„Ákváðum á fyrsta degi að við myndum aldrei ráða við þetta ein“ – Bogi Adolfsson

Þorbjörn

Í Faxa árið 2021 er viðtal við Boga Adolfsson, formanns Björgunarsteintar Þorbjörns í Grindavík, undir yfirskriftinni „Ákváðum á fyrsta degi að við myndum aldrei ráða við þetta ein„:

Bogi Adolfsson

Bogi Adolfsson.

„Boga Adolfssyni formanni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavik óraði ekki fyrir því í byrjun árs að árið 2021 yrði eins og það þróaðist. Engan veginn var hægt að sjá fyrir hvaða verkefni kæmu í fang björgunarsveitarfólks þegar eldgos hófst í Geldingadölum 19. mars enda segir Bogi í samtali við Svanhildi Eiríksdóttur að allar línulegar aðgerðaáætlanir hafi farið í vaskinn. Við tók spírallaga atburðarás.
„Það kom alltaf upp nýtt verkefni þegar einu var lokið. Við þurftum að gera gönguleið eða merkja gönguleið og það var ekki varanlegt nema í stutta stund. Þá þurfti að byrja upp á nýtt. Aðgerðaáætlunin gat því ekki verið línuleg, heldur hringur, því við þurftum að gera aftur og aftur það sama. Við gátum eiginlega ekki gert ráð fyrir neinu, verkefnin komu manni alltaf í opna skjöldu,“ segir Bogi.

Áttuðum okkur ekki á að gosið hefðiþetta aðdráttarafl
EldgosVerkefnin hafa verið umfangsmikil og krefjandi fyrir alla þá fjölmörgu viðbragðsaðila sem hafa komið að gosinu. Bogi segir aðstoð hafa borist víða að, frá fjörðum lengst í vestri og austri. Í Þorbirni eru sjálfboðaliðar í kringum 40. „Við settum bara niður vaktafyrirkomulag strax og menn skráðu sig niður á vaktir. Við ákváðum á fyrsta degi að við myndum aldrei ráða við þetta ein.“
Bogi segir tvo björgunarsveitarmenn hafa alla jafna séð um skipulagshliðina á verkefninu, aðrir voru á vettvangi og skiptu með sér verkum þar. Alltaf hafi einhver stigið inn í þegar á þurfti að halda. „Við vorum vel undirbúin fyrir eldgos eftir alla ólguna sem hafði verið á svæðinu, áttum mæla og grímur og annan búnað en við vorum ekki búin að undirbúa okkur undir allt þetta fólk.

Áttuðum okkur ekki á því að gosið myndi hafa þetta gríðarlega aðdráttarafl.
EldgosFyrstu dagarnir voru bara rugl. Við vorum fyrst og fremst að hugsa um hættuna sem vofði yfir vegna jarðhræringa og eldgoss, rýmingaráætlanir og annað slíkt,“ segir Bogi.
Stöðugur straumur fólk var upp að gosi og niður aftur og þegar mest var voru íbúar í Grindavík í hálfgerðri gíslingu í sínum heimabæ. Bílaröðin beggja vegna bæjarfélagsins var slík að heimamenn þurftu að fara fótgangandi allra sinna ferða. „Ég segi að þegar mest var hafi um 6000 manns farið um svæðið á dag. Mælar segja 3000 en þeir mældu bara einn þegar fólk gekk samhliða eða mættist svo ég tvöfalda allar tölur.“ Nú fara á milli 500 og 1000 manns daglega um svæðið sem vaktað er af tveimur til þremur landvörðum og einum sjúkraflutningamanni frá Brunavörnum Suðurnesja. Bogi áætlar að um 300.000 manns hafi farið um gossvæðið.

