Merkinessel – Möngusel – Miðsel
Gengið var frá rótum Prestastígs við Hundadal og haldið í austur með það fyrir augum að finna Miðsel. Hér gæti verið eitt af síðustu „ófundnu“ seljunum á Reykjanesi (nr. 400), en skv. upplýsingum átti það að vera skammt norðvestan Möngusels. Í leiðinni var ætlunin að líta í Möngusel sem og Merkinesselið.
Þegar gengið var frá borholusvæði ofan við laxeldisstöðina sunnan Kalmanstjarnar var fljótlega komið að görðum, sumum alllöngum, er lágu þversum um Hafnasandinn. Garðar þessir virðast hafa verið viðleitni til að reyna að hefta sandfokið á sandinum. Talsverð kríubyggð er á svæðinu, en unga var hvergi að sjá. Svæðið er gróðurvana, en þó má sjá blóðberg, gullkoll, gullmuru, geldingarhnapp, melgresi og feiri tegundir vera að reyna að festa þar rætur af veikum mætti.
Þegar komið var nokkurn spöl upp á sandinn sást hvar vörður röðuðu sér upp heiðina frá Höfnum áleiðis til suðausturs með stefnu á Prestastíginn ca. norðan við Sandfellshæðina. Sumar vörðurnar eru bara nokkuð myndarlegar. Þarna gæti verið um gamla leið að ræða, en sandfokið og uppblásturinn leyst upp slóðina, a.m.k. á þessu svæði. Hún gæti hin vegar komið í ljós ofan við gjárnar sunnan við hásandinn, en þar er landið enn gróið.
Uppi á brúnum blasti fjallahringurinn við; Stapafell (eða það sem eftir er af því), Súlur, Þórðarfell, Lágafell, Sandfell og Sandfellshæð. Fyrir neðan (í suðri) var greinileg breið sigdæld í misgengi. Síðast þegar gengið var um svæðið (og reyndar í eina skiptið) var komið að austan frá Stapafelli. Sjónarhornið þaðan er svolítið annað en að koma að því að vestan – úr auðninni. En með því að leggja saman huga og hugleiti frá fyrri ferð mátti áætla að Möngusel væri í hraunhól allnokkru austar. Merkinessel yngra (efra) væri þá sunnan við það.
Stefnan var tekin og eftir fyrirfram áætlaðan tíma var komið í selið. Það er undir lágu, ca. mannhæðar háu, misgengi og eru rústirnar nokkuð heillegar. Þar sem komið var úr norðvestri var fyrst fyrir hlaðinn tvískiptur stekkur á hæð. Þá var komið að tveimur tóftum undir gjárveggnum. Framan við þær voru tvær holur með hleðslum í, sennilega brunnar. Skammt austar voru einnig tvær rústir. Austan við þær var myndarlega hlaðinn stekkur. Vestan við Merkinesselið er djúp gjá, sem hugsanlega hefði verið hægt að fá vatn úr fram eftir sumri (snjór á botni). Í Merkinesseli eru greinilega tvær selsstöður. Bæði benda húsarústirnar til þess sem og stekkirnir tveir.
Gengið var til norðurs frá selinu, áleiðis að áberandi vörðu á hraunhól. Sunnan undan henni er Mönguselsgjá. Í henni er m.a. nokkuð myndarleg hleðsla undir girðingu, sem sjá má staura af í beina stefnu frá suðri til norðurs (væntanlega gróðurverndargirðingin (Grindavíkurgirðingin)). Norðan hólsins er kvo í hraunhól er opnast til norðurs. Í henni eru tóftir Möngusels, tvískipt hús og stekkur í brekku sunnan þess. Selið er á fallegum og skjólsælum stað.
Þá var haldið áleiðis að Merkinesseli eldra (neðra). Samkvæmt gömlu korti, sem var haft meðferðis, gat afstaða þess passað við svonefnt Miðsel (sem merkt var á kortið sem slíkt). Selið er mjög gróið, en eyðilegt umhverfis. Það er allnokkru vestan við gróðurverndargirðinguna gömlu. Í því eru a.m.k. fjórar tóftir og stekkur skammt vestan þess. Fokið er í hann, en vel má greina hleðslur efst í honum. Vörðurnar fyrrnefndu eru þarna skammt vestar.
Mjög erfitt er að finna þessi sel, einkum hið síðastnefnda.
Í bakaleiðinni var gengið um “eyðisand”. Fuglalífið; kjói, spói og kría, voru ráðandi, en hvergi var unga að sjá. Tófuspor sáust í sandinum, en hvergi spor eftir mann. Svæðið virðist ekki vera fýsilegt til göngu séð neðan frá vegi, en þegar upp á sandinn er komið er bæði víðsýnt og alltaf eitthvað nýtt að sjá. Borist hafa upplýsingar um hlaðnar refagildrur nokkur neðar. Þeirra verður leitað í annarri ferð um neðra svæðið.
Tækifærið var notað og selin rissuð upp og GPS-punktar teknir. Uppdrættirnir af minjasvæðum á Reykjanesi eru þar með orðnir 97 talsins.
Veður var frábært – sól og blíða. Gangan tók 3 klst og 34 mín.