Knarrarnesborg (-stekkur) – Ásláksstaðastekkur II
FERLIRsfélagar ákváðu á blíðviðrismorgni júnímánaðar að skoða ofanvert svæðið ofan Knarrarness og Ásláksstaða millum Gamlavegar og Reykjanesbrautar með það að markmiði að skoða m.a. Ásláksstaðastekk frá Ásláksstöðum Innri og hina meintu Knarrarstaðafjárborg upp við Geldingahóla, austan Lynghóls.
Knarrarnesfjárborg
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselju Guðmundsdóttur segir: „Ofan sléttlendisins sem er austur af Lynghól liggur stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparholti og er hann u.þ.b. 8m í þvermál og innan í hinum sléttur bali. Vegghæðin er mjög lág og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborg en verið hætt við verkið af einhverjum ástæðum. Einnig gæti svo sem verið að unglingar hefðu gert sér það til dundurs að mynda hringinn“.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um borgina: „Tvær tóftir fundust á þessum stað, um 2.4 km suðastan við Ásláksstaði. Tóft meints fjárskýlis er uppi á nokkuð flötum hraunhól í heiðinni suður af ströndinni. Dálítil grashvilft er NNA við hana sem þó er að blása upp að hluta og er hin tóftin í hvilftinni.
Minjarnar eru á svæði sem er um 24x24m að stærð. Hringlaga tóftin er, sem fyrr segir, um 9 m í þvermál. Veggir hennar eru grjóthlaðnir en signir og grónir, um 0.5m á hæð þar sem þeir eru hæstir. Ekki sést fjöldi hringfara. Mesta breidd veggja er um 1.0m. Op er á tóftinni til norðurs.
Hin tóftin er af meintu fjárskýli, 10x6m að stærð og snýr austur-vestur. Hvergi sést grjót í hleðslum. Tóftin er mjög grasi vaxin og sker grasvöxtur á henni sker sig úr öðrum gróðri í nágrenninu. Tóftin er öll hlaupin í þúfur. Ekki er augljóst hvaða hlutverki hún hefur gegnt en mögulega hefur þarna verið stekkur.“
Þegar staðið er í „borginni“ og horft umhverfis, með Lynghól til vesturs þar sem nánast jarðlæg lágreist Lynghólsfjárborgin hvílir og Breiðagerðiskrossgarðinn í austri er ekki ólíklegt að Knarrarnesbændur hafi ekki viljað vera minni menn en nágrannar þeirra og ákveðið að gefa þau skilaboð um að þeir ætluðu að byggja fjárborg á þessu víðsýna holti – á þeirra landi.
U.þ.b. klukkustundargangur er á vettvang frá bæ. Norðan holtsins er falleg startjörn og sunnan þess ferhyrnt flag í gróningum. Vestan svæðisins má sjá grasi grónar lendur, sem bendir til góðrar staðbundinnar fjárnýtingar í heiðinni.
Líklegt má telja að verkamennirnir hafi þar skorið torf í bygginguna, sem augljóslega er byggð úr torfi og grjóti, en af hinu síðarnefnda er gnótt í nágrenninu. Borgarstæðið horfir vel við landamerkjum, sem gæti reyndar hafa verið tilefni staðsetningarinnar. Eins og vitað er voru bændur jafnan uppteknir fyrrum að því að verja landamerki sín fyrir ágengi nágrannanna. Tíð eignarskipti á jörðum voru ekki síst ástæðan. Þess vegna má í dag sjá fjölmargar minjar út frá einstökum bæjum nálægt landamerkjum, s.s. selstöður, stekki, útihús, beitarhús o.s.frv. Viðkomandi staðsetningar minjanna voru öðrum þræði ætlaðar til að undirstrika eignarhald viðkomandi jarðar á landssvæðinu.
Kannski að „borgin“ hafi einfaldlega verið hlaðin sem málamyndarkennileiti í skammvinnum deilum til að undirstrika eignarhaldið, þ.e. grunnur að einhverju sem gæti orðið ef… Stríð hafa jú brotist út af minna tilefni. Hvað svo sem því líður er staðurinn vel valinn og eflaust af einhverri ástæðu, t.d. startjörninni, sem hefur þótt verðmæt út af fyrir sig í annars vatnslítilli heiðinni er líða tók á sumarið. Mannvirkið sem slíkt virðist ekki hafa þjónað nokkrum öðrum tilgangi. Knarrarnesbændur hafa a.m.k. ekki haft neina burði til að skáka staðarklerki á Kálfatjörn, enda aldrei komist upp með slíkt ef saga Staðarborgarinnar er skoðuð.
Eðlilegasta skýringin er þó sú það þarna hafi bóndi ætlað að vista geldinga sína tímabundið sbr. örnafnið á holtinu.
Ásláksstaðastekkur II
Stekkur á gróinni klapparhæð ofan Ásláksstaða Innri er hér nefndur „Ásláksstaðastekkur II“ til aðgreiningar frá „Ásláksstaðasekk“ í Kúadal frá Ásláksstöðum Ytri.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um stekkinn: „Tvískipt tóft um 1.2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan og suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er tilnorðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8.5c6m að stærð. Mesta hæð veggja er um 0.5m og sjást 2 umför í hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar.
Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks“.
Þrátt fyrir framangreinda fullyrðingu að stekkurinn sá hafi verið beitarhús verður með fullri virðingu að telja að þarna hafi aldrei verið annað skepnuhald en til tímabundins aðhalds. Stekkur er meira lagi.
Lýsing á tóftum stekksins er ágæt en gleymst hefur að tilefna tættur tveggja óskilgreindra húsa vestan þeirra. Þarna er um að ræða stekk frá Ásláksstöðum Innri.
Víða í heiðinni mátti líta augum skjól og byrgi refaskyttna frá fyrri tíð.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 46.

















