Þórkötlustaðahverfi

Árið 2018 var gerð skýrsla um „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð„. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar svæðisins.

Þorkötlustaðir

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðatorfan.

Um 1270 er Þórkötlustaða getið í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Um 1275 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI III, 3.
1307 kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík að kirkjan á „ix. mæla land aa Þorkotlustodum“ DI II, 361.
1367 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum. DI III, 222.
1477 sama eignarhald (ix mæla land) kemur fram í máldaga Maríukirkju í Krýsuvík. DI VI, 124.

Þórkötlustaðir

Miðbær Þórkötlustaða 1948.

Um 1500 er jarðarinnar geti í lýsingu á landamerkjum milli Voga og Grindavíkur en þar segir að Vogar eigi ekki land lengra neðan frá en að Kálfsfelli og upp að vatnskötlum fyrir innan Fagradal upp að klettum þeim sem standa við Skógafell hið neðra við götuna „enn Þorkötlustader og Jarngerdarstader ættu ofan ad þessum takmorkum“ og er þessi lýsing í samræmi við elstu lýsingu marka á þessum slóðum frá 1270. DI VII, 457-458.
1534: fram kemur á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi. DI IX, 721.
24. júní 1552 kemur fram í afgjaldareikningi Eggerts fógeta Hannessonar af Íslandi frá alþingi 1551 til Jónsmessu 1552 um Þórkötlustaði: „Jtem aff Kettell aff Tórkottelestedom ij skatt viij alne vadmall.“ DI XII, 420.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1553 [1554] kemur fram í máldögum og reikningum kirkna í Skálholtsbiskupsumdæmi (við yfirreið Marteins biskups Einarssonar) að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XII, 662.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 2025.

1562 kemur fram að atvistarmenn að vígi Guðmundar Sigurðssonar séu skyldaðir til að koma fyrir dóm vegna vígis Guðmundar en hann hafði látist eftir slagsmál við fjóra menn á Þórkötlustöðum. DI XIII, 744.
1563 kemur fram í bréfi Gísla biskups Jónssonar um byggingar stólsjarða í Grindavík að ábúendur lúti eftirfarandi skilmálum: „Ad i fyrstu wil eg ad stadurinn i Skalholltti eigi halftt skip vid þann sem byr a Jarngerdarstodum. Þorkotlustodumm og Hraune. Skal stadurinn þessumm skipumm uppkoma ad halfu leyte af þeim stadar Rekum sem liggia fyrir Grijndavijk. Jtem þau Bænhuskugildi se ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snueast i leigukugilldi. Jtem byd eg mijnumm fyrrgrendumm Radsmanne ad hann tilskile i sinne jardabyggingu ad huer leigulide vaktti þann Reka sem fyrir sierhuers lande liggur epter þui sem laug seigia og hafe ecke mejra af enn so sem leigulida ber eptter logmale. Jtem byd eg Radzmannernum ad fyrirbioda Leigulidunumm ad skamptta sier nockur trie sialfer af af rekunumm til stadarjardanna utann þad sem til verdur lagtt af sialfumm Radzmannenumm og naudsyn krefur“ DI XIV, 200-202.

Þórkötlustaðahverfi

Hluti Þórkötlustaðahverfis 2025.

1570 og síðar: kemur fram í Gíslamáldaga að Krýsuvíkurkirkja á enn sömu eignarítök á Þórkötlustöðum (9 mæla lands). DI XV, 641.
1703: dýrleiki óviss. Eign Skálholtsstaðar. Hefur selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. „Heimræði árið um kríng…Engjar öngvar. Sjór gengur á túnið og brýtur land að framan.“JÁM III, 11-12, 14.
Hjáleigur 1703: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
8. August 1787 og 26. Janúar 1791 eru Þorkötlustaðir seldir í þrennu lagi (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). JJ, 84.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

1840: 60 hdr. „Þar eru slétt og stór tún og hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. … Þar er og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst í nesinu var fyrrum selalátur frá Þorkötlustöðum, en nú hefir selurinn vegna brims og uppbrots yfirgefið látrin.“ SSGG, 139.
1847: Jarðardýrleiki 66 2/3 hdr. Hjáleigan Lambhúskot hefur bæst þá við 1847…“Eptir þremur afsals bréfum 19. öld: Þríbýli var þar lengst af 19. öldinni. Stundum er jörðin kölluð Þórkötlustaðir. „Mikið af landi hennar er eldbrunnið, og bæirnir standa austast í landareigninni við sjóinn…Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt.“Ö-Þorkötlustaðir AG, 1, 3. „…tiltölulega mikið sléttlendi, lending dágóð í Þorkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi í Nesinu.“

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.

Þórkötlustaðir eru elsti bærinn í Þórkötlustaðahverfi. Rétt eftir aldamótin 1900 var byggð hlaða við Miðbæinn og var þá komið niður á langhús með jarðeldi (sjá nánar fornleif 203) sem bendir til að bærinn hafi alltaf verið á svipuðum slóðum. Allt bendir til þess að snemma hafi orðið þéttbýlt á þessum slóðum en elsta heimildin um margbýli á Þórkötlustöðum sjálfum er frá seinni hluta 18. aldar (1785) en var orðið þríbýlt á heimajörðinni.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Þríbýli hélst á Þórkötlustöðum lengst af eftir 19. öldinni og voru býlin samkvæmt Jóni Þ. Þór ýmis nefnd 1.,2. og 3. býli eða austurvestur- og miðpartur (Saga Grindavíkur II, 74, 272). Undir lok 19. aldar bætast svo tveir bæir við og snemma á 20. öld voru því fimm bæjarstæði á Þórkötlustaðatorfunni (Austari eða EystriAusturbær, Vestari Austurbær, Austar eða Eystri Vesturbær og Vestari Vesturbær). Ekki er ljóst hvor austur og vesturbæjanna var eldri en líklegra virðist þó að af austurbæjunum sé Austari/Eystri Austurbærinn og Austari/Eystri Vesturbær. Þórkötlustaðatorfan er á svolítilli hæð um 70 m norðan við sjó. Þórkötlustaðavegur liggur norðan við torfuna, vegarslóði í átt að sjó og fram hjá Sólbakka vestan við og annar vegarslóði að Buðlungu að austan. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

Sem fyrr segir var komið niður á skálabyggingu þegar hlaða var reist á bæjartorfunni á Þórkötlustöðum. Til er lýsing af bænum frá seinni hluta 17. aldar, nánar tiltekið frá 1670: „Áður en Sigmundur [Jónasson] tók við búi á Þorkötlustöðum, voru hús öll á jörðinni skoðuð og metin…níu vistarverur innanbæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornshús“, „hús innar af skála“, eldhús, klefa og anddyri.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Útihús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn frammi á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlaus og viðrast hvorki hafa haldið vatni né vindi.“
Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Hjálmar Guðmundsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 6,46. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Matjurtagarðar 400 faðmar, gefa 16 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í góðu standi. Tún talið 7 dagsláttur, gefur af sér 90 hesta í meðalári, helmingur þýft. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Rekapláss í félagi við vesturbæi. Uppsátur í sambandi við hinar jarðirnar. Ágangur enginn. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

Bæjarhóll Þórkötlustaða er lágur og ávalur og aðeins er hægt að greina litla uppsöfnun. Gróflega áætlað er hann um 90-100 x 70 m stór og snýr austur-vestur. Gríðarlegur fjöldi húsa og kofa ásamt kálgörðum er sýndur á bæjartorfunni á túnakorti frá 1918 og er gerð grein fyrir þeim undir sérstökum númerum í fornleifaskránni (en þó skráðar saman sambyggðar fornleifar). Árni Guðmundsson (1891-1991) mundi vel eftir torfbæ á sömu slóðum og Miðbærinn frá því hann var ungur.
ÞórkötlustaðirAf ljósmynd sem tekin var af Þórkötlustaðaþyrpingunni á tímabilinu 1902-1927 má sjá að þá hafa staðið tvö hús þar sem Miðbær er nú og telur Loftur Jónsson heimildamaður að þau hafi bæði verið hluti af Miðbænum. Húsið sem nú stendur var byggt á sama stað og vestara húsið (sem var minna) en austara húsið hefur staðið einhver ár eftir að núverandi íbúðarhús var byggt (stendur þegar ljósmynd er tekin af svæðinu eftir 1932). Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum. Undir þetta númer er skráður bæjarhóll Þórkötlustaða, hús Miðbæjarins (bæði húsin sem stóðu í upphafi 20. aldar og svæðið norðan við þar sem stóðu 3-4 kofar).

Bænhús var áður á Þórkötlustöðum skv. máldaga frá 16. öld.
1563: „Jtem þau Bænhuskugilldi sem ad eru a Hraune. Þorkotlustaudumm og Höpe þa skipa eg ad þau snuest i leigukugilldi,“ DI XIV, 201.
Ekki er vitað hvar bænhúsið stóð en án efa var það á bæjarstæði Þórkötlustaða, nærri Miðbænum. Ekki eru þekktar frásagnir um að menn hafi komið niður á bein eða annað sem gæti gefið vísbendingu um staðsetningu bænhússins. Staðsetningarhnit var tekið á bæjarhólnum miðjum. Að sunnanverðu er greinilegt að húsin standa á smá bungu en að norðanverðu er sléttað malarplan sem Þórkötlustaðavegurinn liggur í suðaustur-norðvestur. Sunnan við þar sem bæirnir fimm hafa staðið í röð er aflíðandi halli að sjó og á því svæði voru samfelldir garðar og kofar.

Randeyðarstígur (leið)

Þórkötlustaðir

Randeyðarstígur hægra megin á uppdrættinum – uppdráttur ÓSÁ.

„Randeyðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr, er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. Ekki er nákvæmlega vitað hvar Randeyðarstígur var en hann lá niður á Eyrargötu sem lá syðst í Þórkötlustaðahverfi. Á minjakorti Ómars Smára virðist sem Randeyðarstígur hafi verið sami stígur og Eyrargata en Randeyðarstígsnafnið notað í landi Hrauns. Í öllu falli virðist ljóst að ummerki um Randeyðarstíg er ekki að finna innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi. Frá Hraunkoti vestur að Þórkötlustöðum eru sléttuð tún en austan við Hraunkot er hraunlendi að túninu í Hrauni.

Þjóðsaga – Þórkötluleiði (legstaður)

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Í örnefnaskrá NN segir: „Í túninu austur af bæ er sagt að sé leiði Þórkötlu.“ Fjallað er um staðinn á heimasíðu Ferlirs en þar segir: „Fram að þessu hefur jafnan verið horft á dys Þórkötlu í óslegnum hól í túninu austan við Hof. Þar hafa hinir elstu menn, sem vel þekkja til, talið hana hafa legið fram að þessu. Staðsetningin passar og við lýsinguna í sögunni þar sem segir að sú gamla hafi viljað láta grafa sig þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðabótina.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Frá þeim stað sést vel yfir Bótina. (…) Sigurður, sem nú er nær blindur, var ekki í neinum vafa, sagðist alltaf hafa heyrt af Þórkötlu undir stórri þúfu í túninu neðan við gamla Lambhúskotið. Hann lýsti staðsetningu Þórkötludysjar þannig: „Hún er upp af Sólbakka, vestan við girðingu sem liggur í norður frá húsinu, austan og ofan við Hof. Þetta er stór þúfa í túninu, neðan við gamla Lambhúskotið í suðaustur í neðra túninu.“ […] Þúfurnar eru tvær í túninu. Sigurður gekk að þeirri eystri. Áður hafði Ferli verið bent á hina þúfuna (Ól. Gamalíasson) sem hina meintu dys. Skýringin á henni er sögð vera sú að undir austari þúfunni hafi hundur Þórkötlu verið grafinn. Stutt er á milli þúfnanna.“ Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Í túninu sunnan Lambhúskots eru þrír hólar. Sagan segir að í þeim lengsta sé leiði Þórkötlu, sem Þórkötlustaðahverfi er kennt við, aðeins Uppmæling hinum meintu dysjum sunnar er leiði smala hennar og þar vestur af er leiði hundsins hennar.“ Líkt og kemur fram hér ofar er á reiki hver af þúfunum er Þórkötludys. Hún er í túninu, rúmum 20 m sunnan við Lambhús og rúmum 150 m norðvestan við bæ. Þar eru fjórar þúfur sem allar voru mældar upp. Ómar Smári Ármannsson merkir Þórkötludys inn á uppdrátt af Þórkötlustaðahverfi en að auki dys hunds og dys smala. Slétt, ræktað tún er allt umhverfis þúfurnar. Þær eru allar sléttar og grasivaxnar og ekki ólíklegt að mannvist sér hér undir sverði.

Eyrargata (leið)

Eyrargata

Eyrargata.

„Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar
hæðir vestur af Brunnflötum, við norður enda Gjáhólsgjáar í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata en lítið markar fyrir henni nú,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar.

Gjáhóll

Gjáhóll.

Eyrargata var á milli Þórkötlustaða (og mögulega líka Hrauns) og Járngerðarstaðahverfis. Innan verndarsvæðis í Þórkötlustaðahverfi var hún alveg við sjávarkampinn og er nú horfin í ágang sjávar og sand. Hún sést hins vegar vestar, utan verndarsvæðis. Brunnflatir 026 eru grónar sandflatir nyrst og austan í Nesinu. Vestan við þær, í hrauninu er Gjáhóll gróinn í toppinn með tveimur hundaþúfum. Hún kom upp úr fjörunni við Skarð en lág þar til austurs neðan við Þórkötlustaðabæina.
Göturnar hafa að hluta legið yfir úfið mosagróið hraun en í Þórkötlustaðahverfi lágu þær nærri sjávarkambinum og yfir Brunnflatir þar sem mikið af sandi hefur safnast. Svæðið er vaxið melgresi og sjór hefur einnig borið á land talsvert af stórgrýti og varpað því yfir svæðið. Gatan hefur líklega legið í austur-vestur yfir Nesið að Rifinu sem nú hefur verið opnað og gert að höfn Grindavíkur. Hún er gróflega staðsett innan verndarsvæðis.

Gata – kirkjugata (leið)

Kirkjugata

Kirkjugatan.

„Önnur gata en Eyrargata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi,“ segir í örnefnaskrá Lofts Jónssonar. „Þarna þvert yfir og framhjá Hópi var gangan á milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis áður fyrr og áfram framhjá Miðaftanshól. Austan við Moldarlág í hraunbrúninni eru hraunhólar sem heita Kirkjuhólar. Þar var áður mikil huldufólksbyggð og huldufólkskirkja. Álfar á svæðinu áttu sína kirkju rétt sunnan við núverandi smábátahöfn og heitir þar Álfakirkja,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar í Þórkötlustaðahverfi.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Kirkjuhólar eru ofan réttarinnar.

Kirkjuhólar eru um 600 m vestnorðvestan við Þórkötlustaði fast sunnan við Austurveg (þ.e. núverandi þjóðveg) en umræddur vegur var á svipuðum slóðum innan Þórkötlustaðahverfis þjóðvegurinn var áður, neðan við  fastaland/Heimaland/Þórsmörk. Á þeim slóðum er enn malarvegur. Uppgrónir hraunhólar eru að hluta þar sem vegurinn lá en yngri malarvegur er á sömu slóðum hluta leiðar. Gatan lá austur-vestur á milli Hóps og Þórkötlustaða og áfram austur.
Í Kirkjuhólum er gatan horfin en sést austar, sunnan undir Austurvegi um 400 m norðvestur af bæjarhól, beint norður af íbúðarhúsinu Klöpp/Teigi. Þar hefur grjót verið fjarlægt úr henni og raðað meðfram henni, í framhaldi liggur gamli malarvegurinn. Í hrauninu milli Þórkötlustaða og Hrauns sést að auki fyrir götunni.

Eyvindarstaðir/Eyvindarhús

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – yfirlit.

Í Jarðabók Árna og Páls 1703 er getið hjáleigu: „Eivindar hús.“ Eyvindarstaðir hét kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns 1918 og er líklega sami staður. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þriðja þurrabúð frá býli 15 [miðbær Þórkötlustaða]. Ábúandi Guðmann J. Jónsson. Eftirgjald 10 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 8 x 6 ál., vegghæð 4 ál. ris ekkert, bygt úr timbri járnklætt, vel bygt eldhús 4 x 5 ál, grjótveggir, þakið úr timbri og járni Húsið er í ábúð 1909 á þessum stað. Guðmann Jónsson, kona hans Guðríður Þórðardóttir og sonur Haraldur Haraldsson endurbyggðu á sama stað 1928. Hjónin Einar Símonarson og Sólrún Guðmundsdóttir flytja síðan húsið 1948 að Ránargötu 2 í Járngerðarstaðahverfi. 1956 var útliti hússins breytt í núverandi mynd.“

Ránargata 2

Ránargata 2 árið 2024.

Eyvindarstaðir voru með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur samkvæmt Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfis. Þar stóð síðast timburhús en það ásamt Miðhúsum (sjá túnakort 1918) var flutt í Járngerðarstaðahverfi 1948 og var þar Ránargata 2. Um 350 m norðvestur af bæjarhól 001 og um 100 m vestan við Búðir er steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Þar voru Eyvindarstaðir. Þau hafa verið byggð upp við innanverðan túngarð sem hér ber númerið 046. Umhverfis eru sléttuð tún en óslétt grýtt svæði til norðurs.
Steyptur grunnur er vestan til, tæplega 7 x 7 m að stærð. Vesturhlið hans er nánast horfin en mótar þó fyrir henni. Leifar af steyptum skorsteini liggja yfir norðurhlið. Tvö op sjást á suðurhlið eftir glugga eða dyr. Austan við húsgrunninn eru lágar hleðslur, áfastar, sem afmarka svæði, eins konar uppgróinn stall, sem er rúmlega 7 x 7 m stór. Á honum um miðbikið er steinn sem gæti verið fiskasteinn (óstaðfest) og gróinn hnúður, um 2 m í þvermál, norðan við hann. Hæst rís steypan líklega 40-50 cm og er gróf möl og steinar í steypunni. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni var steinsteypt fjós/hænsnahús byggt heima við bæinn eftir 1940 og tóku þau við af fjós/fjárhúsi og hænsnakofa. Veggir húsanna við bæinn hafa hins vegar verið brotnir niður.

Borgarkot
Í Sýslu og sóknarlýsingum frá 1840 segir: „Tómthúsið er kallað Borgarkot og stendur fyrir norðan bæinn vestasta,“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er lengur vitað nákvæmlega hvar býlið Borgarkot var. Það var þá líklega norðan við Vesturbæina. Bærinn var gróflega staðsettur í túninu norðan við Þórkötlustaðaveg en allt eins má vera að hann hafi verið nær Vesturbæjunum í sjálfri bæjartorfunni en nokkur fjöldi húsa er t.d. sýndur á túnakortinu norðan við Austar og Vestari Vesturbæ 1918.
Norðan við Þórkötlustaðaveg er grasflöt, vestan við þar sem íbúðarhúsið Valhöll stóð fram til 2010. Svæðið er fast sunnan við vesturenda garðlags. Þar er grasi gróið flöt og örlítil hæð þar sem garðlagið endar. Engin ummerki sjást um Borgarkot og nákvæm staðsetning þess ekki kunn. Loftur Jónsson heimildamaður hafði aldrei heyrt á Borgarkot minnst.

Hvammur

Þórkötlustaðir

Hvammur.

Hvammur var um 350 m norður af bæ og um 100 m austan við Efraland, fast norðaustan við Þórsmörk. Þar er 3 m hár steyptur skorsteinn og við hann eru tóftir bæjarins. Túngarður liggur uppi á hraunbrúninni norðan og austan tóftanna en sunnan þeirra er þýft tún. Hvammur er utan túnakortsins sem gert var af túninu í Þórkötlustöðum 1918 en býlisins er þó getið á kortinu, þar stendur: „Þórkötlustaðahverfi. Þórkötlustaðir, 5 býli […] Buðlunga og Einland (jarðir). Eyvindarstaðir, Búðir, Miðbær, Garðbær, Móar og Klöpp (með túnbletti).“ Þar kemur einnig fram að kálgarðar hafi verið 950 m2 í Hvammi. Í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis eftir Loft Jónsson segir: „Það var byggt um aldamótin 1900.
Þar bjuggu Guðmundur Þorláksson og kona hans Valgerður Einarsdóttir.“ Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: eigandi og ábúandi Guðmundur Þorláksson. Býlið er þurrabúð á Þórkötlustaðalandi: tilheyrir landið engum sérstaklega og ekkert borgað fyrir lóðina, en lóðargjald álíst hæfilegt kr. 15.00. Á lóðinni eru miklir matjurtagarðar en mál óþekkt og eins hvað þeir gefa af sér. Hús sem á lóðinni eru og öll eru eign ábúenda.
Svæðið allt er um 20×13 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru tvær tóftir. Að sögn Guðbjargar Jónsdóttur, frá Efstalandi var lítið timburhús á bænum í Hvammi. Ekkert er eftir af íbúðarhúsinu nema hlaðnar og steinsteyptar undirstöður (kjallari) og brot af skorsteini þar vestan við. Undirstöður hússins eru grjóthlaðnar, um 5×5 m að stærð. Veggirnir er mest um 1,5 m á hæð og um tíu umför tilhöggvins grjóts sjást þar. Steypt hefur verið í hleðsluna í austurvegg. Dyr eru í norðausturshorni, steyptur dyrakampurinn stendur enn.
Grunnurinn er opin til suðurs og þar er fullt af braki og rusli.

Hraunkot

Þórkötlustaðir

Hraunkot.

Austast í túni við túngarð, um 350 m austnorðaustur af bæjarhól eru tóftir býlisins Hraunkots, sem sýnt er á túnakorti 1918. „Í austur frá Brekku, í brúninni á Slokahrauni, var húsið Hraunkot. Það var rifið þegar Ólafur og Helga, sem þar bjuggu, byggðu Bræðratungu. Björn R. Einarsson landskunnur hljómlistamaður og Guðmundur R. Einarsson einnig hljómlistarmaður voru ættaðir frá Hraunkoti synir Einars Jórmanns Jónssonar rakara í Reykjavík,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Í myndbandi sem tekið var upp í
Þórkötlustaðahverfi árið 1986 og rætt við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) kemur fram að Árni mundi vel eftir torfbænum í Hraunkoti en hann virðist hafa verið horfinn þegar Jón fór að muna eftir sér. Árni hafði komið inn í torfbæinn árið 1902 og segir bæjargöngin hafi þá verið svo þröng að hann hafi þurft að smokra sér inn um þau og þó hafi hann verið nettur, aðeins 11 ára gamall. Samkvæmt heimasíðu Ferlirs var Hraunkot þurrabúð frá Klöpp. Á túnakortinu sést að um þetta leyti hefur Hraunkot staðið stakt austan túns en hefur nú verið innlimað í túnið, sem hefur því verið fært út til austurs. Tóftir í Hraunkoti Uppmæling af fjárhúsum og ljósmynd af sömu tóft, horft til vesturs samanstanda af tveimur megintóftum, grunni sem hér er lýst ásamt tóft þar norðan við, tveimur kálgörðum vestar og upphlöðnum vegi milli þeirra úr vestri. Hraunkot er einstök minjaheild sem ekkert hefur verið raskað. Alls er svæðið um 50 x 50 m stórt. Sléttuð tún vestur að bæjarhúsum en mosavaxið úfið hraun er austan túngarðsins.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóftirnar eru á litlum hól austast í túninu upp austasta hluta túngarðs. Hóllinn markast af hleðslu að vestan- og sunnanverðu. Það sem hér er lýst er annars grunnur sem er að mestu steinsteyptur og húsaleifar í framhaldi af honum til norðurs, svæði sem alls er um 30 x 12 m stórt frá norðri til suðurs. Grunnurinn er syðst á svæðinu, beint austur af upphlaðna veginum. Alls er grunnurinn um 6 x 6 m stór. Hlaðið hefur verið undir hann og er það hraungrýti, mest sýnilegt á suður- og vesturhlið. Ofan á liggur talsvert af steypubrotum. Af túnakorti að dæma hefur bæjaröðin verið aflöng frá norðri til suðurs og snúið göflum mót vestri. Húsið á grunninum eða forveri þess hefur staðið syðst í röðinni en ekki er augljóst í dag að það hafi verið samfast tóftum norðar, enda eyða á milli. Tóftum sem þar eru er þó lýst hér í beinu framhaldi, enda hluti sama bæjar af túnakorti að dæma. Þetta eru tóftaleifar sem alls eru 15 x 7 m að stærð og samanstanda af 3-4 hólfum. Tvö eru samföst nyrst, það vestara með op í vestur en hitt opnast til suðurs. Líkast til hefur ekki verið innangengt á milli hólfa. Þar sunnan við markar fyrir tveimur hólfum sem ekki eru með vesturgafli. Sunnan þeirra er svo grunnur eða tóft sem er rúmlega 5 m í þvermál en ekkert sýnilegt op. Vestan í bæjarhól Hraunkots er hólbrúnin hlaðin á um 20 m löngum kafla sem nær frá tröðum 136 og til NNA. Hleðslan er 4-5 umför og vönduð og hlaðin úr flötu grjóti. Austurbrúnin hverfur inn í hólinn en vesturbrúnin er allt að 1,5 m há.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðarétt.

Réttin var byggð í kringum aldamótin 1900 og grjótið að mestu sótt upp í Vatnsheiði,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði. Umhverfis eru sléttuð tún til norðurs og vesturs en vegur liggur fast sunnan og austan réttarinnar.
Réttin er um 41 x 37 m stór og er grjóthlaðin. Hleðsluhæð er um 1,5 m og umför allt að tíu en veggir eru um 0,5 m þykkir. Veggir eru 1,2 m á breidd og flatir í toppinn. Grjót er vel valið og tilhöggvið að verulegu leyti og virðist möl hafa verið notuð til að þétta hleðslurnar.
Almenningur í miðið er um 32×18 m að stærð og nokkurn veginn ferhyrndur (snýr norðursuður). Sex dilkar eru að vestanverðu við hann, sjö að austanverðu og tveir að sunnanverðu, allir með op á þeim vegg sem snýr að almenningnum og annað á andstæðum vegg. Hólfin eru misstór en snúa öll austur-vestur ef frá er talið vestasta hólfið sunnan við almenning sem snýr öfugt. Hlið eru öll úr timbri. Réttinni er viðhaldið. Þegar réttin var skráð í júlí 2017 var mikill grasvöxtur inni í henni. Réttin stendur mjög vel og er greinilega vel við haldið. Aðeins mátti greina hrun í veggjum á einum stað, nálægt norðausturhorni. Hlið eða grindur eru fyrir öllum opum. Norðan við réttina er girðing. Í suðvesturhorni tóftar er nú útsýnispallur, utan hennar.

