Guðmundur Daníelsson fór að Bessastöðum og ræddi við þáverandi forseta, Ásgeir Ásgeirsson. Grein um heimsóknina birtist í Vísi 1954 undir fyrirsögninni “Forsetabústaðurinn og heimilið – viðtal við forsetahjónin að Bessastöðum“:
“Eg gerði mér ferð til Bessastaða í þeim tilgangi að geta á síðan sagt lesendum Vísis nokkuð frá þessu þjóðarheimili og húsbændunum þar. Mér var tekið með virktum, svo sem eg hafði raunar átt von á. Forsetann Ásgeir Ásgeirsson hef eg þekkt síðan eg var skólastjóri á Súgandafirði og jafnan metið hann mikils, en af því væri önnur saga, sem hér verður ekki sögð.
Forsetafrúnni, Dóru Þórhallsdóttur, hef eg einnig kynnzt nóg til að vita, að þar fer mikil ágætiskona, og fer allt saman: glæsilegt útlit, göfugt innræti og húsmóðurþokki.
Það er staðarlegt að líta heim að Bessastöðum og allri húsaskipun vel fyrir komið. Fyrst mætir manni kirkjan, síðan forsetabústaðurinn sjálfur og útihús, þá er hús bústjóra og starfsfólks og síðast fjós og hlaða í hæfilegri fjarlægð. Öll eru húsin reisuleg, hvítkölkuð og með rauðu tiglaþaki. Þeir litir fara vel við græna jörð og bláan fjallahring.
Útsýnið frá Bessastöðum er svipmikið og fagurt, sjóndeildarhringurinn stór. Í útnorðri rís úr öldunum hvítur tindur Snæfellsjökuls og þar austur af fjallgarðurinn, unz hann hverfur undir Akrafjall. Þá tekur við Skarðsheiði og Esjan, en síðan Reykjanesfjallgarðurinn allur norðan frá Hengli og suður fyrir Keili. En í vestrinu opið haf, blár sjór og hvítir boðar. Undrar víst engan þó Faxi teldi þá Ingólf vera komna nýrækt og nýtízku fjós og að miklu landi, er árósar væru svo víðir!
Gengið til kirkju
Eg skýrði forsetahjónunum frá erindi mínu yfir kaffibollanum.
Forsetinn svaraði: „Hvar skal byrja?“ sagði Matthías í Skagafirði. Er ekki rétt að við göngum fyrst í kirkju?“
Kirkjan er mikil, veggjaþykk og öll nokkuð þung, en yfir henni er virðuleiki, sem ekki kemur nema með aldrinum. Kirkjan er þó yngri en bústaðurinn og var lengi í
smíðum, því konungur var félaus. Ekki þótti hún vistleg á vetrum og alloft lak þakið, þar til okkar góði íslenzki ríkissjóður tók hana á áð sér og endurnýjaði.”
Mér varð að orði: „Þótt þakið sé hætt að leka, finnst mér allur blærinn yfir kirkjuhúsinu nokkuð kaldur.“
„Það finnst mörgum,“ svaraði forsetinn. „En allt, sem gert hefir verið, er traust og til frambúðar. Nú éf að byggja á því. Það er langt frá: því, að kirkjusmíðinni sé lokið. Þessa kirkju þarf að gera veglega og til fyrirmyndar um alla skreytingu fyrir aðrar kirkjur landsins.“
„Er nokkuð í undirbúningi?”
„Já, eg býst við að reynt verði að byrja á gluggamálverkum. En allt er dýrt, og verður ekki gert í einu, sem unnið er fyrir aldirnar.”
Fátt til frá fyrri tímum
„Einhverjir kirkjugripir eru hér þó til?
