Minni-Vatnsleysubrunnur – Stóri-Vatnsleysubrunnur

Eiríksvegur
Gengið var um Minni- og Stóru-Vatnsleysu í fylgd Sæmundar bónda með það fyrir augum að skoða það, sem ekki hafði verið litið sérstaklega á í fyrri ferðum um svæðið.
Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs sögð vera 4 vættir fiska. 1703 er Minni-Vatnsleysa konungseign. Ein eyðihjáleiga er á jörðinni, Búð, og tómthús í eyði.

Stóra-Vatnsleysa

Fúli.

Grund hét hjáleiga norðan bæjar, en Miðengi, sem nánar verður vikið að á eftir, var einnig hjáleiga, í byggð á 19. öld og fram til um 1916. Það kemur m.a. fram í örnefnaskrá fyrir jörðina.
Á Vatnsleysu minni bjó oft mikill fjöldi vermanna á vertíð. Árið 1703 hafa “túnin fordjarfast merkilega af sands og sjáfar ágángi, item leir og vatnsrásum af landi ofan. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumur, um vetur nær öngvir nema lítið af fjöru.”
Allnokkrar, og heillegar grunn- og vegghleðslur eru í túninu sunnan Minni-Vatnsleysu, eða öllu heldur þar sem hún var, því nú er búið að raska svo til öllu bæjarstæðinu, en svínabú með tilheyrandi mannvirkjum komin þar í staðinn (Alisvín). Hleðslurnar í túni er frá bænum Miðengi, sem þar. Neðan þeirra og sunnar var Miðengisvörin, slæm. Stóru-Vatnsleysubóndinn sprengdi hana síðar, en vörin var í landi jarðarinnar, rétt sunnan við mörkin. Þau sjást enn þar sem fyrir er mikill grjótgarður. Áður lá hlaðin tröð frá Stóru-Vatnsleysu yfir að Minni-Vatnsleysu. Hana má m.a. sjá á túnakorti frá 1919. Hún var fjarlægð þegar túnin voru sléttuð.
Gamla Stóra-Vatnsleysuvörin var skammt norðan við núverandi vör. Við hana var spil af þýskum togara, sem notað var til að spila inn báta, og má sjá leifar þess enn ofan við nýju vörina.
“Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir runnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur.” segir í örnefnaskrá.
Á túnakortinu frá 1919 sést brunnurinn ofan við garðenda nyrst á hlöðnum garði ofan strandarinnar. Minni-Vatnsleysuvörin var þar skammt norðar. Þetta var hlaðinn, en grunnur, brunnur, ekki ólíkur Fjósabrunninum á Stóru-Vatnsleysu. Þegar að var gætt hafði kantinum á athafnasvæði austan svínabúsins verið rutt yfir brunninn, sennilega vegna óaðgæslu því hann á að vera svo til í jaðri hans.
“Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað eru um brunninn Danska.” segir í örnefnaskrá. Þá er fjallað um Hólabrunn; “Í Norðurtúni voru Hólarnir. Þar var Hólabrunnur og þar var Minni-Vatnsleysubrunnur og brunnurinn Danskur. Engin þessara brunna var góður.” Hér er jafnframt fjallað um tvo aðra brunna, Minni-Vatnsleysubrunn og Danska. Minni-Vatnsleysubrunnur sést í bakkanum norðan við litla styttu við Minni-Vatnsleysu. Steypurör hefur verið sett yfir hann og járnlok yfir. Þessi brunnur var hlaðinn líkt og Stóru-Vatnsleysubrunnurinn, en dýpri. Til eru menn, sem muna eftir þessum brunni eins og hann var. Líklegt má telja að framangreindir brunnar hafi verið einn og hinn sami, en þó má vera að þarna hafi verið, í missléttu landi, vatnsstæði, sem nefnd hafa verið.
Í örnefnaskrá segir ennfremur: “Hér nokkru austar er gróinn hóll, sem heitir Stekkhóll. Þar var fyrrum Stekkur, en nú er þar Stekkhólsfjárhús og Stekkhólsrétt.” Stekkhóll er skammt ofan strandar, en nokkru austar, í landi Stóru-Vatnsleysu.
Norðan við Stekkhól sést grunnur fjárhússins, sem hefur verið nokkuð stórt. Líklega er staðsetningin á Stekkhólsréttinni ekki rétt, eða a.m.k. ónákvæm. Réttin, eins og hún var jafnan nefnd, er nokkru sunnan við hólinn, skammt ofan gamla Eiríksvegarins. Þar eru allnokkrar hleðslur og mótar enn fyrir gömlu réttinni. Leiðigarður er nyrst í henni, en að öðru leyti er hún tvískipt þar sem hún er norðan undir lágum klapparhól.