Gamla-rétt

Þórkötlustaðir

Gamla-rétt.

Um 350 m norður af bæ, í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land, er grasbali inn í kálgarður. Í hvamminum, við túngarð, er hlaðin kró sem nefnd er Gamla-rétt. Réttin er í kvos eða hvilft inn í hraunbrúnina og myndar að hluta náttúrulegt aðhald. Í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaði kemur fram að þetta sé gömul fjárrétt og að grjótið úr henni hafi verið notað til að hlaða túngarð. Sunnan við hvamminn er sléttað tún en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins liggur Austurvegur í austur-vestur.
Balinn hækkar nokkuð upp í hraunið til norðurs og myndar grjóthlaðinn túngarðurinn umgjörð um hann norðan- og vestanverðan en hleðsla gengur til suðurs úr túngarðinum og myndar austurvegg réttarinnar. Suðurvegg vantar og er réttin því hálfopin til suðurs. Allar eru hleðslurnar úr grjóti mest um 2 m háar og umför grjóts allt að tólf. Innst, þ.e. nyrst, í balanum liggur hleðsla þvert á réttina og myndar lítið hólf við túngarðinn. Réttin er um 30×12 m að stærð.
Til norðausturs eru birkitré og víðirunnar sem hafa raskað hleðslum þar nokkuð en að er ljóst að réttin hefur látið á sjá og þar voru líklega fleiri hólf enda þetta gömul skilarétt. Það eru 2-3 hólf varðveitt.

Móar

Þórkötlustaðir

Móar og nágrenni.

Býlið Móar eru merktir inn á túnakort frá 1918 um 200 m norðan við bæjarhól. Býlið var um 170 m sunnan við Hvamm 047, á milli kálgarðaþyrpinga. Samkvæmt túnakortinu
voru þrjú hús (þá líklega útihús) sambyggð kálgarði 037 en stök tóft í suðurhorni kálgarðanna og var það líklega sjálf bæjarhúsin. Á þeim stað er nú greinileg upphækkun eða þúst. Um býlið er getið í fasteignamati 1916-1918 en þar segir: þurrabúð liggur undir býli [austurbæina tvo]. Eftirgjald 10 kr., greitt til landeiganda.
Móar voru sunnarlega í því túni sem tilheyrði jörðinni, á milli kálgarða. Ljóst er að a.m.k. þrír kofar sem tilheyrðu Móum voru sambyggðir kálgörðum en eru þeir nú allir horfnir. Óljós ummerki sjást hins vegar um mannvistarleifar undir sverði þar sem líklegast er að sjálft íbúðarhúsið hafi staðið. Á þeim stað sem húsið stóð um 1918 er greinileg þúst, fast norðan við túngarðinn sem gengur á milli kálgarðsþyrpingar. Þúst er byggð upp við suðurvegginn túngarðs Móa. Svæðið er um 6 m á breidd en allt að 20 m langt og snýr austurvestur. Þústin sker sig frá umhverfinu og er allra skýrust brún að austan en fjarar svolítið út þegar vestar dregur.

Garðlag (túngarður)

England

England.

Garðlag afmarkar austasta hluta Þórkötlustaðatúns og virðist þessi hluti túnsins hafa verið færður út og ræktaður einhvern tíma eftir 1918 en þá voru mörk túnsins við garðlög umhverfis Móa og hefur túnið því verið stækkað um 50-150 m til austurs. Hér verða garðlög á þessu svæði, sem marka af austurhlið túna eins og hún er nú öll skráð saman en gefinn bókstafur til aðgreiningar.
Garðlögin liggja gróflega NNV-SSA og marka samtals af um 500 m svæði en þau liggja í Gerði í nokkrum hlykkjum við hraunbrún Slokahrauns, alla leið til sjávar. Garðurinn liggur á mörkum túns og hrauns.
Garðurinn liggur í beinu framhaldi af NA-horni túngarðs en þó eftir um 30-40 m breiða eyðu. Eins og áður segir hefur honum örugglega hafa verið bætt við túnið eftir 1918 og það þannig fært út til austurs, á svæði sem er á túnakortinu merkt „kúahagi“. Þannig hefur t.d. býlið Hraunkot verið stakstætt utan túngarðs þegar túnakortið var dregið upp en er innan þess garðs sem hér er skráður.

Hjarðarholt

Þórkötlustaðir

Hjarðarholt.

Húsið Hjarðarholt var áður um 400 m vestan við Miðbæ Þórkötlustaða 001 fast vestan við veginn suður í Þórkötlustaðanes og um 30 m vestan við Hraðfrystihúsið. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir um húsið: „Bergur Bjarnason og Jóhanna Vilhjálmsdóttir byggðu húsið árið 1935. Það var síðan flutt árið 1962 að Hvassahrauni 6 í Járngerðarstaðahverfi. Þarna ólst upp rithöfundurinn Guðbergur Bergsson og bræður hans“. Greinilega má sjá hvar lóðarmörk Hjarðarholts hafa verið og eins sjást steypuleifar sunnarlega á svæðinu. Þær eru um 7-8 m til SSA frá steypuleifum 207 þar sem vindmylla frá Hjarðarholti stóð samkvæmt Lofti Jónssyni.
Ummerkin eru á grasi gróin svæði en þó er stutt í möl og svæðið ekki ræktarlegt. Hæðir eru hér og þar á sléttunni í kring. Austan við er vegur í átt að Hópsnesi og svo gamla hraðfrystihúsið að Uppmæld ummerki þar sem húsið Hjarðarholt stóð áður.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Norðan er vegur heim að Auðsholti og réttin að vestan garðurinn sem markar af lóðina við Auðsholt og að sunnan bithagi fyrir hesta, afgirtur rafmagnsgirðingu. Samtals má greina rót á svæði sem er um 30 x 26 m stórt og snýr h.u.b. norður-suður.
Sunnarlega á svæðinu sjást talsverðar steypuleifar. Norðurhliðin er óljósari, líkt og úr henni hafi verið rutt. Steypt plata sést í gólfinu. Steyptar leifar um 23 x 8,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Suðurhliðin er mjög skýr og liggur rafmagnsgirðing um bithólf eftir henni að hluta. Vesturhlið hússins er einnig fremur skýr en reyndar er stallur fram af henni líka, líkt og þar hafi verið stétt eða afmörkun um 1 m vestan við hús (1 m lægra)Um miðbik hússins er hrúga af grjóti sem virðist hafa verið rutt saman. Í veggjum má sum staðar sjá grjót í sverði, þó aldrei hærra en 0,3 m hærra en umhverfi. Ummerkin eru grasi gróin. Við suðurvegg, vestarlega er byggt lítið hólf, ferhyrnt. Hún er 2 x 2 m að stærð en þó aðeins um 1 m að innanmáli. Talsvert af grjóti er inni í hólfinu og það er mun lægra heldur en stóra byggingin eða 0,1 m. Mögulegt er að skúr hafi verið á þessum stað.

Heródes (álagablettur)

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Heródes „álagasteinn eða letursteinn, er í garðinum framan við vestari Vesturbæ. Þann stein varð að umgangast með varúð og ekki hreifa við honum annars mundi illa fara,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.“ Steinninn er tæpum 6 m sunnan við íbúðarhús Vestari Vesturbæjar, í bakgarði hússins sem hallar til suðurs. Allt umhverfis hann eru grjóthleðslur og er hann fast vestan við austurhlið kálgarðs. Steinninn er stöpull um 0,9 m á hæð en um 0,4 x 0,25 m að stærð. Toppur steinsins er flatur en hallar til austurs. Steinninn er mosagróinn en stendur vel þótt hann halli örlítið til suðurs.

Eystri Austurbær

Þórkötlustaðir

Eystri-Austurbær (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og í kringum aldamótin 1900 voru bæirnir orðnir fimm. Ekki er vitað með vissu hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi/sá eldri. Líklega er það þó sá bær sem hér er skráður, Eystri Austurbær, hann er a.m.k. er einfaldlega nefndur Austurbær í Fasteignabók 1932 en hinn bærinn Vestari Austurbær. Árið 1932 stóð þar samkvæmt Fasteignabókinni timburhús. Í Fasteignabók 1938 er sagt að þá búi íbúar í Austurbænum í sérmerktu húsi í annarri fasteign og þá ekki talin upp á umræddum stað og er þar líklega átt við húsið Valhöll 159 en samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni byggðu síðustu ábúendur í Eystri Austurbænum húsið Valhöll 1932 og fluttu þangað og rifu eldra húsið í kjölfarið. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Pétur Helgason. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.23. […] Tún og matjurtagarðar eru sérstakt, en heiðaland og hagabeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar.
Svæðið er markað af margvíslegum yngri mannvirkjum auk þess sem þar vex talsverð sina sem gerir eldri ummerki ógreinilegri en ella hefði verið.
Samkvæmt Lofti Jónssyni stóðu Austurbæirnir tveir nokkuð þétt saman. „Í hinum Austurbænum bjó Pétur Helgason og Sigríður Hermannsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Óljós ummerki sjást nú á því svæði sem Eystri Austurbær Þórkötlustaða stóð. Skýrustu ummerkin eru líklega tröppur sem lágu upp að íbúðarhúsinu sem eru fast suðvestan við malarveg að Buðlungu, 10 m norðvestan við standandi útihús frá Bjarmalandi (hús 13 á húsaskrá) en 25 m austan við Miðbæ Þórkötlustaða (íbúðarhús sem stendur
001). Tröppurnar eru steinsteyptar og sjást 3 þrep en þær eru reyndar að hverfa í sinu og gróður en þó er enn hægt að greina þær á óræktarblett sem þar er. Að tröppunum að dæma hefur húsið að hluta til verið þar sem vegurinn heim að Buðlungu liggur nú. Á þessum slóðum eru nokkur ummerki á svæði sem er 9,5 x 8,5 m stórt, þríhyrnt og liggur undir veg að norðaustan. Á svæðinu sést nokkuð greinileg suðurbrún og sér þar í grjóthleðslu á kafla, 2-3 umför. Á einu stað má sjá móta fyrir hólfi sem er alveg óskýrt til austurs en gæti hafa verið 4 x 3 m að innanmáli og snúið norður-suður. Ekki er ólíklegt að tóftin hafi verið opin til suðurs. Í aðalskráningu 2002 var hólfið skráð undir númerinu 001 B. Af ljósmynd í eigu Lofts Jónssonar sem tekin er af hverfinu eftir 1932 má sjá glitta í húsið. Það virðist hafa verið einfalt og lágreist timburhús. Samkvæmt túnakorti frá 1918 virðast hafa staðið nokkrir kofar á þessum slóðum og voru einhverjir þeirra sambyggðir. Líklega hafa lítil hús verið fast norðan við íbúðarhúsið.

Vestari Austurbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Austurbær.- (rammi).

Á 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum og um 1900 voru bæirnir á bæjartorfunni orðnir fimm. Ekki er vitað nákvæmlega hvor austurbærinn er sá hin upprunalegi. Líklega er það þó sá bær og sá bær sem hér er skráðir því einungis byggður um eða eftir aldamótin 1900. Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1918. Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Ólafur Þórleifsson. Dýrleiki 3.23 eftir síðasta mati. […] Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við hinar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðabæirnir um 1960.

Matjurtagarðar 250 faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 4 dagsláttur, gefur af sér 40 hesta í meðalári, helmingur þýft, snögglent. Útengi ekkert, mætti græða meira tún. Útengi ekkert. Útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við hina býlin. Uppsátursréttur í sambandi við allar jarðirnar. Ágangur enginn.
Í Fasteignabók 1932 er sagt standa timburhús í Vestari-Austurbænum og 1938 eru útveggir sagðir úr timbri, járnvarðir. Austurbær Þórkötlustaða var austan við Miðbæ 001 og sunnan við hlöðu sem enn stendur við Miðbæ (sjá Hús 09 í húsakönnun). Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu Austurbæirnir tveir (sjá líka 138) mjög þétt saman. Ólafur Sigurðsson heimildamaður (f. 1941) dvaldi talsvert í Vestari Austurbænum sem barn en amma hans og afi áttu heima þar og hann var mikið hjá þeim. Húsið var samkvæmt honum rifið 1950 en ekki flutt. Samkvæmt Ólafi var hrútakofi sem var sambyggður húsinu að vestan og þegar hann svaf heyrði hann alltaf í hrútunum hinum megin við veginn. Ofan við bæinn og sambyggt honum var eldhús með torfþaki þar sem var geymdur eldiviður (hrossatað) samkvæmt Ólafi. Fiskisteinn var fyrir framan bæinn samkvæmt honum.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir 1935.

Svæðið er grasi gróið, bæjarstæði Þórkötlustaða. Þar sem húsið stóð er greinileg hæð. Austurhlið hæðarinnar er upphlaðin og 1,2-1,3 m á hæð og um 10 umför en ekki sést önnur hleðsla. Svæðið hallar aflíðandi til suðurs en til vesturs og norðurs er það fremur flatt og því er það í raun e.k. upphlaðinn stallur. Bærinn hefur líklega staðið þarna en á milli austurhliðar íbúðarhúss Miðbæjar Þórkötlustaða og austurhliðar hleðslunnar eru innan við 10 m. Engin eiginleg merki sjást um byggingu á þessum stað. Tóft sem er fast austan við gæti hafa tengst Austurbænum. Svæðið er grasi gróið. Samkvæmt myndbandsviðtali við þá Árna Guðmundsson (1891-1991) og Jón Daníelsson (1904-1987) voru mjög mörg hús flutt vestur til Grindavíkur (í Járngerðarstaðahverfi) um miðja öld og var annað húsið í Austurbænum eitt þeirra. Þeir nefna ekki hvort húsið var flutt en Loftur Jónsson heimildamaður segir útilokað að það hafi verið Eystri Austurbærinn þar sem síðustu ábúendur þar byggðu Valhöll og rifu svo þann Austurbæ. Samkvæmt því mætti ætla að sá af Austurbæjunum sem hér er skráður hafi verið fluttur.
Loftur Jónsson mundi þó ekki eftir því og var reyndar efins um að annar hvor Austurbæjanna hefði verið fluttur. Engu að síður geta þeir Ari Guðmundsson og Jón Daníelsson þess í myndbandi og virðist það því líklegt.

Austari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Austari-Vesturbær (rammi). Í miðið á hægri myndinni.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Austari Vesturbær Þórkötlustaða er merktur inn á túnakort frá 1918. Hann var á milli Miðbæjar (nánar tiltekið milli hlöðu við Miðbæ) og Vestari Vesturbæjarins. Svæðið sem er á milli núverandi íbúðarhúsa er aðeins um 17 m langt og því ljóst að þröngt var búið. Af ljósmyndum af Austari Vesturbæ að dæma stóð hann nokkuð þétt upp við Vestari Vesturbæinn og var aðeins örlítið bil á milli húsanna.

Þórkötlustaðir

Miðbær.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Benóný Benidiktsson. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar. Mannvirki: eru Túngarðar úr grjóti og vírgirðingum.
Á þessum slóðum er grasi gróin flöt nú og malarplan norðan við. Engin ummerki sjást nú um hús á þessum slóðum.
Í Austari Vesturbænum var tvíbýlt fram eftir 20. öld. Húsið sem þarna stóð var tveggja hæða timburhús sem rifið var eftir 1986 (en húsið sést á myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi árið 1986). Af því að dæma var húsið með nokkuð stórum kvisti á suðurhlið en ekki var kvistur á norðurhliðinni. Á jarðhæð voru a.m.k. 2 gluggar á suðurhlið og dyr á milli þeirra og miðjugluggi á kvisti beint ofan við hurð. Tveir gluggar voru á jarðhæð á báðum göflum hússins á efri hæð og einnig lítill gluggi í risi. „Í eystri-Vesturbæ var tvíbýli (tveggja hæða hús). Þar bjuggu bræðurnir Benedikt Benónýsson og kona hans Magnúsar Ólafsdóttir á neðri hæð og Guðmundur Benónýsson og kona hans Sigríður Ólafsdóttir á efri hæð,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Lítil sem engin ummerki sjást nú um Austari Vesturbæ Þórkötlustaða en þar sem húsið stóð er grasflöt milli húsa.

Vestari Vesturbær

Þórkötlustaðir

Vestari-Vesturbær (lengst til vinstri). Árni Guðmundsson segir frá.

Fram eftir 19. öld var þríbýli á Þórkötlustöðum en ekki er vitað hvort Vestari Vesturbærinn eða Austari Vesturbær er nær því að standa þar sem hinn upphaflegi Vesturbær stóð.
Hvort sem var raunin voru bæirnir orðnir fimm í upphafi 20. aldar og teljast því allir til fornleifa í laganna skilningi. Vestari Vesturbær er merktur inn á túnakort frá 1918. Vesturbæirnir voru tveir en nú stendur aðeins íbúðarhús þar sem Vestari Vesturbærinn stóð og er það hús byggt á 4. tug 20. aldar. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Eigandi og ábúandi Jón Þórðarson. Dýrleiki eftir síðasta mati. 3,44. Matjurtagarðar og tún eru úrskipt, en heiðaland og hagbeit óskipt í félagi við allar jarðirnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

„Í Vestari-Vesturbænum bjó Einar Guðmundsson [bróðir Árna] og fyrri kona hans Ingibjörg Jónsdóttir og síðar seinni kona hans Málfríður Einarsdóttir,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Á túnakort frá 1918 eru merktur talsverður fjöldi húsa í þyrpingu á þessum slóðum og hafa nokkur hús staðið norðan við íbúðarhúsið ef frá er talið hesthús/fjós sem stóð norðvestan við íbúðarhúsið fram eftir 20. öld. Í Fasteignabók 1932 er sagt að þar standi timburhús og ólíkt öðrum húsum á Þórkötlustaðabæjarstæðinu sé það enn óvarið 1938. Af ljósmynd sem tekin er eftir að Valhöll er byggð (1932) má sjá að þá er núverandi hús ekki risið en á sama stað stóðu þá tvö lítil timburhús.
Húsið sem nú stendur var líklega byggt skömmu síðar, a.m.k. var stóð það hús þegar Loftur Jónsson (f. 1938) fór að muna eftir sér. Engin ummerki sjást nú um eldri hús á þessum slóðum en Árni Guðmundsson í Teigi (1891-1991) mundi eftir torfbæ þar sem Vestari Vesturbærinn stendur nú og kom Árni oft í hann sem barn enda Ingibjörg Jónsdóttir sem þar bjó frænka Árna.
Öll Þórkötlustaðaþyrpingin stendur á lágri hæð sem fellur inn í landið til norðurs og af henni hallar aflíðandi til suðurs (að sjó).
Einlyft timburhús á steinsteyptum kjallara er nú þar sem Vestari Vesturbærinn stóð en engin ummerki sjást um eldri hús.

Miðhús

Þórkötlustaðir

Eldri Miðhús.

Miðhús voru um 260 m NNV við Miðbæ Þórkötlustaða. Í Fasteignamati frá 1916-1918 segir: Þurrabúð frá býli [Miðbæ Þórkötlustaða]. Ábúandi Vilhjálmur Jónsson. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda.
Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem öll eru eign ábúanda eru þessi: Íbúðarhús 9 x 6 al, vegghæð 2 4/4 al bygt af timbri, þak pappaklætt, hitt áklæth. fornlegt.
Skúr áfastur 7 x 3 ál, úr timbri og járni. „Þar var búið um 1900. Árið 1932 er byggt nýtt hús sem er síðan 1961 flutt í Járngerðarstaðahverfi og er nú Túngata 2,“ segir í húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vilhjálmur Jónsson (afi Bjarna Kristins Garðarssonar heimildamanns) byggði bæinn sem reis í Miðhúsum 1932. Miðhús stóðu tæpum 30 m suðaustan við suðausturhorn íbúðarhússins Búða. Húsið var um 260 m norðvestan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 25 m suðaustan við íbúðarhúsið Búðir. Á þessum slóðum hefur safnast upp talsvert af rusli. Gömul bílhræ eru þar, hrúgur af hellusteinum og ýmislegt annað rusl auk þess sem hlut af svæðinu er að hverfa í órækt. Gámur er fast norðaustan við svæðið.
Miðhús eru sýnd á túnakorti frá 1918, nyrst í heimatúninu milli Búða til vesturs og Garðbæjar til suðausturs. Húsið er ranglega merkt „Miðbær“ en ekki „Miðhús“ á túnakortið. Á túnakortinu eru tvö hús á bænum og kálgarðar til norðurs og er svæðið allt skráð saman undir þessu númeri. Allar þessar minjar eru horfnar, þarna er nú m.a. skúr frá Búðum, gámur og mikið drasl og vélabrak. Ekki er hægt að sjá ummerki um mannvistarlög, né bæjarhól á svæðinu en leifar sjást af steyptum grunni eru greinilegar á því syðst, þar sem Miðhús stóð áður en íbúðarhúsið var flutt til Grindavíkur. Á grunninum er mikið af ýmiss konar braki og timbri. Það sem nú vottar best fyrir eru austur- og suðurhlið grunnsins og ná alls yfir svæði sem er um 8 x 8 m stórt. Grunnurinn er mest 0,8 m á hæð til suðurs en hverfur í hæðina og ýmiskonar rusl til norðurs. Samkvæmt Bjarna Kristni Garðarssyni var eldra hús Miðbæjar örlítið norðar en yngri húsin. Samkvæmt Lofti Jónssyni var Miðhús var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Um 4 m vestan við Miðhús stendur illa farið hús sem þjónað hefur hlutverki skemmu og hjalls eins lengi og menn muna. Þetta hús tilheyrði Miðhúsum en eigandi eftir að íbúðarhúsið í Miðhúsum var flutt til Grindavíkur lagði eigandi Búða húsið undir sig. Hjörleifur Stefánsson arkitekt telur að umrætt hús hafi á einhverju tímabili þjónað sem íbúðarhús en staðkunnugir telja það ólíklegt. Umrætt hús er skráð í Húsakönnun vegna verndarsvæðis.

Búðir

Þórkötlustaðir

Búðir 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: önnur þurrabúð frá býli miðbæ Þórkötlustaða. Ábúandi Þórður Magnússon. Eftirgjald 5 kr. greitt landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar að mestu matjurtagarðar. Hús á lóðinni eru eign ábúanda.
Bærinn Búðir er sýndur á tínakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Bærinn Búðir er sýndur á túnakorti frá 1918, skammt norðvestan við Miðbæ 142. Hann var norðarlega í heimatúninu og kálgarður við hann til vesturs og norðvesturs. Nýtt íbúðarhús var byggt á svipuðum stað árið 1928 og stendur það enn (sjá nánar í húsakönnun Þórkötlustaða) en garðhleðsla sem sléttuð hefur verið í tún.
Engin ummerki eldri húsa sjást nú á Búðum en yngsta íbúðarhúsið á bænum stendur samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni er mögulegt að eldra hús hafi verið aðeins norðar en það sem nú stendur.
Íbúðarhúsið Búðir stendur enn þótt það sé í talsverðri niðurníðslu og umhverfis það hefur safnast upp talsvert af rusli, gömul bílhræ og fleira. Þrjú hús sem snéru stöfnum til austurs eða vesturs eru sýnd á túnakorti frá 1918. Ummerki um eldri bæ eru horfin og ekki er hægt að greina mannvistarlög né bæjarhól á svæðinu. Í húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Búðir: Hjónin Magnús Þórðarson og Ingibjörg Þórarinsdóttir byggðu núverandi hús 1932. Þar stóð annað hús áður.“

Garðbær

Þórkötlustaðir

Garðbær 1985.

Í Fasteignamati 1916-1918 segir: þurrabúð undir býli  [Vesturbær Þórkötlustaða]. Eftirgjald er ekki greitt, en er talið hæfilegt 10 kr. á ári. Ábúandi Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda er: Íveruhús 10 x 6 ál. vegghæð 4 ál, bygt af timbri og járni varið að mestu.
Garðbær er sýndur á túnakorti frá 1918 nyrst í heimatúninu, skammt suðaustan við Miðbæ.
Það eru sýnd fjögur hús á bænum á túnakortinu og stafnar snéru til suðurs. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Garðbæ byggðu hjónin Daníel Daníelsson og Þóra Jónsdóttir. Núverandi hús
byggðu þrjú af börnum þeirra 1933 en því hefur verið breytt nokkuð síðan.“ Kálgarðar voru bæði til norðurs og suðurs frá bænum en þeir eru mikið raskaðir. Kálgarður 039 er fyrir sunnan bæinn en kálgarðarnir til norðurs eru horfnir, einungis hluti af kálgarði er þar eftir. Núverandi íbúðarhús er byggt í vesturhluta bæjarhólsins og mikið jarðrask er af þeim sökum. Fyrir austan og
vestan íbúðarhúsið eru haugar með mannvistarleifum sem komu upp við jarðrask.
Gróin, ræktuð tún eru sunnan, vestan og austan við bæinn. Til norðurs er núverandi íbúðarhús og jarðrask. Gamli bærinn er horfinn og ekki sér móta fyrir bæjarhól, íbúðarhúsið er
byggt í vesturhluta hans. Í austurhluta er m.a. búið að grafa niður rotþró með tilheyrandi raski. Það sést glitta í hlaðinn vegg suðaustan við húsið, það er hluti af húsi sem sést á ljósmynd frá
1978. Húsið er ekki sýnt á túnakorti frá 1918, það er innan kálgarðs. Veggurinn er 2 m á breidd, 0,5 m á hæð og grjóthlaðinn. Það mótar fyrir hólfi sem liggur austur-vestur, norðan við
vegginn en eins og fyrr segir er mikið jarðrask til norðurs, m.a. búið að grafa rotþró í austurhluta bæjarhólsins og erfitt að áætla frekar um minjar á bæjarhólnum og umfang hans.

