Fuglavíkurstekkir

Fuglavíkurstakkir
Í ferð með Sigurði K. Eiríkssyni í Norðurkoti III benti hann FERLIR á myndarlegan „grashól“ er bar við sjónarrönd í austri af gömlu kirkjugötunni (Efri-götu) skammt sunnan við Hóla (Dagmálahæð).
Neðri-StekkurSagði Sigurður þar efra vera svonefna Fuglavíkurstekki. Þá var ekkert aðhafst frekar í könnun á mannvirkjunum, en afráðið að gera það við fyrstu hentugleika. Það var gert daginn eftir.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir m.a. um Stekkina: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur.“
Það var því ekki eftir neinu að bíða. Stefnan var tekin af Stafnesvegi millum Fuglavíkur og Melabergs. Miðað við Markavörðuna á merkjum neðra gátu Stekkirnir verið nálægt mörkum jarðanna.

Efri-Stekkur

Skammt vestar eru leifar gamallar vegagerðar, líklega frá því skömmu eftir aldarmótin 1900. Götuleifunum var fylgt áleiðis upp holtið, en þegar þær enduðu var vikið til hægri og stefnan tekin á „grashólinn“. Áður en komið var að honum féll Neðri-Stekkur að fótum fram. Um var að ræða tvískiptar samvaxnar aflangar tóftir. Sú syðri var gróin, en sú nyrðri ekki. Í henni mátti sjá grjóthleðslur og op mót vestri. Hæð á veggjum voru um 0.6 m. Þar sem mannvirkið var byggt á klapparholti má telja líklegt að örnefnið rísi undir nafni.
Skammt ofar voru öllu meiri mannvirki – og reisulegri. Þarna er Efri-Stekkur. Við fyrstu sýn líkist hann fjárborg, en þegar að er komið reynast þar vera tvískipt aflöng mannvirki. Op eru mót suðvestri. Heillegar grjóthleðslur sjást enn í syðri tóftinni, einkum við opið. Grjótið er flatt. Við skoðun á nágrenninu var slíkt grjót ekki að finna í námunda. Það gæti hafa verið flutt þangað á sleðum að vetrarlagi. Óvíst er hvaðan úr heiðinni.

Vatnsbólið

Útsýni frá Stekkjunum er ágætt að Melabergi og Hvalsnesi. Norðan við Efri-Stekk er vatnsból milli klappa. Í því eru stórir steinar og á nokkrum þeirra litlar vörður, ekki nýlegar. Vatnsbólið þornar væntanlega upp þegar líða tekur á sumrin, en í vætutíð gæti þarna auðveldlega legið vatn um langan tíma.
Rásirnar neðanvert við Stekkina eru grónar og hafa eflaust verið góð skjól fyrrum. Götu var að greina áleiðis upp heiðina milli þeirra og Hóla. Vörður voru á klöppum. Hún var ekki rakin að þessu sinni, en verður skoðuð í samhengi fyrir leitina að Hvalsnesseljunum tveimur, sem eiga að hafa verið í heiðinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir:
-Sigurður K. Eiríksson í Norðurkoti III (f: 1929).
-Örnefnalýsingar fyrir Fuglavík.

Vörður