Staðarhverfi

Grindavík á sér bæði merka og mikla sögu. Menningar- og sögutengd ganga var um Staðarhverfi, sögusvið verslunar-, kirkjustaðar- og útgerðar í Grindavík, mannfólk mikilla sæva. Gangan hófst ofan við kirkjugarð Grindvíkinga með vígslu á fjórða söguskiltinu sem sett hefur verið upp í Grindavík, og nú í Staðarhverfi, eitt af fjölmennustu hverfunum þremur í Grindavík.
Nokkrir þátttakenda nálgast söguskiltið á HoluhólGengið var frá Holuhól að Staðarbrunni, að gamla Staðarbænum, hinum nýrri, kirkjustæðinu í garðinum, klukknaporti, sem þar er og síðan haldið um Sandskörð, að Hvirflum og með ströndinni yfir að Stóragerði, Kvíadal og Krukku. Á leiðinni voru rifuð upp bæjarnöfn 28 bæja, staðsetningar þeirra og tilvist í tíma. Bæði gamlir Staðhverfingar mættu við þessa athöfn sem og afkomendur þeirra.
Kirkja var á Stað allt frá 13.öld til 1907. Í Staðarhverfi var konungsverslun á 18. öld, eða þangað til hún var flutt til Básenda. Árið 1703 var Staðarhverfið fjölmennast í Staðarsókn (Grindavík). Áttatíu árum seinna var þar orðið fámennast. Í dag er enginn íbúi skráður í Staðarhverfi, en þar má sjá tóftir tveggja lögbýla, eldri og nýrra á báðum stöðum, og 24 hjáleiga frá mismunandi tímum. Ýmislegt annað var skoðað, sem fyrir augu bar á leiðinni.
Í lok göngu var stefnt að því að hafa heitt á könnunni [að Stað] í Dúukoti.

Staðarhverfi

Horft yfir Staðarhverfi.

Á Holuhól var rifjuð upp tilurð skiltisins, þ.e. frumkvæði og aðkomu Saltfiskseturs Íslands að því verki, líkt og hinna þriggja, stuðningi Pokasjóðs og jákvæðni fulltrúa Grindavíkurbæjar og Grindvíkinga. Í raun má með þessu segja með allnokkrum sanni að þarna hefur bæjarfélagið í raun sýnt mikla framsýni og lagt varanlegri grunn að varðveislu helstu menningarminja þess sem og staðsetningu örnefna og kennileita. Íbúar bæjarfélagsins munu eiga auðveldara í framtíðinni að staðsetja slík kennileiti og það mun jafnframt gera þeim kleift að sjá hið sögulega samhengi í raunverulegra ljósi en margir aðrir.
Þetta virðist kannski ekki svo merkilegt nákvæmlega Staðarbrunnurinn, byggður 1914 - útihúsin á Stað og kirkjugarðurinn fjærnúna – þ.e. NÚNA, en mun án nokkurs vafa verða komandi kynslóðum ómetanlegt þegar fram líða stundir. Það gleymist stundum að gera ráð fyrir arfleifðinni í amstri og hita hverdagsins. Sagt hefur verið, að sá sem þekkir fortíðina eigi bæði auðveldara með að skilja nútíðina og spá í framtíðina.

Á Bringum, milli Holuhóls og Staðarbrunns, var ekki hægt að halda lengra án þess að þakka öllum þeim er komu að örnefnaskráningunni, staðsetningu þeirra sem og sýnilegra minja (sjá í lokaorðum á skiltinu), en þar höfðu Ólafur (heitinn) Gamalíelsson, Helgi, bróðir hans, og systir, Guðrún, hönd á plóginn. Loftur Jónsson hafði haldið utan um örnefnaþáttinn og staðið sig með mikilli prýði. Hafa ber í huga að það er ekki heiglum hent að rata rétt á alla slíka staði, sem jafnvel hafa getið tekið breytingum á hinum ýmsu tímum. Á örnefna- og minjaskiltinu stendur m.a. (og er þá vitnað m.a. í Sögu Grindavíkur, Staðhverfingabók, lýsingar Gísla Brynjólfssonar, Geirs Bachmann og Guðsteins Einarssonar):

