Kirkjuvogskirkja

“Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland”, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmans-tjarnarhverfi. 

Kirkjuvogur 1900

Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð. Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn.
Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað  ók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Árið 1866 Iét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna.”

Heimild:
-Dagur, 18. desember 1999, bls. 1 og 3.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.