Lágafell – brunnhús
Ofan við bæjarhúsin að Lágafelli í Mosfellsbæ voru byggð tvö steinsteypt brunnhús. Hið efra í hlíð fellsins er öllu stærra, enda byggt fyrir hernámsliðið, en hið neðra fyrir bæjarfólkið.
Andrés Erlingsson upplýsti á vefsíðu Mosfellinga að skv. heimildum Brynhildar Thors þá var efra húsið reist sama ár og húsið Lágafell var byggt, 1936, af Thor Jensen. Þetta var kaldavatnsforðabúr fyrir íbúðarhúsið. Húsið var í upphafi kolakynnt og því þurfti kalt vatn til að hita. Sennilega var þetta eina húsið í Mosfellshreppi sem hafði rennandi kalt vatn á þessum tíma. Almennt fengu Mosfellssveitarmenn kalt vatn til neyslu frá Reykjavík uppúr 1970. Undir þessum brunni er lítil uppspretta en mest af vatninu var rigningarvatn sem rann úr hlíðunum. Í miklum rigningum fylltist brunnurinn og þá lak út um yfirfallsrörin.
Notkun á þessari vatnsveitu lauk 1980. Nú er þessi brunnur orðinn fullur af jarðvegi og ástæða er til að vara fólk við að vera ekki ofan á þakinu sem er orðið illa farið og getur gefið sig.
Neðra húsið er nýrra og var byggt yfir brunnvatn, sem notað var til neyslu langt framan af.
Egill Helgason segist „alltaf hafa heyrt að þetta hafi verið vatnsgeymir. Hafi safnast í hann vatn úr hlíðinni. Var tengt braggahverfi, sem var þarna neðar á sínum tíma“.
Í Mosfellingi 2010 segir í dálknum „Í þá gömlu daga„:
„Lágafell Camp var þar sem nú er Hlíðartúnshverfið. Þar voru gripahús og hlöður miklar sem tilheyrðu búskap Thor Jensen á Lágafelli. Hlöðurnar tók herinn til sinna nota. Nokkur munur var á byggingalagi bragganna sem hernámsliðið reisti. Bretar nefndu sína skála Nissenbragga en þeir voru tunnulaga þ.e. hliðar hvelfdust inn við grunninn. Bandarísku skálarnir gengu almennt undir nafninu Quonset og ein algeng gerð þeirra var með lágum beinum veggjum og gluggum á hliðum. Þá hlóðu þeir gjarna torfi og grjóti með hliðum bragganna til að styrkja þá og koma í veg fyrir dragsúg.
Meðfylgjandi mynd sýnir skemmdir í braggahverfinu eftir óveður. Í brekkunni blasa við útihús og starfsmannahúsið á Lágafelli. Lágafellshúsið var fyrir nokkrum árum flutt í Hlíðartúnshverfið, Lágumýri 6, og er þar enn.“ – BDS
Í frétt ruv.is þann 11. apríl 2021 er fjallað um neðra brunnhúsið og óhapp, sem þar varð undir fyrirsögninni „Segir einhvern hafa opnað inn í brunninn“:
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bjargaði í gærkvöld konu upp úr vatnsbrunni við Lágafell í Mosfellsbæ. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ segir greinilegt að einhver hafi opnað brunninn. Hann hafi ekki staðið opinn.
Að sögn varðstjóra Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu vildi óhappið þannig til að konan hélt að hún væri að stíga á brunnlok, en það reyndist klaki sem brotnaði undan henni og féll hún þar með ofan í ískalt vatnið.
Hún hafði verið í brunninum í um tíu mínútur þegar slökkviliðið kom á vettvang. Hún var orðin köld og henni verulega brugðið eftir óhappið. Konan var ekki ein á ferð en samferðafólk hennar náði henni ekki upp úr brunninum. Fólkið var á göngu við brunninn sem stendur við bílastæðið við Lágafellskirkju í Mosfellsbæ.
Skúrinn var notaður sem miðlunarlón í vatnsveitu áður fyrr og er vatnið á annan meter á dýpt inni í kofanum.
Brunnurinn er við gamalt aflagt vatnsból sem tilheyrði áður bújörðinni á Lágafelli að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra í Mosfellsbæ. Vatnsbólið sé á einkajörð en starfsmenn bæjarins hafi verið kallaðir til í kjölfar slyssins til að loka svæðið af. Hann segir að brunnhúsið hafi verið lokað en einhver hafi opnað það. Haft verði samband við eigendur þess í kjölfarið.
Bjarni Ásgeirsson deildarstjóri þjónustustöðvar Mosfellsbæjar var kallaður til í kjölfar slyssins í gær. Hann segir að til þess að komast að vatninu þurfi að klifra yfir vegg innan við dyrnar.