Stóra-Vatnsleysa var einnig í konungseign árið 1703.
Varðveist hefur gamall máldagi útkirkjunnar á Vatnsleysu frá um því um 1269, þar segir: “Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande. tiolld vmhverfuis og allan sinn bvning.” Annar máldagi hefur varðveist frá því um 1367. Þar segir: “Allra hreilagra kirkia a Vatzlejsu a xvc j heimalande. kluckur ij.”
Árið 1375 segir í máldaga kirkjunnar í Krýsuvík að hún eigi fjórðungspart í Vatnsleysu. [1379]: “ok firr nefnd fleckvik aa allann þridivng j vatzleysv jord.” Síðasti varðveitti miðaldamáldi kirkjunar er frá árinu 1397 og segir þar að kirkjan eigi 15 hdr i heimalandi.” Þann 28.4.1479 er „Jörðin Vatnsleysa er í Kálfatjarnarkirkjusókn.“ Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að engin ítök séu í jörðinni Vatnsleysu nema að kirkjan í Krýsuvík eigi þar 10 hundruð og jörðin Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka. Árin 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum líkt og Minni-Vatnsleysu. Árið 1515 kaupir Ögmundir ábóti Pálsson 20 hdr. í Vatnsleysu fyrir 25 hdr. Árið 1518 er Viðeyjarklaustri færð 10 hdr í Vatnsleysu til viðbótar. Það ár (1518) féll dómur um að „heimatíund af Vatnsleysu skuli greiðast heim ekki til Kálfatjarnar.“ Árið 1584 er landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska.
Minjar um fornbýli er að finna nálægt Kúagerði. Hefur það verið nefnd Akurgerði. Árið 1703 voru hjáleigur í byggð; Vatnsleysukot og tvær nafnlausar hjáleigur auk einnar nafnlausrar eyðihjáleigu. „Eyðibýlið Akurgerði var lagt undir Vatnsleysu á 16. – 17. öld. Austast og neðst var Naustakot, stundum kallað Pallakot … Þá var norðan og ofar Nýibær, Móabær, Sigurjónsbær og Jónasarbær.” Einnig var lítið kot nefnd Kofinn byggt utan í kirkjugarðshleðsluna.“ segir í örnefnalýsingu fyrir Stóru-Vatnsleysu. Garðbær er merktur inná túnakort frá 1919. Einnig var kotbýli nefnt Krókur. Garðhús er nefnt í bók GJ, en það gæti verið sama og Garðbær.
Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að „heiðarland Vatnsleysubæja er víðáttumikið, nær frá sjó til fjalla. Túnum spillir nokkurn part vatnságángur f landi ofan og jarðfast grjót sem árlega blæs upp í túninu. Engjar eru öngvar. Úthagar lítilfjörlegir vetur og sumar.” Guðmundur B. Jónsson segir í bók sinni að Vesturbærinn hafi farið í eyði, lagðist undir Austurbæinn og var rifinn um 1940.
Tekið var hús á Sæmundi Þórðarsyni, bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann lýsti kotunum, sem voru á Kottúninu austan við bæinn. Þau eru m.a. dregin upp á túnkortið frá 1919; Móakot, Nýibær, Garðbær og Naustakot, sem jafnan var nefnt Pallakot eftir síðasta ábúandanum. Kotin stóðu þétt saman, en Pallakot fór síðast í eyði 1931.
“Vegur liggur frá bænum og niður að sjávarhúsum. Rétt við veginn norðan megi, rúmlega [ríflega] hálfa leið til sjávar, er gamall brunnur, sem var notaður þar til fyrir fáum árum. Þetta er flæðibrunnur og nokkuð saltur.” segir í örnefnaskrá.
Steypt er yfir brunninn, en hann var notaður til langs tíma. Hann er fallega hlaðinn.
“Rétt vestan bæjar er gamall og grunnur brunnur, sem nefndur er Fjósbrunnurinn.” segir í örnefnaskrá. Brunnur þessi, eða öllu heldur vatnsstæði, er í lægð í túninu vestan við íbúðarhúsið. Sæmundur sagði að alltaf hafi verið sótt vatn í hann til að brynna kúnum – kvölds og morgna. Svo merkilegt sem það hafi verið þá virtist alltaf nægilegt vatn í honum.
Örnefnaskrá segir og frá enn einum brunninum. “Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur.”
Sæmundur sagði að brunnurinn hafi jafnan verið nefndur Pallabrunnur, eftir Palla í Pallakoti. Á túnkortinu frá 1919 er teiknaður annar brunnur skammt suðaustar, en þetta svæði var allt sléttað út fyrir allnokkrum árum, að sögn Sæmundar. Kotbrunnur hefur þó fengið að halda sér. Hann er alveg heill og fallega hlaðinn.