Brekka

Þórkötlustaðahverfi

Bjarmaland og Buðlunga.

Húsið Brekka var á milli Bjarmalands og Buðlungu. „Það hús byggðu Kristinn Jónsson og Guðríður Pétursdóttur. Þau fluttu húsið í Járngerðarstaðahverfi árið 1949. Það er nú Arnarhraun
4,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Íbúðarhúsið var byggt eftir 1920 og telst því ekki til fornleifa í skilningi laganna en staðsetning þess var þó skráð og höfð með á fornleifalista samkvæmt ráðleggingum frá Minjastofnun Íslands um skráningu á minjum innan verndarsvæðis byggð. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundsyni (1891-1991 á myndbandsupptöku sem er varðveitt á ÍSMUS) stóð Brekka nálægt vegi að Buðlungu, austan hans og aðeins norðar en að vera til móts við norðurenda fjárhúsa frá Bjarmalandi sem enn standa. Húsið var staðsett með aðstoð frá Lofti Jónssyni. Þar sem húsið stóð er nú malarplan þar sem geymdar eru heyrúllur. Engin ummerki sést um húsgrunninn. Sjálft húsið er nú Arnarhraun 4.

Kron (verslunarstaður)

Þórkötlustaðir

Katla.

Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Austan við túnið í Teigi, rétt norðan við beygjuna á veginum, var hús þar sem Kron (Kaupfélag Reykjavíkur og nágr.) hafði verslun í nokkur ár.
Síðast var verslunin opin þar í árslok 1949. Afgreiðslumaður var Árni Helgason. Hann afgreiddi líka í verslun Kron í Múla. […] Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þartil Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla.“ Verslunin Kron er horfin en húsið sést á loftmynd sem tekið er um 1978. Hún var um 160 m norðan við Hraðfrystihúsið en skammt norðvestan við veginn sem liggur frá veginum að Þórkötlustöðum og að gamla þjóðveginum sem enn er notaður. Þarna er nú sléttur melur og gróið svæði þar sem húsið var.

Valhöll

Þórkötlustaðir

Valhöll. Helgi Andersen stendur á brunninum framan við húsið.

„Valhöll: Feðgarnir Pétur Helgason og Þórarin Pétursson byggðu húsið Valhöll 1932. Það var rifið 2010,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Húsið var byggt árið 1932 og telst því ekki til fornleifa í laganna skilningi en staðsetning höfð með á lista yfir fornleifar í Þórkötlustaðahverfi vegna verndarsvæðisskráningar 2017 að ráðleggingu Minjastofnunar Íslands.
Valhöll stóð þar sem nú er sléttuð grasflöt ofan við Þórkötlustaðaveg en vestan við malarplanið sem er sunnan Einlands 014:001 og vestan íbúðarhússins í Bjarmalandi. Engin ummerki sjást um húsið sem var rifið 2010 en steinstöpull hefur verið settur sunnarlega á svæðið. Af eldri loftmynd af svæðinu má sjá að húsið hefur verið 9 x 8,5 m að grunnfleti en sambyggt því að vestan var hús eða inngangsskúr sem var um 5,5 x 5,5 m stórt. Lóðin var um 28 x 26 m stór og var að hluta mörkuð af með steinsteyptum vegg. Af ljósmynd að dæma var húsið kassalaga og tvær hæðir með flötu þaki. Gengið var inn í húsið að sunnanverðu inn í viðbyggingu, á 2. hæð. Á neðri hæð/kjallara voru fjórir gluggar á suðurhlið en tveir stærri gluggar á 2. hæð. Húsið var afhent slökkviliðinu til æfingar og rifið í kjölfarið.

Pöntunarfélag
„Vestan við veginn var byggt hús sem hýsti pöntunarfélag og var það starfrækt þar til Versl. Katla tók til starfa ca. 1952. Það hús var selt Kron sem flutti það í Járngerðarstaðahverfi og var það sett niður næst neðan við Bræðraborg á horni Víkurbrautar og Sunnubrautar. Þangað flutti verslun KRON frá Múla. Sumarbústaður í Siglu [á Vondavelli] var fluttur þangað árið 2009,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Pöntunarfélagshúsið var áður innan við 20 m norðaustan við gamla Hraðfrystihúsið, fast neðan við Þórkötlustaðaveg og ofan við gamalt fjárhús sem enn stendur. Þar er grasflöt í órækt en ekki eru greinileg merki um húsið.

Laufás

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

„Laufás: Skammt sunnan við Sólbakka, við grjótgarð umhverfis kartöflugarðana frá Þórkötlustöðum stóð húsið Laufás,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Laufás var vestan við vesturhlið kálgarðs við Vestari Vesturbæ Þórkötlustaða. Samkvæmt túnakorti frá 1918 voru tvö útihús sambyggð vesturhlið kálgarðsins að vestanverðu og það þriðja sem stóð nyrst, var stakstætt. Líklega hefur Laufás verið byggt á svipuðum slóðum og það hús eða mögulega á leifum þess.
Engin ummerki sjást um íbúðarhúsið en þar sem það stóð er malarvegur til suðurs, í átt að sjó, vestan við vestanverðan kálgarðsvegg. Skemma eða geymsla úr timbri og bárujárni er rétt sunnan við þar sem Laufás hefur staðið.
Á þessum stað byggði Einar Guðmundsson fyrst verbúð sem var síðar breytt í íbúðarhús samkvæmt Árna Guðmundssyni og Jóni Daníelssyni (á myndbandsupptöku frá 1986) þá segja þeir að langt sé orðið síðan húsið hafi verið rifið. Samkvæmt Lofti Jónssyni heimildamanni stóðu tvö hús á þessum stað, mögulega sambyggð. Það austara var skemma og oftast nefnt „Rauða húsið“ en sjálft íbúðarhúsið var vestar. Laufás stóð þegar Loftur (f. 1938) man fyrst eftir sér en hann man þó ekki vel eftir útliti þess.

Klöpp (eldra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klappartúnið. Klöpp og Buðlunga t.h.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Steinsteypt tvíbýlishús Teigur/Klöpp var byggt um og upp úr 1930 um 600 m norðvestar í hverfinu. Ekki er
nákvæmlega vitað hvar elsta bæjarstæði Klappar var en það er líklega horfið í sjó. Líklegast er að það hafi verið beint suður af því bæjarstæði sem byggt var þegar það var flutt um aldamótin 1800, sjá 002. Staðsetning er því aðeins gróflega ágiskuð. Bærinn er án efa horfinn í sjó.
Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.

Klöpp (yngra bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Klöpp. Tóftir bæjarins.

1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast
var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp [sjá 013:004],“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó. Hús á jörðinni, sem öll eru eign landeiganda og ábúanda.

Klöpp

Buðlunga og Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Að sögn Árna var um að ræða eldhús, baðstofu austar, ískofa norðar, hlöðu sunnar, auk skemmu vestar.

Þórkötlustaðir

Buðlunga og Klöpp.

Norðurveggur er talsvert hruninn inn. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) bjó hann fyrstu árin í Gömlu-Klöpp. Traðk eftir skepnur er sérstaklega áberandi í suðurhlið tóftarinnar. Fast sunnan við austurhluta tóftarinnar er raskað svæði. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin á þessum stað, beint fyrir utan baðstofugluggann. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

Klöpp (þriðja bæjarstæði)

Þórkötlustaðir

Tóftir Klappar og Buðlungu.

„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið.

Klöpp

Gamla-Klöpp við Þórkötlustaði.

Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.

Teigur (eldri)

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson í tóftum gamla Teigs.

„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.

Klöpp

Klapparbærinn vestan Buðlungu.

Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus. Húsið og aðrar minjar utan við túnblett Klappar/Buðlungu eru skráðar undir jarðanúmeri Þórkötlustaða, en rétt að ítreka að svæðið hefur tilheyrt hjáleigunum, a.m.k. frá því í upphafi 20. aldar.
Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35 x 12 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði 011:164 en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5 x 5 m að stærð og snýr norðursuður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást. Um 22 m austar, við austurenda hólsins er hnúta sem hér fær númerið 154_02. Um greinilegan hól er að ræða og er dæld inn í hann að austan en ekki er hægt að tala um eiginlega tóft. Hóllinn er 6 x 6 m að stærð. Umhverfis er grasi gróið og fremur sléttlent en svæðið er nú nýtt sem beitihólf fyrir hross. Sjórinn hefur kastað töluverðu af grjóti inn á svæðið allra syðst.

Vestur-Buðlunga

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Vestur-Buðlunga var líklega stutt vestan við Buðlungu 012:001 en austan við Vegamót 156. Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það var rifið/tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar. Á þeim stað er malarplan sunnan við skemmu og fjárhús og þar sunnan við tekur við túnskiki niður að sjó. Ekki sjást skýr merki um hússtæði á þessum slóðum. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Vegamót

Klöpp

Tóftir Klappar og vesturbæjar Buðlungu.

„Rétt vestan við Buðlungu voru tvö hús sem nefndust Vegamót og Vestur-Buðlunga,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Loftur merkir húsið hins vegar ekki inn á uppdrátt af svæðinu sem hann teiknar og fylgir með húsakönnun. Húsið er hins vegar merkt inn á húsa og minjauppdrátt Ferlis/Ómars Smára af Þórkötluhverfi og samkvæmt því var um 30 m sunnan við austurhluta íbúðarhússins í Buðlungu og 10-15 m vestan við skemmu/fjárhús sem stendur á bænum (2017). Ekki er vitað hvenær húsið er byggt, eða hvenær það er tekið niður en líklega var hvort tveggja á fyrri hluta 20. aldar.
Húsið hefur samkvæmt tiltækum upplýsingum staðið þar sem nú er sléttað tún sunnan við Buðlungu og líklega náð inn á malarplan sem eru vestan við skemmu og fjárhús.
Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) sem fram koma í myndbandi sem aðgengilegt er á Ísmus var húsið alveg þokkalega stórt. Engin ummerki sjást um húsið nú. Loftur Jónsson heimildamaður telur að bæði Vegamót og Vestur-Buðlunga hafi verið þar sem nú er malarplan sunnan við útihúsasamstæðu hjá Buðlungu.

Þórkötlustaðagata (leið)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðagata.

Þórkötlustaðagötur lágu milli Þórkötlustaða og Hrauns og sjást talsverð merki þeirra ennþá innan túns og utan. Göturnar liggja frá Hrauni til vesturs um Slokahraun en voru aðeins skoðaðar innan verndarsvæðis, í túni Þórkötlustaða 2017. Á þeim kafla er gatan merkt inn á túnakort frá 1918, frá túnjaðri og að bæjarhlaðinu á Þórkötlustöðum (nær að Austari Austurbænum 138. Á þessu svæði er gatan merkjanleg allra austast, skammt norðvestan við Hraunkot, nálægt túnjaðri en fjarar út í túnið eftir því sem vestar dregur í túnið. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar af Þórkötlustaðahverfi. Sléttuð tún eru allt í kring.
Allra efst við túnjaðar Þórkötlustaða er dældin um 1 m á breidd og 0,4 m á dýpt. en verður breiðari og greinilegri eftir því sem ofar (suðvestar) dregur. Gatan er mjög skýr á um 100 m kafla en verður þá óljós og er að mestu sléttuð í túnið þar ofan við þótt óljós merki hennar sem rák í túnið megi rekja á um 50 m kafla til viðbótar.

Hraunkotsgata (leið)

Hraunkotsgata

Hraunkotsgata.

Tóftir Hraunkots 051 eru austast í túninu, um 300 m austnorðaustur af Miðbæ Þórkötlustaða, við túngarð. Gatan milli Hrauns og Hraunkots lá í vestur í gegnum hraunið frá Hrauni og með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir götunni í hrauninu austan Hraunkots en best í landi Hrauns. Hins vegar er hún horfin í túninu vestan kotsins og sést því ekki innan þess svæði sem var skráð 2017 í tengslum við verndarsvæði. Gatan er merkt inn á Minjakort Ómars Smára Ármannssonar.
Hraunkot er í túnjaðri Þórkötlustaða en austar tekur við Slokahraun. Ekki eru greinileg merki um götuna innan túns við Hraunkot en op eða hlið er á túngarði 030 tæplega 40 m norðan við bæ þar sem gatan hefur legið í gegn. Fast norðaustan við túngarðinn má sjá dæld í framhaldi af hliðinu en gatan tekur á sig en hún verður fljótt mjög skýr í hrauninu og liggur í gegnum það til norðurs að Hrauni. Hún var ekki skráð utan túns þegar fornleifaskráning var gerð vegna verndarsvæðis 2017.

Skarð

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – loftmynd 1954.

Tvöfalt útihús var vestast í suðurjaðri túnsins, samkvæmt túnakorti frá 1918. Húsið var um 90 m VSV við bæ (Miðbæ). Á svipuðum slóðum var byggt íbúðarhúsið Skarð um 1922. Um Skarð segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar: „Skarð: Skammt vestan við Sólbakka var húsið Skarð. Það byggðu hjónin Magnús Guðmundsson og Sigríður Daníelsdóttir ca. árið 1922 og það var síðan rifið árið 1935 og Magnús byggði Sólvelli (Sunnubraut 8). Það voru afi og amma Más seðlabankastjóra og Magnúsar Tuma jarðeðlisfræðings. Húsið var um 40 m af íbúðarhúsinu Sólbakka í suðvesturhorni sléttaðs túns en þar er nú niðurgröftur og leifar torfkofa og var Skarð þar fast norðan við. Fast sunnan við er stórgrýttur sjávarkampur. Ofan við er sléttuð grasflöt sem tilheyrði líklega Sólbakka.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Af ljósmynd sem tekin er af Þórkötlustaðaþyrpingunni eftir 1902 en fyrir 1927 má sjá dökkleitt hús á þessum slóðum sem Loftur Jónsson heimildamaður telur líklegast að sé Skarð en samkvæmt því væri myndin tekin á árabilinu 1922-1927). Af ljósmyndinni að dæma var húsið lítið, dökkleitt timburhús með mænisþaki. Húsið virðist hafa snúið nálega austur-vestur,
mögulega með skúrbyggingu að austan. Tveir gluggar hafa verið á suðurhlið en annars er lítið hægt að segja um útlit hússins af ljósmyndinni. Skarð er rétt á mörkum þess að teljast til fornleifa en fær engu að síður að vera með á fornleifaskrá. Loftur Jónsson tekur að húsið hafi verið á svipuðum slóðum og útihús fast norðaustar. Er innan lóðamarka lóðarmarka Sólbakka, en neðan við tekur við fjörukambur. Á þessum stað eru tóftir húss, líklega þess húss sem síðast stóð á þessum stað sem hefur þá verið útihús. Kofinn er niðurgrafinn og stendur undir þaki. Hann er 6 x 3 m stór og snýr austur-vestur en dyr eru á vesturgafli. Aðeins þaktoppurinn rís upp úr lóðinni í um 0,5 m hæð en kofinn er mest um 2 m hár, en hleðslur í norður- og suðurvegg eru um 1 m háar. Þær eru úr torfi og grjóti auk þess sem eitthvað er steypt í þær. Laupurinn er úr timbri. Bæði í kampsbrúninni sunnan við kofann og norðvestan við hann eru lágar garðhleðslur sem loka af um 6 x 4 m stóru hólfi vestan við hann. Fyrir framan gaflinn er L-laga dæld og er hlaðið í barðið að hluta. Vestan og sunnan við er sjávarbakki og er þar bratt niður af svæðinu. Dældin er á kafi í sinu og drasli. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Ferlirs voru tóftir „skammt vestan við Sólbakka nýlegar fjárhústóftir frá Hofi“ og er líklega átt við umræddar tóftir.

Buðlúnga (eldra bæjarstæði)

Buðlungavör

Buðlungavör – för eftiri kili bátanna á klöppinni.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft 002 og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram
af þeim.

Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Þórkötlustaðir1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu.
Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er útihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Buðlungu. Tóftin er samtals 22,5 x 21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður.

Klöpp

Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.

Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Verður hólfunum gefin númer til samræmis við þetta og svæðinu lýst til á sambærilegan hátt. Sá hluti tóftar sem gera má ráð fyrir að tilheyrt hafi Buðlungu er sá hluti sem verst er farinn. Hluti þess hefur greinilega lent undir skemmu og má áætla að hann hafi náð lengra til vesturs áður. Þessi hluti er samtals um 21,5 x 7-9 m að stærð og snýr norður-suður. Allra syðsti hlutinn markar af norðurhlið til móts við hlið á túngarði Klappar. Allra syðst er lítil hólf sem nú er alveg samanhrunið og ógreinilegt. Inngangur inn í hóflið er stæðilegur og grjóthlaðinn um 0,8 m á breidd og allt að 1 m inn í tóftina en er þá kominn á kaf í torfhrun þannig að ekki er hægt að áætla stærð hólfs. Í þeim vegg sem gengur til vesturs frá opinu er steyptur stampur inn í grjóthleðslunni, þ.e. eins konar upphlaðinn varða, um 1,2 m á hæð sem er samanlímd með steinlími og sker sig úr grjóthleðslunni umhverfis þótt hún sé hlaðinn inn í vegginn. Þar er opið vel greinilegt og liggja stutt göng, sem enn eru undir þaki inn í hólfið. Göngin eru um 1,7 m löng.
Samkvæmt myndbandi sem tekið var upp í Þórkötlustaðahverfi 1986 stóð þá uppi framhús Buðlungu úr timbri og báru járni. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var húsið líklega byggt 1913-1914.

England (Einland)

Þórkötlustaðir

Árni Guðmundsson við Einland.

1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84.
1840: „Einland, rétt fyrir norðan austasta heimabæinn,“ segir í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu. Húsið Einland stendur enn (2017) og nánar er gerð grein fyrir því í Húsakönnun Þórkötlustaðahverfis. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir að húsið sé byggt 1900 en árið 1896 hafi annað hús verið á sama stað. Samkvæmt upplýsingum frá Árna Guðmundssyni (1891-1991) af myndbandi sem tekið var af honum í Þórkötlustaðahverfi 1986 var Einlandshúsið flutt til Þórkötlustaða frá Járngerðarstöðum þar sem Árni taldi það hafa verið byggt fyrir aldamótin 1900. Á Járngerðarstöðum bjó Eiríkur Ketilsson í því (ættaður frá Kotvogi í Höfnum) og Jóhann Einarsdóttir. Árni hafði heyrt að það hefði verið flutt í einu lagi. Loftur Jónsson heimildamaður segist hins vegar hafa heyrt að Einland sé byggt úr timbri sem kom úr timburfarmi skipinu Jamestown sem strandaði við Hvalsnes við Hafnir 1881. Menn víðsvegar af Suðurnesjum keyptu mikið af timbri úr skipinu og notuðu til húsbygginga og Elías Guðmundsson hafði heyrt þá sögu sem strákur að afi hans, Jón Þórarinsson útvegsbóndi í Einlandi hefði keypt húsið í Höfnum, rifið það og flutt til Grindavíkur.
Norðan íbúðarhússins eru tóftir bæjarins en öll þessi mannvirki eru sýnd á túnakorti frá 1918. Einland er norðvestan við Bjarmaland og stutt er á milli húsanna. Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Jón Þórarinsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3.44. Tún og matjurtargarðar sértakt en hagabeit og heiðaland óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingum. Matjurtagarðar 400 faðm. gefa 20 tn í meðalári, 2 safnþrær, allt í góðu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefur af sér 60 hesta, hefur verið grætt út stórkostlega og má græða meira. Útengi ekkert, útbeit er fjallendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Buðlungu í uppsátursréttar er í sambandi við aðrar jarðir. Ágangur á yrkta lóð enginn.
Ekki er um eiginlegan bæjarhól að ræða og erfitt að greina uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði, það eru mannvirki á öllum hólnum að því virðist. Fast norðan við timburhúsið (byggt 1900) eru
tóftir, fullar af bárujárns- og timburbraki. Bærinn, og um leið bæjarhóllinn, er 21 x 14 m að stærð og snýr norður-suður. Á hólnum er timburhús sem áður er minnst á og tóftir útihúsa fast norðan þess. Árið 1986 þegar viðtal var tekið við Árna Guðmundsson (1891-1991) greindi hann frá því að ekki hefði verið búið í húsinu um nokkurra ára skeið.

Lambhúskot

Þórkötllustaðir

Lambhúskot.

1847: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JJ, 84, en ekki getið 1840 – Landnám Ingólfs III, 139.
Í Fasteignaskrá 1916-1918 segir: Þurrabúð liggjandi undir býli [Vesturbær Þórkötlustaða sem síðar var upp talinn, líklega vestari vesturbær]. Ábúandi Bjarni Bjarnason. Eftirgjald 6 kr, greitt til landeiganda. Lóðarstærð 400 faðmar yrkt í tún og matjurtagarða. Hús á lóðinni, sem er eign ábúenda.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – vindmyllustandur við Eyvindarstaði.

Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Þar var þurrabúð og hét með réttu Lambhúskot. Bærinn snéri líklega stöfnum til austurs og þar eru sýnd a.m.k tvö hús og kálgarðar til norðurs og suðurs.
Bæjarhóllinn er varðveittur ásamt tóft ofan á honum. Nýtt hús, byggt eftir 2002 er fast vestan við bæjarhólinn en raskaði honum ekki. Ekki er vitað hvort að mannvistarleifar hafi komið upp við byggingu þess. Í Húsakönnun Lofts Jónssonar segir: „Þórkötlustaðavegur 9: Það hús byggðu Ásmundur Jónsson og Kolbrún Guðmundsdóttir árið 2008 en eldri bærinn, hinn upprunalegi var „í túninu rétt austan við þar sem Ásmundur Jónsson byggði sitt hús.“ Þar segir einnig: „Lambhúskot. Það hús stóð austan við þar sem Þórkötlustaðavegur 9 stendur nú. Hjón sem bjuggu þar síðast voru Helgi og Guðfinna, sem byggðu Stafholt.“ Á myndbandi sem tekið var í Þórkötlustaðahverfi 1986 og þeir Árni Guðmundsson og Jón Daníelsson ræða saman kemur fram að torfbærinn í Lambhúskoti stóð í minni þeirra beggja en þeir voru fæddir 1891 (Árni) og 1904 (Jón). Í sléttuðu túni.
Bæjarhóllinn er um 30×15 m að stærð, 0,4 m á hæð og sker sig úr umhverfinu vegna lits og lögunar þúfna. Hann snýr norður-suður og bærinn snéri stöfnum til vesturs. Um er að ræða þústir en ekki greinilegar tóftir nema á einum stað nokkurn veginn fyrir miðju svæðinu. Tóft er á miðju hans, lág eða veggjarbrot liggur til austurs frá henni. Mögulega var þarna komið að bænum eða voru traðir.

Hverfið
Þórkötlustaðahverfi
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar.18 Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.

Þórkötlustaðir

Gamla-Buðlunga.

Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum.19 Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880.23 Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – Miðhús 2020.

Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Þrátt fyrir aukna atvinnumöguleika með tilkomu hraðfrystihússins fór fólki að fækka í Þórkötlustaðahverfi upp úr miðri 20. öld og varð vöxtur bæjarfélagsins einkum í Járngerðarstaðahverfinu enda var sú jörðin meira miðsvæðis í sveitarfélaginu og hafnaraðstaða þar betri.

Sjá myndband – viðtal við Árna Guðmundsson.

Heimild:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2018.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Kaldársel

Sesselja Guðmundsdóttir tók í janúar 2002 saman upplýsingar um sel, sem getið er um í Jarðabókinni 1703 á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs Arnarssonar. Þau eru eftirfarandi:

Gullbringu-og Kjósarsýsla / Árnessýsla – Nefnd sel og eða selstöður:

Grindavíkurhreppur

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

1. Krisevik:
“Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjálegumenn og bóndi.“ Skógur í landinu.
2. Isólfs Skále:
Ekki nefnd selstaða en eiga skóg í Suðurnesja almenningum.
3. Hraun:
“Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ (Sel í Þrenglsum).

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel á Vigdísarvöllum.

4. Þorkötlu stader:
“Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en mikillega lángt og erfitt til að sækja.“
5. Hóp:
“Selstöðu þarf út að kaupa.“ (Sel undir Selhálsi).
6. Jarngerdar stader:
“Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar. Þessa brúkar bóndinn alleina.“

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

7. Husa Tofter:
„Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“
8. Stadur:
„Selstaða góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnu brúkuð verið 1xxx ár á Selsvöllum.“

Hafnahreppur
9. Gálmatjörn:
“Selstöðu hefur jörðin átt sem nú er að mestu eyðilögð fyrir sandi, og verður því valla eður ekki brúkuð, og er augljóst að snart muni hún að öngvu liði verða.“
10. Merke Nes:
“Selstaða mjög haglítil og vatnslaus, so þíða verður snjó fyrir peníng, um sumur, þegar hann bregst, er ekki vært í selinu.“
11. Kyrkiu Vogur:
“Selstaða ei allfjarri. Mjög haglítil. En vatnsból í selinu mjög erfitt, so að á hestum þarf til að flytja um hásumar.“

Hafnasel

Hafnasel – uppdráttur ÓSÁ.

12. Gamle Kyrkiu Vogur:
“Forn eyðijörð, hefur legið í auðn yfir stórt hundrað ár. Eru munnmæli að Kirkjuvogs bær sje þaðan fluttur, þángað sem nú stendur hann, og vill þá þetta bæjarstæði í Kirkjuvogslandi verið hafa. Aðrir halda að þetta bæjarstæði sje í Stafness landi.“
Gamle Kirkiuvogur: “ …. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hver bær verið, Kirkjuvogur, sem nú er bygður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er, að heitið hafi til forna Djúpivogur. . .“
13. Stafnes:
Ekkert minnt á selstöðu.
14. Basendar:
Kaupstaður. Nefndar eru 12 hjáleigur í landinu, í eyði fyrir 1-40 árum, landbrot og uppblástur.

