Greni og refaveiðar á Reykjanesskaga

Ögmundarhraun

Á Reykjaneskaganum eru skráð 29 þekkt tófugreni, en bæði eru og hafa sannarlega verið miklu mun fleiri í gegnum tíðina. Mergðin uppgötvast fyrst og fremst við fyrstu snjóa haustsins þar sem varla verður þverfótað fyrir tófusporum ofan byggða. Fátækt skráninganna skýrist fyrst oog fremst á skilningsleysi hlutaðeigandi skráningaraðila, auk þess sem við grenin virðist við fyrstu sýn vera fátt um mannvistarleifar.

Vogaheiði

Yrðlingur við greni í Vogaheiði.

Ef hins vegar, ef betur er að gáð, er því öðruvísi farið; bæði má sjá við þau fyrirhleðslur, hlaðnar litlar vörður sem og hlaðin skotbyrgi refaskyttna. Og ef enn betur er gaumgæft má sjá í námunda við þau bæli skyttanna og ummerki eftir dvöl þeirra þar, s.s. tóm vínföng o.fl. Skilja má hugi viðkomandi i ljósi sögunnar því á tímabili voru verðmæti refaskinnanna metin á við „Skagfirskan hest“.
Þekkt greni voru, á tímum refaskyttnanna, merkt með þremur vörðum, með þremur steinum hver, umhverfis grenið. Slík merkt greni má t.d. enn sjá ofan Lónakotssels og víðar.

Eldborgargreni

Eldborgargreni ofan Knarrarnessels.

Elstu heimildir um refaveiðar á Skaganum eru minjar grjóthlaðinna refagildra. Þær eru 98 talsins á landssvæðinu. Samkvæmt sögnum, með tilkomu haglabyssunnar hér á landi um og eftir 1870, urðu til frægar þaulsetnar grenjaskyttur fyrrum. Þetta voru einstaklingar er lágu úti um sumarið heilu sólarhringana og stundum að vetrarlagi með það að markmiði að ná og drepa varginn. Brjóstbirtan hélt á þeim hita í einmannaleikanum, sem þeir reyndar kunnu svo vel við. Ummerkin má enn sjá við grenin neðst í Ögmundarhrauni, ofan Straumssels, við Þrætugrenin á mörkum Grindavíkur og Selvogs, í Vogaheiði og við Kálffell.
Dæmi má sjá minjar nálægt bæjum þar sem handsamaðir yrðingar voru geymdir með það að markmiði að nota þá til að efna fyrir foreldrið, svonefnd Yrðlingabyrgi.

Geldingahraun

Geldingahraun – Hryggjargrenið.

Skotvopna er reyndar fyrst getið á Íslandi í tengslum við þá atburði sem gerðust 1482 er Þorleifur Björnsson verst Andrési Guðmundssyni og mönnum hans vopnuðum byssum þegar þeir ráðast á virkið á Reykhólum. Byssueign var fyrst orðin nokkuð almenn á 19. öld en Skotfélag Reykjavíkur (Reykjavig Skydeforening) var fyrsta íþróttafélag á Íslandi. Það var stofnað 1867. Skothúsvegur í miðbæ Reykjavík dregur nafn sitt af æfingahúsi þess.
Tveimur árum síðar 21. nóvember árið 1869 stóðu fimmtán menn að stofnun skotfélags Keflavíkur Riffel-Skytte-Forening for Kjeblevig og Omegn, allt kunnir kaupmenn og borgarar í þorpinu. Í fyrstu stjórninni sátu H.P. Duus kaupmaður og faktorarnir P.I. Levinsen og Ólafur Norðfjörð.

Snorri Jóhannesson

Snorri Jóhannesson.

Árið 1872 tókst félaginu að koma sér upp sérstöku húsi til fundahalda og nefndist það Skothúsið. Mun það vera fyrsta húsið í Keflavík sem sérstaklega var byggt til samkomuhalds og voru dansleikir haldnir í húsinu auk funda félagsins. Skothúsið stóð upphaflega fyrir ofan Duustúnið eða nálægt gatnamótun Grófinnar og götunnar út á Berg. Það var seinna keypt af Jóni Ólafssyni útvegsbónda og flutt á lóð hans við Vesturgötu og gert að íbúðarhúsi. Skothúsið var rifið árið 1906 er Jón byggði núverandi hús á staðnum.

