Öskjuholtsskúti – Smalaskálaskúti – Loftsskúti – Gránuskúti – Kápuhellir
Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.
Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.
Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.
Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.