Strandarkirkja

Skilti er framan við Strandarkirkju, innan girðingar. Á því eru eftirfarandi upplýsingar:

Strandarkirkja

StrandarkirkjaStrönd í Selvogi var stórbýli og höfðingjasetur lengi framan af öldum.

Elsta skjalfesta heimild um kirkju á Strönd er frá því um 1200, en öruggt má samt telja að kirkja hafi risið þar skömmu eftir kristnitöku.

Kirkjan á Strönd var í kaþólskum sið helguð Maríu guðsmóður og blessuðum Tómasi Becket erkibiskupi af Kantaraborg.

Kirkja var einnig á höfuðbólinu í Nesi fram til 1706 og kirkjunnar því tvær í Selvogi.

StrandarkirkjaUppblástur og sjávarágangur eyddu landkostum í Selvogi og stórbýlið Strönd var komið í eyði um 1700.

Kirkjan stóð ein eftir á svörtum sandi við opið haf, óvarin fyrir veðrum og vindi, eins og það virki, sem ekki verður gefið upp, það vígi, sem ekki verður unnið né brotið niður. Hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum á sama grunni.

Sóknarbörnin hafa ætíð látið sér annt um kirkju sína og staðið einbeitt gegn hugmyndum fyrri tíma um að flytja hana á hagkvæmari stað.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Núverandi kirkja var upphaflega reist af nýjum viðum árið 1888. Miklar endurbætur voru gerðar á henni og hún endurvígð 1968 og 1996.

Það hefur verið trú manna að Strandarkirkja verði vel við áheitum og sjái alltaf fyrir sér og viðhaldi sínu.

Engilsvík – Helgisögn varðveitt í Selvogi

Fyrir langa löngu gerði ungur bóndi úr uppsveitum Árnessýslu för sína til Noregs á sínu skipi. Var ferð þessi farin til að sækja valinn við til húsagerðar.

Segir ekki af ferðum bónda fyrr en hann hefur verið lengi í hafi úti á leið sinni til Íslands. lendir hann þá í sjávarháska og hafvillu í dimmviðri og veit ekki lengur hvert skip hans stefnir.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Í örvæntingu sinni heitir hann því þá að gefa allan húsagerðarvið sinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi heilu og höldnu. Að heiti þessu unnu birtist honum sýn í líki ljósengils fram undan stefni skipsins og verður nú ljósengill þessi stefnumið, er hann stýrir eftir. Segir ekki frekar af siglingu þessari fyrr en skipið kennir grunns í sandvík milli sjávarklappa. Hvarf þá engillinn og birta tók af degi. Sáu þá skipsmenn, að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Þar skammt fyrir ofan malarkamb var hin fyrsta Strandarkirkja reist af fórnarviðnum.
Heitir þar síðan Engilsvík, sem skipið bar að landi.

Áheitin

Strandarkirkja

Strandarkirkja – skilti.

Áheitatrúin er trú á góð máttarvöld. Trúin á Strandarkirkju birtir vissuna um, að til sé hulinn verndarkraftur.

Áheit á kirkjur, helga menn og helga dóma voru mjög algeng í kaþólskum sið. Áheit á Strandarkirkju munu löngum ekki hafa verið meira en almennt gerðist. Þorláksskrín í Skálholti og Krossinn helgi í Kaldaðarnesi nuti mikillar áheitahelgi umfram aðra helgidóma á Suðurlandi. Eftir siðaskiptin á sextándu öld má segja að áheitatrúna hafi vantað athvarf, en fundið séð það í Strandarkirkju.

Það eru trúin og bænirnar, sem helga staðinn og guðshúsið. Hvert áheit felur í sér vonarákall, borið fram í trausti til Guðs, sem veit, skilur og bænheyrir.”

Strandarkirkja

Strandarkirkja – skilti.