Hitti ekki fjölskylduna í þrjár vikur

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Það muna allir hvernig fyrstu dagarnir í gostíðinni voru. Fólk var hvatt til að ganga frá Grindavíkurvegi yfir hraunið, en sú leið var ógreiðfær og mjög löng, þó hún liti út fyrir að vera stutt á yfirlitskorti, auk þess sem fólk þekkti hana ekki. Engin lýsing vará leiðinni og fólk oft vanbúið svo Verkefni björgunarsveitarfólks urðu ærin. Bogi var minntur á það snemma í ferlinu að hann hafði ekki hitt fjölskyldu sína í þrjár vikur, kom heim þegar allir voru sofnaðir og var farinn út að morgni meðan fólk var enn sofandi. Hann segir þó kostinn óneitanlega hafa verið þann að hafa getað sofið í eigin rúmi.

Bogi hefur verið formaður björgunarsveitarinnar í 19 ár og segir þetta mest krefjandi verkefnið sem hann hafi fengið í starfinu, þó vissulega megi hrósa happi yfir því að enginn lést í náttúruhamförunum. Hins vegar hafi þurft að bjarga mannslífum. Það komu slysatarnir, allt upp í tvo göngumenn á dag og nefnir Bogi sérstaklega Langahrygg þar sem aðstæður urðu eins og í glerhálku, sandur ofan á móbergi.

Geldingadalir

Geldingadalur; eldgos 2021; gönguleið.

Málin hafa hins vegar þróast þannig að úr hefur orðið mjög skemmtileg gönguleið og Reykjanesið hafi komist enn betur á kortið sem áhugavert útivistarsvæði.
Bogi sem starfar hjá Grindavíkurbæ og við sjúkraflutninga hefur fengið mikinn stuðning og skilning hjá vinnuveitendum sínum, þrátt fyrir að hafa verið nýbúinn að skipta um starf þegar gosið hófst. Öðruvísi sé ekki hægt að sinna svona sjálfboðaliðsstarfi á tímum sem þessum. Það sama gildir um vinnuveitendur annarra sjálfboðaliða
hjá Þorbirni, segir Bogi.

Allt verið rosalega magnað

Grindavík

Grindavík – eldgos er kann mögulega að rugla einhverja í rýminu…

Þó tímanir hafi oft og tíðum verið erfiðir og aðstæður krefjandi, segir Bogi mjög marga góða punkta hægt að taka úr ferlinu. „Allt sem maður hefur upplifað og tekið þátt í er rosalega magnað. Allt samstarf viðbragðsaðila, bæði hér og þeirra sem tóku þátt í þessu með okkur gekk svo rosalega vel. En maður sá líka einkennilegt háttarlag fólks sem fór upp að gosi þegar virknin var sem mest, áttaði sig ekki á aðstæðum. Sumir tóku jafnvel víðsjárverðar áhættu með börnin sín og um afdrif allra sem komu sér í hættu er ekki vitað.“
Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hvort gosi sé lokið eða ekki og segir Bogi ekkert hægt að segja til um það. Klárlega sé virkni enn mikil, því hraunið fljóti um undir storknuðu hrauninu og allt sé að þykkna í Merardölum. Það sé því engin leið að segja til um framhaldið. „Menn hafa kastað því fram að dyngjugos geti varað allt upp í 120 ár. Það verður laglegt að þurfa að skipta út formanni vegna aldurs í miðju verkefni,“ segir Bogi og hlær.

Þorbjörn

Björgunarsveitin Þorbjörn – minnismerki.

Björgunarsveitinni hefur tekist að sinna öðrum útkallsverkefnum samhliða þessu mannfreka verkefni. Þó nokkuð hefur verið um bátaútköll og annars konar útköll á sama tíma sem þeim hefur tekist að sinna.
„Í raun voru menn fegnir að komast annað slagið í önnur verkefni og þeir voru fljótir að stökkva til þegar útköll komu. Eðli björgunarsveitarmannsins er þannig að hann sækir í verkefni, vill drífa hlutina áfram og þrífst á því að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.12.2021, Ákváðum á fyrsta degi að við myndum aldrei ráða við þetta ein, viðtal við Boga Adolfsson, bls. 20-22.

Geldingadalir

Geldingadalir í Fagradalsfjalli – eldgos.