Þú ert á Holuhól og horfir yfir Staðarhverfið.
Tóftir KvíadalsÁ kortinu sjást staðsetningar 28 bæja, hjáleiga og nýbýla, sem heimildir eru til um að hafi verið í Staðarhverfi, á mismunandi tímum. Öll býlin eru í eyði. Breytt samfélagsgerð og búskaparhættir höfðu þar mest áhrif.
Staður (9 og 10) var lögbýli og kirkjujörð. Kirkjan á Stað var innan kirkjugarðsins, en var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfið 1908 og endurvígð þar ári síðar. Búið var á Stað fram til ársins 1964.  Eldri hjáleigur voru Krókur (1), Beinrófa (8), Sjávarhús (12), Krukka (6), Móakot eldra (2) og Blómsturvellir eldri (11). Þær fóru í eyði á 18. öld, síðast Sjávarhús í Básendaflóðinu 1799. Búseta á öðrum bæjum í Staðarlandi lagðist af sem hér segir; Móakot (3) árið 1945, Stóra-Gerði (15) 1918 (hafði byggst 1789), Kvíadalur (13) 1919 (hafði byggst 1789), Bergskot (5) 1927, Litla-Gerði (14) 1914, Nýibær (4) 1910, Merki (17) 1943, Lönd (16) 1946 og Melstaður (18) 1950.
Húsatóftir (25 og 26) fóru í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatófta á árunum 1906-1934. Búseta á þeim lagðist af sem hér segir: Dalbær (21 og 22) árið 1946, Vindheimar (20) 1919, Hamrar (24) 1930 og Reynistaður (19) 1938. Í Jarðabókinni 1703 er getið um hjáleigurnar Garðhús (27) og Kóngshús (28). Ekki er vitað með vissu hvar Garðhús var.
Löndunarbryggja var byggð í hverfinu 1933. Ofan við hana má sjá leifar af fiskverkunar-, lifrabræðslu- og salthúsum. Auk örnefnanna má sjá ýmis gömul [og áður óskráð] mannvirki á kortinu.

Hverfin
Staðnmæst við gamla kirkjustæðið í StaðarkirkjugarðiMargt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna þriggja í Grindavík, Þórkötlustaðahverfi austast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Sitthvað bendir til þess, að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld.
Þegar þungamiðja byggðar í landinu færðist nær sjónum og mikilvægi sjávarútvegs og útflutnings sjávarafurða jókst er hugsanlegt að byggð í hverfunum hafi breyst nokkuð, jafnvel strax á 13. öld, einkum þó í Staðarhverfi. Munnmæli herma, að Staðarhverfi hafi eitt sinn verið stærst allra hverfa í Grindavík.
Staðarhverfi hafði nokkra sérstöðu að því leyti, að þar var kirkjustaðurinn og grafreitur sveitarinnar, og því munu flestir Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi að Stað en öðrum bæjum í sveitinni. Þá hafði Grindavíkurhöndlun lengi aðsetur í Staðarhverfi, og varð það enn til að auka mönnum erindi þangað.
Árið 1703 var íbúafjöldinn í Staðarsókn 214 (þar af 72 í Staðarhverfi). Árið 1762 var fámennast orðið í Staðarhverfi og íbúar þess aðeins 44. Árið 1783 hafði heimilum í Staðarsókn fækkað um tæpan fjórðung, og má telja næsta öruggt, að sú fækkun hafi að öllu leyti orðið með þeim hætti, að byggð hafi lagst af á hjáleigum og þurrabúðum, einkum í Staðarhverfi.

