Viðey
Talið er að byggð hafi verið hafin í Viðey þegar á 10. öld en lítið er vitað um sögu eyjarinnar fram til 1225 þegar Viðeyjarklaustur var stofnað. Varð klaustrið eitt það ríkasta á landinu og átti fjölda jarða og þar af megnið af núverandi borgarlandi. Í átökum siðaskiptanna var klaustrið rænt af mönnum hirðstjóra Danakonungs vorið 1539 og markaði það endalok þess.
Viðey – kort.
Næstu tvö hundruð ár var Viðey hjáleiga frá Bessastöðum og þar rekið þurfamannahæli. Um miðja 18. öld fékk Skúli Magnússon landfógeti eyna til ábúðar. Fékk hann Danakonung til að reisa Viðeyjarstofu sem embættisbústað landfógeta og lauk smíði hennar 1755. Er Viðeyjarstofa fyrsta steinhúsið á Íslandi og eitt elsta hús sem varðveist hefur á landinu.
Skúli lét einnig reisa kirkju við hlið Viðeyjarstofu og var hún tilbúin 1774. Viðeyjarkirkja er næstelsta kirkja landsins. Skúli bjó í eynni til dauðadags 1794.
Árið 1793 flutti fyrsti íslenski stiftamtmaðurinn Ólafur Stephensen til Viðeyjar. Bjó hann í Viðeyjarstofu til dauðadags árið 1812. Þá tók sonur hans, Magnús Stephensen dómstjóri, við búsetu í eynni en árið 1817 keypti hann Viðey af Danakonungi. Magnús flutti prentsmiðju til Viðeyjar sem var starfrækt hér frá 1819-1844. Magnús Stephensen andaðist árið 1833 en eyjan var í eigu afkomenda hans út 19. öld.
Eggert Eiríksson Briem (1879–1939).
Árið 1901 hófu Eggert Briem og kona hans Katrín Pétursdóttir stórbúskap í Viðey. Reistu þau stórt og fullkomið fjós og seldu árlega um 200 þúsund lítra af mjólk til Reykjavíkur.
Árið 1907 var útgerðarfyrirtækið P.J. Thorsteinsson & Co. stofnað. Var það alltaf kallað Milljónafélagið. Miðstöð þess var á austurenda Viðeyjar og á skömmum tíma myndaðist þar reisulegt þorp með fjölda íbúðar- og fiskverkunarhúsa og bestu bryggjunni við Faxaflóa.
Milljónafélagið varð gjaldþrota árið 1914 en áfram hélt fiskverkun á Sundbakka. Árið 1924 gerði Kárafélagið eyjuna að útgerðarstöð sinni. Þá fjölgaði þorpsbúum og urðu þeir flestir 138 árið 1930. Ári síðar lagið félagið upp laupana og þá tók að fækka í þorpinu. Árið 1943 stóð það autt og yfirgefið.
Búskapur hélt áfram í Viðey fram á sjötta áratuginn en þá lagðist búseta af í eynni og voru stofan og kirkjan illa farin þegar Þjóðminjasafnið tók húsin að sér árið 1968. Íslenska ríkið gaf Reykjavíkurborg húsin árið 1986 og lauk endurbótum á þeim árið 1988.