Fornilundur – skilti

Reykjavik

Á Ártúnshöfða í Reykjavík er fallegur skógarreitur, „Fornilundur“ við fyrrum Krossamýrarblett 1, í landi Hvamms, nú Breiðhöfða 3.

Reykjavík

Ártúnshöfði – loftmynd 1954.

Krossamýrarblettir voru fimmtán skikar sem var úthlutað til leigu eða erfðafestu á árunum 1936-38. Krossamýrarvegur var lagður þar sem gatan Breiðhöfði liggur nú, frá Mosfellssveitarvegi, Vesturlandsvegi, til norðurs og var blettur nr. 1 vestan við veginn en hinir fjórtán voru austan við hann. Á flestum skikunum voru reist hús og var búskapur á mörgum þeirra. Krossamýrarblettur 1 náði yfir svæði þar sem nú eru lóðirnar Bíldshöfði nr. 4-6 og 7, Breiðhöfði 1 og 3 og hluti af Þórðarhöfða 4 vestan við Breiðhöfða, áður Krossamýrarvegur. Meðal fyrstu íbúa blettanna voru Jón P. Dungal og Elísabet Jónsdóttir á Krossamýrarbletti 1. Þau fengu leyfi til að reisa einlyft timburhús, um 60 m², á skikanum árið 1936, sem nefnt var Hvammur. Þar voru þau með garðrækt, en auk þess var þar refabú.
FornilundurÁ blettinum lögðu þau grunninn að trjálundi þar sem ræktaðar voru sjaldgæfar plöntur, eins og eplatré. Þau hlutu viðurkenningu Fegrunarfélags Reykjavíkur árið 1954 fyrir garðinn. Hluti af trjálundinum er nú hluti „Fornalundar“, lystigarðs B.M.Vallár að Bíldshöfða 7. Íbúðarhúsið Hvammur stóð vestan við Fornalund.
Íbúðarhúsið Hvammur var horfið fyrir 1984, en trjálundurinn er eftir. Engin ummerki eru lengur eftir Krossamýrarblettina en áhrifa þeirra gætir í skipulagi, staðsetningu og legu gatna.

Söguskilti um Fornalund og fyrstu ábúendur

Fornilundur

Fornilundur – Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Í dag, fimmtudaginn 21. nóvember 2024, var afhjúpað upplýsingaskilti um sögu Fornalundar, sýningarsvæðis BM Vallár, og fyrstu ábúenda Hvamms, sem stóð við Breiðhöfða. Við þetta tækifæri komu saman afkomendur hjónanna Jóns Dungals og Elísabetar Jónsdóttur ásamt fulltrúum frá BM Vallá og Hornsteini.

Frumkvöðlar á sviði skógræktar
Á skiltinu má lesa um sögu svæðisins og hvernig fyrstu íbúar svæðisins, hjónin Jón Dungal og Elísabet Jónsdóttir, umbreyttu hrjóstugu landi í einstakan trjálund. Hjónin reistu bæinn Hvamm árið 1936 sem var 4,2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg. Fylgdi samningnum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstruga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það kraftaverki næst.

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Þessi frumkvöðlastarfsemi vakti verðskuldaða athygli, og árið 1954 hlutu þau viðurkenningu frá Fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag til fegrunar borgarinnar.

Lystigarður og einstakt sýningarsvæði
Þegar BM Vallá hóf starfsemi á Breiðhöfða tók fyrirtækið við trjálundinum, sem hlaut nafnið Fornilundur, og hannaði svæðið árið 1991 í anda erlendra lystigarða. Fornilundir gegnir hlutverki sýningarsvæðis fyrir vörur BM Vallár og er þar að finna tjörn, gosbrunna, bekki og blómabeð ásamt fjölbreyttu fuglalífi. Fornilundur hefur allar götur verið opinn almenningi og samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur.

