Stafnesviti
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Þann 28. febrúar 1928 varð hörmulegt sjóslys þegar togarinn Jón forseti strandaði og fórst við Stafnes. Þá fórust 10 skipverjar og 15 skipverjum var bjargað af heimamönnum og fleirum sem komu að björguninni.
Þetta sjóslys hafði mikil áhrif á alla sem að strandinu komu og varð til þess að Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði var stofnuð sama ár, 1928. Hún er fyrsta sjóbjörgunarsveit landsins sem stofnuð var innan Slysavarnarfélags Íslands, nú Landsbjörg. Sigurvon hefur sinnt öryggis- og slysavörnum til lands og sjávar frá Sandgerði alla tíð síðain.
Stafnesviti var bygður árið 1925 á Stafnesi, milli Hafna og Sandgerðis. Í fyrstu var notað gasblossatæki en árið 1956 var vitinn rafvæddur. Anddyri var byggt við vitann árið 1932. Vitinn var hvítur í upphafi með rautt lárétt band ofarlega til að ayðkenna hann sem dagmerki. Árið 1962 var vitinn málaður gulur.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldugir að róa á árabátum þaðan fyrir lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Útróðrar héldust þar að nokkru marki fram til 1945, en lítil eftir það.











