Keflavík vorra daga – Gylfi Guðmundsson

Keflavík

Í Faxa árið 1977 skrifaði Gylfi Guðmundsson um „Keflavík vorra daga“:

Faxi

Faxi, jólablað 1977.

„Inngangur þáttarins er eftir Helga S. Jónsson
Þær munu vera æði margar Keflavíkurnar í landinu. Útræði hefur verið frá þeim flestum eða öllum eins og orðtakið landskunna bendir til — að sama sé í hverri Keflavíkinni er róið. Nafnkunnust er Keflavík við Faxaflóa. Hinar koma nú lítt við sögu lengur nema í nánasta nágrenni þeirra, svo mjög hefur höfuðstaður Suðurnesja skuggasett hinar nöfnur sínar, að engum blandast hugur um hvað átt er við þegar Keflavík er nefnd — hvort heldur er hérlendis eða erlendis.
Landið umhverfis Keflavík er hrjóstrugt, eins og reyndar Reykjanesskaginn allur. Næst eru uppblásnir melar og þegar lengra dregur taka við sandar og hraun. Útsýni er aftur á móti vítt og fagurt — beint á móti blasir við eitt fegursta fjall á landinu — þúsund lita fjallið Esja — og Akrafjall og Skarðsheiðin að baki. Lengra til suðurs blánar Hengillinn og Vífilsfell, svo rísa smáfjöll Reykjanesskagans yfir hraunið og ber Trölladyngju og Keili þar hæst — en Snæfellsjökull rís úr hafi í norðri.

Gylfi Guðmundsson

Gylfi Guðmundsson.

Á kyrrum síðkvöldum laugast suðurfjöllin lifandi litum og á skammdegismorgnum leikur sólin sinn gullna logaleik í skýjunum fyrir ofan. Það er fallegt í Keflavík þegar viðrar vel.
Á Keflavík gnauða líka vindar allra átta. Landsynningurinn og útsynningurinn hlaupa óhindraðir yfir lágan skagann og norðanstormurinn stendur beint upp á víkina — þá þeytist sjórokið yfir bæinn — og þeim sem ókunnugir eru finnst þá ömurlegt um að litast. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, þeir bera því vitni klettarnir á Vatnsnesinu og Berginu, þeir eru brimsorfnir langt inn til lands. – Hér lýkur Inngangi Helga S. Jónssonar.

Íbúar í Keflavík hafa lengst af byggt afkomu sína á verslun, sjósókn og sjávarútvegi. Árabáturinn var eini farkosturinn á miðin og segl voru undin þegar byr gaf. Barningur á opnum Faxaflóa og brimlending var tíðari en að svífa seglum þöndum.

Vísir

Vísir, einn vélbáttanna, í Keflavíkurhöfn.

Fyrsti vélbáturinn kemur til Keflavíkur árið 1908. Bátur sá var 7 tonn að stærð og hét Júlíus. Það þótti mikið þrekvirki að fá þetta vélknúna furðuverk til Keflavíkur og læra þar öll handtök að. Eigendur bátsins voru 24 talsins því til svo djarfra átaka þurfti samábyrgð margra. Fyrsta vertíð bátsins gekk sæmilega eftir því sem þá var og voru menn fljótir að átta sig á því hvað var að gerast — það var verið að leggja árar upp — og með nýrri tækni var hægt að sækja lengra og bera meiri afla að landi.
Togaraútgerð hefst frá Keflavík árið 1948 er togarinn Keflvíkingur er keyptur hingað. Togari þessi var seldur héðan í apríl 1956.

Keflavík

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Nú munu vera gerðir út frá Keflavík 5 stórir skuttogarar, tugir skipa stórra og smárra og fjöldi vélbáta. Og nú er Keflavík orðin ein af stærstu verstöðvum landsins. Öll þessi skip færa okkur björg í bú og veita fjölda fólks vinnu í landi. Útgerðin kallar á margvíslega þjónustu sem ekki er tími til að rekja hér. Þó má nefna skipasmíðastöð, vörubílastöð og ýmiss konar viðgerðarþjónustu.

