hið fyrsta helluþak á Íslandi í hina nýreistu kirkju í Görðum, og eru hellurnar lagðar ofan á timbursúðina. Hyggjast menn að fylgja því dæmi hans við kirkjurnar á Bessastöðum og í Reykjavík, sem nú eru í smíðum.“
Enn segir í Ferðabók Sveins: „Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár. Óskandi væri, að sem flestir fylgdu dæmi þessa ágæta manns.“
Markús Magnússon var prestur og prófastur í Görðum frá 1780 til dauðadags árið 1825, vígður þangað aðstoðarprestur Guðlaugs prófasts Þorgeirssonar, sem var prestur í Görðum 1746—1781, og varð sr. Markús tengdasonur hans. Sr. Guðlaugur var hinn mesti merkismaður. klerkur góður og biskupsefni. Hann rak draugana af höndum Garðhverfinga og kom þeim í Stíflishóla, eins og frá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (bls. 264, I).
gardakirkja-27Sr. Markús Magnússon var hinn ágætasti maður, eins og Sveinn Pálsson segir, og lærður vel. Um hann segir Páll Eggert Ólason í íslenzkum æviskrám: „Hann var auðmaður, enda mjög hjálpsamur sóknarmönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðinn að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum. Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst of þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar í kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.
Alla 19. öld sitja höfuðklerkar í Görðum, fyrst sr. Markús til ársins 1825, þá Árni stiftprófastur Helgason 1825—1858, er hann lét af prestsskap, en bjó þó áfram í Görðum. Eftir hann varð prestur í Görðum sr., Helgi Hálfdánarson, sálmaskáld og síðar forstöðumaður prestaskólans. Hann var til ársins 1867, er sr. Þórarinn Böðvarsson kom að Görðum, en hann var þar prestur til dauðadags 1895.
Sr. Árni Helgason var hinn mesti lærdómsmaður, eins og alkunnugt er, kennari með afbrigðum, tvisvar biskup í forföllum og fékk biskupsnafnbót.
Um hann eru margar skemmtilegar sögur. Svo segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl sinni: „Eg gekk til prestsins að Görðum með hinum börnum af nesinu og var náttúrulega efstur. Faðir minn var gamall lærisveinn séra Árna, og voru þeir virkta-vinir, enda báru allir virðingu fyrir stiptprófastinum, og oft kom ég til hans. Séra Árni var einhver hinn tignarlegasti maður, sem ég hef séð, og mynd hans er mér ógleymanleg. Hann var alltaf jafnrólegur, aldrei daufur, hann var í því jafnvægi lífsins, sem mjög fáir ná; hann drakk stundum, en aldrei svo mikið að nokkuð yrði að fundið. Hann var einhver hinn fullkomnasti maður, sem hugsast getur, stór Og höfðinglegur. Stundum var hann meinyrtur og glettinn í orðum, einkum ef hann var lítið kenndur. Einhverju sinni komu þeir til hans Jón Þorleifsson og Steingrímur Thorsteinsson; þair voru þá í skóla og voru vinir. Þeir komu að Görðum um sunnudag, en ekki fyrr en messa var úti. Jón Þorleifsson fór þá að biðja prófastinn fyrirgefningar af að þeir kæmu svo seint. Þá sagði séra Árni: ,,Það er fyrirgefið, og þó þið hefðuð aldrei komið.“ — Séra Matthías Jochumsson kom þangað og fór að tala um þýzka heimspeki, en séra Árni mun ekki hafa þótt mikið til koma. Séra Matthías var þá prestur í Móum á Kjalarnesi. Eftir að hann hafði látið heimspekisdæluna ganga, þá þegir séra Árni um stund og segir loksins: „Fiskast mikið af hrokkelsum á Kjalarnesi núna?“ – „.
Helgi Hálfdánarson var prestur í Görðum, þar til hann gerðist kennari við prestaskólann 1867. Hann var þingmaður, meðan hann sat í Görðum og mikils virtur alla tíð, enda lærdóms- og gáfumaður.
Þórarinn Böðvarsson var um margt öndvegismaður, og ekki sízt eftir að hann hann kom að Görðum. Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu öll ár sín í Görðum nema tvö og mikill búsýslumaður.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Hina kunnu og velþegnu bók sína, Lestrarbók handa alþýðu, sem almennt var nefnd Alþýðubók sr. Þórarins, gaf hann út árið 1874, eða 6 árum eftir að hann kom að Görðum. Árið 1882 stofnaði hann gagnfræðaskólann í Flensborg til minningar um Böðvar son sinn, en nokkru áður hafði hann stofnað þar barnaskóla. Var Jón sonur prófasts, síðar fræðslumálastjóri, fyrsti skólastjóri í Flensborg. Þá er ótalið það framtak sr. Þórarins, sem mest snertir kirkjustaðinn í Görðum. Árið 1880 lét hann reisa í Görðum veglega steinkirkiu. Var hún úr höggnu grjóti úr Garðaholti og eftir nær áttatíu ár standa veggir ófallnir. Um það bil öld hafði nú liðið frá því, að Markús prófastur Magnússon byggði upp kirkjuna í Görðum, sem á sinni tíð þótti til fyrirmyndar,
