Urriðavatnsvöllur – tilurð

Urriðavöllur

Í fylgiblaði Morgunblaðsins 1997 skrifar Gísli Sigurðsson um, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi„:

Urriðavöllur

Urriðavöllur – grein Gísla Sigurðssonar í MBL.

„Urriðavatn er fallegt stöðuvatn, steinsnar norðan við Setbergshverfið í Hafnarfirði. Það blasir við af Flóttamannaveginum, sem svo hefur verið nefndur og Bretar lögðu á stríðsárunum. En framan frá sést vatnið í rauninni illa, því hraunið sem Reykjanesbrautin liggur yfir, hefur tekið á sig krók og runnið austur á bóginn og út í vatnið. Í hlíðinni norðan við vatnið má sjá tóftir eftir bæ og dálítill túnkragi hefur verið í kring. Þetta var sá bær sem hét Urriðakot til 1944, en síðan Urriðavatn. Þarna hefur verið búið með kindur og treyst á beit uppi í Urriðavatnsdölum og Heiðmörk.
Guðmundur Jónsson átti jörðina til 1939, en seldi hana þá sonarsonum sínum, Kára og Alfreð, sem síðar varð forstöðumaður Kjarvalsstaða. Síðasti ábúandi á Urriðavatni var hinsvegar Gunnlaugur Sigurðsson, sem bjó þar til 1957. Bærinn brann skömmu síðar.
Nokkru áður, 1946, hafði 30 manna hópur úr Oddfellowreglunni einast jörðina. Hún hafði verið auglýst til sölu og Reykjavíkurbær gerði tilboð, sem var hafnað. Þá var það að hópurinn úr Oddfellowreglunni bauð betur, svo kaupin gengu: Kaupverðið var 160 þúsund krónur. Síðar bættist við hópinn svo í honum varð 61 maður.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Núna, eftir að Urriðavatnsland er orðið þekkt útivistarsvæði, hafa menn dást að þessari framsýni Oddfellowa. En þeir voru ekki með draumsýnir um það sem nú er orðið að veruleika þarna, heldur var annað sem stóð hug þeirra og hjarta nær á þeim tíma. Þeir höfðu fengið augastað á hlíðinni ofan við Urriðavatn fyrir sumarbústaði.

Þórður er einn úr hópnum
Þórður Kristjánsson, byggingameistari, er einn af fimm eftirlifandi félögum úr hinum upphaflega 30 manna hópi Oddfellowa sem keyptu landið. Hinir eru Björn G. Bjömsson, fyrrverandi forstjóri Sænska frystihússins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, fyrrverandi stórkaupmaður, Guðjón Sigurðsson múrarameistari og Jónas B. Jónsson fyrrverandi fræðslustjóri.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður er Dýrfirðingur að uppruna, en lærði húsasmíði á Ísafirði og fluttist síðan til Reykjavíkur 1943 og varð mikilvirkur í byggingastastarfsemi um sína daga byggði mörg stórhýsi, þar á meðal hótelið og aðrar byggingar Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli, mörg hús Pósts og síma, flestar byggingar KR; þar á meðal KR-heimilið og svo byggði hann að sjálfsögðu blokkir.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

Þórður verður áttræður á þessu ári, og er í útliti og að líkamsburðum eins og alla dreymir um að geta orðið á þeim aldri, en fæstir ná. Hann kvaðst hafa dregið sig í hlé frá byggingarstarfsemi þegar hann var 75 ára.
„Þá nennti ég þessu ekki lengur og fór að leika mér“, segir hann.
Og hvað meinar hann með því?
Ójú, hann kynntist því aldrei í æsku að mega leika sér og á fullorðinsárunum hafði hann ekki tíma til þess. Núna leikur hann golf á hinum nýja golfvelli Oddfellowa í Urriðavatnslandi og nýtur þess. Hann sagði að það hefði verið afar skrýtin tilfinning í fyrstu að geta bara farið út og leikið sér. En hann kvaðst hafa kunnað því merkilega vel.

Urriðavöllur

Urriðavöllur.