„Það virðist einhver hafa farið inn í þetta brunnhús. Við fengum tilkynningu um átta leitið frá lögreglunni um að það hefði orðið hérna einhverskonar slys. Við mættum bara strax á staðinn, þá voru nú allir farnir af vettvangi svo að við bara lokuðum því,“ segir Bjarni.
Hefur þetta hús staðið lengi opið?
„Nú vitum við það ekki. Húsið er á einkalandi og einkaeign þannig að þetta er ekkert sem við kemur Mosfellsbæ, en við þekkjum það ekki hvort að þetta hafi staðið opið lengi,“ segir Bjarni.
Hann segir að framtíð hússins sé óráðin. Það sé í höndum þeirra sem það eiga að ráða örlög þess.
„En einhverjar ráðstafanir þarf að gera,“ segir Bjarni.
Í „Fornleifaskráningu fyrir Mosfellsbæ“ á vegum Þjóðminjasafnsins árið 2006 er ekkert minnst á þessar minjar í landi Lágafells, enda teljast þær ekki til fornleifa.
Í fornleifaskráningu Antikva um „Fornleifaskráning – Lágafell“ frá árinu 2022 segir um neðra húsið:
Útihús – hús
„Svolítið steinsteypt útihús með bárujárnsþaki er fast norðan við bílaplanið við kirkjuna.
Dyrnar snúa í norðvestur. Byggingin er ekki sýnd á túnakortinu 1916 og er líklega byggð síðar. Þótt húsið sé varla hundrað ára gamalt fer vel á því í minjalandslaginu kringum Lágafell
og hefur það nokkurt gildi sem slíkt“.
Um efra húsið segir: Útihús – heimild
„Undir fellinu í norðausturhorni túnsins sýnir túnakort stakt hús. Miðað við teikninguna er það byggt úr grjóti og torfi, ef til vill standþil sem snýr í suður, og minna hólf er við austurendann. Þetta útihús virðist vera horfið en steinsteypt hús stendur nú á þessum slóðum.
Lítið steypt steinhús með gluggum er undir Lágafelli, norðaustast í túninu. Norðurhliðin er grafin inn í hlíðina sem myndar að nokkru leyti vegginn þeim megin. Vestur- og austurhliðar eru einnig niðurgrafnar að hluta og lægra hólf gengur út úr austurveggnum. Þetta mannvirki er á svipuðum slóðum og hús sem sýnt er á túnakorti árið 1916 en er þó líklega yngra. Rör standa út úr suðurveggnum og byggingin er full af vatni. Ekki er víst að þetta sé hundrað ára gamalt hús en það er þó hluti af minjarlandslagi Lágafells og hefur nokkurt minjagildi.
Hugsanlega er þetta vatnsgeymar frá hernum“.
Í Sveitarstjórnarmálum 2012 er grein með fyrirsögninni „Mosfellsbær 25 ára„. Þar segir m.a.:
Lágafell: „Á Lágafelli stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen síðustu æviár sín“.
Stríðsárin í Mosfellssveit: „Reykjalundur er byggður úr landi Suður-Reykja. Á styrjaldarárunum reis mikil braggabyggð á þessu landssvæði og voru braggarnir nýttir að hluta fyrir Vinnuheimilið að Reykjalundi sem tók þar til starfa árið 1945. Nú er þar rekið heilsuhæli og endurhæfingarstöð, en auk þess er þar plastiðnaður“.
Fjölmenn hermannabyggð: „Þegar Ísland var hernumið af Bretum árið 1940 myndaðist fjölmenn hermannabyggð í Mosfellssveit, eins og hún hét þá. Nú eru heillegar stríðsminjar Iftt áberandi í bæjarfélaginu en þó má t.d. benda á steinsteypta vatnsgeyma á svonefndum Ásum undir Helgafelli“.
Ekkert er minnst á að brunnhúsin hafi verið notuð af hernámsliðinu, en þó verður að telja trúlegt að efra húsið hafi að hluta til verið nýtt í þess þágu eftir að það lagði undir sig atvinnuhús Thors þar neðra í Hlíðartúni á stríðsárunum. Neðra brunnhúsið mun líklega hafa verið nýtt fyrir íbúðarhúsið, Lágafellshúsið (þinghúsið) og útihúsin.
Sjá meira um Lágafell HÉR.
Heimildir:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-04-11-segir-einhvern-hafa-opnad-inn-i-brunninn
-RÚV.is 11. apríl 2021 kl. 15:14.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Skýrslur jóðminjasafnasins 2006.
-Antikva, Fornleifaskráning, Lágafell, 2022.
-Mosfellingur, 8. tbl. 28.05.2010, Í þá gömlu daga, bls. 2.
-Sveitarstjórnarmál, 4. tbl. 01.05.2012, Mosfellsbær 25 ára, bls. 10-11.
-Aron Styrmir Sigurðsson 7. febr. 2021.
-Egill Helgason.





















