Hverasvæði

Farið var í ferð um Reykjanesið frá Njarðvíkum til Grindavíkur undir leiðsögn Þorvaldar Arnar Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Ferðin var liður í námi leiðsögumannsefna um Reykjanesið.

Keflavík

Grófin – Skessuhellir.

Byrjað var í Grófinni í Keflavík. Undir berginu að norðanverðu útskýrði Ægir bergið og myndun þess. Það er að mestu blágrýti og grágrýti. Þétt setlög liggja ofan á berginu. Þarna er myndarlegur fyrrum sjávarskúti til skjóls. Þorvaldur útskýrði og kynnti m.a. fjörukál, þúfusteinbrjót og geldingarhnapp til sögunnar. Sú litadýrð virðist meiri en ella á annars gróðursnauðum sæbörðum bergveggjum Reykjanessins en víðast hvar annars staðar á landinu.
Haldið var yfir í Helguvík. Þar má sjá í útsprengdum hömrum þykk hraun- og berglögin og sumsstaðar rauðleitan bruna á milli þeirra, eingum að norðanverðu.
Ægir útskýrði þunn jarðlögin undir jarðveginum á svæðinu, t.d. í kringum Rósarselsvötn. Þau eru lek, en hafa þéttst með tímanum þannig að vatnið helst þar á yfirborðinu, a.m.k. á vatnasvæðinu.

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Á Pattersonsvæðinu var leitað að “lífstöðugrjóti”. Í því eru skeljar er gos undir jökli fyrir u.þ.b. 2500 árum hafði tekið með sér af sjávarbotni og má finna þær í hörðum setlögunum, sem þarna eru. Nokkur falleg sýni fundust.
Þorvaldur benti á að víða væri víðir að koma upp á skaganum, en það bendir til þess að hann hafi verið þar allvíða áður en gróðureyðingin varð.
Í Höfnum var farið niður á gamla hafnargarðinn og fuglalífið skoðað. Mátti m.a. berja augum fargestina tildru og rauðbristing, kríu, skarf, æðarfugl, auk fagurlitaða gula fléttu (fuglaglæðu) á steinum, að ekki sé talað um þang og þara.
Reykjanesið sjálft utan Hafna er sandorpið dyngjuhraun. Hraunreipi, sem einhvern tímann hefur einkennt yfirborðið er nú afsorfið. Annars gefur gróðurleysið svæðinu hið fallegasta yfirbragð.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Stóra-Sandvíkin er melgresisparadís. Melgresið hefur bundið sandinn og myndað háa skjólgóða sandhóla næst sjónum og ofan hans. Þarna munu hafa verið upptök þess sands, sem kom af sjó og fyrrum fauk um Hafnaheiðina og lagðist síðan yfir Hafnir. Það var því góð hugmynd að byrja á því að hefta sandfokið í “uppsprettunni” að mati Þorvaldar. Í Sandvíkurfjörunni mátti m.a. sjá hornsvamp, fjöruarfa, blálilju, klóþang (með einni bólu), bóluþang (með tveimur samhliða bólum og svolítið þynnra), söl og þangskegg, auk skelja og kuðunga. “Dýnamatiskt umhverfi” að mati Þorvaldar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Í Stömpum var gengið upp í einn þeirra. Skoðað var hvaða gróðurtegundir gígurinn hafði að bjóða upp á. Reyndust þar vera um 20 talsins, svona fljótt á litið. Í jaðri gígsins er lítið op og má finna uppstreymið út úr því. Innan við opið er fallegur dropasteinn. Með skóflu væri eflaust hægt, þó ekki væri annað, að kíkja innfyrir og sjá hvar þar kann að leynast. Stamparnir eru taldir hafa myndast um 1211 sem uppkoma á hrauni, sem síðan rann frá gígunum eftir hrauntröðum og loks um “víðan völl”. (Norðan undir Stömpum er skráðar heimildir um sel, sem á eftir að staðsetja, en það getur reynst erfitt sökum sandfoksins. Selsins er getið í fornleifaskráningu svæðisins). Stamparanir eru gjall- og klepragígar og því háir, brattir og lausir í sér, sem er einkennandi fyrir slíka gíga. Eldra-Stampahraunið er um 1500 ára gamalt, en Yngra-Stampahraunið er talið vera frá 1211.

Reykjanesviti

Reykjanes – Forsetahóll.

Haldið var framhjá Forsetahól á leið út að Reykjanesvita. Ægir sagði frá tilvist nafnsins (til í tveimur útgáfum), sagði frá myndun Bæjarfells og Vatnsfells (vatnið, sem fellið dregur nafn sitt af er hægra megin við veginn áður en beygt er áleiðis að fellunum), en þau munu vera úr bólstrabergi eins og Forsetahóll (Litlafell).
Niður við sjávarkambinn norðan Valahnjúka útskýrði Ægir bergmyndanirnar. Undir kambinum mátti sjá lögin “ljóslifandi”. Undir er sandlag. Efsta lag þess hefur hitnað er nýtt hraun lagðist yfir og soðnað þannig að það varð hart. Ofan á hraunlaginu er síðan nýrra hraunlag.