En hvað varð um drauminn um sumarbústaðina? Um þær mundir var þjóðin í hlekkjum allskonar hafta. Til þess að kaupa bíl þurfti gjaldeyrisleyfi og til þess að fá að byggja sumarbústað þurfti fjárfestingarleyfi, – og öllu var úthlutað eftir pólitískum línum og geðþótta. Skömmtunarstjórunum þótti ekki nauðsynlegt að byggja sumarbústaði og fjárfestingarleyfi til þeirra fengust einfaldlega ekki.
Þá kom upp tvær hugmyndir, segir Þórður. Önnur var sú að selja landið í bútum og græða á því; hin var sú að gefa það Oddfellowreglunni. Það varð ofaná árið 1957 að gefa Urriðavatnsland og Oddfellowreglan þáði gjöfina með þökkkum.

Landamerki skilgreind 1986

Urriðakot

Urriðakot – landamerkjalýsing; örnefnaskráning Gísla Sigurðssonar.

Urriðavatnsland er í Garðabæ. Upphaflega náði það neðar í hraunið en Reykjanesbrautin liggur nú. En þegar Oddfellowreglan var búin að eiga landið í 40 ár, komst skriður á nýja þróun. Sá hluti landsins sem var norðan við Reykjanesbrautina, 5 ha., var seldur Garðabæ 1986. Í framhaldi af því tók stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa undir stjórn Jóns Ótta Sigurðssonar að huga að nýtingu landsins. Í því augnamiði var unnið að bókum Urrðavatnsland sem út kom 1988. Ljóst var að efri hluti landsins yrði ekki byggður fyrr en eftir 2050 og Urriðavatnsdalir þar að auki á vatnsverndarsvæði. Í ljósi fjölbreyttrar náttúru og hrífandi fegurðar sem þarna er árið um kring, þótti augljóst að þarna gæti orðið útivistarparadís í næsta nágrenni við þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu. Eftir að sú ákvörðun var tekin að líta á Urriðavatnsland sem útivistarsvæði, fékk framkvæmdanefndin til liðs við sig fagmenn eins og Reyni Vilhjálmsson og Þráin Hauksson, landslagsarkitekta, og þá kom fljótlega upp hugmynd um golfvöll en jafnframt lögð áherzla á það að landið yrði almennt útivistarsvæði og girðing inn með Vífilsstaðahlíð var rifin niður.

Urriðakotsdalir

Urriðakotsdalir – úr fornleifaskráningu 2022.

Líknarsjóðurinn hefur lagt til efni í göngustíga, en unglingar í Garðabæ hafa unnið verkið. Nú eru komnir göngustígar inn eftir Búrfellshrauni, sem tengjast stígnum undir hlíðinni og hægt að ganga þar talsvert langan og framúrskarandi fallegan hring.
Inni í hrauninu hafði verið efnistaka, sem hætt var við, en útivistar- og leiksvæði útbúið í gryfjunni. Hún er nægilega stór til að rúma löglegan handboltavöll og þar verður púttvöllur að auki.
Í Urriðavatnsdölum var frá náttúrunnar hendi öll sú tilbreyting í landslagi sem þarf til þess að golfvöllur geti orðið í senn krefjandi og skemmtilegur. Leitað var til Hannesar Þorsteinssonar, líffræðings og golfvallarhönnuðar á Akranesi og á hann heiðurinn af skipulagi vallarins og útfærslu á teigum, brautum og flötum. Með honum unnu þeir Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um gróðursetningu Oddfellowsfélaga.

Þriðji aðilinn sem þarna átti hlut að máli er Batteríið, arkitektastofa Sigurðar Einarssonar og Jóns Ólafs Ólafssonar, en þeir hafa teiknað framtíðar golfskála, sem um leið verður miðstöð útivistarfólks og liggja stígar frá skálanum út á stíginn í hrauninu.
Þegar skipulagstillögurnar lágu fyrir og höfðu verið samþykktar af þar til bærum yfirvöldum, voru þær gefnar út í veglegu riti og kynntar innan Reglunnar. Var strax mikill áhugi á stofnun golfklúbbs sem Oddfellowar ættu aðild að. Um leið og völlurinn var tilbúinn, hófu margir félagar í nýstofnuðum Golfklúbbi Oddfellowa að leika golf, sem aldrei höfðu snert á því áður, og uppgötvuðu nú, að Urriðavatnsdalir er unaðsreitur fegurðar og sú fegurð hefur farið vaxandi með ári hverju eftir því sem framkvæmdum miðar áfram.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – Golfklúbburinn Oddur.