„Það er ótrúlega fátæklegt eftir alla þá höfðingja og harðdrægu skattheimtumenn, sem setið hafa að Bessastöðum öldum saman. Og eftirtektarvert er það, að þessir miklu koparstjakar á altari, eru frá Holm-mæðgunum í þakkarskyni fyrir sýknun þeirra í Schwarzkopf-málinu. Svo eru hér hinar fögru oblátudósir (og þó í eftirlíkingu), sem gefnar voru til minningar um Magnús Gíslason, fyrsta íslenzka amtmanninn, en legstein hans sérðu þarna í veggnum á virðulegasta stað. Er það maklegt, því að hann lét gera Bessastaðastofu, sem auk kirkjunnar, eru einu leifar fortíðarinnar hér á staðnum. Það er hér eins og víðar, að minningarnar einar lifa.“
Úr kirkju gengum við út í Bessastaðanes. Þar er mikil nýrækt og nýtízku fjós og hænsnabú. Bústjóri er Jóhann frá Öxney, og er rekstur hans allur með reisn og myndatbrag. Í nesinu er góð beit, og ný framræsla í mýrarsundum til viðbótarræktunar. Austan nessins er Lambhúsatjörn, sem nú er vogur og sætir þar sjávarföllum. En að vestan er Bessastaðatjörn – og erum við því komnir úr á “Skansinn”.
Þar sem Tyrkir komu
„Bessastaðatjörn var vogur eða fjörður, þar sumar er leið,“ segir forsetinn.
„Þá var fyllt upp í Dugguósinn og grandinn allur hækkaður. Síðan gætir ekki sjávarfalla og ætti það að taka fyrir frekara landbrot, auk þess sem prýði er að vatnsfletinum.
Grandarnir hefir staðið sig vel – það braut að vísu úr honum að innanverðu, en í þær hvilftir var hlaðið jafnharðan. Eins og þú sérð, þá hefir sjórinn gert hér fallega vík að utanverðu við Seyluna, svo að allt gengur eftir áætlun Vitamálaskrifstofunnar.“
“Svo þessi vík er þá Seylan, var það ekki þar, sem Tyrkirnir komu?“ spyr eg.
„Rétt er það,“ svaraði forsetinn, „og óskemmtilegt er að minnast þess, að fangarnir úr Vestmannaeyjum voru fluttir á milli skipa til að létta á því skipinu, sem strandaði, án þess að nokkuð væri hægt að aðhafast úr landi. Til þess atburðar á Skansinn, þar sem við nú stöndum, rót sína að rekja. Hann var byggður fyrir álögur á landsmenn og kauplaust dagsverk — og aldrei hefir verið hleypt af skoti hér til landvarna.
En Skansinn er einn fegursti bletturinn í landareigninni. Við létum girða hann í sumar, eins og þú sérð; hér má koma upp kjarri og íslenzku fjölgresi. Og hér væri tilvalið að gera lítinn sveitabæ utan í Skansinum. Þá gætu gestir skyggnzt hér inn í fortíðina.“
Þar sem Óli Skans bjó forðum
„Mér virðist hér hafa verið býli.“
„Já, hér var lítið grasbýli, og hér bjó Óli Skans einna síðastur — sá, sem danskvæðið er enn þá sungið um. Þarna rétt fyrir norðan girðinguna eru gamalt naust og sæmileg vör, sem ekki hefir spillzt af sjávargangi. Þar hafði Grímur Thomsen uppsátur, meðan hann gerði út. Héðan eru þeir einu forngripir, sem til eru heima á staðnum: tvær þungar byssukúlur, og lítill og slitinn hverfisteinn. Það minnir á kúgunina og stritið. Eg gróf upp steininn, sem var sokkinn í jörð; eg hugsa mér, að Óli Skans hafi skilið hann eftir. Nú er hann laglegur lampafótur heima á skrifborði.“
„Hvað heitir víkin þarna austur af?“
„Þarna komst þú við viðkvæman blett,“ gegnir forsetinn og brosir. „Eg kann ekki að nefna hana. Hér hafa flestöll örnefni týnzt í flutningum; oft skipt um heimilisfólk og ekkert varðveist. Eg hefi haldið uppi spurnum um örnefni, en lítið orðið ágengt. Skilaður því til lesendanda þinna, að þeir fái af mér millar þakkir, sem komið geta til skila gömlum örnefnum úr Bessastaðalandi. Líttu þarna út í tjörnina. Þú sér þar lítinn hólma, sem við létum stækka í sumar vegna varpsins. Hann heitir Bessi. Þetta er merkilegasta örnefnið, sem varðveizt hefir, en allar skýringar eru týndar, eins og á sjálfu staðarnafninu.”
