Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel

Selsstöðunnar í Kringlumýri ofan Krýsuvíkur (Húshóma) í umdæmi Grindavíkru er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningum af svæðinu. Hún var því vel frekari rannsóknarinnar virði, en FERLIRsfélagar fundu minjarnar fyrir u.þ.b. tveimur áratugum á ferð þeirra um svæðið.

Hettustígur

Hettustígur.

Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km. Enn má rekja selstíginn frá hraunjarðri Ögmundarhrauns (rann 1151) ofan Krýsuvíkur-Mælifells í selstöðina. Þetta er sjöunda selstaðan, sem FERLIR hefur staðsett í landi Krýsuvíkur.

Genginn var stígur frá austanverðum Vigdísarvöllum upp í gegnum neðanverða Smérdali undir Hettu vestanverðri, svonefndur Hettustígur. Stígurinn liggur upp með læk uns hann greinist í tvennt, annars vegar í göngustíg og hins vegar í hestagötu skammt ofar. Göturnar sameinast í eina skammt ofar þar sem útsýni birtist yfir Innradal norðan Bleikingsdals austan Slögu. Bleikingsdalur er grösugur og skjólsæll dalur er lækur hríslast um hann miðjan.

Kringlumýri

Innridalur.

Hettustígurinn liggur áfram áleiðis upp með Hettu vestanverðri, en áður en hann liggur á brattann er slóði til suðurs, yfir lítinn læk Bleikingsdals ofanverðan. Slóðinn er kindargata. Hún liggur inn að Kringlumýri. Eftir að hafa klofað auðveldlega yfir lítinn læk og klöngrast léttilega upp á ofanverða mýrina var gangan auðveld inn að selstóftunum, sem hvíla ofan grafins lækjarfarvegs efst og austast á þurru grasigrónu svæði.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Sestaðan er gróin sporöskulaga „bæjarhóll“. Í honum má greina óregluleg rými á a.m.k. þremur stöðum. Ekki er neinum vafa undirorpið að þarna eru mannvistarleifar, mjög fornar, mögulega þær elstu hér á landi. Greina má reglulegar grjóthleðslur í tóftunum. Miðað við umfang og hæð tóftasamstæðunnar virðist hún hafa verið notuð um allnokkrun tíma. Þegar staðið er við selið efst í Kringlumýrinni og horft til suðurs má sjá startjörn í fornum gíg fjærst, en allt svæðið neðanvert rís vel undir örnefninu því segja má að það sé nánast allt samfeld mýri. Af aðstæðum að dæma má telja líklegt að þarna hafi verið kúasel þar sem kýr og gjeldfé hafa verið haft í seli yfir sumartímann.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Fyrir einhverja tilviljun hafði stunguskófla verið með í för. Hvernig er hægt að hemja áhugasamt fólk þegar „sérfræðingarnir“ hafa brugðist ítrekað? Á meðan þátttakendur snæddu nestið sitt undir grasi grónum bakkanum ofan við selið hafði einhverjum, öllum að óvörum, dottið í hug að grafa holu í tóftarhólinn. Í henni kom í ljós, að því er virtist, að landnámsöskulagið svonefnda liggur ofan á minjunum. Öðrum datt í hug að stinga niður þverskorinni mælistöng. Í ljós komu kolagnir. Það styrkir þá trú að þarna hafi fyrrum verið selstaða frá Húshólmabæjunum, enda liggur sama öskulagið þar yfir minjum, s.s. görðum, sem þar neðra er að finna. Ekki er ólíklegt að ætla að hér hafi verið um byggð kelta eða papa um nokkurra ára skeið, jafnvel áratuga, áður en norrænir menn festu ráð sitt hér á landi.
Þess var vel gætt að frágangur væri með þeim hætti að hvergi var ör að sjá á jörð.

Frábært veður. Gangan tók 2 kst og 2 mín.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.