Fjögur hundruð og fjórtán selstöður
Uppdrátturinn hér að ofan er af Vífilsstaðaseli í Vífilsstaðahlíð.
FERLIR hefur þegar skoðað 414 selstöður á Reykjanesskaganum. Þegar allur skaginn hefur verið skoðaður má ætla að selin verði nálægt 450 talsins (eftir er t.d. að skoða nokkur selörnefni í ofanverðri Kjós, í Kvíum, Þingvallasveit, Mosfellsbæ og Grafningi), sem verður að telja líklegt að selminjar kunni að leynast við. Þetta er dágóður fjöldi á tilteknu landssvæði (sem hingað til hefur talið vera rúið öllum minjum er merkilegar geta talist).
Selin eru ein tegund búsetuminja, líkt og bústaðir, réttir, fjárborgir, varir, vörður, götur, brunnar, fjárskjól eða annað það sem mannfólkið frá fyrri tíð hefur skilið eftir sem sannindamerki um tilvist sína og tilgang um aldir. Selin gefa mannvirkin sjálf til kynna (hús, stíga, vörður, vatnsból, kvíar, stekki og nátthaga), notkun þeirra, bæði er varðar tíma og tilgang svo og gerð frá einu tímabili til annars. Mannvirkin tóku breytingum líkt og önnur mannanna verk.
Safnað hefur verið á einn stað öllum frásögnum af staðsetningum seljanna, s.s. úr ferðabókum, lýsingum, jarðabókum, örnefna-lýsingum, visitazíum, landa-merkjabréfum og skrifum einstaklega áhugasamra manna og kvenna á síðari tímum. Auk þess hefur verið gengið um staði er bera sel-örnefnið og má segja að án undantekninga hafa þar fundist minjar. Margra þeirra hefur ekki verið getið í skriflegum heimildum.
FERLIR hefur bæði notað tækifærið og teiknað upp mörg selin, ljósmyndað og skráð lýsingar á aðstæðum og ástandi eintakra selja. Ekki hefur alltaf gefist mikill tími til að mæla upp allar minjar nákvæmlega á vettvangi (því þá hefði þurft að lengja sólarhringinn verulega). Hins vegar getur samantektin auðveldað öðru áhugasömu fólki að nálgast minjarnar til nákvæmari rannsókna, ef áhugi er fyrir hendi, auk þess sem vonir eru bundnar við að hún verði til þess að minnka líkur á að merkar (ómeðvitaðar) minjar fari forgörðum af gáleysi – eins og raunin hefur orðið á í seinni tíð.