15. Hualsnes:
“Selstöður tvær er sagt að kirkjan eigi, og eru nú báðar þær næsta því ónýtar fyrir grasleysi, og önnur aldeilis vatnslaus, so er og mestalt land jarðarinnar komið í sand, grjót og hrjóstur.“

Hvalsnessel

Sigurður Eiríksson við Hvalsnessel.

16. Maasbuder:
“Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans . . .“
17. Melaberg:
“Eyðijörð, hefur legið í auðn yfir hundrað ár.“

Vatnsleysustrandar hreppur

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

18. Innre Niardvik:
“Selstaða mjög haglítil.“
19. Storu Vogar:
“Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðarmenn í Grindavík vilja eigna sjer þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæðst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“
20. Minne Vogar:
“Selstöðu brúkar jörðin frí hina sömu sem Stóru Vogar.“
21. Brunnastader:
“Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.'“

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

22. Hlodunes:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðuneskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu.“
23. Stóru Aslaksstader:
“Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina.“
24. Minne Aslakstader:
Sama selstaða.
25. Litla Knararnes:
Sama selstaða.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

26. Stóra Knararnes:
“Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð.“
27. Breida Gierde:
Sama selstaða.
28. Audnar:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft.“

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

29. Þorustader:
“Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ (tel að þarna sé átt við Sogasel. S.G.)
30. Kalfatiörn:
“Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði (svo hdr), þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja.“

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

31. Backe:
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi.“
32. Fleckuvík:
“Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“
33. Minne Vatnsleisa:
“Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“
34. Stóra Vatnsleisa:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“
35. Huassahraun:
“Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina.“

Álftanesshreppur

Lónakotssel

Lónakotssel.

36. Lónakot.
„Seltöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti.“
37. Ottarstader.
„Selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn hafa við Óttarstaði.“
38. Straumur.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga.“
39. Þorbiarnarstader.
“Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, þar eru hagar góðir, en vatn slæmt.“

Gjásel

Gjásel.

40. Lambhæge.
“Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt.“
41. Ás.
“Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.“
42. Ofridarstader.
„Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður í Ássland, og fyrir það halda sumir að Áss haf skipstöðu eignast í Ófriðastaðarlandi sem áður greinir.“
43. Hamarskot.
“Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel.“

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

44. Setberg.
„Selstöðu á jörðin þar sem heitir Kietsheller, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólarhiti bræðir.“
45. Gardar.
“Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“
46. Sandhus.
„Selstöðu á jörðin og hefur brúkað átölulaust þar sem heita Norðurhellrar.“
47. Hlid.
„Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.“
48. Mölshus.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
49. Brecka.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðruhellrar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

50. Sualbarde.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað þar sem heita Norðurhellrar.“
51. Suidhollt.
„Selstöðu hefur jörðin brúkað í Norðurhellrum.“
52. Deild.
„Selstaða hefur brúkuð verið til forna í Norðurhellrum.“
53. Selskard.
„Selstöðu má jörðin brúka í staðarins landi.“

Seltjarnarnesshreppur
54. Lambastader.
„Selstöðu þykjast nokkrir heyrt hafa jörðinni eignaða þar sem heitir undir Selfjalli og kallað er Lambastaðasel.“
55. Nes.
“Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið.“

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

56. Erfersey.
“Selstöðu á jörðin undir Selfjalli þar sem heitir Erferseyjarsel.“
57. Reikiavík.
“Selstaða er jörðunni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“

Selvogur
58. Snióthús.
“Selstöðu brúkar jörðin í óskiftum úthögum, sem hún hefur saman við Nesmenn haft og brúkað ómótmælt so lángt menn minnast.“ . . . „Vötn engin nema sjóstemma, og er það flutt á hestum til seljanna á sumardag, en kvikfje rekið meir en fjórðúng þingmannaleiðar til vatns.“ (37,5 km/4 = 9,4 km, aths. S.G.).

Nessel

Nessel.

59. Nes.
“Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“
60. Biarnastader.
“Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“
61. Gata.
“Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“
62. Þorkelsgerde.
“Selstaða vatnslaus ut supra.“

Eimusel

Eimusel (Eimuból).

63. Eima.
“Selstöðu brúkar jörðin í heiðinni, vatnslausa so sem aðrir.“
64. Windás.
“Selstaða í heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“
65. Straund.
“Selstöðu á jörðin gangvæna í eigin landi, en þó vatnslausa nærri sjer, nema votviðri tilfalli, þó er hjer skemra til vatns en annarstaðar hjer í sveitum frá seljum.“

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

66. Wogshús.
“Selstöðu á jörðin í Hlíðarlandi og færa menn þó vatn til selfólks brúkunar, en kvikfje er vatnað stórbágindalaust í Hlíðarlandi“
67. Stackawijk.
“Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“
68. Herdijsarwijk.
“ Selstöðu eigna menn jörðinni í Krísivíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“

Ölfus

Breiðabólstaðasel

Breiðabólsstaðasel.

69. Breiðabólsstaðarsel.
„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberf, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmá þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli.“

Litlalandssel

Litlalandssel.

70. Litlalandssel.
„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg.“
71. Hlíðarendasel.
„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitarfelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil.“

Framangreindra selja er, sem fyrr segir, getið í Jarðabókinni 1703. FERLIRsfélaga hafa, árið 2024, leitað að og fundið 434 sel og selstöður á Reykjanesskaganum, frá mismunandi tímum. Hafa ber í huga að hér að framan er ekki getið seljanna frá bæjum á Kjalarnesi og í Kjós, sem einnig voru innan landnáms Ingólfs.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám.

Torfbær

Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld – Finnur á Kjörseyri – 1945 – rituð á þriðjungi huta 20. aldar. Þjóðhættir um og eftir miðja 19. öld – Daglegt líf á Suðurlandi.

Húsakynni

Finnur Jónsson

Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924).

1. Dvaldist á Suðurlandi fram yfir tvítugsaldur.
2. Hús voru með líku sniði þar sem ég þekkti til á Suðurlandi um þær mundir. Sneru þau flest frá norðri til suðurs.
3. Baðstofur voru vanalega öðrum megin við bæjardyr. Voru þær annað hvort lágbyggðar (gólfbaðstofur) eða portbyggðar með þiljaðri stofu undir lofti í suðurenda, og á sumum stöðum með þiljuðu herbergi í norðurenda.
4. Þær stofur er þiljaðar voru um 1850, voru flestar þiljaðara með óstrikuðum, plægðum þiljum.
5. Í baðstofunum stóðu rúmin með veggjum, hvert fram af öðru. Í flestum baðstofum var fjalargólf og holt undir rúmum. Á sumum smæri býlum var þó moldargólf.
6. Hvergi sá ég skjáglugga á baðstofum. En á útihúsum sá ég þá og jafnvel í búrum og eldhúsum. Þeir voru vanalega kringlóttir og þaninn líknarbelgur á grind þeirra í glers stað. Ef líknarbelgurinn er hreinn, ber hann nærri eins vel birtu og gler.

Þjóðhættir - Finnur

Þjóðhættir – Finnur Jónsson frá Kjörseyri.

7. Eldhús voru víða beint innar af bæjardyrunum. Voru þau byggð eins og mörg önnur útihús með allt að þriggja álna háum stöfum, er stóð á stoðarsteinum, er svo voru nefndir.
8. Á sumum eldhúsum, þar sem því varð við komið, var gat eða vindauga alla leið úr öskustónni og út úr eldhúsvegg. Var það kallað “gjósta”.
9. Skyrsáir, kaggar, tunnur og önnur hylki stóðu meðfram veggjum á spýtum eða hellusteinum. Dæmi voru til þess, að menn grófu sáina niður í búrgólfin, svo að ekki frysi í þeim.

10. Upp af sumum bæjardyrum stóðu vindhanar. Þeir sáust líka á öðrum húsum. Á mörgum vindhönum var gegnum- eða loftskorið fangamark húsbóndans og ártal.
11. Smiðjur voru á hverju býli sjálfsögð jarðarhús. Þær voru flestar litlar, 4-5 álna breiðar og álíka langar, og reftar upp líkt og portlausar skemmur.
12. Voru það gömul munnmæli, að þær smiðjur, sem í var arnarkló, brynnu ekki.
13. Þar sem heygarðar voru ekki að bæjarbaki, sem almennast var, var hlaðinn garður að baki bæjarhúsunum, svo að skepnur kæmust ekki upp í húsgarðinn, sem kallaður var.

Heygarðar

Heygarður

Torfbær – heygarður á millum.

1. Í heygarðinn var öll taða og úthey látið, nema ef hús voru langt frá bæjum eða túnum. Þá voru dálitlar heytóttir við þau og voru þær kallaðar kuml.

Torfþök
1. Ég heyrði marga segja, að torfþök geti aldrei verið lekalaus. Það hygg ég sé misskilningur, a.m.k. í úrfellameiri héruðum, ef þökin eru nógu brött og vönduð.

Fénaðarhirðing og vorverk
1. Óvíða á Suðurlandi voru hlöður eða heyhús. Í suðurhluta Gullbringusýslu voru víða hús fyrir töðuna, og svo hefur ef til vill verið í sjávarsveitum Árnessýslu.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

2. Um vertíðina, frá því í byrjun febrúar og fram í miðjan maí, var það verk kvenfólks og unglinga að hirða féð, því að karlmenn fóru allir í verið nema efnuðustu bændur og örvasa gamalmenni. Á þeim árum átti kvenfólk á Suðurlandi sannarlega auma ævi allan seinni hluta vetrar og fram á vor.
3. Þegar konur komu frá gegningum á vetrum, settust þær að ullarvinnu og litu ekki upp úr henni, nema meðan þær borðuðu og lesinn var húslestur.
4. Fyrstu vorverkin auk fénaðarhirðingar voru túnaávinnsla og útstunga taðs eða skánar, sem kölluð var.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

5. Stekkir og stekkjartún voru víða nokkuð langt frá bæjum. Stekkirnir voru vanalega byggðir eins og fjárréttir.
6. Þvottur og önnur meðferð ullar, var svipuð því, sem enn er víða. Nokkru áður en ullarþvottur hófst var safnað þvagi í kagga eða annað ílát, sem kallað var hlandstampur. Nýtt hland var talið ónýtt til þvotta.
7. Reiðingar voru almennt úr torfi. Það þótti hlunnindi á hverri jörð, ef þar var góð reiðingsrista, en það var í mýrum, þar sem gulstraungar og horblaðka, einnig kölluð reiðingsgras, uxu.

Klyfberi

Klyfberi.

8. Klyfberar voru úr birki eða rekavið. Klyfberar, hagldir, sylgjur og yfirleitt flest áhöld voru gerð heima í sveitunum, en nú í byrjun 20. aldar er tízka að kaupa margt af því í verslunum.
9. Skeifur voru fjórboraðar, og hestskónaglar voru gildir með stórum og þykkum haus, en allt að því helmingi styttri en hinar erlendu fjaðrir, er nú tíðkast.
10. Um miðja 19. öld gat varla heitið, að járnskóflur þekktust til sveita.
11. Ljósakola var notuð í fjós. Kolurnar loguðu furðu vel, ef lýsið var hreint, og þótti sjálfrunnið sellýsi best. Kolunum var stungið í stoð í fjósununum, meðan stúlkur voru að mjólka.

Skógarvinna

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

1. Vor og haust var á skógarjörðunum mikið starfað að skógarvinnu. Það var kallað “að fara í skóg”. Það gerðu bæði karlar og jafnvel kvenfólk og unglingar.
2. Þegar felldur var skógur eða tekinn upp sem kallað var, voru stofnarnir eða lurkarnir höggnir í sundur við rótina eð vanalegum íslenskum öxum, sem kallaðar voru ýmist skógaraxir, ketaxir eða handaxir.
3. Sumir hjuggu allar rætur og létu þær fylgja stofninum, og þótti það drýgra til kolagerðar.
4. Síðan var afkvistað eða kvistað.
5. Þegar búið var að kvista, var tekið að kurla.
6. Að þessu búnu var farið að svíða kolin.
7. Ekki voru hestar þá notaðir fyrir kerru, plóg, herfi, heyýtur eða sleða, því þau verkfæri þekktust alls ekki, nema sleðar á einstöku stað, en þeir voru dregnir af mönnum.

Réttir

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt ofan Ísólfsskála

1. Réttir voru flestar í 21. viku sumars. Menn slógust í réttunum.

Ullarvinna
1. Að loknum haustverkum settist kvenfólk að ullarvinnu. Karlmenn hjálpuðu einnig við hanna milli þess, er þeir gengdu fénaði.
2. Um dagsetur skyldi gegningum vera lokið, og var kveikt úr því, en oft urðu rökkrin löng.

Mataræði
1. Um túnaslátt vöknuðu menn eða fóru til sláttar um kl. 3 á nóttunni.

Hátíðar

Jól

Jólin.

1. Á Þorláksmessu voru svonefnd “hraun” soðin í hangikjötssoðinu, og höfð til miðdegisverðar ásamt reyktum bjúgum og köku.
2. Sumir suðu harðfisk í hangikjötssoðinu. Var það helst “maltur” fiskur, en svo kallaðist fiskur, sem illa hafði gengið að herða, og hafði komist í hann ýlda áður en hann harðnaði.
3. Á aðfangadaginn var miðdegismatur oft kálfskjöt og fleira kjötkyns ásamt kökubita með smjöri og floti.
4. Þá var hverjum gefið jólakerti.
5. Yngra fólkið spilaði, oftast alkort, sem ungum og gömlum þótti einna tilkomumest spil í þá daga.
6. Á jóladagsmorgun var gefið sætt kaffi með sykruðum lummum. Í morgunmat var hafður þykkur bankabyggsgrautur með samfenginni mjólk eða rjóma út á.
7. Sumardagurinn fyrsti var einn hátíðisdagurinn.

Daglegt líf á Suðurnesjum.

Húsakynni

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

1. Töðuhlöður voru víða við sjóinn og miklu almennari en í sveitum, voru þær kallaðar heyhús. Þá voru þurrkhús og hjallar víða við sjó, en mjög sjaldséð í sveitum. Hins vegar áttu sumir sjávarbændur ekki hús yfir kindur sínar og hross, því að það gekk sjálfala, og var því ætlað lítið fóður eða ekkert.
2. Þrátt fyrir lélega meðferð á fénu á Suðurnesjum, sáust þar laglegar kindur hjá sumum. Fjörubeit var ágæt, og í heiðarlöndunum var kjarngott beitiland, þótt snöggt sé þar og hrjóstugt. Þar var talsvert af beitilyngi.

Þangskurður

Þari

Þari.

1. Að loknum slætti fóru menn að afla sér eldsneytis, en það var aðallega þang.
2. Flestir reyndu að fá sér eitthvert eldsneyti með þanginu, ef þess var nokkur kostur, og var flest tínt, sem brennanlegt var, svo sem torfusneplar, afrakstur af túnum, hrossatöð og kúaklessur. Sumir menn úr Garði, Leiru og Keflavík fóru á skipum sínum inn til Reykjavíkur og keyptu þar mó.

Sjósókn
1. Vetrarvertíð hófst á kyndilmessu, 2. febrúar, og stóð fram til 12. maí. Þá komu útróðramenn víðsvegar að, og fylgdi þeim fjör og tilbreyting, en einnig mikið slark.

Verbúð

Framármaður – málverk Bjarna jónssonar.

2. Þegar lent var, fóru framímenn, sem stundum voru nefndir stafnbúar, út úr skipinu og héldu því á floti meðan menn seiluðu fiskinn út úr skipinu. Hver háseti hafði seilaról.
3. Eins og fyrr segir stóð vetrarvertíð á Suðurlandi frá 2. febrúar til 12. maí, og eru það um 100 dagar að helgidögum meðtöldum.
4. Vanalega fengu lagsmenn einhvern til að hirða umsjófang sitt, útgerðarmenn eða aðra, þegar þeir fóru heim að vorinu. En stundum var annar lagsmaðurinn eftir og reri vorvertíðina.

Hjallur

Dæmigerður fiskhjallur við býli fyrrum.

5. Fiskur var hertur þannig, að fyrst var hann flattur og látinn í smáhrúgur, lagður þannig saman, að roðið sneri út. Þegar þerrir kom, var hann breiddur á steinaraðir og grjótgarða og roðið látið snúa niður. Var honum snúið eftir því sem þörf krafði, ef þurrkur hélst. En á nóttum var roðið ætíð látið snúa upp.
6. Hausum var raðað á slétta möl, steinaröð eða sléttagrund, ef lítið var um þurrkpláss.

-Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld – Finnur á Kjörseyri – 1945 – rituð á þriðjungi huta 20. aldar. Þjóðhættir um og eftir miðja 19. öld.

Torfbær

Torfbær 1924.

Veðursteinn

„Sá sem les sögu Íslands með athygli kemst varla hjá að sjá samhengið milli loftslags og lífskjara.“

„Veðurfar á Íslandi“ – Páll Bergþórsson:

Páll Bergþórsson

Páll Bergþórsson, veðurfræðingur (1923 – 2024).

1. Frá sjónarmiði landbúnaðar er sannmæli, sem oft hefur verið haldið fram, að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims. Það er aðallega kuldinn sem veldur. Þess vegna hafa bæði skammvinn og langvinn verðabrigði haft mikil áhrif á kjör þjóðarinnar og mótað hugsunarhátt hennar og menningu að mörgu leiti.
2. Hafísinn móta loftslag og loftlagsbreytingar meira á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Það stafar af sérstökum aðstæðum hafstrauma.
3. Veðurlagið á hverjum tíma mótast talsvert af hálendinu og fjallgörðunum sem skipta veðrum.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli. Væntanlega kornskáli Ingólfs; með elstu minjum landsins.

4. Margir telja að allt að helmingur landsins hafi verið gróinn á landnámsöld, en helmingur þess gróðurlendis hafi blásið upp. Þó er erfitt að segja að hvað miklu leyti sá uppblástur hefur stafað af loftlagsbreytingum eða ágangi manna og búfjár.
5. Síðustu áramilljónir hafa skipts á hlýskeið og ísaldir og þeirra síðustu mun hafa lokið fyrir um 10.000 árum.
6. Aldirnar frá landnámi og fram undir 1200 ættu að hafa verið mildar, með litlum undantekningum, og líkar því hlýindaskeiði 20. aldar sem nútímamenn þekkja.

Hekla

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta var 1104. Síðan hefur fjallið gosið 1158, 1206, 1222, 1294 (1300), 1341, 1389-1390, 1440, 1510, 1554, 1597, 1636, 1693, 1725, 1766, 1845, 1878, 1913, 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000.

Undir 1200 fer að kólna og svipað loftslag helst allt fram undir 1400. Um fimmtándu öldina eru svo litlar heimildir að þar er eyða. Sextánda öldin er álíka köld og sú 13. og 14. Um 1600 kólnar nokkuð og þótt sú breyting sýnist ekki mikil sýnir reynsla síðari tíma að jafnvel svo lítil loftslagsbreyting getur orðið örlagarík. Eftir það eru mikil harðindi öðru hvoru fram undir 1920.

7. Það er eftirtektarvert að þrátt fyrir allar frásagnir af landnámsöld, einkum í Landnámu, eru varla meinar sagnir af því að hafís hafi orðið til trafala svo líflegar sem siglingar voru þá.
8. Í landnámu er frásögn sem má kalla samantekt á veðurfari tveggja fyrstu aldanna í sögu landsins. Þar segir frá hallæri á tíundu öld, svonefndri óöld í heiðni, og að 80 árum síðar hafi komið annað hallæri.

Skálafell

Gullakur neðan Skálafells.

Þetta bendir til þess að loftslag hafi yfirleitt ekki verið kaldara en menn þekkja frá miðri þessari öld.

9. Örnefni, sagnir og fornleifar eru til vitnis um kornrækt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
10. Beinfundir sýna að meðalhæð íslenskra karla var um 172 sc á miðöldum, en var orðin 169 cm á 18. öld. Þetta er í samræmi við vaxandi fjölda hungurfelliára á þessu tímabili.

Fjallkóngur

„Fjallkóngur“ norðvestan Mávahlíða.

11. Sá sem les sögu Íslands með athygli kemst varla hjá að sjá samhengið milli loftslags og lífskjara.
12. Til forna var talið að eitt kúgildi, eina kú eða sex ær loðnar og lembdar þyrfti til að framfleyta hverjum heimilsmanni ef bóndi átti að teljast þingfarakaupsskyldur.
13. Beint samhengi ætti að vera á milli lofthita og fjölda búpenings í landinu.
14. Þetta vekur þá spurningu hvaða áhrif fækkun búpenings hafi haft á fólksfjölda í landinu.

-Íslensk þjóðmenning I – uppruni og umhverfi – 1987 Frosti F. Jóhannsson (bls. 195-366).

Veðursteinn

Veðursteinninn við Sólbakka.

Vífilsstaðasel
Eftirfarandi „Orðatiltæki tengd selbúskap“ má finna í Orðabók Háskólans:

Sel:

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

1. Er þar í seli haft lengi á sumri.
2. At Sel edr Setr skylldu eptir laganna tilsøgn brúkaz á sérhvørium jørdum.
3. Hvar í Seli mætti hafa til stórra gagnsmuna.
4. Og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832.
5. Hér í sóknum er nú um stundir hvörgi haft í seli.
6. Þó á það sjer stað, að fleiri eða færri bændur leggja saman, hafa í seli í fjelagi og mynda þannig sameiginlegt mjólkurbú.
7. Opt standa saman í einni þyrpingu (hverfi).
8. Kunna Íslendingar varla við það [ […]] að kaupmenn brúki landið fyrir útibú, eða hafi hjer í seli.

Brunnur/Vatnsból:
1. Þu hefer eigi þat sem þu getr med ausit / enn hatt er ofan i brunninn.
2. Vatz brunnuna [acc. pl.].

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði.

3. Vatnsból bregðast stundum á vetur, og er þá vatnsvegur lángur.
4. Fyrst skaltu velia þer gott vatnsbool.
5. Á afviknum stad lángt frá vatnsbóli.

Kvíar:
1. Aldrei var hún [::ærin] mjólkuð í kvíum.
2. Lýkst upp jökullinn, og verða þar fyrir kvíar, og stendur fellið efst uppi í kvíunum.
3. Morguninn næsta [ […]] var hún að mjólka ær í kvíum.
4. Og þá langaði til að mæla enn meira og færa lengra út kvíarnar.Nátthagi:

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

1. Nátthagi forn sést og verið hafa við túnmál á Þverá. nátthagi Sókn II, 55
2. Eru þar og um alla sveitina út um hagana þvílíkar niðurfallnar forngirðingar, líklega vörzlu- og landamerkjagarðar, samt nátthagar eður akrar.
3. Á ýmsum stöðum hafa verið byggðir nátthagar eða ,,bæli“, er ærnar hafa verið látnar liggja í að sumrum.
4. Aðalkostur við nátthaga eru, að ærnar eru í sjálfheldu í þeim og nátthaginn ræktast.
5. Að byggja nátthaga handa fé á sumrum.
6. Að byggja nátthaga.
7. Hann hefir og gert [ […]], sléttur stórar, garða og nátthaga.

Rétt:

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt ofan Ísólfsskála.

1. Fer fólk að tínast af réttinni.
2. Lömbin tekin fyrir fullt og allt frá ánum, þau rekin til fjalla, en ærnar mjólkaðar til rétta.

Smalabyrgi:
1. Selhreysi og smalabyrgi.
2. Enginn kemur upp að smalabyrginu framar, dalurinn hinumeginn er auður og tómur.
3. Hún þráir sitt gamla smalabyrgi.
4. Í hjásetunni reisti hann fyrsta hús sitt, smalabyrgi, portbyggt með tveim kvistum.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur – uppdráttur ÓSÁ.

5. Á Stóruskriðu var gamalt smalabyrgi, þannig staðsett að vel sást yfir fjallskinnina.

Stekkur:

1. Því þá voru ólátabelgirnir teknir frá móðurspenanum og látnir í stekk.
2. Var lítil rétt út úr aðalréttinni, sem kölluð var stekkur.
3. Vorið, sem hún [::ærin] gekk með Gotta, kom hún á stekkinn, þegar rekið var saman til fráfærnanna.
4. Á móti þessum ófögnuði var til gamalt ráð, sem kallað var að bera eld í stekk.
5. Á stekkinn fór hún venjulega, þegar stíað var fyrir fráfærurnar.

Varða

Varða við Villingavatn.

6. Ánum var síðan sleppt út úr stekknum, og nú áttu þær að hlaupa um stekk yfir nóttina.
7. Lömbin voru hins vegar látin hlaupa um stekk fyrsta daginn, en ávallt voru þó einhverjir að gæta þeirra.

8. Venja var að stía lömbum frá mæðrunum svo sem einn vikutíma á undan fráfærum, í stekk, sem til þess var gerður.

Varða:
1. Heiðin var vörðuð 18 vörðum, hlöðnum úr fjallagrjóti.
2. Vörður eru gömul leiðarmerki á Íslandi.

-Orðabók Háskólans.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Almenningsvegur

Eftirfarandi er úr „Þjóðlíf og þjóðhættir“ eftir Guðmund frá Egilsá.

Göngur og réttir.

Guðmundur Friðfinsson

Guðmundur Liljendal Friðfinnsson (1905-2004).

1. Göngur og réttir hafa löngum skipað hátíðlegan sess í hugum sveitafólks með eftirvæntingu og spennu. Í bændasamfélagi fortíðar voru drengir farnir að hlakka til gangnanna upp úr höfuðdegi, þegar tók að hilla undir heyskapalok með aðfarandi hausti, svo vatn var farið að koma í munninn, er hugsað var til nýrrar og ilmandi kjötsúpu og digurra sláturkeppa, sem röðuðu sér á búrborðið eins og sauðir á garða.
2. Matföng voru oft einhæf, varð jafnvel að skera við nögl hjá fátækara fólki, einkum er leið á sumar, þegar ekki fannst lengur kjötbiti á botni saltkjötstunnunnar.
3. Tár gleymast og þorna yfir feitum bita eða mörvuðum sláturkepp, því feitin var höfuðeinkenni alls góðmetis þess tíma.
4. Göngur og hlaup við haustsprækar kindur innan um fjalldrapa og lyng, sem orðið var rautt eins og jólakerti var betri en vöruferðin með magamiklum kaupmanni, sem lifði á rúsinum og döðlum og bruddi kandís með kaffinu. Ekkert var betra en reksturinn þegar maður fékk að fara langan veg ríðandi, vaka heila nótt og sjá sólina rísa með nýgreitt hár upp úr ókunnu dalverpi.

