Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga
Jón Jónsson, jarðfræðingur, vitnaði um gosvirkni Reykjanesskagans í viðtalsgrein í Morgunblaðinu 1965 undir fyrirsögninni „Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga„:
„Jón Jónsson, jarðfræðingur, hefur að undanförnu unnið að því að rannsaka sprungukerfin og misgengið á Reykjanesskaga, sem er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins, og er að gera jarðfræðikort í stórum mælikvarða af því svæði. Rannsóknir á sprungukerfinu þarna hafa líka hagnýta þýðingu vegna staðsetningar á köldum uppsprettum og heitavatnsæðum, en vatn kemur mest fram í sambandi við sprungurnar. Varla var hægt að drepa niður fæti í skrifstofu Jóns hjá Jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar, þegar við komum þangað í þeim tilgangi að eiga við hann viðtal um rannsóknir hans á Reykjanesskaga og það sem hann hefur orðið vísari með þeim. En hvar er betri staður til að ræða hraun og eldfjallamyndanir en innan um hauga af grjóti og alls kyns jarðfræðikortum?
Fyrst skulum við kynna Jón Jónsson fyrir lesendum. Hann er Vestur-Skaftfellingur, frá Kársstöðum í Landbroti, og því alinn upp við að hlaupa illfær hraun, án þess að láta sér verða það að fótakefli. Á Kársstöðum var fátækt, og Jón átti því ekki kost á langskólanámi. Eftir að hann hafði verið á Eiðaskóla, hélt hann utan til að freista þess að bæta við menntun sína. Fór til Svíþjóðar, þar sem hann ílengdist í 25 ár. Hann gekk í alþýðuskóla í Svíþjóð, tók ýmis fög í bréfaskólum og las og tók próf í þeim menntaskólagreinum, sem hann hafði áhuga á og vann alltaf fyrir sér jafnhliða náminu.
— Þegar ég þóttist slarkfær með stúdentsmenntun, lagði ég inn umsókn í Uppsalaháskóla um að fá undanþágu frá stúdentsprófi, segir Jón. Slíkar umsóknir ganga til háskólakanzlara, sem sendir þær til háskólaráðs. en það er skipað 9 prófessorum. Þeir fóru í gegnum vottorð mín og próf, sem voru eitthvað um 30 talsins. Þar með voru próf í mörg um menntaskólagreinum, en þó ekki öllum. Mér fannst þar svo margt innan um, sem ekkert mundi gera nema tefja mig. Og ég fékk sem sagt undanþáguna og innritaðist í Uppsalaháskóla sem sænskur stúdent haustið 1954.
— Var ekki erfitt að taka þetta svona?
— Jú, að vísu. En það hefði verið léttara ef maður hefði vitað að þetta var í rauninni hægt. Þá hefði ég getað skipulagt þetta betur. En auk jarðfræðinnar hafði ég ýms önnur áhugamál, las t.d. mikið í bókmenntum.
Vorið 1958 tók Jón svo lokapróf sín í jarðfræði við Uppsalaháskóla, lauk bæði kandidatsprófi og „licentiat“-prófi á sama degi. Þá munaði minnstu að hann færi í olíujarðfræði og réði sig hjá sænsku olíufyrirtæki. Gert var ráð fýrir því að hann yrði í Bandaríkjunum við framhaldsnám í eitt ár og síðan í 3 ár við störf í Portúgal. Olíujarðfræðingar voru á þeim árum hæst launuðu jarðfræðingarnir og mikill skortur á þeim, þó nú hafi það margir lagt þessa grein fyrir sig að þeir fylla nokkuð vinnu markaðinn.
— En um þetta leyti opnaðist möguleiki til að koma heim og fá starf á Raforkumálaskrifstofunni, segir Jón, og ég tók það. Ég var búinn að lesa jarðfræðina með það fyrir augum að starfa heima á Íslandi og átti erfitt með að hugsa mér að flytja með fjölskyldu mína til Portúgal, þó það gæfi meira í aðra hönd. Heitt og kalt vatn kemur upp með sprungunum.
— Tókstu þá strax til við þessar rannsóknir á Reykjaneshluti jarðfræðikortsins af Reykjanesskaga, sem Jón er búinn að vinna. Það er „hællinn“ á skaganum. Þar sjást m.a. Eldvörpin, sem örugglega hafa gosið eftir landnámstíð og þar sem enn er hiti í einum gígnum (hægra megin) og Stamparnir, sem líklega hafa líka gosið eftir að land byggðist. Og sprungurnar hafa allar sömu stefnu.
