Þorbjörn

Gengið var á Þorbjarnarfell (231 m.y.s) upp frá Eystri-Klifhól ofan við Klifhólahraun (sunnan fellsins). Stefnan var tekin upp suðurhlíð þess að Þjófagjá. Þjóðsagan segir að ræningjar hafi hafst þar við á 17. öld og herjað á bæjarbúa. Sama heimild kveður á um að enn megi sjá helli þeirra í gjánni.
Gönguleiðin“Miklir” fréttasnjóar hafa herjað á Grindvíkinga undanfarna daga svo ætla má að einhverjir þeirra hafi nú safnast fyrir í Þjófagjánni. Ætlunin var að reyna að brjótast upp í gegnum gjána og síðan niður kafaldið að Hádegisgili (séð frá Baðsvallaseljunum) og halda síðan á snjóskriðu niður misgengið er einkennir miðju fellsins, allt niður á Baðsvelli, að fyrrum selstöðum Grindvíkinga. Þar má enn sjá rústir seljanna við Kvíalág og Stekkjarhól. Alvöru Grindjánar og aðrir bæjarbúar höfðu verið hvattir til þátttöku, en einungis þeir allra alvarlegustu létu sjá sig. Að sumu leiti var það skiljanlegt því lágrenningur þakti láglendið, en heiðríkja var ofan við einn metran. Þeir, sem ekki voru staðnir upp á tvo 
fæturna svo snemma, gátu varla hafa áttað sig á því. Þetta átti þó eftir að breytast.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell. Þjófagjá efst, Klifhólar neðst t.h.

Annars reis “fréttasnjórinn mikli” í Grindavík alls ekki undir nafni þegar betur var að gáð. Að vísu hafði verktökum tekist að moka honum upp í nokkra hrauka og ruðninga innanbæjar, en utar var aftur á móti hvergi torfæra vegna snjóa. Gangan að Þorbirni var því álíka auðveld og á vordegi.
Bæjarstjórinn vakir yfir GrindavíkFram hafði komið að 
FERLIRsfélagar kalli nú ekki allt ömmu sína og fullyrtu að yrði verði ekki til trafala, enda væri það snjómagn sem nú huldi grund eins og föl í samburði við snjómagn minninga frá fyrri tíð. Í þá tíð voru húsin að vísu lágreistari. Er mest snjóaði þurftu íbúarnir að moka sig út um snjógöng. Þegar út var komið sáust engin hús, einungis hvítdrifnir snjóskaflar eins langt og augu eygðu. Mannlífið var líka svolítið öðruvísu þá – eins og fram kemur í fyrsta kafla í óskrifuðu handriti um Gindavík og Grindvíkinga:

Þjófagjá efst

Rökkrið grúfir yfir láð og land. Tunglið guðar ofar skýjum. Í suðri, þar sem himinn og haf renna saman í eitt, líða öldurnar mjúklega inn litlu víkina undir skinrönd – uns þær lognast loks út af hvítfyssandi í fjöruborðinu. Snjór þekur jörð ofan við fjöruna. Grýtt ströndin næst sjónum er auð.
        Það er kalt í veðri og þrátt fyrir lygnuna g
nauðar vindurinn ámátlega utan við gluggann. Ofan sjávarbakkans liðast lágrenningurinn hægt með jörð­inni af suð­austri. Bjartar stjörnur glitra á himninum. Ekki er lifandi veru að sjá á ferli utan dyra.
      

Þórkötlustaðir

Grindavík.

Í fjarlægð má í skímunni greina fáeina kofa og nokkrar húsnefnur vestar með ströndinni. Þær snúa flestar mót opnu úthafinu. Sum húsanna virðast halla fram eins og þau væru að búa sig undir að þurfa að mæta enn máttugri hafáttinni.
        Í vestri sést ljósabaugur handan hæðar – í hverfinu. Þar er víðast ratljóst bæði utan dyra og innan. Hverfisfólkið býr í nýrri og betri híbýlum en þeim gömlu, sem fyrir eru hérna megin við Nesið.

Grindavík

Grindavík.