Í Borgfirðingabók 2013 segir Snorri Jóhannesson frá tófunni og tófuveiðum. Auðvelt er með góðum skilningi að heimfæra frásögn hans upp á slíkar veiðar á Reykjanesskaganum fyrrum:
„Íslenski refurinn er náskyldur og nauðalíkur ref bæði á Grænlandi, Svalbarða og í norður Skandinavíu, en á síðasttalda staðnum er heimskautarefurinn nánast að verða aldauða.

Refur

Refur.

Hér á landi eru tvö litarafbrigði, hvítt og mórautt, þessi dýr para sig saman og eru að flestu leyti eins ef undan er skilinn liturinn. Jafnvel þótt hvítt og mórautt dýr eigi saman yrðlinga verður ekki um nein litarafbrigði að ræða, yrðlingarnir verða annað hvort hvítir eða mórauðir, þar segir móðir náttúra stopp. Nokkuð mun hafa sloppið út úr refabúum, bæði fyrr á árum og eins nú í hinu seinna refaeldi.
Dýr sem hafa orðið til við æxlun íslenska refsins og þessara dýra hafa sum annan litarblæ og er þetta sérstaklega áberandi á yrðlingunum, eins virðast þau erfa aukna frjósemi. Hinsvegar sluppu út silfurrefir á fyrrihluta sl. aldar og tímguðust í einhverjum tilfellum með íslenska refnum, vel mátti merkja áhrif þess fyrst á eftir en þau eru löngu horfin, enda var það ekki í miklum mæli sem þau dýr sluppu, og voru auðunnin.

Eldvörp

Leiðigarður fyrir tófu í Eldvörpum þar sem eitrað var fyrir ref.

Veiðar hafa breyst mikið á undanförnum árum, færst víða frá því að vera vel skipulagt nauðsynjaverk, unnið af alúð og samviskusemi, í það að verða illa eða ólaunað sport, framkvæmt af hverjum þeim sem áhuga hefur. Á þetta sérstaklega við um vetrarveiðar. Grenjavinnsla er sem betur fer enn stunduð líkt og áður hjá mörgum sveitarfélögum, en önnur hafa dregið úr og jafnvel hætt, dyggilega studd af mönnum sem telja brýnna að rannsaka en veiða. Sumir þessara manna telja að veiðar séu til einskis án undangenginna rannsókna.

Refur

Refur.