Staður
Hin flóraða StaðarvörStaður var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Torfhús voru á Stað fram á 20. öld, en 1923 var byggt steinhús, sem var nýtt þangað til búi var brugðið (1964).
Prestsetrið Staður hafði takmarkaða landkosti og þurfti að sæta ágangi sjávar og sandfoks, en var samt ein hæst metna jörðin í sókninni. Heimræði var árið um kring, skammt að róa og mikinn afla að fá, þegar fiskur gekk á miðinn og gæftir voru góðar. Rekanum var skipt niður milli staðar og kirkju. Selstöðu fyrir búfénað hafði Staður á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrr á öldum var fjörugrasa- og sölvatekja næg. Hrognkelsaveiði var allmikil alla tíð meðan hér var byggð. Beita, bæði sandmaðkur og skel, var drjúg. Sauðfénaður kunni vel að meta fjörubeitina. Á veturna var fjaran eina bjargræði hrossanna. Maríukjarni var skorinn fyrir kýrnar á ystu skerjum, látinn rigna, þurrkaður og geymdur í töðunni til vetrarins. Þá var eldsneytið, þang, sótt í fjöruna því hvorki var mór né skán í fjárhúsum fyrir að fara. Höfnin var kennd við prestsetrið Stað og ýmist nefnd Staðarvík, Staðarhöfn eða Staðarsund.
Geir Bachmann segir í lýsingu sinni árið 1840 að á Stað sé “mikið slétt og gróandi yfrið fögur tún; eru þau sandorpin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn að sunnanveðrum og brimi. Bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1799.” Árið 1925 gekk sjór langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold.
Gamli torfbærinn var við norðvesturhorn kirkjugarðsins austan við steyptar rústir, sem þar eru. Grunnur og tröppur steinhússins (byggt 1938) sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð (endurbyggður 2005).
Brunnurinn á Stað var hlaðinn árið 1914[, 23 fet á dýpt og kostaði 300 kr]. Efsti hluti hans hefur verið endurhlaðinn (2006).

Kirkja
Klukkan af Anlaby í klukknaportinuHeimildir eru um kirkju á Stað í Vilkinsmáldaga 1397. Þá ber henni að gjalda til Skálholts “6 hundruð skreiðar hvert ár og flytja til Hjalla [í Ölfusi]”.
Allt fram til ársins 1836 var torfkirkja á Stað. Þá var reist timburkirkja, en hún stóð þó einungis í 22 ár. Sumarið 1858 var reist ný kirkja sömu gerðar, alþiljuð og traustleg, uns hún var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfi (1908) og endurreist þar (1909). Trúlega hefur Staðarkirkja ávallt verið á þeim stað, sem síðasta kirkjan stóð, inni í kirkjugarðinum.
Í kirkjugarðinum er klukkuturn og í honum bjalla. Á hana er letrað; SS. Anlaby 1898 Hull. Það er skipsklukkan úr Anlaby, togara frá Hull, sem fórst með allri áhöfn (11 manns) við Jónsbásakletta aðfaranótt 14. janúar 1902.
Þekktir prestar á Stað voru t.d. séra Oddur V. Gíslason, brautryðjandi í slysavarnarmálum sjómanna, séra Geir Bachmann og séra Gísli Brynjólfsson.

Húsatóftir
Húsatóftir-neðriHúsatóftir (-tóptir/-tóttir) er hin stórða jörðin í Staðarhverfi. Árið 1703 voru Húsatóftir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs skv. Jarðabókinni. “Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum”.
Árið 1840 lýsti Geir Bachmann Húsatóftum: “Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.”  Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóftum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins.
“Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í “tóptum” þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú”, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.
Hús voru byggð 1777 með “binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri”. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, “með veggjum úr torfi og grjóti, en þaki úr timbri”. Eldra íbúðarhúsið sem nú stendur að Húsatóftum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Þar er golfskáli Grindvíkinga.
Við gömlu sjávargötuna frá Húsatóftum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem heitir Pústi. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Ofar eru gróningar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru leifar grjótbyrgja. Þar eru og greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. “Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn”, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Vörður og leiðir
Hvirflavörður eru á Hvirflum. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni rétt vestan við bryggjuna. Hin er um 150 m Ein Nónvarðanna á Hæðumofar. Vörðunar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli bæjanna.
Nónvörður eru eyktarmark frá Húsatóftum. Vörðurnar standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremsta varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.” Hefur það orðið að áhrínisorðum.
Árnastígur er austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg. Syðsti hluti stígsins var bæði kallaður Staðar- og Tóftarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg [Skipsstíg] á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Önnur gömul þjóðleið milli Húsatófta og Hafna var Prestastígur.

