Mosaskarðshellir

Mosaskarðshellir

Fyrir ofan bæinn Herdísarvík er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás rétt ofan við fjörumörk austan Herdísarvíkur og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 2 km. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum.“

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Þegar FERLIR hafði verið að leita að efra opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Vitað er um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í halla og einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu. Í ljós koma að hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra niður í hann, en best er að taka með stiga eða festa klifurlínu ef áhugi er á að komast upp aftur. Þegar fyrst var farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar sléttur steinn var tekinn og grafið með honum niður í brunann á gólfinu kom í ljós fyllt gjallhola syðst í henni. Eftir að gjallhaugnum var síðan mokað frá með hraunhellunni kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var niður, inn og upp aftur. Í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, glerjaðir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Rásin, rúmlega mannhæðar há, lá í vinstri boga niður á við uns hún endaði þar sem loft og gólf runnu saman í eitt. Þarna virtist enginn maður áður virtist hafa stigið niður fæti. Þetta var því um að ræða eiginlega „landnámsferð“. Hins vegar hafði lítill fugl einhvern veginn og einhvern tímann náð að komast þangað inn, en ekki út aftur. Morkin beinagrindin litla sagði sína sögu – sem og sögu svo margra annarra dýra, sem endað hafa líf sitt í dimmum skjólum, sbr. hreindýrskálfinn í Kúluhattshelli, kindina í Leiðarenda og refinn í Rebba. Þegar „landnámsmaðurinn“ leit litlu beinagrindina þarna augum í myrkri hraunrásinni varð honum að orði:

Hraun rann og fugl fann,
langa flóttaleið í myrkri.
Leiðina leyndu seinna rann,
maðurinn, sem fann hann.

Hafa ber í huga að þetta var ort í myrkri.

Mosaskardshellir

Í Mosaskarðshelli (BH).