Á skiltinu í Fornalundi má lesa eftirfarandi:
„BM Vallá hóf starfsemi árið 1956 með rekstri steypustöðvar á Ártúnshöfða. Frá 1983 hefur fyrirtækið borið ábyrgð á svæðinu og séð umviðhald garðsins.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Lystigarðurinn, sem hlaut nafnið Fornilundur, hefur gegnt hlutverki sýningarsvæðis ásamt því að vera almenningsgarður. Þangað geta garðeigendur sótt sér innblástur og skoðað vörur fyrirtækisins, t.d. hellur, hleðslusteina og garðbekki.
Fornilundur á sér merka sögu og er tákn um þrautseigju og metnað fyrstu ábúenda svæðsins. hjónanna Jóns Dungal og Elísabetar Jónsdóttur, sem um miðbik síðustu aldar lögðu grunninn að þessum einstaka trjálundi.
Samkvæmt nýju deiliskipulagi Ártúnshöfða mun garðurinn stækka enn frekar og ættu íbúar og gestir að geta notið hans enn betur. Fornilundur hefur umbreyst úr hrjóstugu landi í eina af grænum perlum Reykjavíkur, þar sem náttúra, menning og arfleifð frumbyggja Hvamms og forsvarsmanna BM Vallár fléttast saman í hjarta borgarinnar.

Saga Ártúnshöfða
ReykjavíkSögu Ártúnshöfða má rekja allt aftur til 12. aldar, þegar jarðirnar Ártún og Árbær voru lagðar til Viðeyjarklausturs. Við siðaskiptin árið 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins en þær voru seldar einkaaðilum árið 1838. Átrún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og stuttu síðar, árið 1929, voru jarðairnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Árið 1933 var samþykkt í bæjarráði að úthluta landskikum úr svæðinu, sem nefndir voru Krossamýrarblettir, til loðdýraræktar. Nokkrum árum síðar, frá 1936 til 1938, var löndum þar úthlutað til leigu eða erfðafestu.
ReykjavíkMeðal fyrstu íbúa Króssamýrarsvæðisins voru hjónin Jón Dungal (1899-1972) og Elísabet Ágústa Jónsdóttir (1898-1983). Þau reistu bæinn Hvamm árið 1936 á Krossamýrarbletti 1, sem var 4.2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg.
Fylgdi samningum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau hjónin gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstuga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það krafataverki næst (Saga Ártúnshöfða 2021).
Árið 1954 fengu Jón og Elísabet viðurkenningu frá fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn og framlag þeirra til fegrunar borgarinnar. Fornilundur hlaut einnig viðurkenningu umhverfisverndar Reykjavíkurborgar 1991 fyrir 1. áfanga.

Lystigarður verður til

Reykjavík

Fornilundur 2023.

BM Vallá hefur lagt mikinn metnað og vinnu í að fegra og viðhalda svæðinu síðustu áratugi. Fornilundur var upphaflega hannaður i anda erlendra lystigarða með margs konar dvalarsvæðum, tjörn, gosbrunnum, bekkjum og blómabeðum.
Þegar forsvarsmenn B; Vallár sóttust eftir leyfi til að byggja á lóðinni árið 1983, óskaði Borgarskipulag eftir umsögn garðyrkjustjóra borgarinnar, hafliða Jónssonar, um trjágróðurinn á svæðinu. Hafliði lýsti trjáreitnum sem einstökum og lagði til að hann yrði friðlýstur vegna sérstæðra aðstæðna og árangurs í skógrækt við erfið skilyrði. Hann nefndi sérstaklega elstu grenitrén, semvoru gróðursett þar á árunum 1951-52.

Reykjavík

Í Fornalundi.

Eftir umsögnina var ákveðið að varðveita greniskóginn sem varð til þess að grunnurinn að lystigarðinum Fornalundi var lagður. Reykjavíkurborg gerði það að slilyrði við sölu landsins að almenningur hefði aðgang að svæðinu og það var opnað í áföngum frá og með árinu 1991. Inni í miðjum lundinum er lystihús þar sem landslagsarkitekt fyrirtækisins veitir ráðgjöf til þeirra sem skipuleggja lóðaframkvæmdir. Mikið fuglalíf prýðir garðinn og gefur honum mikinn sjarma og skapar tengingu við náttúruna.“

Reykjavík

Fornilundur – skilti.

Söguskiltið var gert að frumkvæði afkomenda Jóns og Elísabetar. Hönnun þess var unnin af starfsfólki Hornsteins og BM Vallár sem lögðu metnað sinn í að heiðra þessa merku sögu í samráði við afkomendur.

Heimildir:
-https://www.bmvalla.is/frettir/soguskilti-um-fornalund-og-fyrstu-abuendur
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.

Reykjavík

Í Fornalundi.