Árið 1969 voru starfandi í Keflavík 35 útgerðarfyrirtæki, 6 frystihús og 9 aðrar fiskverkunarstöðvar. Verslun hefst í Keflavík líklega í kringum árið 1500 og mun þá jafnframt hafa verið útræði héðan.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Danakonungur gaf út fyrsta verslunarleyfið fyrir Keflavík 1579. Árið 1864 keypti Hans Peder Duus kaupmaður aðrar verslanir sem fyrir voru í Keflavík og þar með varð Duus um tíma einvaldur í verslunarmálum Keflvíkinga. Fljótlega komu þó innlendir aðilar til sögunnar fyrst með útgerð og síðan verslun.
Nú er Keflavík orðin mikill verslunarstaður. Hér er rekið stórt Kaupfélag, sem rekið er í mörgum deildum á öllum skaganum og hér eru verslanir fjölda kaupmanna. Segja má að í Keflavík sé verslunarmiðstöð fyrir byggðirnar í kring.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Í heiðinni fyrir ofan bæinn okkar er Keflavíkurflugvöllur. Þar eru búðir amerískra hermanna sem hér dveljast. Það verður ekki fram hjá því litið að nærvera þeirra hefur haft veruleg áhrif á líf fólks í Keflavík og auðvitað víðar. Niðri í Keflavík býr töluverður fjöldi bandaríkjamanna — og víst er um það að stór hluti leiguhúsnæðis í bænum okkar fer til þessa fólks.Fyrsta félag sem vitað er að stofnað hafi verið í Keflavik er Skotfélagið — „Riffel — Skytte — Forening for Kjeblevig og omegn.” Það var stofnað árið
1869. Nú eru mörg félög í Keflavík með jafn mörgum markmiðum og stefnuskrám. Mörg þessi félög eiga sér merka sögu og hafa sum þeirra markað sín spor í samtíð sína.

Keflavík

Keflavík – Ungmennafélag.

Góðtemplarareglan kom til Keflavíkur fyrir aldamótin. Virðist hún hafa átt gengi að fagna. Og stúkur og bindindisfélög starfa hér enn af fullum krafti. Hér er einnig leikfélag, skátafélög og ýmis félög önnur og klúbbar sem eiga sér víða hliðstæðu annars staðar.
Ungmennafélag Keflavíkur er stofnað 1929. Er það ennþá starfandi og er það elsta starfandi félag í Keflavík. Ungmennafélagið hefur víða komið við sögu. Frá stofnun þess hefur það haldið uppi skemmtanalífi og starfrækt til skamms tíma eina samkomuhúsið sem öll önnur félög áttu sitt innhlaup í. Nú er hús þetta notað til íþróttakennslu á vegum skólanna. Ungmennafélagið hefur lengst af haft forystu um iþróttamál. Félagið á upphaf að byggingu sundhallar, íþróttavallar, leikfimikennslu og annarri íþróttaiðkan.

Keflavík

Keflavík – knattspyrna.

Í Keflavík stunda menn íþróttir af miklu kappi — já flest það sem nefna má í sambandi við íþróttir. Telja má þó víst að knattspyrnan eigi hug og hjarta flestra. Áhugi fólks fyrir þessari skemmtilegu íþrótt er gífurlegur. Íþróttabandalag Keflavíkur hefur lengi átt fast sæti í 1. deild og þegar Í.B.K. á í höggi við andstæðinga sína á knattspyrnuvellinum hópast fólk til að hvetja lið okkar. Margir elta knattspyrnumenn okkar út og suður — og sumir jafnvel til útlanda þegar liðið fer í keppni — enda eigum við gott knattspyrnulið.
Hér koma reglulega út tvö blöð: Suðurnesjatíðindi, fréttablað sem kemur út hálfsmánaðarlega og tímaritið Faxi, vandað og fallegt blað.“

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.02.1977, Keflavík vorra daga, Gylfi Guðmundsson, bls. 14-15.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.