Sæmundur benti einnig á Stöðulbrunn, vatnsstæði í grónum hól, Stöðulsbrunnshól, syðst í túninu. Hlaðið er í vatnsstæðið og var vatn í því er aðgætt var.
Sæmundur sagði að tvíbýlt hafi verið á Stóru-Vatnsleysu; Vesturbær og Austurbær. Síðarnefndi bærinn (húsið) stæði enn, en sjálfur hafi hann rifið Vesturbæinn fyrir allnokkrum árum. Þar stóð þar sem nú er stórt hús norðvestan við húsið.
Áður hefur letursteini, sem er í sunnanverðu túninu, verið lýst sem og áletruninni á honum. Milli hans og íbúðarhússins mun hafastaðið kapella fyrr á öldum. Byggt var kot upp úr henni, en vegna draugagangs lagðist það fljótlega af.
Sæmundur sagðist vilja leiðrétta og benda á nokkur atriði varðandi örnefni með ströndinni austast í S-Vatnsleysulandi. Víkin austan laxeldisins væri jafnan nefnd Stekkjarvík eða jafnvel Kúagerðisvík. Vík með því Stekkjarvíkurnafninu (Stekkjarvíkur) væri í Flekkuvíkurlandi, vestan bæja, en þessi vík hefði jafnan verið nefnd Vatnsleysuvík.
Búðavík hefði verið sandfjara beint neðan við laxeldið. Starfsmenn þar hefðu tekið sand úr fjörunni undir vatnsleiðslur að stöðinni og eftir það hefði sandfjaran horfið að mestu.
Innan (austan) við laxeldið væri Steinkeravík, en hún dregur nafn sitt af náttúrulegum steinkerum er myndast höfðu er fljótandi hraunið rann þar út í sjó.
Jafnan hefði vík allnokkru austan við Arnarklett verið nefnd Fagravík. Þannig væri hún á kortum. Arnarklettur er beint fyrir neðan grunn af húsi, sem reist var norðan við Reykjanesbrautina sunnan Afstapahrauns (Arnstapahrauns). Rétt innan við hann er hin réttnefnda Fagravík, vestan við Látrin.
“Einhversstaðar hér í Heiðinni var Vatnsleysustekkur og hér er Litli-Hrafnhóll …” segir í örnefnaskrá “Við höldum okkur enn við gamla veginn og rétt vestan gjárinnar komum við að Vatnsleysustekk í lítill kvos fast við og neðan Eiríksvegar,” segir í Örnefnum og gönguleiðum eftir SG.
Enn sést vel móta fyrir tvískiptum stekknum sunnan undir lágum hólnum.
Loks var litið á Eiríksveginn svonefnda, en „hann var ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn er í raun sýnishorn af vegagerð fyrri tíma en vegarstæðið liggur þráðbeint frá Akurgerðisbökkum, en þeir eru neðan og vestan við Kúagerði, og síðan áfram vestur yfir holt og hæðir.
Um Akurgerði lá Almenningsgatan eða hestslóðin og héðan lá ein fyrsta tilraun til vegagerðar á landi hér, sem þó var aldrei notuð. Vegurinn kallast Eiríksvegur, því Eiríkur faðir Árna Kaupmanns og leikara í Reykjavík var verkstjóri. Vegurinn lá upp í Heiðina.” segir í örnefnaskrá.
„Eiríksvegur lá frá þeim stað sem nefndur er Akurgerði. Slóðinn var meðfram Steinkeravík/Kúagerðisvík og áfram til vesturs inn heiðina. Meðfram Kúagerðisvík liggur bílslóði samsíða Reykjanesbraut og endar hann í Strandavegi. Næstum fast frá slóða þessum má sjá leifar Eiríksvegar fast upp við fjörukambinn og svo til vesturs. Gatan er greinileg á grasi grónu svæði ofan við fjörukambinn en verður ógreinilegri þegar komið er út í meira hraunlendi norðvestar. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðarmannanna sem hét Eiríkur Ásmundarson frá Grjótá í Reykjavík (1840-1893) … Eiríksvegur er 3-4 m breiður og í honum er mikið af grjóthnullungum. Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tíman fyrir síðustu aldamót. Almenningsvegurinn liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans og á kafla liggja allir þrír vegirnir samsíða, Strandarvegurinn neðstur, síðan Almenningsvegurinn en Eiríksvegurinn efstur”, er lýsingin á Eiríksvegi í bók SG um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.
Frábært veður, sól og varmt veður.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Sæmundur Þórðarson.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.