Möðruvallarétt

Möðruvallarétt

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um „Möðruvallarétt„. Þar segir:

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – uppdráttur.

„Innan við þetta er gil, sem heitir Ytra-Réttargil. Sultarmói er næst, nú túnblettur upp af Eyrunum, sérskilið er ofan við götuna heiman, en neðar er tún á Eyrunum niður að á. Næst er Heimra-Réttargil eða Réttargil. Milli þessara gilja er stuttur kambur. Upp af Eyrunum neðan við Réttargilið er Hæðarskarð, þar sem vegurinn liggur í gegnum. Upp af skarðinu undir rótum er Réttarhóll, og heiman við hólinn er Réttin, gömul fjárrétt. Innar, rétt utan bæjar, er gil á ská upp,“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 340 m norðvestan við bæ. Ekki er vitað hvenær réttin var síðast í notkun.
Réttin er í lægð milli tveggja ílangra hæða þar sem landinu hallar til norðausturs. Réttin er innan um og neðan við fjölda stórra bjarga sem hrunið hafa úr fjallinu. Framan við réttina til norðausturs er grösugt dalverpi. Búið er að planta trjám um allt svæðið sem réttin stendur á en þau eru enn mjög smá.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt 2024- loftmynd.

„Möðruvallarétt er milli Ytra- og Heimra-Réttargils,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Réttin skiptist í a.m.k. 14 hólf og svo eru tvær aðskildar tóftir neðan við réttina til norðurs og norðausturs. Svæðið allt er um 40×30 m og snýr NA-SV. Í miðri réttinni er stærsta hólfið sem hefur verið almenningur, það er um 18×7 m að stærð og snýr NA-SV. Það hólf er þar sem lægst er í dældinni og sléttast. Ekki sést greinilega hvar rekið hefur verið inn í almenninginn en það hefur að öllum líkindum verið við norðausturhlið hans þar sem engir dilkar eru. Ofan við þetta hólf og báðum megin við það eru minni hólf, dilkar.

Möðruvallarétt

Dilkur í Möðruvallarétt.

Dilkarnir sem eru norðvestan við almenninginn eru nokkuð svipaðir að stærð og eru allgreinilegir. Dilkarnir sem eru sunnan og austan við almenninginn eru óljósari og erfiðara að sjá dilkaskiptinguna. Ef til vill er sá hluti réttarinnar eldri eða hefur síður verið haldið við. Réttin er grjóthlaðin milli stórra bjarga og eru stórgrýtt brekka og steinar í hleðslum víða mjög stórir. Hleðslur eru mjög signar og víða grónar. Öll hólfin halla inn að almenningnum. Tóftin sem er 2 m norðan við réttina er tvískipt, um 8×5 m og eru hleðslur signar. Tóftin snýr NA-SV, ekki sést op milli hólfa. Hólfið í suðvesturendanum er mjög óljóst, þar sjást nokkrir steinar í röð en ekkert grjót sést í hleðslum hólfsins í norðausturendanum. Tóftin sem er um 8 m norðaustan við réttina er einföld, um 7×5 m, snýr NV-SA, opin til suðvesturs. Tóftin er vel gróin en grjót sést í hleðslum sem eru signar.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.

Nokkur stór björg eru í veggjum tóftar. Ekki er víst hvaða hlutverki þessar lausu tóftir hafa gegnt. Ólíklegt er að tóftin sem er fjær réttinni hafi verið hús vegna þess hve stór björg eru í veggjum hennar. Líklegra er að tóftin sem er nær réttinni hafi verið hús, a.m.k. norðausturhólfið þar sem veggir eru rúmur 1 m á þykkt. Mesta hleðsluhæð í rétt og tóftum er um 0,4 m.
Hættumat: hætta, vegna trjáræktar.“

Þegar FERLIRsfélagar skoðuðu réttarstæðið 2025 mátti greina innan um þétta skógræktina einstaka hluta réttarinnar, sem virðist hafa verið lítilfjörleg innan um stokka og steina.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008.
-Örnefnalýsing Möðruvalla, Ari Gíslason.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.