Flekkuvíkursel III

Flekkuvíkursel

Ætlunin var að skoða dæmigert sel á Reykjanesskaganum, eitt af u.þ.b. 400 slíkum, sem FERLIR hefur skoðað hingað til í hinu upprunalega landnámi Ingólfs fyrrum. 

Tvöfaldur stekkur í Flekkuvíkurseli

Flekkuvíkurselið hefur að geyma húsaleifar typískrar húsaskipan seinni tíma selja á Skaganum sem og öll tilheyrandi mannvirki; stekk, kví, vatnsstæði, selstíg og selvörðu auk eldri selminja, sumar hverjar m.a.s. torráðnar. Auk þess eru í selstöðunni leifar eldri selja. Þá er staðsetningin t.a.m. dæmigerð fyrir sel á norðanverðum Reykjanesskaga, þ.e. í skjóli fyrir austanáttinni.
Þegar komið var upp í Vatnsleysuheiðina var selstígnum fylgt upp í Flekkuvíkursel. Tvær áberandi vörður, Bræður, hlið við hlið, eru í heiðinni. „Þær nefnast Bróðir nyrðri og Bróðir syðri“, segir í örnefnaskrá.
Selstaðan er í grónum hvammi. Í honum eru tvö sel, annað yngra. Skammt norðar, einnig í skjóli undir klapparhæð, er þriðja selið. Sjá má þrjá stekki ef vel er að gáð, en það bendir til þess að selstöðurnar í Flekkuvíkurseli hafi verið a.m.k. þrjár, ekki allar endilega frá sama tíma.
Vatnsstæðið í FlekkuvíkurseliÞannig er miðselið greinilega yngst og sennilega það sel er lagðist síðast af rétt fyrir 1880.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Flekkuvík: „Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Þetta ár eru hjáleigurnar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð.“
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli,  sem hétu Holt og Járnshaus, skv. örnefnalýsingu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.” “Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálftjarnar,” segir í örnefnaskrá GE. “Þar rétt hjá er Selstígurinn beint suður í Flekkuvíkursel.
Norðurstekkurinn í FlekkuvíkurseliÞað stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. .. Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka.” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. “Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs [Erlendssonar], Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa.” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1879.
“Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholt og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það.”
Kolagröf? í FlekkuvíkurseliFERLIR hefur nokkrum sinnum komið í Flekkuvíkursel. Í einni af fyrri lýsingunum segir: “Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursels, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.” Auk framangreinds má geta þess að í Seltúninu eru leifar eldri selja á tveimur stöðum, auk leifar af eldri stekk.
Yngsta tóftin í FlekkuvíkurseliAllnokkrar vörður eru ofan og umhverfis Flekkuvíkursel. Í örnefnalýsingu segir að: “Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestur-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum.”
Þegar selstöðurnar þrjár eru skoðaðar má sjá þrjú rými í sérhverri þeirra, dæmifert fyrir sel frá upphafi á Reykjanesskgagnum. Vestasta selið liggur svo til þvert á Vestari-Flekkuvíkurselás. Tóftirnar eru nokkuð reglulegar og ágætur vitnisburður um sel frá miðtímabili seljabúskaparins hér á landi. Þá var að komast skipulegri mynd á húsaskipanina. Rýmin eru í einfaldri röð og má vel greina hvar eldhús, baðstofa og búr hafa verið í húsaskipaninni. Tóftirnar eru grónar, en standa vel.
Selið skammt norðar eru miklu mun reglulegra og heillegra. Í því er miðhúsið heillegast; baðstofan. Í því sjást hleðslur í innanverðum veggjum. Dyr eru mót suðvestri. Veggirnir standa grónir.
Selvarða á Vestari-FlekkuvíkurselásnumStekkirnir gefa jafnan til kynna hversu margar selstöður hafa verið í hverju seli. Einungis einn stekkur virðist vera framan við framangreind tvö sel. Ef vel er að gáð má sjá að nýrri stekkur hefur verið hlaðinn upp úr eldri stekk. Fótstykki gamla stekksins sést norðan og austan við nýrri stekkinn, nú nær gróið yfir hann.
Vatnsstæðið sést enn á Nyrðri-Flekkuvíkurselásnum, norðavestan undir vörðubroti, sem þar er.
Nyrsta selið er líklega elst. Í því eru smæstu rýmin. Gengið hefur verið inn í baðstofuna og búrið frá sama stað; þ.e. búrið til suðurs og baðstofuna til austurs. Eldhúsið er rétt norðan við baðstofuna. Tóftirnar eru grónar. Stekkurinn frá þessu seli er í gróinni kvos skammt norðvestar.
Þegar selstöðurnar voru gistaðar í austanáttinni mátti vel finna hvers vegna þeim var valin þessi staðsetning.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Ein tóft, stök, skammt norðan nyrstu selstöðunnar, hefur vakið vangaveltur. Nú var hún gaumgæfð bæði vel og vandlega. Niðurstaðan er að þarna hafi verið kolagröf. Í tóftinni má sjá ferkantaðar hleðslur og virðist hafa verið hróflað að hleðlsunni. Það verður að þykja eðlilegt þarna því undir er slétt hraunhella í allar áttir. Sennilega má finna undir gröfinni gat á hraunhellunni. Hlaðið hefur verið upp með gatinu og þá myndast þetta mannvirki, sem virðast þá vera leifar fyrrum kolagerðar í heiðinni, sem áður var skógi vaxin. Kolagröfin er við hliðina á elsta selinu í Flekkuvíkurselstöðunni og verður því að teljast til eldri minja – og þar með sérstaklega áhugaverð fornleif.
Sjá MYNDIR frá Flekkuvíkurseli.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.