Réttir

Réttir.

5. Loks var runninn upp sunnudagurinn í tuttugustu og annarri viku sumars – gangnasunnudagur – mikill dagur og búið að sjóða í gagnanesti og baka brauð, ásamt öðrum undirbúningi.
6. Þegar menn höfðu hresst upp á líkamshróið í réttunum, var gengið til réttar og ævinlega byrjað á því að draga ókunnuga féð út.
7. Þegar drætti var lokið, þurfti að smala úrtíningnum, því ekki var girðingarhólf.
8. Silfrastaðarétt var gengin á tveimur dögum. Hún var aðalréttin, svokölluð skilarétt.
9. Réttin var eitt fjölmennasta mannamót í sveitinni.
10. Skylda landeigenda var að smala heimalönd.

Sláturtíð.

Slátur

Sláturgerð – vambir.

1. Eftir fyrstu göngur tóku haustannir við, og voru sláturstörfin þar gildur þáttur. Strax og bændur höfðu náð saman mestum hluta fjár var tekið frá, það sem fara átti í kaupstað til slátrunar, og rekið eins fljótt og auðið var.
2. Hausar, fætur, mör og rislar voru bundnir í klyfjar, kannski vambir og viðkvæmur innmatur frekað silað upp, lifrar og hjörtu fluttar í trékössum. Erfiðleikar voru oft með ílát undir blóð.
3. Strax og heim var komið með slátrin, var hafist handa að taka allt upp og breiða. Salt var stráð í strjúpa sviðahausa.
4. Mikil vinna var að kalóna vambir.
5. Talsvert verk var að bryja mörinn.
6. Slátur var soðið í þrjá tíma og ævinlega í stærsta potti heimilisins.
7. Sviðaflot var talið ganga næst smjöri.
8. Adrei var farið í heimaslátrun fyrr en upp úr þriðju göngum eða eftirleit. Jafnan var nokkrum sauðum slátrað heima.

Árbæjarsafn

Hangilæri í ráfri.

9. Sláturféð var rekið í hús og síðan ein og ein kind tekin og leidd inn á blóðvöll.
10. Kjötið var látið hanga áður en það var reykt.
11. Magálar voru eftirlætismatur.
12. Stundum morknaði hangikjöt og þótti sumum það ekki verra.
13. Gærur voru rakaðar með heimasmíðuðum gæruhníf, oftast úr ljáblaði.
14. Sauðskinn voru blásteinslituð, lögð í blásteinsvatn nýrökuð.
15. Stórgripahúðir voru rakaðar og yfirliett spýttar á vegg eða þilstaf. Úr þeim voru leðurskórnir gerðir.
16. Allt var hirt, sem mögulegt var, og nýtt til matar eða annarra þarfa búsins.
17. Súrmatur allur var geymdur í köggum og olíufötum og mestan part í mysu, þó var stundum drýgt með vatni og sakaði ekki á slátur.
18. Kaggar voru íslensk smíði, jafnvíðir og á hæð við síldartunnu.
19. Kæfa var ævinlega gerð á haustin. Í hana var helst nota ærkjöt.
20. Allt flot var nýtt. Kjötflot þótti gott með brauði, ef lítið var um smjör, einnig með harðfiski.
21. Bræðingur var oft gerður og notaður til viðbits.
22. Mör var aldrei bræddur fyrr en lokið var öðrum sláturstörfum.

Matur og matseld.

Árbæjarsafn

Eldhús fyrrum.

1. Matseld var eitt þeirra starfa, sem átti sér engan endi fremur en eilífðin og var í umsjá og verkahring kvenna.
2. Það var mikið verk að “koma mjólkinni í mat” og hirða mjólkurílát, sem yfirleitt voru úr tré.
3. Einn þátturinn í því mikla verki að koma mjólkinni í mat var skyrgerðin. Fyrst var undirrennan flóuð.
4. Á heimilum, sem ekki var hægt að safna skyri á sumrin til vetrarforða, var oft steypt saman, undanrennu safnað í ílát og látin súrna.
5. Vöruskipti milli sjómanna og bænda voru nokkuð algeng og báðum hagkvæm, þar eð fáir báru digra sjóði. Bændur fengu fisk, nýjan, saltaðan eða hertan og létu ýmsar landbúnaðarvörur fyrir.
6. Maðkamaltur fiskur var sætur og nokkuð bragðgóður og hafði engum orðið meint af að eta hann.

Landnámshænur

Landnámshænsni.

7. Man ekki eftir orðinu grænmeti í máli manna og ferska ávexti sá ég aldrei.
8. Hænsni voru á einstaka bæ.
9. Einstak maður komst að orði, að heitt kaffi “brenndi úr manni þorstann”.
10. Flóuð mjólk var stundum drukkin og kölluð “heitmjólk”.
11. Kornkvarnir voru á velflestum bæjum.
12. Fuglinn var silaður upp í kippum.

Ljósfæri.
1. Það mun hafa verið siður á sumum bæjum að kveikja ekki upp fyrr en um göngur, því allt var sparað.
2. Lýsislampar voru úr sögunni þegar ég man eftir. Algengustu ljósfæri í frambæ og peningshúsum voru olíutýrur.
3. Tálgaður var annar endinn af tvinnakerfli.

Kyrralíf.

Rokkur

Rokkur.

1. Þegar haustönnum lýkur ásamt fjallgöngum og matarstússi til að mæta kyrrlátum æðarslætti vetrar, fellur líf fólksins í nokkrn veginn fastan farveg um sinn.
2. Kominn er vetur með rokkhljóð í baðstofu, tíst prjóna og urghljóð kamba.
3. Fram undan eru dagar, sem æ styttast. Sjálf sólin gerist tómlát.
4. Í þessum hæggenga heimi gefa bændur sér kannski tíma til að staldra við á bæjarstéttinni og ropa af vellíðan eftir góðan málsverð, þar sem feit slátursneið hefur synt í hræringsskálinni.
5. En ekki geta allir litið á lífið með þvílíkri velþóknun. Í djúpi hinnar kyrrlátu þagnar getur leynst kvíði fyrir komandi skammdegi.
6. Ef einhvers staðar er eftir hrísmór eða birkikló, sem glatt hefur augu mann í sumar, verður þó gengið þangað út og öxin reidd að undir vor.
7. Dytta varð að húsum yfir veturinn. Flest hús voru úr torfi og grjóti.

Húsfólk.

Kvöldvaka

Kvöldvaka.

1. Í þennan tíma var algengt að hafa húsmennskufólk á bæjum, fæddi sig sjálft, oft skepnur, sem það heyjaði fyrir og vann húsbændum oftast eitthvað, að minnsta kosti fyrir húsmennskunni.

Kvöldvökur.
1. Stundum las pabbi bækur upphátt á vökunni og kom sér vel, því mamma var mikil starfskona og féll sjaldnast verk úr hendi.
2. Draugar og hulduverur voru farnar að setja ofan, en myrkfælni algeng.

Ígangsplögg og stag.

Sokkar

Ullasokkar.

1. Þjónustan var ávallt kona. Bar henni að draga vosklæði, að minnsta kosti sokka, af þeim karli, er hún þjónaði.
2. Ekki mátti fara bæði úr skóm og sokk á öðrum fæti. Þá afklæddust menn láninu.
3. Vettlingar voru ýmislegrar gerðar, sparivettlingar og ullarvettlingar.
4. Íleppar voru notaðir innan í alla skó.
5. Konur og yngri börn gengu í sauðskinsskóm, karlar oftast í leðurskóm, nema spari. Kvöldskór voru altént úr sauðskinni.
6. Skinnsokkar voru saumaðir úr sauðskinni, náðu aðeins til hnés.
7. Við skógerð voru notaðar sérstakar nálar.
8. Utanyfirskór voru eiginlegar skóhlífar, einkum notaðar við heimsóknir.

Rjúpnaveiði.

Lónakotssel

Rjúpa við Lónakotssel.

1. Fyrrum voru rjúpur veiddar í vað.
2. Aldrei var gengið til rjúpna á sunnudögum. Hefð var að aflífa ekki á helgidögum.
3. Hagstæðasta veður til rjúpnaveiða var logn og nokkurt frost.
4. Rjúpur voru ekki skotnar á flugi, stafaði trúlega af því að skotfæri kostuðu sitt.
5. Rjúpur voru verslunarvara.
6. Allt hirt af rjúpunni nema garnir.

Jól.

Jól

Jólin.

1. Alltaf nóg að starfa í aðdraganda jólanna.
2. Bærinn var sópaður og skúraður nærri eins og á vorin.
3. Allt bakað á hlóðum meðan engin var eldavél.
4. Kökukeflið var ávöl spýta. Stundum var flaska notuð í bland.
5. Þetta voru miklir dagar. Á Þorláksmessu var hangikjötið tekið niður úr eldhúsrótinni og soðið í stórum potti. Hangikjötsilmurinn fannst alla leið út á hlað.
6. Á aðfangadag fóru fram hreingerningar á sjálfu mannfólkinu.
7. Um þetta leyti var byrjað að hleypa til ánna.
8. Klukkan sex á aðfangadag gengu jólin í garð.
9. Allir fengu sitt kerti. Það bar þessa blessaða birtu.
10. Uppistaðan í jólamatnum var hangikjöt og laufabrauð.
11. Ekki voru jólagjafir komnar til sögunnar.
12. Aldrei var spilar á spil á jólanóttina.

Jól

Nýársnóttin.

13. Jóladagurinn bar örlítið annan blæ, lítið eitt veraldlegri. Þá mátti spila á spil og skvetta sér upp og auðvitað fara í kirkju.
14. Þegar fullorðna fólkið spilaði, en það var helst ef gestir voru, þá var það einkum trompvistin.
15. Á gamlárskvöld var borðað á svipuðum tíma og jólanótt. Þá var líka kveikt á kertum, því auðvitað var ekki bruðlað með þau fremur en annað.
16. Á nýársdag hafði mamma oft baunir og kjöt í miðdegismat, en þá voru matmálstímar sömu og hversdags.
17. Á þrettándakvöldi var einni eitthvað tilhald í mat. Það var kallað að rota jólin.

Gegningar.

Vatnsendi

Beitarhús frá Vatnsenda í Litlabási.

1. Gegningar voru fyrirferðamikill þáttur í vetrarstarfinu og höfðu sinn hefðbundna tíma, eftir því sem við var komið.
2. Það er svo margt smálegt í sveitinni, sem hægt er að gleðja sig við á hverjum degi.
3. Gestaflugur höfðu spásagnargáfu. Tylltu sér á stólinn við baðstofuborðið, ekki brást, að von var á gestkomu.
4. Hrosshárstóskapur tilheyrði vetrarvinnunni.
5. Um vetur skófu menn af sér í bæjardyrum.
6. Þá höfðu menn oft sokkaskipti. Gestum voru færðir þurrir sokkar.

Tóbakspungur

Tóbakspungur.

7. Konur fléttuðu yfirleitt í tvo hversdags.
8. Þær báru kaffirót á kinnar til að fá rjóðan lit.
9. Tóbaksílát voru að ýmissri gerð; tóbakspungar, pontur og dósir.

Spár.
1. Jafnan hafa vissir dagar veitt vísbendingar um komandi tíð.
2. Fyrsti september spáir um haustveðráttu.
3. Ef jörð er auð á jólum, mátti búast við hvítum páskum og öfugt.
4. Þurr þorri, þeysöm góa, votur einmánuður. Þá mun vel vora.
5. Hrafnahret níu nóttum fyrir sumar. Þá verpir hrafninn.

Laupur

Hrafnalaupur.

6. Uppstigningardagshretið og hvítasunnuhretið.
7. Vorið gerir útslagið á allt, sögðu menn, heyrist jafnvel enn.
8. Sumir tóku mark á sumardeginum fyrsta, aðrir meira á sunnudeginum fyrstum í sumri.
9. Jónsmessunótt bjó yfir sérstökum törfum varðandi heilsufar.
10. Hundadagar bjuggu yfir þeim kynjamætti að spá fyrir um veður.
11. Vígahnettir boðuðu mannslát.
12. Tunglið hafði áhrif á fleira en veðurfar. Það hafði einnig áhrif á “gangmál” búfjár.
13. Nöfn í draumi gátu verið viðsjárverð. Hörð nöfn voru ekki fyrir góðu, þveröfugt við mjúk nöfn.
14. Ekki var neitt smáræðis happ að dreyma óhreinindi.
15. Ef mann klæjaði í lófa eða hægri augabrún í vöku, þótti manni betur.
16. Rjúpan sagði til um veðursprár.

Líður að vori.

Jónsmessa

Jónsmessa að sumri.

1. Loks hillir undir vorið. Menn hafa þreyð þorrann og góuna og páskana.
2. Vermisteinn nefnist það þegar svellglottar eru farnir að lyftast og ísar orðnir ótryggir að vori.
3. Sumardagurinn fyrsti var mikil hátíð.
4. Sleppt var um sumarmál, ef tíð var sæmileg.
5. Hugað var að grenjum síðast í maí.
6. Þó vorið fari oft hægt af stað, kemur það ævinlega á endanum.
7. Taðkvörnin var tekin fram, sem raunar hét skítavél.
8. Þegar lokið var vorsmölun, lá fyrir að ausa áburðinum á túnið og var það gert úr skarntrogum.
9. Útstungan var talsvert verk. Úti á hlaðhólmanum var mamma og klauf hnausana í flögur og breiddi jafnóðum.

Taðhlað

Taðhlað.

10. Taðið var borið saman í fanginu í hlaðann, sem var valinn staður, hvort hlaðinn skyldi vera ferkantaður eða hringlaga. Í undirstöðurnar voru flögurnar reistar þétt saman á röð og þá ákveðin stærðin.
11. Ef pabba datt í hug að fækka þúfum í túninu, slétta svo sem fimmtíu eða hundrað ferfaðma, var valinn til þess einhver tími vorsins.
12. Ofast þurftu torfhúsin einhverja viðgerð. Venjan var að lagfæra eitt hús í einu.

Bæir og byggingar.

Heygarður

Torfbær – heygarður á millum.

1. Eins og áður hefur verið getið, þurftu torfhús sífellda lagfæringu og endurnýjun.
2. Byggingarefnið var torf, grjót og mold.
3. Jafnan voru veggir tvíhlaðnir, oftast með mold milli ytra og innri hleðslu.
4. Veggir bæjar og peningshúsa voru tíðast hlaðnir úr grjóti, klömbru og streng, oftast með kvíahnaus (stokkhnaus) í hornum nema horn væru hlaðin ávöl.
5. Klambra var langur hnaus, með talsverðum fláa og miklu þykkri í annan enda, vissi sá alltaf að útbrún veggs.
6. Grjót í udnirstöðu veggja var alla tíð stórt.
7. Ef veggur var ekki allur grjóthlaðinn eða úr grjóti og streng, var oftast klömbruhleðsla ofan á grjótinu.
8. Annars er ég ekki viss um að versti ókostur torfbæja hafi verið kuldinn, heldur miklu fremur þaklekinn.

Hreingerningar.

Þrif

Þrif.

1. Ævinlega á vori.
2. Þetta var mikill dagur og tekinn snemma.
3. Baðstofan var sandskúruð hátt og lágt og rúmin.
4. Allar tómar súrtunnur voru bornar út og velt upp úr bæjarlæknum.

Vorsmalanir voru tvær og hagað á svipaðan hátt og haustgöngur.

Ávallt var reynt að byrja ullarþvott í góðu veðri og þá jafnan farið snemma á fætur.

Heyskapur.

Sveitarstörf

Sveitarstörf.

1. Það fór að sjálfsögðu eftir sprettu og tíðarfari, hvenær heyskapur hófst, algengast var þó um tólftu helgi sumar og stæði hann í tíu vikur.
2. Aldrei var unnið á sunnudögum nema mikið lægi við.
3. Karlar slógu og konur rökuðu.
4. Bindingsdagar voru miklir dagar, einkum þegar bundið var af túni.

Messurnar voru helstu samkomur fólks fyrrum.

Meðal skemmtiferða var að ríða á útkirkjur.

-Úr Þjóðlíf og þjóðhættir – 1991 – Guðmundur Liljendal Friðfinnsson (1905-2004) frá Egilsá – bóndi frá 1905-1932.

Torfbær

Torfbær.

Fólk

„Íslendingar hafa háð harða lífsbaráttu, þurft að sæta hungri og búið við kulda og raka, en notið landsins. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafa þeir borið með sér þann lífsneista, sem hefur dugað til að gera þá að þjóð.“

Daglegt líf

Jónas Jónasson

Jónas Jónason frá Hrafnagili (1856 – 1918) .

1. Þegar til þess kemur, að fá yfirlit yfir það, hvernig fólk á Íslandi lifði hér fyrrum sólarhringinn yfir, verður þá réttast að byrja að morgninum, þegar fólk fór að örglast úr bólinu, og enda á því, að það sofnar á kvöldin.
2. Á 18. öld og langa lengi fram á hina 19. voru klukkur hvergi á sveitabæjum. Stundaglös voru til á sumum bæjum; svo er að sjá sem þau fari að flytjast almennt eftir 1760.
3. Venjulegur fótaferðartími var úr miðjum morgni, eða úr því að klukkan var 6, vor, sumar og haust. Fór húsbóndinn venjulega fyrst á fætur og svo hver af öðrum.
4. Sú var almenn regla, þegar maður kom út, að signa sig og gá til veðurs.
5. Eftir fótaferð fór svo hver til vinnu sinnar, kvenfólk í fjós og karlar til fjárgæslu á vetrum eða til annarra starfa.
6. Almennt var vinnuharka mikil, einkum um sláttinn, 16-18 stunda vinna að minnsta kosti á túnslættinum og enda allan sláttinn. Kvað svo rammt að því, að mönnum lá stundum við að dotta við að brýna ljáinn sinn.

Kvöldvaka

Kvöldvaka.

7. Kvöldvökurnar í sveitunum voru einkennilegar á vetrum. Á meðan stóð á haustverkunum, sláturtíðinni og að flytja á völl, var sjaldan farið að vaka til stórmuna, en undir eins og því var lokið á vetrarnóttum, var sest við tóvinnu og haldið áfram af öllum mætti fram að jólum.
8. Ljósfæri manna voru heldur ófullkomin; lýsislampinn gamli, sem hefir verið til frá ómunatíð í öllum löndum og lagðist ekki niður fyrr en eftir 1870, að steinolíulampinn ruddi honum burt.
9. Ljósmetið er lýsi, eins og nafnið bendir til (af ljós). Best þótti sellýsi og þvínæst hákarlalýsi, en þorskalýsi lakast.

Lýsislampi

Lýsislampi.

10. Kveikir voru gerðir úr fífu, snúnir saman og tvinnaðir.
11. Þá voru kertin. Þau voru oftast steypt úr tólg í strokk, sem kallað var. Stokkkertin voru þó ekki algeng. Kerti voru mest höfð, þegar mest var haft við, t.d. á jólunum og þegar betri gestir komu.
12. Til þess að hafa (ljóstýru) frammi við, í búri, eldhúsi og fjósi, var notuð panna eða kola, heldur lélegt ljósáhald.
13. Þegar átti að fara að kveikja á kvöldin þurfti að fara fram og opna eldinn. Þó er getið um eldfæri, var það tinna, eldstál og eldsvampur, en þau eldfæri voru mjög fátíð.
14. Þegar ljósið kom inn, settust allir upp, sem sofið höfðu í rökkrinu, óku sér og tóku svo til vinnu sinnar; karlmenn að kemba og prjóna og konur að spilla og prjóna.

Baðstofa

Baðstofa.

15. Jafnan endaði vakan með því, að lesa húslesturinn.
16. Birtan í baðstofunum hefur verið heldur dauf, þegar lengra dró frá ljósinu. Þeir sem mikið fengust við að skrifa höfðu glæra glerkúlu fulla af vatni og hengdu hana hjá lampanum og létu geislavöndinn úr henni falla á blöðin.
17. Svefn var venjulega heldur lítill, bæði sumar og vetur, þar sem vinnufrekja var mikil.
18. Rúm voru venjulega heldur léleg hjá almenningi.
19. Oftast voru tveir saman í rúmi, og var ýmist að menn lágu þá uppi við (upp í arminn) eða tilfætis (andfætis). Mörg börn voru oft saman í rúmi.

Baðstofa

Baðstofa.

20. Þegar menn háttuðu, stungu menn fötum sínum oftast undir koddann sinn eða hengdu þau á slána eða stagið yfir rúminu. Nærföt voru altént undir höfðinu. Sokkana mátti aldrei hafa undir koddanum, því þá misstu menn minnið og gátu ekki dáið, nema sokkar voru settir undir höfuðið. Ekki mátti klæða sig úr öllu í einu, skó og sokkum, af öðrum fætinum, því þá klæddi maður sig úr láninu (almenn trú). Sumir segja, að hægt sé að klæða sig í lánið aftur með sömu aðferð; alklæða annan fótinn og svo hinn á eftir.
21. Það hefir lengi hljómað við í útlendum ferðabókum að sögum um Ísland, hvað Íslendingar væru óþrifnir, enda verður það ekki varið, að þeir hafi verið það um skör fram.

Fjós

Fjós.

Fornmenn voru hreinlátir mjög, og svo er oft getið um það í sögunum, að þeir voru að laugu. Fyrst og fremst stafaði óþrifnaðurinn af illum húsakynnum. Auðvitað var óloftið óskaplegt sumsstaðar í baðstofunum, og bar margt til þess; þær voru oftast lágar, kýr voru inni eða sauðkindur og svo var oft lýsi misjafnt. Svo barst fúaloftið, rakt og rotnað, fram úr göngunum, og þegar kalt var inni, rann allt út í slaga. Þegar mönnum fannst óloftið keyra úr hófi fram, var oft kveikt í eini eða næfrakolum, sem oft rekur af sjó og eru eiginlega viðarbörkur, til þess að bæta loftið.
22. Ekki var siður að þvo fatnað oftar en hjá var komist. Rúmföt, t.d. rekkjuvoðir, voru þvegin í hæsta lagi einu sinni eða tvisvar á ári. Skyrtur voru þvegnar hálfsmáðarlega.
23. En þó nokkuð væri nú ábótavant með þrifnað á húsum og fötum, var nærri lakast með þrifnaðinn á sjálfum sér. Komist hafði inn hjá þjóðinni að sóðaskapurinn og óþrifnaðurinn væri happadrjúgar til auðs og efna. “Saursæll maður er jafnan auðsæll”.

Bær

Bæjargöng.

24. Veggjatítlan eða veggjaduðran spann í hverri þiljaðri baðstofu og boðaði mannslát árið í kring. Flær og lýs voru algengir gestir á flestum bæjum, og virðist svo sem sumir væru á því, að þær væru heldur til hollustu og heilsubótar, drægju illa vessa út úr líkamanum.
25. Málamatur á 18. öldinni var venjulegast hræringur úr grasagraut og súru skyri (og nýju á sumrum) með mjólk út á.
26. Yfir höfuð var fiskurinn, harðfiskurinn, aðalfæðan, og fádæmis ósköp, sem af honum eyddust á stórum heimilum.
27. Súrt slátur var og mikið til matar haft með þunnum mjólkurgrautum, þar sem fjárríkt var.
28. Ket var mikið haft til matar, þar sem fé var margt og ekki voru felliár, bæði hangið og vindþurrkað og saltað, þegar hægt var.
29. Höfðingjar og fyrirmenn landsins lifðu oft að útlendum siðum, en prestar og sýslumenn sömdu sig mest að háttum bænda, enda urðu þeir lengi að lifa við lík kjör.

Fjallagrös

Fjallagrös.

30. Þegar í harðbakkana sló með fæðið, var farið að nota flest. Allir vita um fjallagrösin. Þau voru tekin snemma. Grösin voru mest höfð í grauta saman við skyr, og var ýmist að mjölfesta grautinn eða hafa í honum bankabygg – eða þá grösin tóm.
31. Af skepnum var allt notað, sem notað varð. Fiskar voru hafðir til matar, eins og enn gerist, og fátt annað, og hákarl og hákarlsstappa var ætíð í miklum metum og er enn í dag. bein öll og uggar, hausbein, roð og dálkar úr fiskum var sett í súr og notað til matar. Stundum var gerður bruðningur úr fiskbeinum, dálkum og uggum.

Skreið

Skreiðarhjallur.

32. Fiskur var oftast boðaður nýr, en almennara var þó að lofa að slá í hann, og til voru dæmi, að menn hengdu hann í fjós til að ýlda hann. Hausar voru oftast etnir nýir og soðin lifur með. Kútmagar einnig fylltir með lifur og etnir nýir, annað hvort soðnir eða steiktir á glæðu. Hrognin voru hnoðuð upp í brauð með mjöli og gerðar úr soðkökur. Rauðmagar og hrognkelsi var boðað nýtt eða sigið og flutt sigið í heilum lestum upp í sveitir, þegar vel aflaðist. Oft voru þau þrá og óætileg. Selur og hvalur var etinn bæði nýr og saltaður, en spik og rengi var soðið, þar til lýsið var farið úr því, og svo súrsað. Oft rak mikið af sílum. Menn þvoðu þá af þeim sand og lepju og suðu í saltvatni.
33. Kjöt hirtum enn eftir föngum, einkum með því að salta það eða reykja. Magálar voru skornir af öllum skepnum, hleyptir (soðnir til álfs) og reyktir í eldhúsi.

Slátur

Sláturgerð – vambir.