Íslenski refurinn er lítið dýr, meðalþyngd um tæp 4 kg, læður um 3.1 og refir 3.6. Í eðlilegu árferði bæta dýrin nokkuð á sig yfir vetrarmánuðina eða allt að hálfu kílói og verður þá meðalþyngd oft aðeins rúm fjögur kíló. En ýmis frávik eru eðlilega frá því, til eru dæmi um refi allt að átta kílóum. Ekki veit ég hver meðalfjöldi yrðlinga er, en samkvæmt mínum gögnum er sú tala ríflega fjórir. Fæstir refir verða eldri en átta til tíu ára þótt í einstaka tilfellum sé vitað, að eldri dýr hafi veiðst. Þeir eiga ekki nokkurn óvin í náttúrunni nema manninn og afföll eru ekki teljandi ef undan eru skildar veiðar.
RefirFlest vetrarveidd dýr, allavega þau sem veiðast í skothúsum, eru á fyrsta eða öðrum vetri, enda ekki óeðlilegt þar sem fjöldi ungra dýra er nokkuð mikill að hausti sérstaklega þar sem illa er staðið að grenjavinnslu. Sagt hefur verið að refurinn sé þindarlaus en auðvitað er það ekki rétt, eins var sagt, að vegna þess ætti hann erfitt með að hlaupa undan brekku. Refurinn er hinsvegar brekkusækinn, leitar ávallt á brattann sé hann á flótta, og skilar vel. Mér hefur virst að framlappir refa séu styttri hlutfallslega miðað við afturlappir, kann það ef satt er að vera ástæða þess að dýrin eru seinni niðurímóti en á brattann. En þetta er nú aðeins tilgáta.
RefagildraRefir hafa verið veiddir allt frá landnámi, og fyrr á öldum þóttu refabelgir (skinn) konungsgersemar og fékkst mikið verð fyrir, eins tel ég víst að fljótt hafi hagsmunir manns og refs rekist á og hafi veiðar verið stundaðar til að minka tjón sauðfjárbænda og þeirra er höfðu nytjar af varpi.
Það má finna í lögum, að menn eru skyldaðir til að drepa ákveðinn fjölda refa ella greiða refatoll. Ég tel líklegt að hér hafi verið mikið um refi fyrr á öldum og illa hafi gengið að fækka þeim með þeim aðferðum sem þá voru tiltækar.
Aðallega voru það gildruveiðar ýmis konar en með tilkomu skotvopna breyttist þetta mikið en þó ekki nóg og var þá gripið til þess að eitra. Ekki eru öruggar sagnir um áhrif þess eiturs sem notað var fyrstu árin, algengast var eitur úr jurtaríkinu sem hét eða nefnt Kransauga. En um það segir Kristleifur á Stóra-Kroppi.
Refagildra„Í ungdæmi mínu (1861) þekktist ekki annað eitur en Kransaugu. Voru það kringlóttar plötur, öskugráar að lit, á stærð við smáar jakkatölur. Á rönd þeirra var lítil karta, sem sýndi, að þau voru ávöxtur af stöngli slitin. Þau voru hörð sem horn. Voru þau tálguð niður í flísar og síðan skorin með tóbaksjárni, þar til þau voru fín sem duft.“ Ekki bar mönnum saman um árangur af þessu, en eftir að menn tóku að nota striknín nánast gjöreyddust refir á stórum svæðum, en smám saman fóru dýrin að vara sig á þessu og hættu sum þeirra að ganga í hræ. Hafa menn er til þekktu haldið fram að slík dýr hafi orðið varasamari gagnvart sauðfé, enda eingöngu orðið að reiða sig á veiðar.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Það var skylda að eitra og gerðu það bæði einstakir bændur og einnig sáu sum sveitarfélög til þess að eitrað væri í afréttum að afloknum leitum. Bannað var að bera út eitur 1964, og var það gert til verndar arnarstofninum, en ernir fóru gjarnan í eitruð hræ og drápust. Það má teljast merkilegt að ekki hlytust af slys á fólki þar sem stryknín sem er hvítt duft ekki ólíkt hveiti var til á mjög mörgum heimilum til sveita.
Kynni mín af tófum hófust snemma eða þegar ég kom barn að aldri að Húsafelli 1953. Eftir að hætt var að leita þar grenja snarfjölgaði tófunni. Henni tók að stórfjölga næstu árin og kvað þar svo rammt að, að varla var hægt að renna fé í vatn á Húsafelli án þess að bitið yrði.

Lónakot

Lónakot – yrðlingabyrgi.

Á árunum milli stríða var mjög hátt verð á refaskinnum og einnig yrðlingum. Var gangverð á fallegum mórauðum læðuyrðlingum allt að 300 kr sem lét nærri að vera verð fyrir snemmbæra kú á þeim árum, efnuðust margir á þessu og var slegist um að komast að við grenjavinnslu, sem dæmi má nefna að eitt vorið seldi Lárus í Grímstungu yrðlinga fyrir 10.000 kr. sem var mikill peningur á þeim árum.