eins og Sveinn Pálsson tekur fram. Kirkja sr. Þórarins er síðasta Garðakirkjan, og sjálfur ætlaði hann ekki í fyrstu að reisa hana þar. Á hans dögum var Hafarfjörður óðum að stækka, og þegar sr. Þórarni þótti nauðsynlegt að byggja nýja kirkju fyrir Garðasókn, fannst honum eðlilegt, að hún yrði byggð í Hafnarfirði. Þá voru íbúar Hafnarfjarðar um fjögur hundruð og Fjörðurinn að sjálfsögðu stæsta byggðin í sókninni. En Hafnfirðingar töldu sig ekki hafa bolmagn til að byggja kirkju, þótt sr. Þórarinn byði þeim fjárhagslega aðstoð, og því var kirkjan enn reist í Görðum. Hafnfirðingar höfðu alla tíð átt kirkjusókn að Görðum, en það er um þriggja og hálfs kílómetra leið. Að vísu var fyrr á öldum kirkja á Hvaleyri, annexía frá Görðum, en hún mun aðeins hafa verið fyrir Hvaleyrartorfuna, en þar var fjölbýlt áður. Þessi kirkja var lítil og lengst af hálfkirkja, þ.e. messað þar aðeins örsjaldan á ári. Hér má og geta þess, að á 16. öld var þýzk kirkja í Hafnarfirði, en hún var ekki fyrir Íslendinga, heldur þýzka kaupmenn og starfsfólk þeirra.
Hafnfirðingar reistu þjóðkirkju sína árið 1914, og er hún arftaki hinnar fornfrægu Garðakirkju, enda brauðið enn kallað Garðaprestakall. Gripir úr kirkjunni í Görðum voru þá fluttir í Hafnarfjarðarkirkju. Samt voru enn unnin ýmis prestsverk í Garðakirkju lengi: eftir þetta, allt fram yfir 1930, en mest yoru það greftranir. En nokkru síðar féll kirkjan og var rifin, svo að eftir standa naktir steinveggirnir. Nú hefur Kvenfélag Garðahrepps tekið sér fyrir hendur að endurreisa kirkjuna í Görðum. Eru framkvæmdir þegar hafnar. Verður ekki annað sagt en þetta sé hið mesta myndarframtak. Endurreist Garðakirkja væru verðugur varði um forna frægð staðarins.
Tveir prestar sátu í Görðuni, eftir sr. Þórarin Böðvarsson, báðir hinir merkustu menn, sr. Jens Pálsson 1896—1912 og sr. Árni Björnsson frá 1913 til 1928, er hann fluttist til Hafnarfjarðar.
— En hann hafði fengið leyfi safnaðarins til að sitja áfram. í Görðum, þótt kirkjan væri flutt til Hafnarfjarðar. Báðir voru þessir Garðaprestar prófastar í Kjalarnesprófastsdæmi, eins og flestir fyrirrennarar þeirra höfðu verið, Eftir að sr. Árni var flutt ur til Hafnarfjarðar, fékk Guðmundur Björnsson ábúð á jörðinni, og er hann enn bóndi í Görðum.
gardakirkja-28Eins og ég gat um í upphafi, hefur sjósókn frá Görðum, úr Hafnarfirði og af Álftanesi vafa laust rennt sterkustum stoðum undir mikilleik staðarins.
Magnús Már Lárusson prófessor telur í áðurnefndri grein, að ekki hafi verið fluttur fiskur út af þessum slóðum, að minnsta kosti ekki að ráði, heldur hafi hann mest farið á innlendan markað, og þá aðallega austur í sveitir. En hverfin kringum Garða, á Hvaleyri og Álftanesi, og seinna í Hafnarfirði, hafa myndazt vegna sjósóknar og landbúnaðar jöfnum höndum. Fólk hefur verið nægjusamt og rólegt á þessum slóðum, og sama ættin búið öld fram af öld á sömu torfu. Þannig voru mínir ættfeður í móðurætt leiguliðar og fiskimenn Garðakirkju svo langt aftur, sem rakið verður. Bjuggu þeir á ýmsum kotum í Garðahverfi, og hefur sá elzti, sem um getur í heimildum, verið landseti þeirra feðga Þorkels Arngrímssonar og Jóns Vídalíns á 17. öld. Mætti vel vera, að ættin hafi verið á torfunni frá landnámstíð. En þótt sjávarfang væri drjúgur þáttur í auðlegð Garða fyrr meir, var búskapur þar þó jafnan mikill, enda er töluvert undirlendi í Garðahverfi. Og í Görðum er getið um akuryrkju fram yfir aldamótin 1400. Land hefur minnkað fyrir neðan Garða, sjór brotið bakkana og eytt. Þannig eru tvö býlin, þar sem forfeður mínir bjuggu, Bakki og Sjávargata, horfin úr sögunni vegna sjávargangs. Einnig hefur sjórinn brotið mikið land milli Garðahverfis og þess hluta nessins, sem nú er í daglegu tali kallað Álftanes. Ekki er heldur vafi á því, að hin víðlendu holt hafa blásið upp.
Hér lýkur þessum pistlum mínum um hinn forna Garðastað, og geta þeir vart kallazt annað og meira en haldahófslegar hremsur, eins konar reytingur af reyfinu um þá jörð, sem ég hef frá barnæsku talið vera hið forna höfuðból Ásbjarnar Özurarsonar. Þótt Garðar sjálfir megi nú muna sinn fífil fegri, eru þó í fornu landi þeirra aðsetur forseta lýðveldisins, Bessastaðir á aðra hönd, en þriðji stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður, á hina.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, bls. 6-8.

Garðar

Garðar.

Hafnir

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.

Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.

„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).

Hafnir

Á Hafnavegi 1952.

Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.

Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi

Hafnir

Hafnir – loftmynd 1954.

Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.

Hafnir

Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.

Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness.

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir

Frá Höfnum.

Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

KalmannstjörnFrá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.

Hafnir

Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.

Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.