34. Slátrið var allt hirt, blóðið blandað miklum mör og dálitlu af mjöli, ef það var til, eða skornum fjallagrösum. Lungu, lifur og hjarta var soðið og annað hvort etið nýtt eða súrsað með slátrinu.
35. Sviðin (hausar og fætur) voru oftast geymd lengi, þangað til að farið var vel að slá í þau. Þá voru sviðin soðin og etin að kvöldi.
36. Altítt var að sjóða kjöt niður í kæfu á haustin; var þá mörinn látinn fylgja kroppnum í kæfuna. Kæfan var höfð til viðbits og seld til sjávarins fyrir sjófang.
37. Þá voru aðalafnotin af búunum eða búsafurðirnar til sveitarinnar, mjólkin, enda var reynt að verja henni til matarnota á sem flestan hátt, sem auðið var. Undanrenningunni var rennt undan og höfð til útáláts á málum, annað hvort saman við nýmjólk eða flóuð. Rjóminn var strokkaður í strokk með bullu, oftast með handafli. Síðan var smjörið tekið og hnoðað úr því mestu áfirnar og gerð úr skaka (damla) Adrei var smjör saltað, fyrr en koma langt fram á 19. öld. Skyrgerð hefur að öllu farið eins fram í ómunatíð, en misjafnlega hefur skyr þótt gott hér á landi.

Súrmatur

Súrmatur.

38. Sýra var höfð til margs, enda voru Íslendingar afargefnir fyrir súrmeti á fyrri tímum, og hefir það eðlilega stafað af matarhæfinu.
39. Flautir voru talsvert algengar á fyrr tímum. Áfum var hleypt með kæsi og síðan þeytt upp í þétta froðu með þyrli (flautaþyrli).
40. Ábrystir voru gerðar úr broddmjólk og þóttu kostamatur.
41. Af fornsögum vorum má sjá, að ostagerð var almenn um land allt, og þarf ekki að sanna það með dæmum.
42. Matarílát voru flest úr tré.
43. Nautnaveitingar voru fáar og fábreyttar. Kaffi fór fyrst að flytjast um eða rétt eftir 1760, en lítið mun það hafa verið notað lengi vel fyrst um sinn.
44. Tóbak var almemmt síðan á 17. öld, og mikið notað, bæði tuggið og reykt og tekið í nefið.

Aðalstörf manna til sveita

Sveitarstörf

Sveitarstörf.

1. Það er eins og árið hafi byrjað með vorinu fyrir sveitamanninn; þá byrja vorverkin. Bjargræðistíminn er hér á landi frá vori til hausts og svo ómegðartími skepnanna, og mannanna að nokkru leyti, þaðan frá til vors. Með vorinu lifnar allt og glæðist. Vorið og vorgróðurinn hefir um allan aldur verið mesta gleði og yndi Íslendinga, og hvert fetið, sem fram þokaði í þá átt, mikils virði.
2. Eitt fyrsta vorverkið var túnvinnan eða vallarávinnslan. Hún byrjaði, þegar frost var svo horfið úr hlössum, að hægt væri að berja þau. Menn börðu mykjuna með klárum. Þetta er hið versta verk.
3. Taðkvörnin var gerð eftir ostakvörnini. Skarninn var borinn á tún með handafli.

Taðkvörn

Taðkvörn.

4. Við sjóinn og á Suðurlandi þar sem karlmenn fóru flestir til sjóar, annaðist kvenfólk túnavinnuna á vorin, því að karlmenn komu ekki heim fyrr en eftir vertíð.
5. Samtíma túnvinnunni eða á eftir henni byrjaði sauðburðurinn, þetta í fjórðu viku sumars eða mánuð af sumri eftir atvikum.
6. Ullin var venjulega þvegin eftir rúninguna, úr gamalli keytu og vatni á eftir og þurrkuð síðan.
7. Fráfærurnar tóku svo við upp úr stekkjartímanum. Venjulega var fært frá viku eftir Jónsmessu, og áttu þá öll lömd að vera orðin mánaðargömul.
8. Á vorin var stungið út úr húsum, tekinn upp svörður, annast um æðarvarp, rifnar tóftir o.s.frv. Þetta var allt samhliða sauðburðinum.
9. Þá var eitt vorverkið að taka til við tóftirnar, rífa fyrirhleðslur þær, er gerðar höfðu verið haustið áður um heyið, breiða torfið, þurrka það og bunka, hlaði grjóti í vörður og bunka tóftatré (garðstaura).
10. Mjólkurærnar hafa lengi verið búsmali á Íslandi. Þegar eftir fráfærurnar voru ærnar nytkaðar kvöld og morgna, en hafðar í haga mála á milli. Nytjatíminn kvöld og morgna heitir mál og kallað að mjólka ærnar á málum.

Smali

Smali við færikvíar.

11. Smalinn hafði það verk á hendi, að sjá um, að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum, til þess að það yrði mjaltað, enda er sá tími enn í dag einatt kallaður mjaltir og verkið líka.
12. Ef smalanum hafði tekist svo vel fjárgeymslan, að engin ærin missti máls fram að Þorláksmessu á sumar (20. júlí), átti hann að eiga nytina úr bestu kúnni þann dag og skemmta sér við með útreiðum. Varð honum á að missa á frá sér, var hann látinn éta skömmina, þ.e. fékk engan skammt þann daginn.
13. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess að nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru í byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Í selum var jafan einn kvenmaður, sematseljan, og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag.

Selhús

Sel – dæmigerð selhús á Reykjanesskaganum.

14. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu.
15. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átt vikur væru af sumri til tvímánaðar.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

16. Selfara er víða getið í fornsögum vorum og lögum.
17. Grasaferðin var farin milli fráfæra og sláttar.
18. Annað vorverk var það, sem mikið var að gert, þar sem nokkurn skóg var að hafa eða fjalldrapa, sem er í stærra lagi. Það var kolagerðin. Allir þurftu kola með á hverjum bæ til að dengja og smíða ljáinn. Skógurinn var höggvinn og hrísið rifið á haustin eða veturna; svo var það afkvistað og afkvistið haft til eldiviðar; leggirnir voru síðan kurlaðir í 3-4 þuml, langa búta. Síðan var gerð kolagröf, 1-2 faðmar að þvermáli og um 2 áln. djúp og kurlinu raðað í hana, og var hið stærsta haft neðst. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mokað mold yfir, svo hvergi kæmi loft að; síðan var opnað eftir þrá eða fjóra daga og kolin tekin upp.
19. Kolagerðin hefir orðið skógum og hríslandi á Íslandi til hins mesta tjóns. Allt var höggvið, ungt og gamalt, og þar sem skógar voru ekki, var hrísið rifið miskunnarlaust; jarðvegurinn rótaðist allur upp, og svo blés allt upp ofan í grjót.

Rekafjara

Rekafjara.

20. Þá voru rekaviðarferðir tíðar á vorin og unnið úr viðnum.
21. Kaupstaðaferðirnar voru um þetta leyti, svo að ekki vantaði það, að nóg væri að gera. Aðalvörur landsmanna voru fiskur og lýsi til sjávarins, en prjónlesi, ull og sauðir til sveitanna. En mél, kornamaður, járn og timbur voru hinar helstu vörur, sem bændur tóku út aftur. Þá var og tekið út tóbak og brennivín.
22. Slátturinn byrjar misjafnlega snemma, eftir því hvað vel vorar og snemma sprettur.
23. Til sláttarins þurfti amboð, bæði orf, ljái og hrífur.
24. Merkustu og atvæðamestu haustverkin eru göngurnar. Síðasta vorverkið er að reka lömbin til afréttar, fyrsta haustverkið að heimta þau aftur.

Vorrétt

Vorréttin í Hraunum.

25. Að réttunum loknum var slátrað. Allt af skepnunni var notað.
26. Hvannrótaferðir heyrðu til haustverka. Þá fóru menn síðari hluta september til þess að grafa upp rætur og höfðu menn til þess verkfæri er nefnist rótargrefill.
27. Eitt af mikilvægustu haustverkunum var meltakið. Melurinn, er eins og kunnugt er, kornberandi axjurt, en vex í roksandi.
28. Síðan var kornið malað. Mjölið var haft í grauta og kökur, glóð- eða ristbakaðar.
29. Þegar haustönnum var lokið þá var tekið til við vetrarvinnuna. Mest kemur fjárhirðingin til sögunnar. Víða á Suðurlandi voru ekki hús yfir féð, aðeins lélegar fjárborgir og hellar. Sauði höfðu menn víða.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes; selsminjar og beitarhús í Sauðholtum – uppdráttur ÓSÁ.

30. Brundhrúta átti að taka fyrir allraheilagramessu, en svo var þeim oftast hleypt saman við ærnar í vikunni fyrir jólin og allt látið ganga saman þangað til brundtíðin var á enda.
31. Hirðing kúa var vandaminni, því þær stóðu alltaf inni, enda lenti hún mest á kvenfólkinu.
32. Hirðing hesta var lítil, þeir voru látnir berja gaddinn, meðan til vannst og oftast lengur, og deyja drottni sínum, ef ekki vildir betur blása.
33. Annað aðal-vetrarstarfið var ullarvinnan innanbæjar.
34. Þá voru margir, sem fengust við smíðar á vetrum og allskonar hagleik. Spónasmiðir voru til í hverri sveit, og gerðu sumir þeirra spæni úr kýr- og nautshornum, falleg með afbrigðum.
35. Þá var skinnverkun eitt af verkum karlamanna. Gærur voru rakaðar á haustin og unnin á vetrum. Skinnin voru höfð til skóklæða eins og þau komu fyrir.

Veðurfarið

Grindavík

Grindavík – brim.

1. Það má telja svo, að hér á landi sé hagur manna bæði til lands og sjávar að mestu undir tíðarfarinu kominn; aðalatvinnan bæði á sjó og landi, sveitabúskapurinn og fiskveiðarnar, er allt undir því komið, að grasviðri sé, svo að tún og engjar spretti, og þurrkar svo góðir, að nýting á heyi verði bærileg um sláttinn, og gæftir séu svo til sjávarins, að menn geti náð fiskinum, þegar hann fer að ganga á miðinn.
2. Það er því engin furða, þó að landsmönnum væri ekki saman um veðurfarið og reyndu að spá mörgu og leita líkinda um, hvernig það mundi verða.
3. Ef stórviðri er á nýársdag, boðar það mikla storma.
4. Eftir veðri á Knútsdag (7. jan.) á að viðra eftir vertíð á vorin.

Brimlending

Brimlending.

5. Góðir veðurdagar fyrst og síðast í janúarmánuði þóttu gömlum mönnum góð vetrarmerki.
6. Sólskin á Vincentiumessu (22. jan.) boðar gott ár.
7. Eftir Pálsmessu, 25. jan., viðrar í aprílmánuði.
8. Þorrinn byrjar venjulega um 20. jan., og trúðu menn því, að ef hann væri stilltur og frostasamur, mundi vel vora.
9. Ef sólksin var á kyndilmessu (2. febr.) bjuggust menn við snjóum.
10. Sólbráðir fyrir þriðja fimmtudag í góu borgast aftur. Sólrík langafastan í febrúar boðar oft sólskin á föstunni.

Bátur

Brim – Bjarni Jónsson.

11. Votur einmánuður (20. mars) boðar gott vor.
12. Dimmviðri á föstudaginn langa boðar gott grasár.
13. Sólríkir páskar boða töðubrest.
14. Gott veður á sumardaginn fyrsta boðargott sumar.
15. Á höfuðdegi (29. ágúst) bregður vanalega veðráttu.
16. Gott haust boðar harðan vetur.
17. Fagurt sólskin og heiðviðri á jóladag boðar gott ár.
18. Vortíðin fer eftir jólaföstunni með veðurfar.
19. Mikil berjaspretta er fyrir vondum vetri.
20. Sú trú hefir verið sumsstaðar, og er enda enn, að sama tíðarfar komi alltaf tuttugasta hvert ár. Hafi maður því tuttuga ára gamla dagbók, getur maður vitað um veður á hverjum degi fyrirfram.

Kvöldroði

Kvöldroði – sólsetur.

21. Kvöldroðin bætir, morgunroðinn vætir, er gömul trú.
22. Þegar ær míga mikið í kvíunum, þótti það boða úrhelli. Ef fé hristir sig í þurru veðri veit það á rigningu. Ef fé stangast mikið, veit það á hvassviðri.
23. Gestaspjót kattarins boðaði gestakomu.
24. Ef rjúpan leitar niður í byggð mátti búast við hinu versta.
25. Ef tittlingar hópa sig heim að bæjum og tísta veit það á stórhríðamerki.
26. Álftir vita oft veður í rassinn á sér.
27. Þegar lóan syngur óspart má vænta góðs.
28. Ef hrafn flýgur að sumri yfir teiginn, þar sem menn slá, og þegir, boðar það þurrk, ef hann krunkar, boðar það óþerri.
29. Frostrósir á gluggum segja til um tíðarfar. Ef þær snúa upp, veit það á gott, en snúi þær niður, veit það á illt.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – regnbogi.

30. Þegar regnbogi sést, boðar hann votviðri.
31. Hagur og vinnubrögð manna bæði til sjávar og sveita eru svo mikið undir tíðarfarinu, að eðlilegt var, að menn gæfu gætur að öllum tíðar- og veðurboðum.

Skepnurnar
1. Íslendingar hafa um allan aldur verið landbúnaðarþjóð, og má því geta nærri, að skepnurnar, einkum búféð, hafi haft mikla þýðingu í lífi þeirra og lifnaðarháttum.

Kaldidalur

Hestar ferðamanna við beinakerlingu á Kaldadal.

2. Hestahald hefur ætíð verið mikið á Íslandi, og má sjá það fornsögum vorum víða, að menn lögðu mikla rækt við þá. Sögur fara af því, að íslenskir hestar hafi fyrrum verið öllu stærri en þeir gerast nú á dögum. Hestafjöldi hefur alla tíð verið mikill hér á landi, bæði að fornu og nýju. Hestar voru tamdir til ýmissa nota. Má þar nefna vatnahestana, en þeir voru sérstaklega góðir til að vaða stór straumvötn.
3. Kýr eru þær skepnur, sem Íslendingar hafa lengst og best lifað á, enda hefir þeim verið ætlað fóður fremur öðrum skepnum frá alda öðli.
4. Margt gagn má hafa af kúnum fleira en mjólkina, og er það kjötið og húðir.

Kýr

Kýr.

5. Eitt er það, sem kýrnar hafa fram yfir aðrar skepnur, en þær geta talað einu sinni á ári, en ekki ber mönnum saman um, hvenær það er; en annað hvort er það á nýásnótt, þrettándanótt eða Jónsmessunótt.
6. Sauðfé gekk sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir.
7. Fengitími ána var venjulega um og úr jólum
8. Þegar kom til sauðburðarins að vorinu um eða eftir hjúadaginn, þurfti að hafa gát á fénu. Krummi hafði það til, að vera svo nærgöngull við ærnar að höggva augun úr lömbunum, á meðan þau voru í burðarliðnum eða ekki komin á fót eða á spenann.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

9. Þegar kom fram yfir fardagana, var farið að stía. Til þess var byggður stekkur einhvers staðar úti í haganum, einskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar á heimilinu. Innst í rétt þesari var hlaðinn af dálítill hluti með dyrum inní. Þessi afkimi hét lambakró.
10. Stekjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins, þegar vel voraði og ærnar voru í góðu lagi.
11. Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið yfir þeim.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Lömbunum var svo hleypt út úr krónni með morgninum, eins og vant var, og gripu þau þá heldur en ekki í tómt. Hófst þá jarmur mikill og raunalegur, og hefir síðan verið haft að orðtaki, að hvíldarlaus suða og hávaði væri eins og jarmur við stekki.
12. Algeng venja var fyrrum, þar sem fé var fátt, að kefla lömbin og láta þau svo fylgja mæðrunum við kvíarnar yfir sumarið.
13. Ærnar voru mjaltaðar í kvíum, mjóum og löngum réttum, kvölds og morgna. Sumir höfðu og færikvíar. Smalinn sá um að skila ánum í kvíar.

Geithafur

Geithafur.

14. Geitfé hefur lítið verð haft á síðari öldum.
15. Hundar voru nauðsynlegir smalanum. Tóku þeir allt það erfiðasta af smalanum. Hundar voru skyggnir og sjá fylgjur manna og aðrar vofur. Hundskinn er til margra hluta nytsamlegt, t.d. eru vettlingar úr hundskinni óvenju hlýir.
16. Kettir hafa flust út hingað til lands þegar á landnámsöld, enda munu þeir þá þegar hafa verið hafðir til músveiða, auk annars. Til forna virðist jafnvel, að kettir hafi verið aldir skinnsins vegna, því kattbelgir eru verslunarvara og hátt metnir.
17. Hæns hafa verið fá til sveita á síðari öldum, þangað til hún hefir mjög aukist á síðustu áratugum. Til hefir hún verið til forna, svo sem sjá má á Hænsa-Þóris sögu.
18. Skoffínið er sagt, að komi úr hanaeggi, og er þá í fuglsmynd.

Landnámshænur

Landnámshænur.

19. Aðrir alifuglar hafa ekki verið hér á landi á síðari öldum.
20. Önnur dýr voru villidyr, s.s. mýs, rottur og tóa.
21. Tóugildur voru að hverfa og gleymast að fullu um miðja 18. öld og voru þær aldrei teknar upp aftur, en þeim er lýst á þessa leið: Gildran var hlaðin úr hellum og agnbiti festur innst í henni. En hann var fastur í þræði, er gekk að hellublaði, sem var yfir dyrunum og hélt því uppi. Þegar tóa kippti í bitann, losaðist um hellublaðið, líkt og um fjöl á fjalaketti, og hljóp hún þá niður fyrir dyrnar.
22. Refar eiga mörg nöfn á íslensku; almennt nafn er melrakki, dýr, tóa, tæfa; þula er og til með 10 nöfnum hennar.

Fálki

Fálki.

23. Fálkinn er í raun bróðir rjúpunnar, en ásækir hana þó og drepur til matar sér, en þegar hann kemur inn að hjartanu, þekkir hann hana og vælir þá raunalega.
24. Valurinn, sem flestir eru farnir að kalla fálka nú á dögum, var veiddur hér allmikið á fyrri öldum, einkum á 16.-18. öld, til að senda út.
25. Lóan er spáfugl meðal Íslendinga, því bæði eru öll vorharðindi búin, þegar hann fer að hneggja á vorin, þó að það bregðist nú stundum.
26. Máriatlan er spáfugl að því leyti, að þegar hún er komin, eru einhvers staðar skip komin að landi, því hún er þeim alltaf samferða.
27. Álftir eru merkisfuglar og hafa lengi verið í miklum metum.

Fuglabjarg

Fuglabjarg.

28. Þá hefir bjargfuglinn ekki verið Íslendingum ónýtur, þar sem fuglabjörgin eru á landi hér; hafa oft heilar sveitir lifað á því, sem þar hefir veiðst á vorin, bæði fugl og egg.
29. Lundinn hefur verið veiddur með stöngum um langa tíð.
30. Æðarfuglinn hefur nýst bæði vegna eggja og dúns.
31. Þegar súlan kemur að landi, telja Sunnlendingar það góðan vorboða um afla, einkum síldarafla.
32. Um geirfuglinn höfðu menn þá trúa, aðhann væri blindur, þegar hann væri á landi. Hann gat ekki flogið og gengu menn því að honum á skerjum og á landi og tóku hann með höndum eða rotuðu. Síðasti geirfuglinn var drepinn við Eldey 1844.
33. Um lúsina var sagt ef hún yfirgæfi manninn væri hann feigur.

Hátíðir og merkisdagar

Jól

Jólin.

1. Það var almenn tíska víða hér um land að halda eitthvað upp á jólaföstuinnganginn, og var þá brugið út af mat.
2. Gömul venja var að slátra kind rétt fyrir jólin, til að hafa nýtt ket á hátíðinni; kind þessi var kölluð jólaærin.
3. Jólin hafa verið og eru enn einhver dýrlegasta hátíðin á árinu. Einna merkilegastir eru jólasveinarnir. Fram að 1770 var þríheilagt á öllum stórhátíðum, en þá var það numið úr lögum. Þegar fjórheilagt varð, ef aðfangadaginn eða fjórða bar upp á sunnudag, hétu það brandajól. Síðan heita brandajól, ef þríheilagt verður, en brandajól hin stóru nefndu menn þá hina fornu fjórhelgi, og eins jafnvel ef Þorláksmessuna bar upp á sunnudag.
4. Fram að 1744 var messaðá jólanóttina. var þá ein manneskja heima því huldufólkið sótti í það, að koma heim á bæina og halda þar dansa sína og veislur, og stundum komu líka tröllin til þess að ná í þann, sem heima var.

Jól

Nýársnóttin.

5. Nýársnóttin og nýárið var ekki síður merkilegur tími.
6. Sólarkaffi var sums staðargefið er fyrst sér í sól eftir skammdegið.
7. Föstudagurinn fyrsti í þorra, miðsvetrardagurinn, var talsverður uppáhalds- og tyllidagur víða um land – stundum nefndur bóndadagur.
8. Á skírdag var vant að skammta rauðseyddan, hnausþykkan, mjólkugraut að morgninum.
9. Á föstudaginn langa var sumsstaðar siður að borða ekkert fyrr en eftir miðaftan.
10. Á páskadagsmorguninn var etinn páskagrautur.

Skemmtanir

Jónsmessa

Jónsmessa.

1. Til skemmtana eru taldar gestakomur og ferðalög, sem og aðrar samkomur.
2. Hjúadagurinn eða krossmessan var haldinn hér á landi 3. maí eftir fornri venju til 1900, en úr því breyttist það við tímatalsbreytinguna víðast um land og færðist niður til 14. maí.
3. Fardagar heita 4 dagar og hefjast, þegar 6 vikur eru af sumri.
4. Jónsmessa (24. júní) var lengi mikill merkisdagur á landi hér og haldin heilög, þangað til hún var numin úr helgidagatölu, með konungsbréfi 26. okt. 1770.
5. Þorláksmessa á sumar (20. júlí) í minningu þess, að heilagur dómur Þorláks biskups var tekinn úr jörðu árið 1198.
6. Ungir menn áttu að heilsa einmánuði, en stúlkur hörpu.

Jónsmessa

Jónsmessa að sumri.

7. Sumardagurinn fyrsti var lengi mesta hátíð á lendi hér, næst jólunum.
8. Almennustu útreiðarnar voru kirkjuferðir á helgum.
9. Þjóðlegar skemmtanir í stórum stíl eða almennar samkomur voru fátíðar hér á landi. Samkomur þær, sem tíðkuðust í fornöld, knattleikar og hestavíg, hurfu alveg úr sögunni með tímanum, enda þótt hestavígin virðist hafa haldist við nokkuð lengi fram eftir, eða að minnsta kosti nokkuð lengur en knattleikirnir, því að algeng voru þau fram um miðja 13. öld.
10. Aðalskemmtunun var fólgin í alls konar margbreytilegum leikjum, sem dans og söngur var samfara.

Vikivaki

Vikivaki dansaður við Straum.

11. Mest munu vikivakar hafa tíðkast um jólaleytið og nýársleytið og um föstuinnganginn. Vikivakarnir lifðu í fullu fjöri fram á 18. öld, en þá fór að dofna yfir þeim.
12. Jólaveislur voru víða að fornu, eins og sjá má af sögunum, en svo munu þær hafa horfið með öllu úr sögunni eftir Sturlungatíð.
13. Glímufundir og glímusamkomur voru og afar fátíðar, og tíðkuðust glímur helst í landlegum við sjóinn í verinu.
14. Skemmtanir voru og viðhafðar í brúðkaupsveislum.
15. Erfidrykkur voru ekki samkomur í eiginlegum skilningi, en það voru afmæli hins vegar.

Kvöldbaka

Kvöldvaka.

16. Lítið var um skemmtanir á daginn; þá voru karlmenn við útiverk og gegningar, konur við frammiverk og vinnukonur sátu við tóvinnu sína. Aðalskemmtunin var sú að spjalla saman, segja sögur í rökkrinu, kveða vísur og rímur og skanderast.
17. Þegar búið var að kveikja og fólkið var sest við vinnu sína, var algengt að lesa sögur eða kveða rímur á kvöldin, að minsta kosti á fleiri bæjum. Eftir 1880 var mjög farið að dofna yfir sögulestrinum, og er hann núú víðast að hverfa. Rímnakveðskapurinn hvarf enn fyrri, og á Jónas Hallgrímsson sinn þátt í því, þó að talsvert væri orð af rímum eftir hans dag.
18. Einkennilegar voru svonefndar orlofsferðir. Þær áttu að vea nokkurs konar kynnisferðir og voru það stundum að vísu, en oft voru þær ekkert annað en bláberar sníkjuferðir.
19. Förumennska og flækingur hefir lengi legið hér í landi, og

Förufólk

Förufólk.

má þegar sjá þess full dæmi í Njálu og fleiri fornsögum vorum, að nóg var til af þeim lýð, og kom sjaldan fram til góðs. Fyrst er að telja förumenn, svo alþýðuvísindamenn og sum af skáldum, vanmetagripir og bláberir beiningamenn. Allra verstir var fólk, sem ekki nennti að vinna, en hafði heilsu til, og gerði sér það að atvinnu og gróðafyritæki að sníkja og fara um héruð.

Lífsatriðin
1. Mannsævin er ekki löng, segir gamall málsháttur, en samt nógu löng til þess, ef allt skeikar að sköpuðu, að margt kann á dagana að drífa, eitt fyrir sumum og annað fyrir hinum.

Barnsfæðingar

Barnsfæðingar.

2. Fæðingin er venjulegast talið gleðiefni. Barnsfylgjuna átti að brenna, enda var það alsiða. Sú trú var fyrrum, að fylgjan væri heilög og henni fylgdi hluti af sálu barnsins, sem ekki fæddist fyrr en með henni. Móðurinni var fært á sæng, sem kallað er, þ.e. henni var fært ket, brauð, smér, magáll, sperðill og allskonar handhægur matur, sem nöfnum tjáir að nefna, allt soðið og tilbúið.
3. Skírnin fór löngum fram í kirkju. Þegar börnin voru skírð, oftast á fyrsta sólarhringnum, voru þau ætíð skírð við rúmstokk móðurinnar. Stundum vitjaði hennar, eða annarra, nafns. Verst þótti huldufólkið. Það var endalaust um það, að ná í börn mennskra manna og láta örvasa karla og kerlingar aftur í þeirra stað.

Að duga eða drepast

Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðastjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum. Guðmundur Gíslason Hagalín skráði.