„Er hér mikið varp?“
„Já, — þú átt auðvitað við œðarfugl, eins og alltaf þegar talað er um varp. Varp er hér mikið, og góð skilyrði, þrátt fyrir skothríð á Skerjafirði; svartbakinn og hrafninn.
Eg spyr hvort ekki sé tiltölulega auðvelt að flæma burt hrafninn.
„Nei, hann er nú verstur allra viðfangs,“ svaraði forsetinn og gefur mér svofellda lýsingu á nútímahrafninum:
„Hann kemur á vorin í stórhópum frá fiskimjölsverksmiðjum og frystihúsum, því að enn veit hann, að æðareggin eru ljúffengasta fæðan. En þessir hrafnar eru skríll og engin gömul sveitamenning í þeim lengur. Bezt gæti eg trúað, að þeir sé hættir öllu þinghaldi!“
„Ef eg má skjóta því inn í,“ gríp eg fram í fyrir forsetanum, „þá styrkir þetta mig í þeirri trú, sem eg hefi alltaf haft á Alþingi, þótt að ýmsu sé nú fundið: Alþingi er burðarásinn í menningu okkar, og spegilmynd af menningu okkar. Þinglaus þjóð verður skrílþjóð, samanber hrafnána.“
„Alveg rétt,“ svarar forsetinn: „Annars þykir mér leitt að þurfa að segja þetta um hrafninn. Þetta er fugl Óðins, og vænt finnst mér um þá fáu, sem enn halda uppi gömlum og góðun sið, og flögra í kringum kirkjuturninn á vetrum. Eg hefði gaman af að ræða fleira um fuglana — tjaldinn, sem heldur sig hér á hlaðinu, og maríuerluna, kríuna, sem sýnir hér sitt meistaraflug, enda þarf hún að fara á milli heimskautanna á hverju ári, brimöndina, stelkinn og sendlinginn — en það er of langt mál.“
Við fórum nú aftur heim á staðinn og gengum til skrifstofu forseta. Hann heldur áfram að fræða mig um það, sem fyrir augu ber:
„Hér voru áður tvö herbergi,“ segir hann. „Hið fremra skrifstofa og svefnherbergi innar af. Í þessari gluggakistu hafði Grímur Thomsen skrifborð sitt, hátt borð og stóð við það, þegar hann orti. Á einum vegg var stór mynd af Runeberg, finnska skáldinu, og á öðrum mynd af Bismark með eiginhandar áritun. Í engri lítilli kvæðabók eru fleiri meistarakvæði en hjá Grími. Þjóðin getur verið þakklát fyrir að hann flutti heim, og hann eignaðist Bessastaði fyrstur íslenzkra manna eftir Snorra Sturluson.”
Skrifstofan er fallegt herbergi, ílangt, rúmgott og djúpar gluggakistur. Á veggjum ágæt málverk eftir Ásgrím og Kjarval og eirmynd af Jóni Sigurðssyni eftir Guðmund frá Miðdal. Báðir veggir eru þaktir bókum.
„Er þetta forsetabókasafnið?“
Forsetinn brosir lítið eitt, þegir andartak. Svo segir hann: „Staðurinn á fjórar bækur. Þrjár eftir Grím, og er ein þeirra árituð af H. C. Andersen: Til min rigtbegavede, dygtige Ven. Og hér sérðu Íslandsmyndir Gaimards, sem Árni Helgason ræðismaður gaf staðnum, í dýrlegu skrautbandi. Það hafa margir áður spurt líkt og þú, enda ætti hér að vera staðarbókasafn íslenzkra úrvalsbókmennta. Það þarf ekki að vera stórt og gæti vel rúmazt í þessum tveim skápum. Það gæti ekki nema gott af því leitt, að íslenzkir úrvalshöfundar tækju hér á móti hverjum nýjum forseta. — Annars eru þetta mínar bækur, bæði hér og frammi í Litlustofu.“
Eg lít yfir hillurnar, þar eru handritaútgáfumar, Íslendingasögur, Búnaðarritið allt og Andvari o. s. frv. Eg veiti því eftirtekt, að hér er einnig margt úrvalsbóka innlendra og erlendra höfunda.