— Áður en ég flutti heim vann ég að kortagerð yfir Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni, jarðfræðingi. Það kom í minn hlut að kortleggja syðri hluta svæðisins. Þá lenti ég á sprungusvæðinu og áhuginn vaknaði. Þegar ég kom heim, ætlaði ég svo strax að taka Krýsuvíkursvæðið. Og út frá því leiddist ég yfir á allan Reykjanesskagann, því þetta er svo mikið eldfjalla- og jarðhitasvæði og mér fannst að þetta verk þyrfti að vinna. Einkum þá sprungukerfin þar og missigið, því það hefur beinlínis hagnýta þýðingu.
Það er greinilegt að lindirnar eru tengdar bergsprungum og misgengissprungum. T.d. koma bæði Gvendarbrunnarnir og Bullaugun upp við sprungur. Sprungurnar við Bullaugun var ég reyndar búinn að skoða áður en borað var þar. Ég ætlaði sem sagt að vinna þetta strax þegar ég kom heim 1958, en svo mikið hefur hlaðizt á mig af aðkallandi skyldustörfum í sambandi við boranir eftir köldu og heitu vatni, að það hefur orðið verulega minna en til stóð. Það hefur allt verið unnið meira og minna í íhlaupum.
— Hve stórt svæði ertu búinn að taka fyrir?
— Ég hefi tekið heilt svæðið fremst á Reykjanesskaga austur að Grindavík að sunnan og Vogarstapa að norðan og að auki sneið frá Hafnarfirði suður undir Krýsuvík og ýmsa bletti annars staðar og er ætlunin að tengja þá saman og fá af þessu heillegt jarðfræðikort í mælikvarðanum einn á móti 25 þús., sem hlýtur að verða nokkuð nákvæmt, en á minni kortum er ekki hægt að koma öllu fyrir.
— Og þetta er allt eitt jarðeldasvæði, þakið hraunum?
— Já, það væri hægt að fara fótgangandi alveg utan frá Reykjanestá og að Þingvallavatni, án þess að stíga af hrauni. Þetta er eitt af mestu jarðeldasvæðum landsins. Á þessum skika, mem ég hefi verið með, eru 24 mismunandi jarðeldastöðvar. Þær eldstöðvar hafa allar gosið eftir ísöld og einhverjar þeirra væntanlega eftir að ísland byggðist. Eldvörpin við Grindavík hafa örugglega gosið eftir landsnámstíð og kannski líka Stamparnir, sem eru tvær sprungur á Reykjanesinu og hefur hraunið úr annarri horfið undir hraun úr hinni.
— Er engar heimildir að finna um þessi eldgos?
— Um slíkt eru aðeins óljósar sagnir. Espólín tilfærir, að hálft Reykjanes hafi brunnið árið 1389—1390. Nú er óvíst hvað hann hefur átt við, en um tvennt er að ræða, gos í Eldvörpum eða Stömpum. Ég tel Eldvörpin líklegri, því þá hefur gosið úr um 8 km. langri sprungu, og t.d. séð frá Snæfellsnesi, hefði getað litið svo út sem hálfur Reykjanesskaginn brynni. Þá eru sagnir um að Ögmundarhraun hafi runnið um árið .1340. Og þar höfum við sannanir, því leifar eru til af bæ, sem hraunið hefur runnið að nokkru yfir. Þarna heitir Húshólmi, en hugsanlegt er að það hafi verið Krýsuvíkurbærinn á þeim tíma. Þarna þyrfti að grafa upp.
— Heldurðu að enn sé hætta á eldgosum á Reykjanesskaga?
— Já, ég hefi enga trú á að þetta jarðeldasvæði sé útdautt.
— Og hvar gæti helzt gosið?
— Maður gæti búizt við eldgosi á öllu svæðinu frá Þingvallavatni út á Reykjanestá, því það er eldbrunnið alla leiðina. Ef maður tekur t.d. svæðið frá Selfjalli, sem er upp af Lækjarbotnum og vestur undir Húsfell, sem er austur af Helgafelli, þá eru þar a.m.k. á annan tug hrauna, sem öll hafa runnið eftir ísöld. Nú, Elliðaárhraunið sem hefur komizt næst Reykjavík, er samkvæmt aldursákvörðun ekki nema 5300 ára gamalt.
Rétt austan við Heiðmörkina er líka nokkuð stór hraunbreiða, Hólmshraun, þar sem eru fimm mismunandi hraunstraumar og sá elzti rennur þvert yfir Elliðaárhraunið. Þau eru þá öll yngri en það og við höfum þarna 6 hraun, sem eru yngri en 5300 ára gömul. Engar sagnir eru til um myndun þessara hrauna, hvort sem þau eru nú forsöguleg eða ekki. Annars er enn hiti sums staðar á eldstöðvunum, svo sem í einum gígnum í Eldvörpunum.