4. Uppfræðingin var mikilvæg því Íslendingar hafa haft orð á sér fyrir það um langan aldur að vera gefnir fyrir nám og fróðleik. Og því til sönnunar þarf ekki annað að leita en allra þeirra bókmenntaleifa, sem finnast eftir þá frá 12., 13. og 14. öld. Undir eins og börnin voru nokkun veginn talandi, var farið að kenna þeim signinguna, faðirvor og blessunarorð, og svo vers og bænir. Skilningurinn kom með aldrinum. Menntun miðaðist við fermingarundirbúninginn. Um aðra uppfræðingu barna var lítið.
5. Giftingum fylgu ýmsir siðir og venjur, og þar á meðal veisluhöld. Í brúðkaupsveilsum var oftast borðaður hrísgrjónagrautur (eða bankabyggsgrautur) og síðan steik á eftir og síðast lummur. Ef mjög miklir fátæklingar áttu í hlut, var matnum sleppt.
6. Dauðinn liggur fyrir öllum. Ýmislegt mætti finna af feigðarboðum. T.d. var feiðgaboði ef menn sáu ljós í kirkju eða heyrðu raddir eða sjá svip í kirkju. Þá á kirkjugarður að rísa, helst á nýársnótt, og vofurnar að ganga í kirkju, og eru þá í för með þeim svipir þeirra, sem eiga að deyja næsta ár í sókninni. Hver sem deyr, tekur 3 andköf eða andvörp í andlátinu;þegar hann hefir tekið þriðja andvarpið, er hann áreiðanlega látinn, en enginn skyldi trúa þeim, sem ekki sést taka fleiri en tvö.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

7. Útförin var síðust hjá hverjum manni, þegar hann var farinn út úr lífinu – það að koma honum í jörðina. Til þess þurfti bæði kistu og líkklæði, ef gera átti með sóma. Oft voru lík fátæklinga og sveitameðlima jörðuð kistulaus, jafnvel fram á 19. öld. Voru þá aðeins saumaðir utan um þá einhverjar durgur eða látnir duga ræflarnir, sem þeir voru í. Sjaldnast voru líkræður haldnar við jarðarfarir, nema yfir heldri mönnum og ríkisbændum. Erfisdrykjur voru leifar frá fornaldarsiðum vorum og þóttu sjálfsagaðar.

Heilsufar og lækningar

Torfbær

Torfbær.

1. Það ræður að líkindum, þegar gætt er að aðbúð þeirri, sem Íslendingar höfðu á fyrri öldum, bæði húsakosti, mataræði og fatnaði, að heilsufar landsmanna hefir ekki verið sem best.
2. Engir læknar voru hér settir fyrr en eftir 1760. Þá var landlæknir skipaður og síðan fjórðungslæknar.
3. Ef einhver veiktist snögglega, var ekki annað hendi nær en annað af tvennu; taka sjúklingi blóð eða láta hann svitna duglega. Blóðhorn voru almennt notuð, bæði við gigtarverkjum, takstingjum og fleiri kvillum. Það var almennt álit manna, eð ef hægt væri að fá sjúklinginn til að svitna duglega, þá væri allt búið og sigurinn unninn á veikinni. Meðal lyfja þeirra, er notuð voru til lækninga, voru einiberjaolía, terpentínuolía, hoffmannsdropar, laxerolía o.fl.

Læknar

Læknar til forna.

4. Augnverki var afar algeng með almenningi, og var eitt aðalmeðalið við henni að baða augun með seyði af augnfrjó. Almennt var að baða þau upp úr skírarvatni
5. Eyrna- eða hlustarverkur virðist hafa verið algengur kvilli fyrrum – svo eru mörg ráðin við honum. Hann batnar við að lata seyði af súru eða hvönn í eyrað.
6. Höfuðverkur er algengur kvilli, og var höfuðráð við honum að væta dúk í ediki og binda um höfuðið, eða taka njólarót, kljúfa hana og leggja sinn klofninginn hvoru megin á höfuðið og snúa sárinu að.
7. Við gigtinni var katta- og hundafeiti ágætur áburður.
8. Bakverkur var ærið tíður. Volg kúamykja var góð, ef hún var lögð við, sömuleiðis geitartað.
9. Bólgur allskonar voru læknarar með bakstri úr hvannarót.
10. Hálsbólga var læknuð með ljónslappa, enda heitir hann kverkagras.

Kuml

Kuml eftir fornleifauppgröft.

11. Kvef, brjóstþyngsli og brjóstveiki var læknað með því að drekka blóðbergste eða te af blóðbergi og rjúpnalaufi saman.
12. Við kláða er ágætur áburður að hnoða saan sméri og brennisteini.
13. Krabbamein kom af því, að lifandi krabbi er gróinn fastur í holdinu. Gott ráð við því er að eta mannasaursösku og pipar drepur krabba.
14. Gula var læknuð með því að eta marflær.
15. Sár voru grædd með vallhumall og græðisúru.
16. Tannpína var löguð með því við að leggja saur við tönnina.

Hugsunar og trúarlífið

Tíu aurar

Tíu aura peningur frá 1940 – með marki Kristján X., konungs Íslands.

1. Þegar rita skal um andlegt líf þjóðarinnar á fyrri öldum, verður vandinn meiri en um margt annað.
2. Sparsemi þjóðarinnar hefir meira, að ég hygg, stafað af baslinu og skortinum, en því að það liggi í þjóðareðlinu. Peningar voru fátíðir.
3. Kirkju- og trúarlíf Íslendingar hefir verið mjög svo lifandi og fagurt á 17. og 18. öld og fyrra hluta hinnar 19., en hafi svo hnignað stórum á síðustu tímum.
4. Trúartilfinningin var víða mjög lifandi með fólki, þar sem greind og kristileg þekking svo fyrir hendi, að það gat notið sín að nokkru. Kirkjurækni var almennt mikil, og messur hjá prestum féllu ekki niður, þó að eitthvað meira en lítið væri að veðri. Það mátti telja til afbrigða, ef ekki varð messað, og meira að segja ef ekki var nokkurn veginn full kirkja, þó að hríð og ófærð væri úti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1846.

5. Fyrst þegar fólk ætlaði til kirkju, var það flestra siður að koma einhverju nafni á það að þvo sér, klæðast síðan sparifötum sínum, sækja hesta og leggja á þá, Síðan voru allir, sem heima voru, kvaddir með kossi, farið á bak og riðið af stað.
6. Prestar höfðu oft ærið langort og vildu menn þá sofna undir ræðum þeirra.
7. Húselstrar voru lesnir þegar fólk gat ekki farið til kirkju. Víða var fólk í herkjum með að koma húslestrinum á, af því að fátt var um læst fólk á sumum bæjum. Það lagaðist er kom fram á 18. öldina.
8. Biblíuþekking manna var sáralítil.

Helgi G. Thordersen

Helgi G. Thordersen, biskup.

9. Lengi var losalegt nokkuð siðferði karla og kvenna hér á landi. Það var þegar á 12. og 13. öld og fór ekki batnandi, enda gengu biskupar og aðrir höfðingjar á undan með það athæfi, og það svo, að þeir heimtuðu jafnvel konur í sæng hjá sér, er þeir ferðuðust hér um land, eins og víkingar í heiðni. Þegar á leið lagaðist þetta, enda var voru þá hert lögin og Kristján fjórði tók þétt í taumana.
10. Jafnan var fátækt mikil meðal landsmanna, og bar margt til þess, harðindi, vankunnátta með fjárhirðingu og gamall ávani með hana, úrræðaleysi með að bjarga sér og hrikaleg verslun og stjórn.
11. Flestum kemur saman um það, að hvinnska og þjófnaður hafi verið tiltölulega fátíðir, enda virðist svo, sem fremur hafi ásælni manna á eignir náungans komið í yfirgangi en launungarþjófnaði.
12. Það hefir lengi verið sagt, að Íslendingar væru ólöghlýðnir, og má það gjarnan vera, að svo sé. En þess bera að geta, að þeir áttu bæði við þau lög að búa á einokunartímanum, að full von var á, að þeir reyndu að komast utan hjá þeim.

Alfaraleið

Alfaraleið – álfatrú.

13. Heiðnar menjar má telja hjátrú þjóðarinnar og venjum þeim, sem standa í sambandi við hana. Það hefir stundum verið talið, að hugmyndalíf þjóðarinnar og ímyndunarafl hér á landi hafi meira fengist við skuggalegar og enda ljótar hliðar á hjátrúnni, en látið hið fegurri og glæsilegri hjá sér líða. Þetta má vel vera; það er líka arfur frá heiðinni fornöld. Hjátrúin okkar er víða æði forn, of sennilega fær engin rakið upptök slíkra sagna, sem af þeim rökum eru runnar. Eins og við má búast, var hjátrúin margvísleg, þar sem hliðar lífsins erusvo margar. Eitt af hinu forna, sem gamla fólkið trúði mikið á, voru ákveðnir dagar. Þá eru til margir láns- og ólánsvegir. Forlagatrúin er forn og frá heiðni sprottin, og má telja, að hún sé samrunnin blóði þjóðarinnar; mun hún því enn um langan aldur lifa innra með fólkinu, einkum meðan hið eldra snið hugsunar og uppeldis ræður mestu í afskekktari héruðum.

Álftanes

Á 19. öld hafði engu verið raskað við Bessastaðatjörn né Dugguós. Í ósnum var mikil kolaveiði og hún talin mikil hlunnindi fyrir Bessa- og Breiðabólsstaði. Það er athyglisvert hvað Erlendur Björnsson, fæddur 1865, segir um þróun kolaveiðinnar. „Árið eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.
Ein af frásögnum Erlends er með ólíkindum. Þar segir frá róðri sem hann fór í árið 1890 á sexæringi við þriðja mann í blíðskaparveðri vestur á Svið, nánar til tekið í Fláskarðið vestur af Marflónni. Þar lögðust þeir félagar við stjóra. Eftir að hafa dregið sjóðvitlausan þyrskling þar til beituna þvarr urðu góð ráð dýr. Enn var stafalogn, heiðríkja og skammt liðið dags.
Erlendur gerði þá leit í bátnum og fann stóran öngul með blýsíld á leggnum.
Hann flakaði þyrskling og „beitti sig niður“ til að reyna við lúðu. Að „beita sig niður“ fólst í því að sitja sem lægst í bátnum og láta hægri handlegginn (væri viðkomandi rétthendur) liggja út fyrir borðstokkinn og hafa færið kyrrt í hendinni.
Skemmst er frá því að segja að Erlendur dró tuttugu og tvær „flakandi lúður“ (á bilinu 50 – 155 kg) þennan dag. Aðeins liðu fjórtán klukkutímar frá því þeir héldu í róðurinn og þar til þeir komu að. Ástæða þess að þeir héldu til lands var ekki sú að tekið hefði undan. Síður en svo, lúðan virtist jafnör og í upphafi, en það var komin lognhleðsla á bátinn.
Í lok kaflans þar sem þessum róðri er lýst er haft eftir Erlendi: „Þessi róður minn út á Sviðið….er gott dæmi þess hvílík gullkista það var, áður en botnvörpuveiðar og lúðuskip frá Ameríku hófu rányrkju sína hér í flóanum“.

14. Náskyld þessu er trúin á álög, þar sem eitthvað er lagt menn og hluti. Fjölkyngi og galdrar voru ríkir með þjóðinni. Hin fyrsta tegund galdurs er tiltölulega meinlaus, enda var sú trú manna, að menn gætu orðið sáluhólpnir, þó að menn fengist við hana. Þar var sjaldan neitt verulega djöfullegt athæfi galdrinum samfara, heldur aðeins notaðir einhverjir kraftar, sem hjátrúin eignaði ýmsum hlutum í náttúrunni, án þess að neinir formálar eða særingar væru þar við hafðir, nema þá einhver meinslaus orðskrípi. Næstur er stafagaldur; að upphafi á hann ætt sína að rekja til rúnanna, og má finna þess mörg dæmi lengst frammi í heiðni, að rúnir og ristingar voru máttugar til forneskjubragða. Þá er hin þriðja tengund galdra og forneskju, það er hinn svarti galdur og særingarinnar. Það er alltaf eða oftast eitthvað djöfullegt eða að minnsta kosti vanheilagt við allt slíkt. Síðan má nefna hinar römmu, djöfullegu særingar, sem hafðar voru til að vekja upp drauga, stefna að sér álfum og andlegum vættum og kalla fram kölska sjálfan.
15. Trúin á fjölkyngi lifði langt fram á 19. öld, þó að þá hafi hún verið orðin dauf og gisin. Ráð til þess að venja menn af því að fást við galdra og gera kukl þeirra ónýtt, er að hýða þá rækilega með brenninetlu, en óbrigðult ráð til þess, að galdrar eða fjölkyngi vinni ekki á manni, er það að gefa galdramanninum svo duglega á hann, að blóð sökkvi af nösum hans, þurka blóðinu í klút af honum sjálfum og taka með sér.
16. Þá var almennt mjög trúað á huldufólk og álfa, og er sú trú lengst framan úr heiðni komin, eins og kunnugt er úr Eddunum og fornsögunum.
17. Tröllatrú var mögnuð í heiðni, og hafa sagnir um hana loðað við langt fram á 18. öld, en eftir það hefir hún dáið út að mestu.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

18. Útilegumannatrúin var ætíð rík allt fram á 19. öld og sagnir um það, að menn hafi orðið þeirrar varir. Oftast eru útilegumenn þjóðtrúarinnar mennskir menn að fullu, en jafnan eru þeir þá sterkir og meiri fyrir sér en byggðamenn, bæði líkamlega og andlega.
19. Margr annað má að vísu telja til heiðinna menja, svo sem náttúrtrúna, draumatrúna og draugatrúna.
20. Náttúrutrúin lýsir trú á ýmsum grösum og steinum. Þannig er lággrasið eða fjögurralaufasmárinn þannig vaxið að, ef maður nær í hann, getur maður opnað með honum hverja læsingu. Trú á steina virðist hafa verið meir en á plöntrunar, voru þeir nefndir náttúrusteinar og fylgdi þeim kyngikraftur.

Völva

Völva.

21. Dulargáfur mann valda því að þeir vita og skynja meira en aðrir menn. Trú þessi er afarforn og kemur mikið fram í fornsögum vorum og hefir haldist viðallt til þessa dags. Forspáir voru fornmenn sumir, svo sem Njáll. Margir þykjast hafa heyrt undalega hluti, en meira hefur borið á skyggni í trú manna eða þeirri gáfu, sem einstakir menn eru gæddir, að sjá hulda hluti, sem öðrum er fyrirmunað að sjá, t.d. huldufólk, svipi dauðra manna, drauga eða aðrar vættir. Þá er draumatrúin ekki hvað síst merkileg, enda er hún til hjá öllum þjóðum og hefir verið frá alda öðli.
22. Hugmyndir manna um annað líf eru þær að engum manni væri ætlað að ganga aftur. En það er það nú samt, að það hefir margan manninn hent allt fram undir þetta eftir þjóðtrúnni að dæma. Ýmis trú er tengd dauðum. T.d. getur það verið hættulegt fyrir lifandi menn að ögra dauðum mönnum; þeir eru þá vísir til að ganga aftur og hefna sín geysilega. Ekki ber mönnum saman um drauga.

Ketshellir

Tröll í Ketshelli.

23. Þannig hafa lifað og lifa enn í dag í meðvitund þjóðarinnar margvíslegar menjar framan úr heiðni, sem nærfellt óbreytar, en aðrar í gerbreyttri mynd.
24. Hjátrú, eins og hún er stundum nefnd, hefir um langan aldur átt heima hjá fólkinu, og er hún tæplega útdauð enn í dag. Lofteldar eða eldglampar í lofti boðuðu eldgos.
25. Meðan hjátrúin var mögnuðust á 17. öld, fengu menn margar draumvitranir, er áttu að boða stórtíðindi. Þá trúðu menn því lengi, að sumsstaðar héldu til ýmsar forynjur og óvættir, og gengu margar og miklar sögur af þeim. Þá hefir lengi verið mikil trú á vatnaskrímslum í hinum og öðrum ám og vörnum hér á landi.

Húsaskipan og byggingar (greinilega innskotskafli frá öðrum, sjá Daniel Bruun)

Bær

Bæjargöng.

1. Allir veggir voru gerðir úr torfi eða torfi og grjóti.
2. Timbur til húsagerðar var dýrt og var því sparað sem mest.
3. Bæir skiptust í göng, búr, baðstofu og eldhús.
4. Hvenær sem kýr var, var öll aðgætni höfð a hildunum og þær hirtar vandlega. Ytri hildahimnan var þvegin upp, þanin út og þurrkuð, en innsta lagið, vatnsbelgurinn, blásið upp og þurrkað í úthýsi, Svo var þetta hvorutveggja vafið saman og geymt vandlega, og hét það líknarbelgur. Þá var og hirt lífhimna úr nautgripum, flegin innan af magálunum, þanin og þurrkuð; sú homna var kölluð skæni.
5. Gluggar voru tvenns konar; gler og líknabelgir. Gler var fátítt og nær einungis í kirkjum.

-Íslenskir þjóðhættir – 1961 – Jónas Jónasson frá Hrafnagili.

Torfbær

Tofbær í Reykjavík 1925.

Fornleifar

„Segja má að bóndinn fyrir sextíu árum hafi staðið landnámsmanninum nær en syni sínum – slíkar hafa breytingarnar orðið á íslensku þjóðlífi.“

Smalakjör fyrir 60 árum

Horfnir Starfshættir

Horfnir Starfshættir – Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi.

1. Sextíu ár eru ekki langur tími í þjóðarævi. Samt hafa lífskjör þjóðarinnar breyst meira á þessum sextíu árum en á næstu þúsund árum áður.
2. Ég var á tíunda ári þegar bóndi, sem byrjað hafði búskap um vorið og vantaði smala, falaðist eftir mér.
3. Ég var mættur daginn eftir. Mjaltastúlka á fjórtánda ári fór með mér í fyrstu yfirsetuna til að kynna mér smalaslóðirnar.
4. Um miðaftansleyti mátti reka ærnar heim undir bæ, fá sér hressingu, en gæta þeirra síðan fram að mjöltum.
5. Seint á tíunda tímanum var lokið kvöldmjöltum, þá tók smalinn þær og vaktaði, ekki langt frá bæ, til klukkan eitt að nóttu.
6. Klukkan 6 að morgni hleypti einhver fullorðinn ánum út og gætti þeirra þar til kl. 8, en kvíaði þær þá til mjalta. Húsfreyjan og vinnukonan mjólkuðu báðar og voru búnar að því seint á níunda tímanum. Þá átti smalinn að vera kominn á kvíarnar með bita og mjólkurpela til dagsins.
7. Einveran, sem mörgum smala þótti einna verst, en öðrum ágætur tími til afþreyinga.

Færukví

Færukví – smalinn fremst.

8. Smalinn hafði sín ákveðnu fyrirmæli. Hann varð að leyfa ánum að dreifa sér hóflega, svo þær beittu sem best, en gefa þeim ekki lausari tauminn en svo, að sjá að mestu yfir þær, og telja oft, vera helst alltaf að telja þær aftur og aftur, svo engin tapaðist, því það átti að vera fyrsta skylda hans að skila þeim alltaf með tölu á hverjum tíma. En vandalaust var það ekki.
9. Ég hafði ekki klukku að deginum, en mátti þess í stað koma með ærnar heim undir bæ upp úr miðaftni. Svefntóm smalans var ekki nema frá kl. 1 að nóttu til kl. 8 að morgni og þætti það líklega í styttsta lagi nú.
10. Á flestum bæjum voru sérstakar kvíar til að mjólka ærnar í. Það var tóft, sem hlaðin var úr torfi og grjóti eða torfi einu eftir ástæðum. Breidd hennar var við það miðuð, að þegar ærnar röðuðu sér á ská með báðum veggjum, væri dálítill gangur milli raðanna, eftir þeim gangi stikkluðu mjaltakonurnar.

þvottalaugar

Mjaltarfata.

11. Mjaltafötur voru á þeirri tíð heimasmíðaðar úr tré og voru heldur liðlegar og léttar.
12. Þegar mjöltum var lokið, átti smalinn að vera kominn, albúinn, því óhæfa þótti að láta ærnar standa í kvíum lengur en brýnasta þörf krefði.
13. Sums saðar voru notaðar svokallaðar “færikvíar”, það voru trégrindur, sem bundnar voru saman á hornunum og hægt að færa til, þegar blotnaði í þeim. Þær voru gjarna settar á greiðfæran óræktarbala, sem varð þá fljótlega að grónu túni, því ærnar báru vel á þá staði, ar sem þær stóðu í kvíunum; þrátt fyrir sína góðu kosti náðu færikvíar ekki þeirri útbreiðslu, sem þær áttu skilið.

Horfin stétt

Litlistekkur

Litlistekkur.

1. Vegna sérstakra tilmæla krotaði ég niður 1965 litla greinargerð um fráfærur, eins og ég þekkti þær af eigin raun.
2. Sauðféð og umhirða þess tók því, beint eða óbeint, mestan hluta af starfi sveitafólksins, með ærinni önn allan ársins hring.
3. Þegar sauðburður hófst, voru skildar að fyrri viku ær og hinar, sem seinna áttu að bera, til þess að hafa færri ær í vöktun, og var nógu örðugt samt.
4. Næst eftir burðinn þurfti að hafa góða gát á ánum. Var gengið stöðugt til þeirra, og þurfti margs að gæta.
5. Þegar sauðburði var lokið, hófust vikulega sameiginlegar smalamennskur, venjulega hvern mánudag.

Auðnaborg

Auðnaborg.

6. Þegar leið á vorið var farið að “stía”, þ.e. að skilja að ær og lamb næturlangt. Oftast var það gert á “stekk”, sem var eins konar rétt með viðbyggðri “lambakró”, en hún þurfti að hafa örugglega griphelda veggi.
7. Vaknað var klukkan 5 árdegis til að fara á stekkinn.
8. Varla var fært frá yngri lömbum en fimm vikna, helst þurftu þau að vera orðin 6-7 vikna gömul.
9. Þegar hinn endanlegi fráfærudagur rann loks upp, voru ærnar reknar inn fyrir miðjan dag, lömbin tínd þegar inn eins og venjulega, en ánum hleypt út og þær reknar í haga með valdi, því viljugar gengu ærnar ekki burt frá lömbunum sínum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkurel – stekkur.

10. Þegar ærnar væru komnar svo langt frá, að tryggt var að ekki heyrðu hvort til annars, ær og lamb, var þeim hleypt út. Þau kveinuðu sárt, þegar engin móðir tók á móti þeim, en héldu sig við stekkinn og gripu í jörð á milli grátkviðanna.
11. Þar voru þau svo næstu tvo til þrjá daga, am.k. hýst í stekknum um nætur.
12. Ánum var haldið til beitar um daginn.
13. Frá þriðja degi voru lömbin rekin í örugga fjarlægð frá stekknum og þeirra gætt þar.
14. Þegar ærnar voru reknar á stekkinn gripu þær í tómt, og verður varla með orðum lýst þeim kveinstöfum, sem kváðu við frá stekknum næsta hálftímann, á meðan ærnar æddu eða ráfuðu um stekkinn í vonlausri leit að aleigu sinni. Það voru ömurlegustu stundir smalans.

Ás

Ás – fjárhústóft.

15. Þegar kom fram á sautjándu viku sumars, var hætt að hýsa ærnar en þeim í þess stað vikið í haga og svo smalað til mjalta að morgni af einhverjum fullorðnum.
16. Síðustu daga fyrir göngurnar voru ærnar ekki mjólkaðar nema annað málið og geltust þá fljótt, enda veitti þeim ekki af að braggast svolítið fyrir veturinn.

Skógerð
1. Fram undir okkar daga, sem nú gjörumst rosknir, urðu flestir landsmenn að bjargast við þá skól, sem hægt var að gjöra heima, og voru þá varla tiltæk önnur efni en skinn ýmissa dýra láðs og lagar. Var mikið verk að gjöra skó á alla á fjölmennari heimilum, því fremur sem ending skinnsins var heldur lítil, þó menn leituðu snemma ýmissa ráða til að bæta hana.

Vermaður

Vermaður í skinnsjóklæðum.

2. Þeir, sem voru efnaðir og fornbýlir, áttu oft kippur hertra bjóra og fleiri húðir í reyk.
3. Sauðskinn og kálfskinn voru notuð í skó handa kvenfólki og börnum og þeim, sem lítið gengu.
4. Þeir, sem þurftu mikið að ganga, urðu að hafa leðurskó, og veitti ekki af, því allt fram til 1920 og lengur þó var meira um göngulag en nútímafólk á gott með að skilja. Til lands var látlaust göngulag árið um kring, en minnstum sláttinn, mikið var ferðast á fæti, og þótti varla meðalmannsverk þá að ganga 50 km á dag, en góðir göngumenn lögðu að baki miklu lengri leiðir.
5. Skónálar voru smíðaðar af innlendum hagleiksmönnum.
6. Selskinn þótti gott til skæða, og voru oft gjörðir úr því skór.
7. Gerðir voru skór úr hvelju og hákarlaskráp.
8. Þá voru skinnsokkar algengir í hausthrakningum og algengum ferðalögum.

Skinnskór

Skinnskór.

9. Íleppar fylgdu íslensku skónum lengi. Gerð þeirra var með ýmsum hætti, en tilgangurinn var alltaf sá sami, að hlífa ilinni við kulda og ekki síður sárindum. Þeir voru prjónaðir úr grófu, lítt vönduðu bandi, til þess að þeir yrðu sem þykkastir.

Að koma ull í fat…
1. Við spurningunni, hvernig fólk gat lifað, verður mér tvennt hugstæðast til svara, en þar hygg ég drýgst hafa hjálpað torfhúsin og íslenska ullin.
2. Um torfhúsin hefur oft á síðari árum verið farið niðrandi orðum, af lítilli þekkingu en miklu vanþakklæti. Þau voru notagóð lausn, vaxin upp úr nauðsyn fyrir húsaskjól og eina lausnin, sem fólk hafi efni og möguleika á í þá tíð.
3. Ullin okkar hefur heldur ekki verið metin sem skyldi á undanförnum velgengdarárum þjóðarinnar, þó fólk sé nú heldur aðeins byrjað að átta sig á gildi hennar og nauðsyn í okkar ágæta en misvirðrasama landi.
4. Ekkert af ullinni mátti fara forgörðum, þjóðin var ekki það efnuð.
5. Hún var þvegin í keytu sem svaraði 1/3 á móti vatni.