Verslun

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Aðalaðsetur Grindavíkurverslunarinnar fyrr á öldum var á Húsatóftum. Jörðin virðst hafa komist að fullu í eigu Viðeyjarklausturs á 15. öld, og eftir siðaskiptin sló konungur eign sinni á hana eins og aðrar eigur íslensku klaustranna.  Verslun hófts á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Grindavíkurverslunin hafði bækistöð sína hér fram til 1742. Í Staðarhverfi var “sumarhöfn konungsskipsins” segir Skúli Magnússon í lýsingu sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þegar sigling  lagðist niður fluttu Grindvíkingar vörur sínar til Básendahafnar og úttekt sína frá henni sjóleiðis eða á hestum. Síðan versluðu Grindvíkingar í Keflavík áður en þeir fóru sjálfir að höndla á nýjan leik.
Lengi voru glögg ummerki eftir siglingu kaupskipanna í Arfadalsvík, þ.e. festarhringir á Bindiskerum. Höndlunarhúsin stóðu niður við sjó nálægt Hvirflum, en kaupmenn bjuggu á Húsatóftum.  Barlest, Kóngshella og Búðasandur eru örnefni er benda til verslunarinnar. Verslunarhúsið, sem reist var á Búðarsandi árið 1731, stóð allt framundir eða framyfir lok einokunar. Síðustu verslunarhúsin voru rifin 1806.

Við gerð uppdráttarins var m.a. stuðst við “Örnefni í Staðarhverfi”, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði, Jarðabók ÁM 1703, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, bókina “Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók”, lýsingar Gamalíels Jónssonar bónda á Stað, Árna Vilmundasonar og Þorsteins Bjarnasonar, Sögu Grindavíkur o.fl., auk örnefnalýsingar Lofts Jónssonar frá 1976.
Hafa ber huga að heiti túnbletta og einstakra húsa gætu hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Sérstakar þakkir eru færðar þeim Lofti Jónssyni, Helga Gamalíelssyni, Ólafi Gamalíelssyni, Guðrúnu Gamalíelsdóttur, Kristni Þórhallssyni og Kristínu Sæmundsdóttur fyrir aðstoðina við gerð uppdráttarins.”

Hermann í Stakkavík og féðÁ sérhverjum stað var staðnæmst og reynt að gera svolitlu af sögunni skil, sem og skyldu efni. Hermann Ólafsson í Stakkavík, sonur Gamalíelssonar, færði fínan fénað sinn fram fyrir börnin og gaf þeim kost á að fóðra féð á brauði. Nokkur léttfætt tryppi trítluðu umleikis.
Stóra-Gerði, sem fyrrum hét Gerði, er einstaklega heillegur 19. aldar bær að meginefni til. Enn má t.d. sjá bæjargöng milli vistarvera bakhúsa þar sem voru fjós og búr. Nálægt eru tóftir útihúsa, brunnur, fallega hlaðnir garðar, einstök heimtröð o.fl. Um er að ræða tóftir, sem stefna ætti að varðveita til lengri framtíðar. Auk þess mætti, til efla áhuga á svæðinu, reisa þar verstöð líkt og gert var við Bolungarvík.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – loftmynd 1954.

Undirbúningurinn að söguskiltinu í Staðarhverfi hefur tekið allnokkurn tíma, eins og sjá má að hluta til  HÉR, og HÉR og HÉR, og ótaldar ferðir hafa verið farnar á umliðnum áratug með það að markmiði að safna upplýsingum og fróðleik um svæðið. Þá er rétt að hafa í huga að Gamalíel Jónsson, síðasti bóndinn í Staðarhverfi, fæddist í vitavarðahúsinu við Reykjanesvita í okt. 1908. Eiginkona hans varð Guðríður Guðbrandsdóttir. Þau eignuðust 5 mannvænleg börn, sem fyrr sagði. Í ár (2008) er því 100 ár frá fæðingu hans. Það var því vel við hæfi að setja þetta sögu- og örnefnaskilti upp í Staðarhverfi. Eftir er að setja upp 2 skilti til að tengja saman allan þéttbýliskjarna Grindavíkur sem og sögu og minjar hennar, þ.e. við Hóp (landnámsminjar og hafnagerð) og Stórubót (Grindavíkurstríðið og Junkarar í Grindavík). Hægt er að nálgast örnefna- og minjakortin í Saltfisksetrinu – gegn hóflegu gjaldi.
Gangan tók rúman  klukkutíma. Lögð hafði verið inn pöntun á gott veður þennan dag fyrir alllöngu síðan – og gekk það eftir. Frábært veður.
Við endurbyggt klukknaportið í Staðarkirkjugarði