Grænhólsskúti – Sjónarhólshellir – Loftsskúti – Grændalahellir
Í lýsingunum um skútana segir m.a.:
„Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól, stundum nefndur Stóri-Grænhóll“.
Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði er hóll á mörkunum nefndur Sjónarhóll. „Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður.“
Þá segir um Grendalahelli og Loftsskúta: „Upp af Krapphólum ofan vegar koma svo Draugadalir, norðaustur af Virkishólum. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum. Milli Smalaskála og Brennhóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi.“
„Virkishólar eru þrír. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann.
Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.“
Gengið var frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhól á mörkum Óttarsstaða og Lónakots. Þar suðaustan undir hólnum er fyrrnefnt fjárskjól; Sjónarhólshellir. Miklar hleðslur eru fyrir skútanum, sem í suðurendanum á stóru grónu jarðfalli.
Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h. (Sjá um fund á skjólinu undir Lýsingar). Þá ber að hafa í huga að Lónakot kemur inn í markasetningu síðar en Óttarsstaðir. Talið er að Lónakot hafi fyrrum verið þar sem Svínakot var, undir Réttarklettum. Þar ofan við er enn eitt fjárskjólið.
Haldið var upp fyrir (suður fyrir) Reykjanesbraut og stefnan tekin á Virkishóla. Ofan við þá var leitað að Loftsskúta þeim er getið er í örnefnalýsingunum. Skv. lýsingum átti skútinn að vera ofan við hólana, milli Smalaskála og Brennhóla. Þarna eru nokkrir skútar og skjól, en ekki var að sjá miklar eða greinilegar hleðslur fyrir þeim. Brennhólar eru suðsuðaustan við Virkishóla, en Smalaskáli sunnan við þá. Utan í Smalaskála er hins vegar fjárskjól, sem ekki er getið um í örnefnalýsingum.
Svæðið ofan við Virkishóla og á milli Smalaskála og Brennhóla er tiltölulega lítið og afmarkað og því væri vænlegt að gaumgæfa svæðið betur. Ekki er ólíklegt að Loftsskúti kunni að leynast þar ofan við Virkið, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Þrír staðir ofan við Virkið eru sérstaklega áhugaverðir. Sá, sem er næst fyrir ofan, er með gróið svæði umhverfis gróið gat. Þegar lyngið og grasið er dregið frá sést niður í stóran skúta. Annað op er skammt austar, en fyrir það hefur gróið birkihrísla. Með aðstoð skóflu væri hægt að skoða þetta betur.
Annar staður er skammt sunnar. Þar er gömul varða ofan við skúta. Ekki virðist langt síðan grjót úr loftinu hefur fallið niður og lokað opinu að mestu.
Þriðji staðurinn er skammt austar. Þar er gróið jarðfall og skúti inn undir berginu. Staðurinn hefur greinilega verið nýtt sem skjól fyrir fé.
Grændala- eða Grendalahellir var skoðaður ofarlega í Gren-/Grændölum). Ofan við hann er Grændalavarða.
Við leit í hrauninu neðan við Brennhóla fundust nokkur skjól og sum með mannvistaleifum í. Eitt þeirra hafði t.a.m. verið flórað og gott rými þar inni.
Þegar gengið er upp í Brennhóla frá Grænhól er gengið yfir a.m.k. þrjár greinilegar gamlar götur. Sú fyrsta liggur skammt norðan og samhliða Reykjanesbrautinni. Önnur liggur skammt sunnan brautarinnar og sú þriðja enn ofar. Hún kemur í austanverða Virkishóla og liggur ofan við þá. Sennilega eru tvær hinar síðarnefndu hlutar að gömlu Alfaraleiðinni áleiðis á Útnes; sá nyrðri angi af henni áleiðis niður að Hvassahrauni.
Í næstu ferð um svæðið þarf að muna eftir a.m.k; skóflu, sög, kúbeini eða járnkarli og hellaljósi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.