Staðarstekkur – Vatnsleysustekkur – Vatnaborg – letursteinn v/S-Vatnsleysu
Gengið var að Staðarstekk uppi á Strandarheiði, yfir að Vatnsleysustekk og síðan upp að Vatnaborg. Eftir að hafa skoðað borgina og vatnsstæðið, sem hún dregur nafn sitt af, var haldið niður að Stóru-Vatnsleysu og letursteinninn þar í túninu barinn augum.
Staðarstekkur er norðan við Staðarborgina á Strandarheiði. Væntanlega hefur þarna verið um heimastekk að ræða. Talsverðar vangaveltur hafa verið um og rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng stekkjargatan hafi verið. Hvað sem öllum niðurstöðum líður í metrum talið er og verður líklegasta svarið alltaf það að vegalengdin hefur ávallt verið fjarlægðin milli bæjar og stekks á hverjum stað. Í þessu tilviki hefur vegalengdin verið u.þ.b. 1000 metrar.
Vatnsleysustekkur er rétt vestan Hrafnagjár til norðurs. Hann er í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar. Hann liggur frá þráðbeinn frá Akursgerðisbökkum og þaðan yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðamannanna, sem hét Eiríkur Ásmundsson frá Gróta í Reykjavík (1840-1893), en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrstu akvegagerð um Kamba.
Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir aldamótin 1900. Almenningsvegur liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans.
Stefnan var tekin austur og upp heiðina, yfir Reykjanesbrautina. Skammt ofan við brautina er Vatnaborgin, neðst í hæðinni sem liggur suðvestur af Kúagerði. Vatnsstæði er þar í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið fjárborg fyrrum, Vatnaborgin. Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.
Þá var haldið á til baka niður heiðina, áleiðis að Stóru-Vatnsleysu. Þar var litið að letursteinn þann er Sæmundur bóndi hafði bent á og beðið FERLIR að ráða í.
Á steininum eru hástafirnir GI er bindast saman með krossmarki. Þar til hliðar er ártal. Sæmundur taldi að steinninn gæti tengst kapellu eða kirkju, sem verið hafði á Vatnsleysu fyrr á öldum, en hún var einmitt sögð hafa staðið þar skammt frá, sem steinninn er nú.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja. G. Guðmundsdóttir – 1995.