Íleppar

Íleppar.

6. Frá fornöld, langt fram eftir öldum, var ekki önnur verkfæri að ræða til spuna en teinsnælda.
7. Teinsnældan tók ekki teljandi breytingum frá söguöld og fram á mína daga, nema stærðin lagaðist eftir viðfangsefnum.
8. Rokkar voru bæði innfluttir og, einkum á seinni árum, innlend hagleikssmíði, sem þótti heldur betri en hinum útlendu.
9. Fólk fór snemma á fætur, eins þó dagar væru stuttir, ljósfæri lítil og frumstæð og spart þyrfti að halda á öllu ljósmeti. Lengi var aðeins innlent efni til ljósa; lýsi, hrossafeiti og margs konar flot.
10. Um svipað leyti og eldakonan risu karlmenn almennt til gegninga; konur settust þá líka við tóvinnu, þó kalt væri í baðstofunni fyrst, og jafnvel börnin vakin til starfa, svo fljótt þau gátu gert gagn.

Snældusnúður

Snældusnúður.

11. Karlmenn voru lengst úti við á vetrum, alla daga, því beitt var fénu, hvenær sem fært var.
12. Konur og aðrir, sem inni voru, unnu úr prjónabandi.
13. Um og upp úr 1920 fara að koma prjónar úr öðru efni en stáli, en hollastir þeirra fyrir hendurnar voru tréprjónar.
14. Nálægt aldamótunum komu fyrst til landsins hringprjónavélar.
15. Flatprjónavél sá ég fyrst 1910.

….og mjólk í mat
1. Fyrsta og mest metna verðmætið var smjörið, sem oftast var fremur hörgull á.
2. Í eldri tíð var það fyrsta, sem gjöra þurfti fyrir mjólkina, að “setja” hana, þ.e. að hella henni í grunn ílát með miklum grunnfleti (trog eða byttur), en þær nefndust bakkar, og voru það grunn stafaílát.

Mjólkurbytta

Mjólkurbytta.

3. Á hverri byttu var borað fingurgómastórt gat niðri við botninn og tappi hafður í því en þegar ná skyldi rjómanum, var tappinn tekinn úr og undanrennan látin renna í ílát, sat þá rjóminn eftir í ílátinu og var strokinn með fingrunum ofan í strokkinn.
4. Þá var komið að því að skaka strokkinn, því þótt rjóminn væri orðinn þykkur, var enn í honum væta, sem ná þurfti úr, svo smjörið yrði til, en það gjörðist í strokknum.
5. Bullustrokkna þekkja margir enn í sjón.
6. Mikið þurfti að geyma til vetrar, einkum skyr og osta.
7. Mjólkurílátin voru mest úr tré og því vandgerðara við þau en síðari tíma ílát.

Sauðatað til eldneytis

Sauðatað

Sauðatað notað til áburðar.

1. Allt frá upphafi Íslandsbyggðar hefur eldsneytisþörfin verið ærið vandamál, það því fremur sem hér var einatt kalt í veðri.
2. Tað húsdýra hefur lengi verið notað í eldinn, og hér hnúði nauðsyn því fastar á sem skógar eyddust og annar jarðargróður.
3. Til forna mun hafa þurft að nota “pál” til að stinga út taðið.
4. Karlmenn stungu og óku taðinu út, enda var hvort tveggja erfitt.
5. Næst var að kljúfa taðið, og gjörðu það kvenfólk og unglingar, oft voru hafðir til þess sérstakir spaðar, úr beini eða hörðu tré.
6. Kropið var á kné, annað eða bæði, hausinn lagður á hliðina og klofið eftir lögum, í sem næst eins þumlunga þykkar skánar eða þynnri.
7. Hlaðið var í taðhlaða.

Taðhlaði

Taðhlaði.

8. Eldiviðarleysi þótti mikið böl í búskap og var nefnt í sama flokki og heyleysi og matarleysi. Þessi uggvænlega þrenning var tíðasta orsök þess, að fólk “flosnaði” upp.
9. Þeir þóttu heppnir, sem áttu rekafjörður og gátu hirt morvið til búdrýginda. Rekajarðir voru alltaf eftirsóttar, sem og allt annað sjávarfang.

Mótekja
1. Mótekja er einn þeirra fornu atvinnuhátta, sem nú má heita, að séu að mestu úr sögunni.
2. Var það eitt nauðsylegasta vorstarf allra að “taka upp svörð”, þurrka hann vandlega og hirða og ganga frá, svo nægði til vetrarins.
Mótekja3. Hver hnaus var ferkantaður, tæp rekublaðslengd á hverja hlið en jafnlangur blaðinu.
4. Þegar mórinn hafði sigið í kestinum sem hæfilegt þótti, var hann fluttur á þurrkvöll.
5. Þegar komið var á þurrkvöllinn, var næst að kljúfa hann. Það var oftast gert með reku. Hnausinn varlagður á hliðina og skýfður í nokkrar skánar. Síðan voru skánarnar breidar flatar á jörðu, svo þær gætu skurnað, en eftir það oft snúið á hina hlið til að þorna betur. Ef óheppilega viðraði í móinn, þurfti stundum að hlaða honum í hrauka, en að síðustu var hann alltaf tekinn í hlaða, sem svo voru tyrfðir.
6. Í sveitinni var sauðatað aðaleldsneytið.

Hrístekja

Hrís

Torfbær – hrís við bæjarvegginn.

1. Sem kunnugt er og oft hefur verið minnst á, hefur gróður mjög eyðst hér á landi frá landnámstíð. Hefir það í seinni tíð allt verið kennt mönnum og búsetu þeirra, en þetta er alls ekki rétt, eins og allt fullgreint fólks ætti að geta sagt sér sjálft.
2. Oft fór náttúran hamförum og eyddi í stórum stíl gróðri og gróðurlendi.
3. Eldgos, jökulhlaup, sandbylji og þvílíkt þarf síður að benda alþýðunni á en menntamönnum.
4. Nú rífa menn ekki lengur hrís, lyng og jafnvel mosann í eldinn af þeirri einföldu ástæðu, að “vísindin” hafa kennt þeim að kynda með mikli minni áreynslu útlendu eldsneyti, sem er enn botnlausari rányrkja en hin fyrri.
5. Þá var það, að ég fór á útmánuðum, oft dag eftir dag og fleiri ár, í hlíðina algróna hrísi og sótti hrísbyrðar stórar til drýginda og fóðurbóta handa kúnum þegar fóðurskortur var fyrirsjáanlegur.

Vinaskógur

Skógur.

6. Víða var allt fram á mína daga “skógviður”, en svo var allt birkikjarr nefnt, notaður mjög mikið í þéttrefti og tróð á hús, mjög til eldsneytis, jafnvel gripið til að gefa kúm til fóðurbóta og fóðurauka í heyskorti.
7. Íslenskt birki, vel þurrkað, hefur lengi þótt úrvalsviður til útskurðar og ýmissa smásmíða, því það er seinvaxið, fíngjört og ókleyfið.

Trjáreki

Rekafjara

Rekafjara.

1. Trjáreki er snemma nefndur í fornum sögnum og heimildum, og mun vera eitt af þeim hlunnindum, sem landnámsmenn litu hvað hýrustum augum, þegar þeir komu hingað, ásamt veiðiföngum og óteljandi nytjum þessa fagra lands, sem átti að heita ósnortið. rekinn hafði þann stóra kost fram yfir aðrar landsnytjar, að varla var hægt að rányrkja hann.
2. Reki var notaður og unninn til smíðaviðar. Einnig í girðingastaura.
3. Þá var ekki smælkið vanmetið heldur, en hirt kostgæfilega, hvert kefli og sprek, sem fór mest í eldinn og þótti mikil hlunnindi.

Vatnsburður

Skjaldarkot

Skjaldarkotsbrunnur.

1. Mikill kostur þótti á hverju býli, að þar væri þægilegt vatnsból eða a.m.k. stuttur vatnsvegur, en hvoru var ekki alls staðar til að heilsa.
2. Brunnhús voru stundum við bæjarlæki.
3. Hef ég grafið a.m.k. átján brunna en endurgrafið eina tíu.
4. Kvikasilfur var gott til brunngerðar. Það át sig niður á við.

Torfhús
1. Eitt af því, sem flestir menn þurftu að bera nokkurt skyn á í eldri tíð og geta bjargað sér við, var að byggja úr torfi og dytta að torfhúsum. Til þess þurfti að vera hlutgengur að skera torf.

Torfbær

Torfbær.

2. Regla var að hafa grjót, a.m.k. að innan í öllum hesthús- og fyrir það sem skepnunar náðu að nudda sér við. Einnig voru allir garðar og jötuþrep hlaðin úr grjóti.
3. Réttarveggir stóu ekki heldur lengi nema hlaðnir úr grjóti, sérstaklega innan.
4. Þá má minna á vörslugarða, sem hlaðnir hafa verið fram á þessa öld úr torfi en löngum ekki síður úr grjóti, hinir síðustu einhlaðnir, eins og sjá má m.a. í Aðaldalshrauni og á Suðurnesjum.
5. Víða sjást enn eldforn garðalög, mikil um sig og greinileg, sem ætla má frá fornöld, en enginn getur sagt sér til nú, til hvers mörg þeirra voru.

Fjárhúsgerð

Stórhöfði

Fjárskjól við Stórhöfða.

1. Snemma á öldum munu menn hafa þurft að fara að hugsa fyrir einhverju skýli fyrir búpening sinn, en er lítið um það vitað, hvernig það var helst gjört.
2. Notaðir hafa verið hellar eftir því, sem þeir hrukku til, og eru dæmi um, að þeir hafi verið notaðir fram, um síðustu aldamót.
3. Ak þess voru svo beitarhús, eitt eða fleiri, lengra frá bæ, þar sem landrými var mikið.
4. Hesthús voru oftast með eina jötu eða “stall” við annan vegg, og látnir voru þeir “standa á taði”, eins og féð.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – fjárhústóft.

5. Hæð veggja á gripahúsum var í upphafi miðuð við, að þeir væru gripheldir, en eftir því sem þeir sigu og greru, hættu þeir oft að vera það.
6. Ein er sú gerð fjárhúsa, sem varla verður gengið fram hjá í svona yfirliti, en það eru “borgir”, eldfornt nafn.
7. Fjárborgin er kringlótt, hlaðin úr grjóti einu, meira en mannhæðahá, með einum dyrum, lítið meira en kindgengnum á hæð, lögð flötum steinum í botninn, og fennti ekki inn í hana, svo teljandi væri, því snjónum hvirflaði í kringum hana.
8. Oft eru beitarhús langt frá bæ og beitarhúsasmalinn því hálfgerður útilegumaður vegna hátta sinna, en þau voru þó óðum að hverfa um síðustu aldamót.

Mataröflun í eldri tíð

Sölvatekja

Sölvatekja.

1. Þykir svöngum sætt, sem söddum þykir óætt.
2. Viðarmest af þessu er sennilega grastekjan.
3. Sölvatekja var einnig umfangsmikil lengi vel, þar sem vel hagaði til á víðlendum flúðum; meira mun það þó hafa verið sunnanlands, því þar er miklu meiri munur flóðs og fjöru. Sölin eru skoluð vel í vatni, en síðan þurrkuð vel, líkt og hey, en troðið síðan, vel þurrum, fast ofan í tréílát. Brýst þá út úr þeim eins konar sykurefni, sem sest utan á þau eins og hrím, og má telja, að þau séu orðin fremur ljúffeng.
4. Þá var fjöldi jurta notaður til tevatnsgerðar, þ.ám. blóðberg, vallhumall, rjúpnalauf, sortulyng, aðalbláberjalyng, einir o.m.fl.
5. Svokallaður “ruslakeppur” var gjörður ur ýmsu smálegu innan úr kindum.

Kútmagar

Kútmagar.

6. Kútmagar og sundagar úr þorski þóttu bæði sælgæti og til mikilla búdrýginda, lifraðir kútmagar voru etnir nýir, en sundmagar soðnir og súrsaðir.
7. Sporðar og bægsli hákarla voru sviðin, soðin og súrsuð.
8. Alþýðan fann, að skarfakál var gott við skyrbjúgi, þótt hugsun um vítamín hafi þá ekki verið komin inn meðal fólks.
9. Menn höfðu rótgróna ótrú á að eta hákarl nýjan, en þó voru hákarlahausar soðnir nýir og etnir með þrárri tólg bræddri út á, hákarlastappa.
10. Algengt var, að hörðum þorskhausum væri drepið ofan í sýru og þeir síðan lánir ryðja sig, en á eftir rifið úr þeim það, sem ætilegt var, en beinin barin og gefin kúnum, sem höfðu fulla þörf fyrir kalkið.

Brauðgerð í eldri tíð

Brauðtrog

Brauðtrog.

1. Framan frá upphafi byggðar þessa lands og líklega miklu lengra voru hlóðirnar einu eldunarfærin fyrir alla matseld.
2. Brauðtrog var til á hverju heimili, en það var grunnt, fremur flátt, með nokkuð stórum botni, nærri jafnt breidd og lengd. Í því lá sem oftast eitt “kökudeig”, frá síðustu brauðgerð, súrdegið, sem sá um gerjunina.
3. Pottbraut var áreiðanlega mest notað og ljúfengast alls brauðs, ef vel tókst til með það.

Kornmölun
1. Langt er síðan mennirnir lærðu að hagnýta sér korn til manneldis.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – kvarnasteinn.

2. Fundist hafa hér í mjög fornum rústum kvarnasteinar úr íslensku grjóti, og gæti það bent til þess, að landnámsmenn hafi haft út hingað þekkingu á mölun korns og jafnvel kvarnir.
3. Víða um land bjuggu menntil kvarnasteina, einkum úr eitilhörðuhraungrjóti.
4. Kvarnasteinar entust lengi, en slitnuðu með tímanum eins og flest annað. Þegar þeir gerðust sléttir á slitflötinn, þurfti að klappa þá upp, sem kallað var, en það var að höggva rásir með nokkru millibili eins og geisla út frá miðju og út úr brúnum.

Sléttun túna
1. Lengst þeirrar tíðar, sem liðin er, síðan landið byggðist, hafa menn strítt við þúfurnar, sér til ærinna óþæginda. Þær torvelduðu alla umferð og urðu orsök margar illrar byltu, en mest og verst töfðu þær fyrir heyskapnum, sem segja má, að gengi fyrir handafli einu, allt til síðustu aldamóta. Oft var á öllum þeim tíma búið að bannsyngja þúfurnar, en hvorki fækkaðu þær né lækkuðu neitt við það.

Lítið ljós

Kola

Kola.

1. “Betra er lítið ljós en mikið myrkur”. Þannig hljóðar eitt hinna fornu spakmæla þjóðarinnar.
2. Langeldar, niðurgrafnir í gólf, voru fyrst og fremst til hlýinda, en einnig var birta þeirra hagnýtt til starfa.
3. Kolur voru úr steini.
4. Á seinni öldum, þegar ofurlítið fer að rýmkast hagur þjóðarinnar, fer að tíðkast að smíða ljósfæri úr látúni eða steypa þau úr kopar, og á síðustu öldum voru kolur orðnar tvöfaldar, kölluðust þær þá lampar og þóttu mestu þing og fyrirmyndarljósfæri, einkum ef hægt var að veita sér lýsi á þau.
5. Þegar byrjað var að flytja inn steinolíu til lýsingar, gjörðist hér bylting, en lítt mun alþýða hafa af því haft að segja fyrr en um 1870.

Torfbær

Torfbær – við sérhvern bæ fyrra var smiðja.

6. Fyrstu eldspýturnar fluttust hingað seint á átjándu öld, þá í litlum, renndum trébaukum.
7. Steinolíuluktir munu hafa farið að flytjast um aldamót, var þeim tekið fegins hendi, þó ekki væru þær notaðar nema í nauðsyn vegna eyðslu.

Járnsmíðar
1. Við, sem munum aftur undir síðustu aldarmót, höfum lifað meiri byltingu í þjóðlífinu en nokkur önnur kynslóð hérlend, og þýðing málma, einkum þó stáls, hefir farið vaxandi með breyttum starfsháttum og vaxandi notum verkfæra og véla til sjávar og lands, en járnsmíði, þ.e. járnslátta við kolahitun, má heita niður lögð.
2. Gömlu íslensku ljáina þurfti alltaf að dengja heita og herða þá á eftir. Þess vegna þurftu flestir, sem teldust sjálfbjarga, að hafa smiðju á sínum heimilum.

-Horfnir starfshættir – 1990 – Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi.

Torfbær

Torfbær.

Þórkötlustaðanes

Um var að ræða menningargöngu á vegum Saltfiskseturs Íslands, Grindavíkurbæjar og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns.
Frá göngunniAf því tilefni var ætlunin að afhjúpa nýtt örnefna- og söguskilti á Þorkötlustaðanesi.
Genginn var hringur á Nesinu frá skiltinu að rústum Þórshamars og fleiri húsa sem voru á Nesinu, spölkorn með ströndinni og horft yfir Þórkötlustaðasund þar sem fornkonan Þórkatla mælti svo fyrir, að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast. Gengið verður að gömlu þurrkbyrgjunum í Strýthólahrauni og í áttina að vitanum. Ýmislegt var skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. M.a. var boðið upp á brim af bestu gerð.
Í lok göngu var boðið upp á afmæliskaffi hjá Björgunarsveitinni Þorbirni við Seljabót, en björgunarsveitin hefur bjargað 232 mannslífum frá stofnun. Þess má geta að jafnframt var um að ræða tólfhundruðustu gönguferð FERLIRs frá upphafi um fyrrum landnám Ingólfs – sem telja verður sögulega út frá þrautseigju á upprifjun gamalla heimilda og uppgötvun nýrra, áður óþekktra.
Örnefna- og sögukort á ÞórkötlustaðanesiÖrnefni á Þórkötlustaðanesi eru mörg og mannvistarleifar víða. Nesið varð til þegar hraun rann til sjávar undan Hagafelli. Heimildir segja að hraun þetta sé að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir um 8000 árum. Meginhraunstraumurinn var um Gjána, langa hrauntröð eftir miðju Nesinu. Upphafl ega hefur það verið mun stærra því sjórinn hefur brotið smám saman utan af því í árþúsundirnar. Vestasti hluti Nessins nefnist Hópsnes.
Eitt helsta auðkennið á svæðinu er Nesvitinn, sem reistur var árið 1928. Svæðið geymir fjölmargt annað, sem bæði má lesa um hér og sjá á meðfylgjandi uppdrætti.
Bryggjan úti í Járngerðarstaðahverfi var byggð á árunum 1931-1932. Hún var steypt með veggjum og þekju, grjótfyllt og hallaði í sjó fram. Náði endi hennar u.þ.b. einn metra út fyrir stórstraumsfjöruborð. Þrátt fyrir mikinn fögnuð Grindvíkinga með bryggjuna þótti hún of stutt. Árið 1933 var bryggjan lengd. Sama ár voru gerðar samskonar bryggjur í Þórkötlustaðahverfi og Staðahverfi.
Spil ofan við Nesvör
Sjósókn og útgerð
Minjarnar, sem eru ofan við Nesvörina (bryggjuna), eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Um er að ræða gamla þurrkgarða, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og gamlar tóftir, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, vara, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, gólf beitningaskúra og innsiglingamerki frá fyrri hluta síðustu aldar.

Höfn og bátar í nausti ofan við Nesvörina - fiskskúrar millum

Á Þórkötlustaðanesinu voru þrjú íbúðarhús, sem enn má sjá leifar af; Arnarhvoll (nyrst), Höfn og Þórshamar (syðst). Húsin voru byggð í kringum 1930. Vöxtur útgerðar í Nesinu byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. frá Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum.
Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi. Á sumrin var venjulega róið á minni bátum.
Útgerðarmennirnir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgnana þegar gaf á sjó og fóru síðan fótgangandi heim aftur á kvöldin. Fólk kom víðar að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Vermennirnir bjuggu á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.
Uppdráttur af svæðinu ofan við NesvörinaÁður lentu bátarnir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum, sem voru í röðum ofan malarkambsins. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar eru beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.
Þegar steinbryggjan var byggð, um 70 metra löng og 10 metra breið, til að mæta vélvæðingu bátanna, var fiskinum kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Lifrarbræðsla var byggð hér á árunum 1934-1935. Útveggirnir standa enn.
Ískofi á ÞórkötlustaðanesiÞegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar. Þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Áður en bryggjan var byggð voru bátanir dregnir á land upp á kambinn norðan hennar. Þegar stokkarnir við bryggjuna voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, var notað til að draga bátana. Það var drifið með Ford-vél, sem var knúin bensíni. Vélarhúsið við spilið er nú horfið. Grunnurinn sést enn. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetningunni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi – bryggjan.

Eftir að grafið hafði verið inn í Hópið í Járngerðarstaðahverfi árið 1939 og hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út frá Nesinu. Vegurinn náði fyrst að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan lengra til vesturs, að vörðunni Siggu.
Segja má að útgerðin hafi verið aflögð hér árið 1946. Íbúðarhúsið Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvoll var flutt þangað árið eftir. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Austan við Strýthólahraun má sjá tóftir og minjar í kringum Þórshamar, en útveggir hússins standa enn við Flæðitjörnina. Jóhann vitavörður bjó þar síðastur manna. Suðaustan við húsið er manngerður hóll. Hann virðist hafa verið fjárborg eða tóft, miklu eldri en minjar umhverfis. Sunnan við húsið er heillegt fjárgerði og fjárhústóft. Suðvestan við það eru minjar eina skrautblómagarðsins er þá var til í Grindavík. Eflaust hefur hann vakið mikið umtal og margar vangaveltur á þeim tíma er lífið snerist aðallega um þurrfisk og síðan saltfisk.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu fyrir tíð búsetu á Nesinu. Þar má enn sjá u.þ.b. 40 hlaðin þurrkbyrgi, líkum þeim er sjá má á Selatöngum og í Slokahrauni.
Mikil vegghleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíla, líkt og margar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Nú er búið að hylja brunninn með möl.
Rekinn hefur löngum verið Þorkötlustaðabændum notadrjúgur. Örnefni á Nesinu gefa m.a. til kynna hvaða hluti strandarinnar tilheyrði hverjum þeirra.

Sjóslys og  björgun
ÞórkötlustaðanesHér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Mörg dæmi eru um það. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gat breyst snögglega. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlað var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðabótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti.
Þann 24. mars 1916 fóru 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kútters Esterar frá Reykjavík. Þurrkbyrgi í Strýthólahrauni

Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur suðvestur úr Nesinu. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst utan við Nesið 18. janúar 1952. Fimm menn fórust.
Sjá má enn járnbrak úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út aftur gerði vonskuveður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og sést brakið ofan  við kampinn.
Frá göngunniFlutningaskipið Mariane Danielsen fór upp á Hópsnesið í vonsku veðri eftir að hafa verið siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með björgunarstól daginn eftir.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes. Afurð Sundhnúks fyrir u.þ.b. 2400 árum.

Nokkrir bátar hafa strandað við Þórkötlustaðabótina, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn.
Austast í Bótinni varð enn eitt sjóslysið. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, rak upp í skerin. Ekki varð mannbjörg það sinnið.
Brak á HópsnesiGjafar VE 300 fórst fyrir utan Nesið 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfn var bjargað frá borði með aðstoð meðlima björgunarsveitarinnar Þorbjörns. Björgunarsveitin Þorbjörn var formlega stofnuð árið 1947. Saga sveitarinnar er samofin sjóbjörgunarsögu Grindavíkur, allt frá stofnun slysavarnardeildarinnar Þorbjörns árið 1930. Fáar björgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum. 
Frábært veður. „Þegar veðrið er gott er það hvergi jafn gott og hér“, sagði Guðbergur Bergsson, rithöfundur. Þátttakendur voru rúmlega 80 talsins. Sjá svolítið meira um 1200.

Framangreindur texti og uppdráttur er byggður á örnefnalýsingum, Sögu Grindavíkur, eftir Jón Þ. Þór, Árbók Sögufélags Suðurnesja 1996-1997, og frásögnum Péturs Guðjónssonar frá Höfn sem, Lofts Jónssonar og Tómasar Þorvaldssonar.
Þórkötlustaðabót - Ísólfsskáli og Skála-Mælifell fjær

FERLIR lagði í lok marsmánaðar (2010) land og jökul undir fót og hélt að eldsupptökum gosstöðva á Fimmvörðuhálsi.
Gosið kom reyndar upp á Hruna í Goðalandi, en ekki á hálsinum sjálfum líkt og fréttir hermdu.
EldurFetuð voru spor á Mýrdalsjökli upp í allt að 1.504 m.h.y.s., framhjá gígopi Kötlu og inn á berangurshálsinn millum Mýrsdalsjökuls og Eyjafjallajökuls. Leiðangursstjóri var Kári Björnsson, fumlaus með öllu, enda ekki lagt að sækja það (sonur Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings [Extreme Iceland]).
Um var að ræða gos er varð á sprungurein á tiltölulega afmörkuðu svæði. Gosið er að mörgu leyti líkt bæði Heimeyjargosinu (1973) og Surtseyjargosinu (1963), a.m.k. er um samskonar frumstætt „sjávarhraun“ að ræða að mati jarðfræðings af frönskum ættum er var með í för. Samferða var einnig enskur fasteignasali, sem af einhverri ástæðu hafði sérstakan áhuga á eldstöðinni – hvað s.s. það táknar til lengri framtíðar litið…
Tilgangurinn var ekki að hlusta á bullið í jarð- og jarðeldisfræðingum landsins, heldur var megintilgangur ferðarinnar að líta á og heyra í þessari nýfæddu systureldstöð þeirra fjölmörgu eldri er enn má sjá á Reykjanesskaganum.

Fimmvörðuháls

Á Fimmvörðuhálsi.