Bújarðir í Reykjavík – Háteigur; skilti
Á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs er skilti um „Bújarðir í Reykjavík – Háteigur„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Horft vestur frá Háteigsvegi um 1940. Fremst á myndinni er býlið Háteigur, eldri bæjarhúsin (Litli-Háteigur) vinstra
megin og yngra húsið hægra megin. Fjær til vinstri er býlið Klambrar og enn fjær húsaþyrping við Eskihlíðarbæinn.
„Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var farið að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum. Þessi lönd voru leigð með erfðafesturétti, sem þýðir að leigan gekk í erfðir. Á erfðafestulöndunum risu nýbýli þar sem hafin var túnrækt og búskapur í stórum og smáum stíl.
Á Norðurmýrarblettum, sem úthlutað var í Norðurmýri og á svæðinu milli Rauðarárholts og Öskjuhlíðar, risu allmörg erfðafestubýli. Tvö þeirra, Sunnuhvoll og Háteigur, voru hér í sunnan- og vestanverðu Rauðarárholti.
Bæjarhús Háteigs stóðu ofar í holtinu og á núverandi horni Háteigsvegar og Lönguhlíðar stendur enn íbúðarhús (Háteigsvegur 36) sem tilheyrði býlinu. Það er reisulegt steinshús í nýbarokkstíl, reist árið 1920 af hjónunum Halldóri Kr. Þorsteinssyni skipstjóra og útgerðarmanni (1877-1966) og Ragnhildi Pétursdóttur (1880-1961).
Landið keyptu þau árið 1914 af Guðmundi Jafetssyni (1845-1918) en hann hafði byggt þar lítið timburhús árið 1907 sem kallaðist Háteigur. Það hús stóð þar sem gatan Langahlíð liggur nú og var seinna kallað Litli-Háteigur. Gata sem lögð var frá Rauðarárstíg að Háteigi og áfram upp á holtið á þessum tíma var nefnd Háteigsvegur eftir býlinu. Halldór og Ragnhildur voru þjóðþekkt fólk, en Halldór var meðal annars skipstjóri á Jóni forseta, fyrsta togaranum sem smíðaður var fyrir Íslendinga.
Ragnhildur var landskunn fyrir afskipti sín af félags- og menningarmálum og að Háteigi stundaði hún kúabúskap um aldarfjórðungsskeið. Voru þar oftast um tíu gripir í fjósi og munu hafa verið með nytjahæstu kúm á landinu. Árið 1945 var landið tekið úr erfðafestu vegna skipulags íbúðarbyggðar í holtinu og lagningar Lönguhlíðar. Húsið Litli-Háteigur mun þá hafa verið flutt að Skipasundi. Skólagarðar voru síðan á hluta af túnum Háteigs og seinna urðu þau hluti af almenningsgarðinum Klambratúni.“