Þessir yrðlingar voru teknir inná refabúin til eldis og skinnin síðan seld, einstaka læða var látin lifa til undaneldis. Þessu ævintýri lauk um það bil er seinna stríðið hófst og lögðust þá af öll refabú og markaður fyrir yrðlinga þar með.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Snjóaárin 1994-5 fjölgaði tófugrenjunum til mikilla muna. Þau vor var illt fyrir refi að ná grenjum vegna snjóa og bleytu. Urðu þá dýrin að lækka á sér og gutu í byggð ef svo má segja. Á þessum árum var einnig orðin breyting í mörgum sveitum, jarðir komnar í eyði í búskaparlegu tilliti, og menn hættir að fara um hagana líkt og áður var. Þannig að þar kom upp mikið af grenjum, öllum að óvörum og virðist dýrunum líða vel og eru hér flest fjallagreni að verða ónýt vegna þess að ekkert dýr hefur viljað nýta þau um lengri tíma.
Veiðar fóru mest fram á vorin á grenjum, en þó hafa ætíð verið til menn sem hafa glímt við refinn á veturna, ýmist legið fyrir við æti eða rakið slóðir, örfáir hafa náð tökum á að líkja eftir hljóðum refa og hafa þeir oft náð góðum árangri. Nú eru einnig fáanlegar ýmsar gerðir af flautum sem hægt er að líkja eftir hljóðum refa með og hafa þær reynst mörgum vel.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Algengast var að tveir menn lægju saman á greni, grenjaskyttan og vökumaður, þó var nokkuð misjafnt hvað aðstoðarmenn voru titlaðir eftir landshlutum. Hér um slóðir var byrjað að gá í greni um 6. júní, helst ekki fyrr, en það gat þó raskast ef vart varð bíts. Eins áttu sumir bændur til að gá á
greni óumbeðið og væri þar búskapur varð að fara strax ella gátu dýrin flutt og reynst erfitt að finna þau aftur.
Það er þess vegna mjög góð regla að fara ekki að gá í greni nema að höfðu samráði við grenjaskyttu á viðkomandi svæði, þannig að tryggt sé að hægt sé að fara umsvifalaust finnist greni sem dýr eru í.
En þessi tími var meðal annars valinn vegna þess að líkur voru að yrðlingar væru á heppilegum aldri til að auðvelt væri að ná þeim, um tveggja til þriggja vikna gamlir.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Einnig er auðveldara að ná dýrunum þegar yrðlingarnir eru nýfarnir að fara út úr greninu, þá sækja bæði dýrin nokkuð jafnt að. Séu yrðlingarnir yngri, er refurinn oft laus við og kemur stundum ekki heim á grenið dögum saman, hinsvegar þegar þeir eldast, fara þeir að verða full aðgangsharðir við læðuna og breytast þá hlutverkin og tekur þá refurinn meira við uppeldinu.
Það má segja að himinn og haf sé milli aðstæðna þeirra sem liggja á grenjum nú til dags og þess er áður var. Á það við um nánast allt, frá klæðnaði, skotvopnum og einnig hve auðvelt er að komast að grenjum á farartækjum. Það var ekki fyrr en um miðja s.l. öld að notkun riffla með sjónaukum varð almenn við refaveiðar og óhætt er að segja að það sé einhver mesta byltingin hvað refaveiðar varða. Ég ætla mér ekki að hafa skoðun á hvaða rifflar, stærð skotfæra og sjónaukar henti best, enda nánast um trúarbrögð að ræða í þeim efnum. Þetta eru dýr tæki og má segja að verðið endurspegli gæðin, hinsvegar eru að mínu mati flest allir rifflar sem hér fást nægjanlega nákvæmir til refaveiða, en veldur hver á heldur. Það eina sem hefur færst til verri vegar er það, að nú til dags hafa menn ekki þann tíma sem oft þarf til (þolinmæði).

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Oft getur verið kalsamt að liggja á greni en þær stundir gleymast fljótt þegar veðrið er gott og vel gengur. Þegar farið er af stað til grenjaleitar er mikilvægt að vera þannig útbúinn að geta lagst finnist greni í ábúð, víðast eru það þekkt greni sem leituð eru í hefðbundnum grenjaleitum, einnig þarf stundum að leita nýrra grenja sé grunur um slíkt, það er þó fátíðara nú til dags að eytt sé tíma í slíka leit nema grunur sé um bitvarga, sem ekki finnast við hefðbundnar grenjaleitir.
Áður fyrr lágu menn nánast ofan á grenjunum um það vitna skotbyrgi sem hlaðin voru á flestum grenjum og var reyndar skylda að halda við. Þetta var vegna þess að menn áttu þess ekki kost að skjóta á lengra færi en tuttugu og fimm til þrjátíu metrum. Nú er hægt að velja sér staði mun lengra frá og hafa þannig betri yfirsýn yfir svæðið.

Vogaheiði

Vogaheiði – tófuhreiður. Tófan getur jafnan utan grenis, t.d. undir moldarbarði, og flytur síðan yrðlingana, ca. viku gamla, yfir í nálægt grenið.

