Hvalsnesleið

Hvalsnesgatan (-leiðin / -vegurinn) milli Hvalsness á Rosmhvalanesi og Grófinnar í Keflavík var fyrrum fjölfarin leið.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Eftir að Kaupmaðurinn flutti frá Básendum til Keflavíkur í byrjun 18. aldar þyrfti fólk í Stafneshverfinu, Hvalsneshverfinu og Fuglavíkurhverfinu að feta Hvalsnesliðina fram og til baka. Gatan lá upp á Miðnesheiðina vestan Melabergs, upp með Melabergsvötnum og áfram yfir heiðina austan Ró[sa]selsvatna og niður í Grófina.
Gatan, sem er vel mörkuð í landið, er nokkuð bein beggja vegna, en hlykkjast á kafla efst á heiðinni. Á þeim kafla voru hlaðnar vörður í svo til beina línu á milli hæstu brúna sitt hvoru megin, líklega svo auðveldara væri að rata leiðina, t.d. að vetrarlagi. Ekki sést móta fyrir götunni milli varðanna svo líklegt má telja að hún hafi meira verið notuð þegar frost var eða snjór þakti jörð. Nær allur þessi hluti götunnar, þessarar gömlu þjóðleiðar, er innan ytri varnargirðingar NATO og landsmönnum því óheimil umferð um hana. Vörður sitt hvoru megin utan girðingarinnar eru fallnar, en vörðurnar innan hennar standa enn vel varðveittar, enda verndaðar fyrir ágangi fólks. Þannig má segja að varnargirðingin hafi risið þarna undir nafni.
Ef vörðurnar eru skoðaðar virðast þær ólíkar og sérhver þeirra bera mannssvip. Þannig gætu hleðslumenn, sem væntanlega hefur verið þegnskylduvinna á staðarbændur, hafa verið að gera sér það að leik að móta fulltrúa yfirvaldsins þarna varanlega í vörðurnar, þ.e. yfirvaldið, prestinn o.s.frv.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Hvalsnesgatan er fyrir margra hluta merkileg. Þarna hefur séra Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, en bjó fyrst um sinn að Bolafæti í Njarðvík, væntanlega gengið fram og til baka, auk þess sem hann hefur farið vesturleiðina austan Ósa því hann gegndi einnig Höfnum um tíma. Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og gæti það hafa verið tilefni vörðusmíðanna. Flestir voru þeir að koma frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa þegið af honum ófdrjúgan viðskiptabónusinn.
Sá hluti varnargirðingarinnar, sem hindrar eðlilegan og þjóðlegan umgang um Hvalsnesgötuna er í rauninni óþörf. Hún stendur nú á heiðinni sem tákn um leifar gamalla þarfa og hægfara stjórnsýslu, líflausa stjórnmálaafstöðu um alltof langa tíð, hræðslu við eðlislæga ákvörðunartöku – og vanvirðingu við hina þjóðlegu arfleifð. Langflestir eru sammála um að fjarlægja þurfi girðinguna hið fyrsta og gefa áhugasömu fólki tækifæri til að skynja þau sýnilegu tengsl, sem enn eru til við forfeður vora og -mæður.
Skammt frá Hvalsnesgötunni, innan varnargirðingarinnar, er t.a.m. Fuglavíkuselið og myndarleg fjárborg skammt frá því, auk annarra fyrrum sögulegra mannvistarleifa.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgatan gengin.