Hellisgerði – Kaldársel 100 ára; skilti
Í skrautgarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði eru sex aðskilin skilti með yfirskriftinni „Kaldársel í 100 ár„.
Fyrsta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1925-1945:
„Í Kaldárseli reis fyrsti sumarbúðakálinn sem KFUMfélögin hér á landi eignuðust. Félögin byggðu húsið árið 1925 til sumardvalar fyrir börn og var það vígt 25. júní sama ár.
Jólel Friðrik Ingvarsson var mikill frumkvöðull í KFUK í Hafnarfirði og gegndi lykilhlutverki við stofnun sumarbúðanna í Kaldárseli. Hann fór með sér Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK í Reykjavík, í Kaldársel og í þeirri ferð fæddist sú hugmynd að þar væri gott fyrir KFUM að eiga bústað.
Náttúrfegurðin í Kaldárseli heillaði alla sem þangað komu. Nokkurra ára aðdragandi var að stofnun sumarbúðanna, þar sem félagar í KFUM báðu fyrir hugmyndinni og söfnuðu í skálasjóð.
Í Vísi árið 1929 lýsti Sigurbjörn Á Gíslason dagsferð í Kaldársel, meðal anars húsakynnum KFUM: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt [herbergi], þar eru 24 rúm. þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði“.
Annað skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1946-1965:
„Börnin sem dvalið hafa í Kaldárseli í gegnum tíðina eiga þaðan fallegar minningar um fjölbreytt starf og skemmtilegan leik.
Gyða Gunnarsdóttir skrifaði eftirfarandi orð um sína fyrstu sumarbúðaferð í Kaldársel árið 1958 sem hófst á ferðalaginu þangað; „Það kom rúta á Hverfisgötuna í Hafnarfirði og stoppaði fyrir framan KFUM og K húsið. Við stelpurnar vorum að fara í Kaldársel, ég í fyrsta sinn í fjórar vikur og var aðeins sex ára. Árið 1958. Ég var spennt. Jafngaman að fara í rútu og það var að fara í strætó en núna var að hefjast ævintýri.
Leiðin lá út Hverfisgötuna og upp Öldugötuna og upp fyrir bæinn. Þegar rútan lagði af stað vinkaði mamma, ég vinkaði á móti og fann strax fryir heimþrá sem svo gleymdist fljótt vegna alls þess sem beið mín og gerðist. Leiðin lá um hraunið fyrir ofan bæinn, framhjá Sléttuhlíð og svo niður brekkuna með klettum á báðar hliðar næstum eins og Alammangjá á Þingvöllum. Svo blasti litla hvíta húsið við, húsið við Kaldána við Kaldársel, þar sem við allar í rútunni ætluðum að dvelja næstu fjórar vikurnar….“
Þriðja skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1966-1985:
„Í viðtali við Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur matráðskonu í Kaldárseli við tímaritið Bjarma árið 1985 rifjaði hún upp gamla tíma í Selinu eins og flestir kölluðu Kaldársel í daglegu tali: „Eldað var á kolavél sem var um leið eina upphitunin í skálanum. […] Í þá daga voru börnin heilan mánuð í einu í Selinu og þegar þau áttu að fara í bað, eins og nauðsynlegt var, þurfti að hita allt vatn á kolavélinni. Oft bogaði af manni sveitinn við það starfs og eitt sinn var mér orðið svo heitt að ég skutlaði mér út í Kaldá á eftir.
Það gefur einnig hugmynd um starfið þá, að eitt af kvöldverkum ráðskonunnar var að hreinsa útikamrana og grafa í jörð það sem í föturnar hafði safnast um daginn. Nú eru aðstæður allar aðrar og munar þar kannski mest um breytinguna sem varð þegar byggt var við skálann og hann endurbættur [árið] 1967. Nú höfum við heitt vatn frá olíuhitun og gasvél er tekinvið af gömlu kolavélinni. Enn höfum við þó ekki fengið rafmagn“.
Fjórða skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1986-2005:
„Í Kaldárseli fá börnin að heyra um Jesú og ýmsar sögur úr Biblíunni. Auk þess læra þau mörg vers og kristilega söngva. Þeir Guðmundur Vignir og Friðfinnur Freyr höfðu þetta að segja í Barnablaðinu árið 1989 þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir höfðu helst lært af verunni í Kaldárseli: „Fyrst og fremst höfum við lært um Guð. Það er allatf verið að tala um Guð hérna. Okkur eru sagðar kristilegar sögur og venjulegar sögur sem við eigum að læra eitthvað af. T.d. höfum við lært að fyrirgefa og hvað það er nauðsynlegt að vera vinir, sagði Guðmundur.
Það slettist þó stundum upp á vinskapinn, sagði Friðfinnur, en við leysum alltaf úr öllum hlutum og allir verða vinir aftur.“
Þrisvar sinnum var farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaðurinn bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júní 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum fyrir rafmagni og hita en fyrir það hafði ekki verið rafmagn í Kaldárseli. Um 250 börn dvöldust í sumarbúðunum það árið og voru þau 38 í einu þegar flokkurinn var fullskipaður“.
Fimmta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 2006-2025:
„Í 100 ára hafa börn komið í Kaldársel, þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda. Umhverfi Kaldársels spilar stórt hlutverk í dagskrá sumarbúðanna og leikjanámskeiðanna. Þar er fjöldi hella og ævintýralegra staða sem gaman er að skoða. Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir börnin allan daginn. Útileikir, sullað í ánni, búleikir og virki í hrauninu, hellaferðir, fjallganga, samverustundir, fræðsla, föndur, söngur og bænir svo eitthvað sé nefnt. Í Kaldárseli er leitast við að efla og styðja góð samskipti með uppbyggilegri leiðsögn og kristnifræðslu.
Ásamt sumarbúðunum hefur Vinasetrið bæst við í starfsemi Kaldársels og er það starfrækt um helgar allan ársins hring. Tilgangur og markmið Vinasetursins er að veita börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á þéttu stuðningsneti frá fagfólki að halda athvarf og stuðning. Unnið er af heilhug eftir þeirri hugsjón að hvert barn er einstakt og á skilið það allra besta.
Kaldársel hefur verið til staðar fyrir börnin okkar í 100 ár“.
Sjötta skiltið fjallar um Benedikt Arnkelsson og Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur:
„Benedkit forstöðumaður, alltaf kallaður Benni, starfaði í Kaldárseli í rúmlega 45 sumur og lengur ef talin eru sumur þar sem hann kom til aðstoðar í tyttri tíma. Hann var trúr sinni köllun af vera innanlandskristniboði. Hann hafði fastar skorður á hlutunum og náði vel til barnanna.
Sigrún Sumarrós, alltaf kölluð Rúna, var matráðskoma í Kaldárseli í um það bil 50 sumur. Eldhúsið var hjarta Kaldársels og Rúna sá til þess að hjartað sló traustum takti. Rúnu féll aldrei verk úr hendi og naut hún sín hvergi betur en í skarkala og hlátrasköllum barnanna.
Í sameiningu stýrðu Benni og Rúna sumarbúðunum í Kaldárseli með styrkri hendi og hlýju. Vitnisburðir óteljandi barna, sem nú eru löngu orðin fullorðin, segja að þau hafi gengið þeim í föður- og móðurstað meðan á dvöl þeirra stóð í Selinu góða“.
Heimild:
-Skilti í Hellisgerði í Hafnarfirði árið 2025.





