— Þá gæti þéttbýlinu hugsanlega stafað hætta af gosum?
— Já, hugsanlega gæti byggð stafað hætta af slíku, svo og ýmsum mannvirkjum, eins og vatnsbólum. Þó mundi ég telja að Bullaugun yrðu aldrei í hættu og ekki heldur sjálf Reykjavík. En hluti af Hafnarfirði aftur á móti.
— En hvað um jarðskjálftahættu?
— Vúlkaniskir jarðskjálftar eru nú yfirleitt ekki eins voðalegir og jarðskjálftar í t.d. háfjallahéruðum, þó þeir geti verið snöggir. Og þetta hafa ekki verið neinir stórfelldir jarðskjálftar hér.
Þegar mest hrundi af húsum árið 1896, voru byggingar svo lélegar, að enginn samanburður fæst af því. Þó er sjálfsagt nauðsyn á traustum byggingum. Annars tel ég að hreyfingar séu ekki hættar á sprungusvæðunum hér, þó hægt fari. Enda standa þessar sprungur allar í sambandi við stóra Atlantshafshrygginn.
—Og þessar sprungur hafa hagnýta þýðingu fyrir okkur vegna kalda vatnsins, sagðirðu okkur áðan. En hvað um heita vatnið?
— Það er greinilegt að heita vatnið er tengt sprungulínunum á Hengilsvæðinu og reyndar á Reykjanesfjallgarðinum öllum.
Hvernig samhengið er djúpt niðri veit maður ekki, en heitt vatn kemur upp með sprungunum. Nóg kalt vatn, enginn veit um heita vatnið.
— Er nægilegt vatn hér á Reykjanesfjallgarðinum, bæði kalt og heitt, svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því í framtíðinni hér í þéttbýlinu?
— Já, nóg er af köldu vatni fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð og nágrenni. Við boruðum t.d. við Kaldársel niður á 860 m. dýpi og þar var kalt vatn alla leið niður. Erfiðara er að svara þessari spurningu um heita vatnið. Enginn getur sagt um hvort nóg er af því, eða hve mikið.
— Koma allar þessar boranir þér ekki að miklu gagni fyrir almenna jarðfræðilega rannsókn á Reykjanesskaganum?
— Jú, að vísu, en það er orðið svo mikið um þær, að enginn hefur tíma til að vinna úr þeim.
Þegar aðkallandi er að finna kalt eða heitt vatn á einhverjum stað, verður maður að fara á þann stað og athuga næsta nágrenni og segja svo sitt álit. Ef um heitt vatn er að ræða, gerir Guðmundur Pálmason jarðeðlisfræðilegar mælingar. En svo mikill tími fer orðið í slíka bráðabirgðarannsókn, að maður hefur orðið að láta sér nægja bráðabirgðayfirlitið eitt. Auðvitað hefði verið æskilegt að hafa þetta ýtarlegra, en við erum svo fáliðaðir að það hefur ekki getað orðið eins og ég hefði helzt kosið. En það stendur vonandi til bóta. Hér er nú kominn jarðfræðingur, Jens Tómasson, sem hefur verið að vinna úr gögnum frá Vestmannaeyjum og er að byrja á efnivið frá Húsavík. Og mikið magn af efni til úrvinnslu er í höndum Atvinnudeildarinnar.
Svo þetta lagast vonandi í framtíðinni.
— Nú er komið jarðfræðikortið þitt af „hælnum“ á Reykjanesskaganum. Hefurðu áætlun um hvenær tilbúið verður kort af öllum skaganum?
— Ég geri mér vonir um að fá betri tíma næsta sumar og geta snúið mér eindregnar að Reykjanesskaganum en ég hefi hingað til getað. Svo bætir það mikið úr, að búið er að vinna gott verk á austurenda skagans, eem er Hengilssvæðið. Þar hefur Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, unnið að rannsóknum undanfarin sumur og kortlagt sprungukerfin um leið. Einnig hefur Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, kortlagt Hellisheiðina, þar á meðal sprungusvæðin.
Þetta hvort tveggja flýtir fyrir mér og gerir auðveldara að fylla í á milli. Svo þar ætti verkið að ganga fljótar. En hvenær því verður lokið þori ég ekkert að segja um. — E. Pá.“
Sjá meira um jarðfræði Reykjanesskagans HÉR.
Heimild:
-Morgunblaðið – 35. tölublað (11.02.1965), Jón Jónsson (Rannsóknir á Íslandi); Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga, bls. 13 og 17.