„Vildir þú sýna mér þá bók, sem þér finnst vænst um í safni þínu?“ spyr eg.
„Það er úr vöndu að ráða, en hér er fyrsta bókin, sem eg eignaðist á mínum fyrsta afmælisdegi.“
Vonir og tálvonir
Eg tek við bókinni. Þetta er Nýja Testamentið og letrað á spjöldin: 13. maí 1895. Síðan heldur forsetinn áfram: „Annars hafa störf mín og áhugamál verið margbreytileg og bókasöfnun eftir því, auk þeirra almennu bókmennta, sem eg hefi safnað að mér meira eins og kunningjum, til að vita af þeim, og hægt er að velja um og grípa til, þegar stund kemur. Eg hefi alltaf haft mikla trú á bókum, og vísast stundum haldið að í þeim væri meiri vísdómur en svo reyndist. Bókartitlar og fyrirsagnir gefa oft miklar vonir og stundum tálvonir. En er það ekki svo um allt? Íslendingar mega aldrei hætta að kaupa og lesa bækur, þótt blöð og dægurtímarit leiti fast á. Auk þess eru bækur ein sú bezta ellitrygging í mörgum skilningi.“
Forsestaskrifstofan er eitt bezta herbergi, sem eg hefi komið í. Loftið er mettað af sögu, veggirnir þaktir list og bókmenntum, en það er minn dómur, að forsetinn, Ásgeir Ásgeirsson, fylli út í það — að hér sé réttur maður á réttum stað.
Eg er nú leiddur um önnur herbergi hússins. Við komum í herbergi forsetafrúarinnar, þar sem hún situr þessa stundina og saumar í dúk. Frú Dóra er, eins og alþjóð er kunnugt, glæsileg kona að ytra útliti, og þó ekki síðri í reynd. Framkoma hennar mótast af látleysi og glaðværð ásamt hóglátum myndugleika, svo sem títt er um beztu húsfreyjur og mikilhæfar konur í hvaða stétt sem er. Eg leita staðfestingar forsetafrúarinnar á því, að eg sé hér staddur í einkastofu hennar.
Á ríkið á líka hana?
„Jú,“ svarar hún, „þetta er mín stofa, þótt raunar séu öll herbergi niðri í húsinu gesta og móttökuherbergi. Eg kalla þetta mína stofu, af því að við höfum hér okkar húsgögn. Það léttir mikið fyrir um að venjast breytingunni, að hafa einhvers staðar sitt eigið. Þegar Tryggvi bróðir minn bjó í ráðherrabústaðnum, þurfti stundum að banna börnunum. Því var það, þegar litlum snáða var bannað að fikta við systur sína, sem svaf í vöggu, að hann sagði: „Á ríkið þá líka hana?“
Það er gott að hafa sitt eigið gamla dót í kringum sig. Og víða blöndum við því saman við það, sem staðarins er.“
Eg rek augun í gamla, forláta dragkistu, sem stendur úti við vegg, og spyr eins og barnið:
„Á þá ríkið þennan góða grip?“
„Nei, ekki enn að minnsta kosti, en það er saga að segja frá því. Þessi dragkista er úr búi Jóns Sigurðssonar, en þaðan komst hún í eigu Tryggva Gunnarssonar, sem við systkinin kölluðum „afa“, og áður en hann dó, ánafnaði hann mér dragkistuna.“
Það er eins og forspá hjá gamla manninum, því hér er kista Jóns Sigurðssonar réttilega niður komin.
Gamalt og nýtt fellur saman
Við göngum nú inn í næsta herbergi, hina rúmgóðu borðstofu. Þar voru áður skólastofurnar tvær, meðan Latínuskólinn var á Bessastöðum. Hér hafa þeir kennt og numið, flestir, sem áttu mestan þátt í endurfæðing íslenzkar tungu, Sveinbjörn og Jónas, svo að aðeins tveir séu nefndir.