Ég reyni ávallt að ná báðum dýrunum áður en ég fer að hugsa um yrðlingana, en þetta fer þó nokkuð eftir því hve gamlir þeir eru. Nú hin seinni ár ligg ég helst ekki lengur en eina nótt og oftast tekst að fullvinna greni á þeim tíma, aðeins ef um bitdýr er að ræða verður að liggja þar til öllu er náð sé þess nokkur kostur.
Aðeins um skothús – Þegar ég hóf refaveiðar var ekki mikið um að menn legðu út æti fyrir ref, en þó voru nokkrir sem þetta gerðu. Ég hófst handa við að koma upp skotbyrgi framan við Húsafell ásamt Sveini Björnssyni mági mínum. Þetta gekk nokkuð vel en þó var mikið um allskyns tilraunastarfsemi, svo sem ljós og sjónauka á haglabyssur. Mikið um mistök, en við vorum að læra og ég er reyndar enn að því. Ekki varð veiðin mikil á nútímamælikvarða enda mun minna af tófum, það sem þá þótti nokkuð góð vetrarveiði fæst nú jafnvel á einni nóttu.

Húshólmi

Húshólmi – greni.

Best er að koma skothúsi þannig fyrir að refirnir komist ekki hring um þau, áður fyrr dugðu girðingar að mestu leyti til að koma í veg fyrir slíkt, en um það er ekki að ræða lengur þar sem refir eru ekki hræddir við slíkt eftir að þeir fluttu í byggð. Áður fyrr runnu refir með girðingum og fóru ógjarnan yfir þær. Fái refir að ganga óáreittir í æti um nokkurn tíma, verða þeir kærulausir og koma þá oft í það án þess að fara í vindstöðu fyrst. Þá er um að gera
að velja hentugt veður, hagstæða vindátt og tunglsljós. Hér vestanlands er norðanátt eðlilega hagstæðust, þá er oftast léttskýjað og nýtist tunglið þá betur. Að þessu verður að hyggja þegar valinn er staður. Mörg dæmi eru um að menn leggi út æti með of stuttu millibili, það verður aðeins til þess að enginn nær nokkrum árangri. Mitt álit er að ekki eigi að vera styttra milli skothúsa en tíu kílómetrar, hið minnsta, nema að skilji ár eða eitthvað það sem hindrar refina í að hlaupa á milli.

Ísólfsskáli

Byrgi refaskyttu við greni í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Sé veiðum ekki sinnt, en aðeins lagt út æti er það til bölvunar, virkar sem fengieldi og skemmir fyrir þeim sem eru að stunda þetta af samviskusemi. Nú til dags eru margir með mjög vönduð skothús, oft eru tveir saman og geta þá haft vaktaskipti, en langar eru næturnar fyrrihluta vetrar einum manni ef engin dýr eru á ferðinni. Yfirleitt kyndi ég ekki skothús þannig að oft er ansi kalt, oftast sit ég í svefnpoka og þannig má segja að þetta sé bærilegt. Sé kynt þá er erfiðara að halda sér vakandi, eins er ákveðin slysahætta af slíku eins og dæmin sanna.
Fyrstu árin sem ég stundaði skothúsveiðar, hagaði þannig til að ég þurfti að ganga nokkra leið, svo að ég varð að varast að svitna ekki á göngunni, gerðist það, gat vistin orðið nánast óbærileg til að byrja með, eða þar til larfarnir sem næst mér voru þornuðu.
Það er ótrúlegt hvað getur orðið til að stytta manni stundir eftir að sest er að. Það eru oft norðurljós, mýs hlaupandi á hjarninu og séð hef ég Branduglu á músaveiðum um miðja nótt í mars. En ef heyrist í tófu þá lifnar nú heldur yfir og ekki vandræði að halda sér vakandi, þá gleymist kuldinn og tíminn líður mun hraðar.

Skógarnef

Skógarnefsgrenin.

Ég notast mest við haglabyssu í skothúsi, á henni er ljósnæmur riffilsjónauki með ljósi í krossinum, ég endaði á þessu eftir að hafa reynt allt frá nætursjónaukum til allskyns ljósgjafa. Riffil hef ég oft með en nota hann aðeins á dýr sem ekki koma í ætið og halda sig í vindlínu, þar eru þau oft að dóla, jafnvel eftir að birta tekur og tekst þá stundum að ná þeim.
Það hefur alltaf verið erfitt að leita uppi og vinna öll greni sem finnast, jafnt á friðlýstum svæðum sem annarsstaðar.“

Heimild:
-Borgfirðingabók – Ársrit 2013 (01.12.2013), „Það sást tófa“, Snorri Jóhannesson, bls. 100-113.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.