Mosfell er kirkjustaður og prestssetur í Mosfellsdal undir samnefndu fjalli. Um árið 1000 bjó söguhetjan Egill Skalla-Grímsson á Mosfelli í elli sinni og var jarðsettur í dalnum. Egilsdys við Leirvogsá mun hafa varðveitt bein hans uns þau voru færð undir kirkjugólfið í nýrri kirkju á Hrísbrú (Mosfelli), sem nú er reyndar orðin að hinni fornu kirkju. Skömmu fyrir andlát sitt faldi Egill silfursjóð í grennd við bæinn, en hann hefur aldrei fundist. Fyrst var reist kirkja að Mosfelli á 12. öld, en núverandi kirkja var vígð árið 1965, teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt.
Gengið var upp með austanverðu Kýrgili austan við Brekkukot. Líkt og um svo mörg önnur lítil gil hefur ekkert verið skrifað, þrátt fyrir lángan aldur. Um gilið rennur ljúfur lækur. Venjulega enda lækir í öðrum stærri, ám, vötnum eða í sjó, en þessi litli lækur er án endimarka, umkomulaus á miðri leið. Þarna hverfur neðri endi hans niður í mölina – a.m.k. um skammar stundarsakir. Líklega er hann með því að gæta þess að tjaldsegginn skammt neðar í malarfarveiginum geti náð að klekjast út. Að því loknu mun lækurinn án efa halda för sinni áfram skv. venju og öllum viðurkenndum lögmálum. (Hér er aðeins fært í “Laxnesstílinn”, svona í tilefni staðar og stundar, en fæðingarstaður skáldsins er einungis í sjónhendingu frá gilinu).
Svo virðist sem þessi tóft gæti hafa verið tvískipt. Syðra rýmið er vel greinilegt. Það er þó frekar lítið.
Efri, nyrðri, tóftin er greinilegri, enda ósöskuð. Hún hefur einnig haft að geyma lítið rými. Vel gróið er framan við hana og þó sérstaklega handan gilsins. Þar er þýfður túnskiki, nokkuð stór, sem nú hefur furugræðlingum verið plantað í. Líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið góð beit.
Af nafninu á gilinu að dæma virðist þarna hafa getað verið beitaraðstaða fyrir kýr bóndans á Mosfelli eða Minna-Mosfelli. Annað hvort hafa kýr hans verið reknar þangað að morgni að loknum mjöltum og síðan til baka síðdegis, eða þær hafi verið hafðar þarna í seli um sumarið og afurðirnar færðar til bæjar. A.m.k. hefur nægt vatn verið þarna fyrir kýrnar sumarlangt.
Leifar af hinni fyrrnefndu kirkju að Mosfelli komu nýlega í ljós við fornleifauppgröft. Mikið var fjallað um hann á sínum tíma, en Guðmundur Magnússon hafði ákveðna skoðun á þeirri opinberun. M.a. lýsti hann henni með eftirfarandi orðum: “Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé “einstaklega vel varðveitt”.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.
„Þetta er gersemi sem að maður hefði aldrei ímyndað sér að hefði varðveist svo vel“, sagði Jesse Byock fornleifafræðingur sem stýrt hefur rannsóknunum á Hrísbrú undanfarin ár.”
Á bls. 12 í blaðinu er síðan ýtarlegt viðtal við Jesse um fornleifauppgröftinn á Hrísbrú undanfarin sumur.
Eftir standa vangaveltur um tóftirnar við Kýrgil, sem gætu jafnvel reynst eldri en þær fornleifar, sem hér hefur verið sagt frá. Þær hafa þó þann annmarka að tengjast ekki sögufrægri persónu eða stað, sem áður hefur verið skrifað um og lesa má um í fornbókmenntum vorum. Þær eru þó allavega og áreiðanlega hluti af menningarafleifð svæðisins og sem slíkar eining búsetulegrar heildar þess. Og hvort sýnilegar bókmenntaafurðir mannanna séu sýnu merkilegri en önnur verk þeirra verður hver og einn að dæma um fyrir sig.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-http://66.249.93.104/search
-Mosfellingur – 10. tbl. 4. árg. föstudagur 19. ágúst 2005.