Bessastaðakirkja

Hreinn S. Hákonarson skrifaði þann 14. nóv. 2023 grein í Kirkjublaðið.is um “Kross eða vindhana?” á Bessastaðakirkju:

Bessastaðakirkja

Vindskraut á Bessastaðakirkju 2024.

“Fyrir nokkru var Kirkjublaðið.is að fletta nýútkominni litabók í bókaverslun sem bar virðulegra nafn en aðrar litabækur sem orðið höfðu á ævivegi ritstjórans: “Hin íslenska litabók”.
Myndirnar gerði Sísí Ingólfsdóttir. Litabókin er ætluð börnum og í henni eru myndir af sögulegum stöðum og atburðum til að lita. Snjöll bók og uppeldislega góð. Ein myndin í litabókinni er af Bessastaðakirkju. Á turni hennar er kross. Teiknari bókarinnar kann að hafa haft fyrir framan sig mynd af kirkjunni þegar kross var á henni. Eða bara gengið út frá því að þarna ætti að vera kross og ekki svo sem fráleit hugmynd þar sem þetta var kirkja. Margir kinka eflaust kolli yfir því.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1968.

Krossinn á turni Bessastaðakirkju fauk af skömmu fyrir aldamótin 2000 en hann hafði verið á kirkjunni frá fimmta áratug síðustu aldar. Gert var við hann en ekki komst krossinn upp á turninn að nýju. Einhverjar sögur gengu um að hann væri týndur.

En hvað um það.

Það blæs sennilega úr öllum áttum á Álftanesi eins og víðar annars staðar í mannlífinu.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að búið væri að setja upp vindhana á turn kirkjunnar. Gamli vindhaninn hafði verið tekinn niður skömmu eftir lýðveldisstofnun 1944 en hann var með danskri kórónu sem þótti þá ekki lengur hæfa. Elstu myndir af kirkjunni sýna Bessastaðakirkju með myndarlegan vindhana (vindör) og því er sá nýi hluti af upprunalegri mynd en án kórónu sem fyrr sagði. Hugmyndir hafa verið uppi um að færa kirkjuna alla til sem upprunalegs horfs eins og þetta myndband sýnir. Um það eru vissulega skiptar skoðanir.

Reykjavík

Bessastaðir – kirkjan fyrrum.

En þetta með vindhanann og hvað hann stendur fyrir.

Fyrsta spurningin sem vaknar er hvort þetta sé nú alvöru vindhani. Vindhani í ströngustu merkingu er með mynd af hana sem snýst eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs.

Í fréttinni um uppsetningu vindhanans var vitnað til tilkynningar frá forsetaembættinu en þar sagði að vindhaninn væri „tákn árvekni og skyldurækni og minnir á þegar Pétur postuli afneitaði Jesú þrisvar en þá gól hani.“ Þetta er allt satt og rétt. Haninn galar við sólarupprás og meistarinn skaut því að postulanum Pétri að ekki yrði hann stöðugur þegar til stórræðna kæmi – haninn myndi gala þrisvar í kjölfar þríendurtekinnar afneitunar á kunningsskap við meistarann.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1930.

Já, Pétur reyndist í raun vera vindhani sjálfur, óstöðugur í hæsta máta eins og lesa má í orðabókaskýringu við orðið vindhani. En á vindhana Bessastaðakirkju er haninn fjarri góðu gamni og því ætti fremur að kalla hanann veðurvita eða veðurör. Þessi tilvitnuðu orð fréttarinnar um hanalausa vindhanann og samband hanans við Pétur mýkja vonandi huga þeirra sem hafa viljað sjá kross á turni Bessastaðakirkju. Þarna er að minnsta kosti komið til móts við þau með því að nefna postulann á nafn í fréttinni.

Það má líka auðvitað spyrja hvort að hanalaus vindhani sé vindhani. Nú, kannski þarf bara listrænt innsæi til að sjá hanann. Vindörin sé það sem kallast á bókmenntamáli pars pro toto, hluti fyrir heild. Hver veit.

Það er víst uppátæki páfa kaþólskra á 9. öld að setja vindhana á kirkjuturna sem kristið tákn er minna skyldi á hinn óstöðuga Pétur postula. Kannski er óþarfi að jagast í Pétri blessuðum því hann átti nú eftir að standa sig vel síðar og galt fyrir trúna með lífi sínu. Svo læðist sá grunur að hani hafi orðið fyrir valinu því að myndarlegt stél hans tekur vel á móti vindinum. Sem sagt: ýmsar hliðar á málinu.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2010.

Vindörin er falleg og traust að sjá.

En eitt er nú gott. Álftnesingar sjá úr hvaða átt hann blæs. Það er til mikilla bóta þrátt fyrir að veðurstofa hafi starfað um allnokkra hríð.

Og svona í blálokin: Eftir stendur spurningum um hvar krossinn sé og hvort ekki mætti nýta hann. Kannski á hann bara heima á Þjóðminjasafninu? Hann var þó á kirkjunni í rúma hálfa öld. Nú ef hann er týndur má minna á hin sígildu orð: Leitið og þér munuð finna.”

Heimild:
-https://www.kirkjubladid.is/mal-lidandi-stundar/kross-eda-vindhani/

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 1998.