Þessu næst förum við inn í móttökusalinn, en þá erum við komin úr gamla húsinu, sem Magnús amtmaður lét byggja á árunum 1760—1765. Þessi salur, sem er mesta herbergi staðarins, var gerður fyrir forgöngu Sveins Björnssonar forseta eftir teikningum Gunnlaugs Halldórssonar. Hið gamla og hið nýja fellur saman, eins og það j væri jafnaldra, og þó er hér öllu vel fyrir komið með tilliti til hins nýja tíma og embættis.
Fyrir miðjum gafli hangir stór mynd af freigátum Kristjáns níunda, þegar þær sigla inn Faxaflóann, og tengir myndin bústað hins íslenzka forseta við fyrstu konungsheimsóknina og stjórnarskrána frá 1874. Allur er þessi salur hinn virðulegasti, gluggar hans ná niður að jörð og útsýni um þá fagurt.
„Náttúran sjálf tekur fram öllum veggmyndum,“ segir forsetinn.
Flestir gestir 130 í einu
„Eg hefi fylgzt með því, að hér er gestkvæmt á stundum,“ verður mér að orði.
„Nokkuð svo,“ svaraði forsetinn. „En þegar við tókum við staðnum, var það samkomulag við ríkisstjórnina, að við ykjum heldur risnuna til að létta á stjórninni. Hér er flest vel í haginn búið, og ef okkur tekst að gera hér heimilislegt, þá er hér eins gott að koma og á gistihús í stjórnarboði. Okkur er ljúft að hafa hér gesti af öllu landinu, og söknum margra, sem verða útundan, af því að þeir eru ekki á neinum landsfundi.“
„Hvað er hægt að hafa hér marga gesti í einu?“
Forsetinn lítur til konu sinnar og segir, að nú sé tryggara að hún svari, ef eg vilji fá nákvæma óyggjandi tölu.
„Flestir hafa þeir verið 130,“ svarar frúin, „en þá var þröngt.
Við venjulegar móttökur eru hér 50-100 manns. En í matarboðum geta flestir verið 26 aðkomandi. Kemur það sér oft illa, enda er langt síðan gerðar voru áætlanir um nýja borðstofu og eldhús. En allt bíður síns tíma.“
„Er ekki mikil fyrirhöfn að búa allt í haginn á svo gestkvæmu heimili?”
„Það getur hver sagt sér sjálfur, og mikil yfirferð daglega á stóru húsi. En við höfum ágætt fólk, og samvant. Sem betur fer hafa lítil umskipti orðið, síðan við komum hingað.“
Góðvild og ástúð
„Hvað skyldu margir gestkomandi hafa verið hér á þessum 15 mánuðum, sem þið hjónin hafið setið staðinn?“ .
„Það get eg ekki sagt,“ svarar forsetafrúin, „en þér skuluð líta í gestabókina, og bæta svo við einum þriðjung.”
Eg tek við gestabókinni, sem gæti heitið Fagurskinna eftir fráganginum, gefin og gerð af Handíðaskólanum. Hún virðist nærri hálfnuð, og endist því vart út kjörtímabilið. Sérkennileg nöfn upp og niður blaðsíðurnar. Þetta verður merkileg bók á sínum tíma fyrir margra hluta sakir. En eg gefst fljótt upp við samlagninguna.
Nú dregur að kveðjum, og eg árna forsetahjónunum alls góðs og get þess um leið að það gleðji mig, hvað fari vel um þau hér.
„Við höfum um ekkert að kvarta,“ segir forsetinn, „og ómetanleg er sú góðvild og ástúð, sem við mætum alls staðar. En vísast þarf lengri tíma, til að venjast til fulls nýjum viðhorfum í þessu starfi en víðast annars staðar.“
Eg kveð svo þetta góða og virðulega heimili með þeirri sannfæringu, að forsetaembættið og bústaðurinn sé í góðum höndum, og að ástsæld þeirra hjóna muni fara vaxandi með ári hverju.” – Hreinskrifað á Eyrarbakka, 22. desember 1953. Guðmundur Daníelsson
Heimild:
-Forsetabústaðurinn og heimilið, Guðmundur Daníelsson – Vísir, miðvikurdagur 17. febrúar 1954, bls. 5.
-Vísir, 18. 02. 1954, framhald, bls. 6.