Hvammur í Kjós – sagan
Hvammur í Kjósarhreppi var hluti af landnámi Þóris haustmyrkurs. Hér eru helstu heimildir um jörðina:
1686: 46 hdr., 160 ál, bændaeign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 134.
1695: 60 hrd, bændaeign, samkvæmt The Old Icelandic Land Registers, 134.
1712: 60 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
1847: 48 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 101. Í neðanmálsgrein segir: „Á.M. einn nefnir Naglastaðir, sem hjáleigu. 1802 segir, að hér sé æðarvarp og selveiði, og eigi jörðin skóg í Skorradal í Borgarfirði. Sýslumaður telur jörðina aðeins 40 h.“
Í Landnámu segir: „Hvamm-Þórir nam land á millum Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref inn gamla um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalur er við kenndr; sú kvíga hafði horfit Þóri fyrir longu, en sú kvíga fannsk í Brynjudal, þar er Refr átti land, ok fjórir tigir nauta með henni, þeirra er oll voru frá henni komin ok höfðu gengit sjálfala úti; því kenndi hvor tveggja sér nautin. En Þórir fell fyrir Ref með átta manna, þá er þeir borðusk hjá hólnum þeim, er síðan eru kallaðir Þórishólar.“
Jarðarinnar er getið í Harðarsögu. Í Sturlungasögu er getið Jörundar hins mikla úr Hvammi en hann var með Þorleifi í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og má ráða af samhengi að hann hafi verið fyrirliði manna úr Kjós og Hvalfirði.
Eftir bardagann var rænt í Saurbæ og Hvammi og bendir það til að búið í Hvammi hafi þá verið með hinum stærri í héraðinu.
Elsta heimild um kirkju í Hvammi er í Hítardalsbók frá 1397 átti kirkjan Hvammsey auk sex kúgilda. Kirkjan var hinsvegar vígð 1502 og er vígslumáldagi hennar frá því ári varðveittur. Þar kemur fram að kirkjan hefur eignast skógartungu í Skorradal. Í tilefni af vígslunni var leyfi gefið til að vígja saman hjón, skíra börn og leiða konur í kirkju eftir barnsburð. Þá vígði Stefán biskup sérstaklega líkneski Lúkasar guðspjallamanns og verndardýrlings kirkjunnar og gaf hverjum þeim 40 daga aflát sem bæri líkneskið í skrúðgöngum, sem voru hluti af helgihaldi í kaþólskum sið, eða gerði kirkjunni nokkuð gagn.
Í máldaga frá 1570 er þess getið að jörðin var 60 hdr að dýrleika. Á seinni hluta 16. aldar bjó í Hvammi Hannes Ólafsson lögréttumaður (kemur við skjöl á árabilinu 1565-1590) og eftir hann sonur hans Jón, sem var líka lögréttumaður og hreppstjóri í Kjósarhreppi og stóð í margskyns málastappi á alþingi á árunum 1619-1662. Sonur Jóns hét Ólafur og mun hafa búið í Hvammi eftir föður sinn, en um 1700 höfðu börn Ólafs erft hann og jörðina og voru þá 5 systkin eigendur að Hvammi, en Hvammsvík var orðin sérstök eign sem gengið hafði úr ættinni fyrir miðja öldina þegar Ólafur Hannesson, bróðir Jóns lögréttumanns, seldi 12 hundraða erfðahlut sinn Brynjólfi biskupi í Skálholti.
Eitt systkinanna, Eyjólfur Ólafsson, sem var húsmaður á Akranesi, lýsti því með bréfi hinn 13. mars 1709 að hann ætti fimmtung í Hvammi sem væri alls 60 hundraða jörð. Eyjólfur segir að hann fái nú jarðarhluta sinn varla byggðan […] nema til hýsingar fátækra sveitarómaga og tíundargjalds þeim, sem búa á hinum hluta jarðarinnar. Eyjólfur getur um hálfkirkjuna og segir að Hvammsey, sem liggi undir kirkjuna, hafði áður verið slægjuland en að nú spretti lítið gras á henni „eða nær að segja ekkert“. Hann getur þess einnig að skógarítakið, sem kirkjunni er eignað, sé í Skógartungu í Vatnshornskógi í Skorradal.
1712 eru nefndir Naglastaðir, sem þá voru tóftir langt innan landamerkja, og tómthúsið Ásmundarstaðir, sem hafði verið í eyði í meira en tuttugu ár. Ekkert er vitað um byggð á Naglastöðum og eru tóftir þeirra ekki þekktar en Ásmundarstaðir hafa verið innantúns og mögulega orðið til um svipað leyti og Hvammsvík – JÁM VI. 1847 bjuggu þrír leiguliðar í Hvammi auk eins í Hvammsvík. Eftir 1780 átti Páll Jónsson, hospitalshaldari í Gufunesi með meiru, meirihluta jarðarinnar að því er virðist um alllangt skeið, en ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurn tíma búið þar.
Kirkjan í Hvammi var tekin af með konungsbréfi 17. maí árið 1765 – Sveinn Nielsson: Prestatal og prófasta, 114. Skógurinn sem kirkjan átti í Skorradal mun þá hafa lagst undir jörðina en í jarðabók frá 1804 er getið um hann. 1840: “ […] þar er þýft og tyrjótt tún, arðlítið , mýrarengi víðslægt og landrými allgott og vetrarhagabeit.“
Heimildir:
-Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar – Skráning á minjum úr síðari heimstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði, 2025.
-Hvammur og Hvammsvík, Fornleifaskráning vegna breytinga á deiliskipulagi, 2020.
