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Þessa skiptingu mátti ljóslega sjá í Valahnjúkum og Börnunum beint framundan kambinum. Neðst (þ.e. það sem sjáanlegt er) er hart setlag, þá grágrýti og loks sundurlausari hraunlög, sem sjórinn á tiltöllega auðvelt með að mala niður. Karlinn er utar, harður eins og steinn, en Kerlingin er horfin í hafið. Valhnúkur er úr móbergi, en allráðandi er brotaberg, bólstraverg og grágrýtisinnskot.
Fyrsti viti landsins var byggður á honum árið 1878, en sjórinn er nú búinn að brjóta hnúkinn þar sem vitastæðið var. Undir kambinum að austanverðu má sjá fallega hlaðna aðdráttargötuna.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Við Gunnuhver voru jarðhitaeinkennin útskýrð. Tíminn var einnig notaður til að skoða grunninn undan húsi Höyers, sem þar bjó um tíma, tóftir útihúsa hans og garðhleðslur. Við Gunnuhver vex m.a. Njaðurtunga.
Þegar haldið var frá Gunnuhver mátti sjá Sýrfell á vinstri hönd. Vestan þess er fallegur hraungígur á öxl. Nefnist hann Hreiður. Yngra Sýrfellshraunið (1500 ára gamalt) er talið hafa komið úr gígnum. Löng hrauntröð er út frá því til suðurs, vnstra megin þjóðvegarins. Skálafell og Háleyjabunga eru á hægri hönd. Í hinu fyrrnefnda er gígur og gosrás til hliðar við hann (Skálabarmshellir) og í hinu síðarnefnda er fallegur og stór sprengigígur.

Reykjanesviti

Gata að grjótnámunni við Reykjanesvita.

Á leiðinni til Grindavíkur er ekið yfir Skálafellshraunið á “smábleðli”. Þá tekur Klofningshraunið við, en það mun hafa komið úr Eldvörpum (Eldvarparhraun – H15). Það er helluhraun, tiltölulega slétt, en margbrotið.
Brimketillinn er þarna á leiðinni, á sjávarbakkanum, öðru nafni Oddnýjarlaug. Um er að ræða fallegt náttúrfyrirbæri.
Sandgellshæðin er um 13000-14000 ára. Ú þeirri dyngju er komið langmesta magn hrauna á utanverðum skaganum.
Staðnæmst var við Grænubergsgjá og lýsti Ægir tilkomu hennar (vesturausturstefnan) á sprungusvæðinu. Í gjánni er ferskvatn og hefur hann séð ála í henni, sem hann taldi hafa verið “handfærða” þangað. Álar “stofnuðu” ekki heimili á Íslandi, heldur langt suður í höfum.

Þorbjörn

Þorbjörn.

Þorbjörn er talinn hafa myndast seint á síðasta ísaldarskeiði, en hann er sennilega eldri að stofni til, eða frá næst síðasta ísaldarskeiði. Í honum eru tvö misgengi eða gjár og hefur toppur hans sigið á milli þeirra. Sprungurnar liggja til norðurs eða þvert á brotabeltið (rekabeltið). Fjallið er hlðið upp úr bólstrabergi og móbergsþurs með bólstrum og bólstrabrotum á víð og dreif. Utan á fajallinu er kápa úr jökulbergi.
Norðan Lágafells (vestan Þorbjörns) er Illahraun og Illahraunsgíga. Talið er að hraunið hafi runnið á tímabilinu frá 1211 til 1226. Hraunið hefur runnið úr a.m.k. 5 gígum. Nyrsti gígurinn er sýnum stærstur.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Bent var á “undirlendi” Svartsengisfjalls sem ágætt dæmi um vallendismyndun. Vatn og lækir bera jarðveg úr hlíðum fjallsins niður á láglendið þar sem það myndar flatir er gróa síðan upp, sbr. einnig Höskuldarvelli, Sóleyjarkrika, Selsvelli og Baðsvelli.

Ekið var um Sundhnúkahraun og um Arnarseturshraun. Hið síðarnefnda er hellaríkt. Þar hafa fundist allnokkrir hellar, s.s. Dollan, Hnappurinn (Geirdalur) og Kubbur) og fleiri eiga eflaust eftir að finnast. Hellar myndast yfirleitt í þunnfljótandi hraunum.

Hnappur

Í Hnappnum.

Arnarseturshraun er talið vera frá 1226. Hraunið er aðallega komið frá 400 metra langri gígröð um 500 m austan við Grindavíkurveginn.
Þegar komið er að sigdalnum við Seltjörn eftir að Arnarseturshrauni sleppir er farið yfir tvö hraunlög; fyrst smábleðil af Sandfellshæðarhrauni og síðan grágrýtissvæði frá Grímsholti. Misgengisstapar eru beggja vegna; á aðra hönd bjallarnir (Háibjalli, Kálfgarðsbjalli o.fl.) og á hina misgengin í heiðinni (Nýjaselsbjalli, Huldugjá, Aragjá o.fl.).
Þegar nálgast tók Njarðvík lýsti Þorvaldur uppgræðslutilraunum norðan Reykjanesbrautar og einkennum mólendissvæðisins þar. Lauk lýsingum þeirra svo með vangaveltum um hið vanþróaða umræðustig um vægi náttúruverndar á svæðinu.
Frábært veður.

Reykjanes

Sjávarhellir á Reykjanesi.