Fjárréttir á Reykjanesskaga
Alls eru 224 fjárréttir þekktar á Reykjaneskaganum. Þá eru meðtaldar einstakar rúningsréttir utan selja.
Fjárréttir, eins og við þekkjum þær, þekktust ekki á Skaganum fyrr en í lok 19. aldar. Áður var fjárbúskapur útvegsbændanna takmarkaður við mjólkandi ær og þær voru því jafnan tiltölulega fáar á sérhverjum bæ. Ærnar voru á sumrum hafðar í seljum þar sem selsmatseljan réð ríkjum. Hún mjólkaði þær og vann afurðir úr mjólkinni; áfir, rjóma, skyr og ost. Sú hafði sér til stuðnings smala er gætti fjárins að næturlagi og skilaði því til mjalta morguns og síðdegis frá 6. til 16. viku sumars ár hvert að jafnaði. Ef eitthvað bar út af var honum refsað með því að láta hann „eta skattinns sinn“, sem væntanlega hefur verið vísir af hinni landlægu skattheimtuárát hér á landi fyrr á öldum.
Þegar seljabúskapnum lauk endanlega um og undir árið 1900 stækkuðu innskagabændur fjárbú sín og byrjað var að „reka fé á fjall“. Sá háttur hefur verið viðhafður allt til þessa dags.
„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).
Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu.
“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“
Fyrrum var fé Grindvíkinga, vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum.
Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Réttin var hlaðin um 1890, en hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.
Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”
Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar. Hvergi er minnst á réttir í frásögnum þeirra bræðra.
Réttirnar í fyrrum landnámshólfs voru til margra nota, s.s. heimarétt, almenningsrétt, skilarétt og rúningsrétt, auk „útdráttarétta“ einstakra bæja. Margar þeirra eru enn heillegar, enda ekki um fornar fornleifar að ræða. Fjárrétt er í raun framhald afréttar. Réttir hafa verið misstórar. Bæði þær sem og staðsetning þeirra hafa jafnan tekið mið af notagildi á hverjum tíma.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1963 fjallar Guðjón Jónsson um „Kambsrétt“, dæmigerða slíka á þeim tíma. Hér verður gripið niður í greinina á nokkrum stöðum: „Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú. Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað, eftir því sem við á og þurfa þykir.
Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frásögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútímamenn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?
Þótt sameiginlegar byggðarsafnsréttir hafi verið notaðar víða um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr á tímum. Meðan engar girðingar voru til að hindra rennsli fjárins og það flakkaði viðstöðulaust bæja og byggða á milli, kom margt fé í skilaréttir.“
Margar hinu merkilegustu fjárrétta á Reykjaneskaga, s.s. Fossárréttin gömlu í Kjós, hafa verið friðlýstar, þrátt fyrir að hafa síðan orðið skógræktaráhugafólki að bráð….

Fossárréttin í Kjós var friðlýst 2011 (friðuð). Fornleifar klæddar skógi.

