        Lágt Nesið skilur staðina að – bæði í tíma og rúmi. Margt er ólíkt með íbúunum. Fólkið austanvert við Nesið segir t.d. “alltaf” þegar íbúarnir vestanvert við það segja “aldrei” í sömu merkingunni. Þannig eru gæftir alltaf góðar hjá því á meðan þær eru aldrei slæmar hjá hinu og þótt sólin sjáist aldrei vestur í Hverfi er hún alltaf  á bak við skýin austan við Nesið.  Og það fólk játar jafnan þegar hitt neitar. Þá er eftir því tekið hversu íbúarnir austurfrá hafa tileinkað sér vel það sem ekki er til. Þeir eru nægjusamari og nærast frekar á væntingum – virða fortíðina og vænta mikils af framtíðinni á meðan þeir vesturfrá eru nokkuð fastheldnir á líðandi stund – nútíðina. Framfarirnar hafa orðið meiri þar en að austanverðu því fólkið hefur nýtt sér betur það sem upp á er boðið á hverjum tíma.
        Torfufólkið lét ekki myrkrið og ámátlegt ýlfrið í vindinum raska ró sinni. Þetta er harðgert fólk, sem hefur lifað tímana tvenna. Yngra fólkið vill frekar búa í nýrri húsunum handan við Nesið þar sem þægindin hafa í seinni tíð bæði verið meiri og sjálfsagðari.

Þjófagjá - án kafaldsbyls

Gengið var um Klifhólahraunið er liggur austan við Lágafell og að Klifhól eystri upp undir Þorbirni. Í örnefnalýsingu er þessu svæði, og öðru framundan, lýst þannig: “Sunnan í [Lágafelli] er Lágafellsbrekka en austan í því er Lágafellstagl. Vestur af Lágafelli eru Óbrynnishólar og norður frá þeim er Tæphella. Norður af Lágafelli er svo Skipsstígshraun.
Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni en sunnan í Þorbirni er fyrst Eystri-Klifhóll. Ofar í Klifinu er Fiskitorfa. Neðar og vestar er Vestri-Klifhóll og þar ofar er Krókatorfa. Vestan við Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr. Vegghamrar  er lágur hraunhamraveggur suðaustan í Lágafelli og tengir það við Þorbjörn. Vesturhlið Þorbjarnar er brattar skriður sem heita Skjónabrekkur. Milli Klifhólanna er Klifhólatorfa niður af Krókatorfu sem nú er aðeins snepill.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil. (Sjá meira um eyktarmörk).
GálgaklettarAlveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut sem heitir Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll. Norðan í Þorbirni er girðing sem á að verða skógræktarsvæði og hefur hlotið nafnið Selskógur. Norður frá Þorbirni breytir hraunið um svip og heitir eftir því Illahraun.”
Þegar komið var upp fyrir Klifhólatorfu skall á þvílíkur skafrenningur að hvergi eygði dökkan díl. Snjófjúkið varð slíkt að þátttakendur áttu erfitt með andardrátt. Þrátt fyrir þrálátalæti hunds, sem var með í förinni, var ákveðið að halda áfram, enda búnaðurinn eins og best var á kosið. Komist var með erfiðismunum upp fyrir eystri gjárbarminn og stefnan tekin þverleiðis á Þjófagjá. Þegar henni var náð kom í ljós að gjáin var full af snjó. Þarna var þá allur snjórinn, sem ekki hafði fests á láglendi utan Grindavíkurbyggðar. Hann hafði leitað skjóls í gjánni. Kafaldbylur rann lárétt fram af efribrúnum Þjófagjár, en féll síðan niður í hana sem lóðrétt snjókoma. Í suðri sveimaði bæjarstjórinn yfir byggðinni í lítili flugvél – svona til að kanna hvernig snómoksturinn hafði gengið fyrir sig.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Einn FERLIRsfélaga hafði útbúið nýmóðins snjóþrúgur úr áli – og haft þær meðferðis. Þær voru nú dregnar fram, settar undir fætur og ferðinni haldið áfram upp gilið. Þrúgurnar reyndust vel á annars óþéttum snjónum. Efst í gjánni var sótt um einkaleyfi fyrir framtakinu.
Eftirleiðin reyndist auðveldari, enda hafði kafaldinu létt. Niðurundir að sunnanverðu hafði Grindavík dregið sig í kút í lágrenningnum. Komið var í dalverpið þar sem fyrrum braggahverfi hersetumanna var og síðan undanhallarennslið nýtt niður að Baðsvöllum.
Sjá meira um Þjófagjá og Gyltustíg. Einnig Baðsvelli.
Frábært ferð. Gangan tók 3 klst og 3 mín. (Ljósmyndum úr ferðinni er ekki til að dreifa úr Þjófagjánni því aðstæður þar voru álíka hvítar og sjá má að baki þessum skrifaða texta).

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.