Síðar var stofnaður Golfklúbburinn Oddur, sem öllum er opinn. Golfvöllurinn verður með þeim beztu á Íslandi.
Ekki er það hrist framúr erminni að búa til boðlegan 18 brauta golfvöll. Venjulega tekur þ|ið áraraðir á Íslandi, en það er lýginni líkast hvað allt greri og dafnaði skjótt í Urriðavatnsdölum. Fyrst voru lagðar 9 brautir á golfvellinum og sáð í þær. Jafnframt voru teigar og flatir byggð upp og bráðabirgða golfskáli reistur.

Félagar hafa fjármagnað allt

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Mörgum hefur þótt hraði framkvæmdanna ævintýralegur í Urriðavatnsdölum og því hefur verið slegið fram, að Oddfellowar hafi getað gengið í digra sjóði til þess í arna. En það er ekki svo. Félagarnir sjálfir hafa fjármagnað þetta, nema hvað Styrktar- og líknarsjóðurinn fjármagnar gróðursetningu á tijáplöntum, hönnun, svo og grasfræ á brautirnar. Tekin hafa verið lán vegna framkvæmda og ein stór er eftir: Golfskálinn, en hann verður látinn bíða; völlurinn gengur fyrir.
Bráðabirgðaskálinn hefur lítið eitt verið stækkaður, en draumurinn er að lítlu austar rísi nýr skáli, sem þjóni líka göngufólki.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – gróðursetning.

Stofnfundur golfklúbbs Oddfellowa var haldinn 12. mai, 1990 og þá voru skráðir um 300 stofnfélagar. Nú eru klúbbfélagar yfir 500. Hraða framkvæmdanna má m.a. þakka hópi vaskra manna úr Oddfellowreglunni sem vann bæði við frágang hússins og þökulagningu á teiga, allt í sjálfboðavinnu. Þar að auki lögðu félagarnir á sig framkvæmdagjald og hafa á þann hátt fengizt 5-6 milljónir til framkvæmda. Óskar Sigurðsson, fyrsti formaður Golfklúbbs Oddfellowa, hefur unnið mikið og gott starf og einnig Gunnlaugur Gíslason, sem hefur verið formaður vallarnefndar frá upphafi og stjórnað framkvæmdum.

Urriðavöllur

Urriðavöllur – minnismerki um frumkvöðlana.

Byggð hefur verið vélageymsla, sem einnig hýsir aðstöðu fyrir starfsmenn og stjórn, en það veigamesta sem nú er á framkvæmdastigi er helmingur golfvallarins, sem kunnugir telja að sé ekki á síður á fögru og tilbreytingarríku landi en sá hluti sem við þekkjum, og jafnvel að svæðið þeim megin sé ennþá fegurra.
Í ágúst verður Oddfellowreglan á Íslandi 100 ára og stefnt er að því að opna þennan nýja hluta vallarins og leika á 18 brauta golfvelli á landsmóti Oddfellowa í sama mánuði.“

Við golfvöllinn er minnismerki um frumkvöðlana er stuðluðu að tilvist hans, en upplýsingar um það er hvergi að finna á vefsíðum Oddfellows. Þegar FERLIRsfélagi leitaði eftir staðasetningu þess við starfsfólk vallarsins virtist enginn vita um tilvist þess. Sporin eiga það til að fyrnast!?

UrriðavöllurUrriðakotshraun var friðlýst sem fólkvangur þann 10. janúar 2024 að beiðni landeiganda og Garðabæjar.

Heimildir:
-Morgunblaðið 27.03.1997, „Útivistaparadís í Urriðavatnslandi“, Gísli Sigurðsson, bls. 1-4.
-https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/urridakotshraun/

Urriðavöllur

Urriðavöllur – friðlýsing.