Upphaf landnáms – ný sýn

Víkingaskip

„Fornleifarannsóknir í Höfnum á Reykjanesi gefa til kynna að menn hafi vanið komur sínar til Íslands fyrir árið 870 og nýtt sér gæði landsins hluta úr ári. Fornleifafræðingur segir fyrri kenningar þegar vera fallnar.
Vog-2Fornleifarannsóknir á mannvistarleifum í Höfnum á Reykjanesi benda til þess að þar sé fundinn skáli sem hafi verið byggður talsvert fyrir hið hefðbundna landnám undir lok níundu aldar. Fornleifafræðingur telur að í skálanum felist nánari skýring á ástæðum þess að landnámsmenn settust að á Íslandi.

Byggðasafn Reykjanesbæjar og Fornleifafræðistofan standa að rannsóknum við Kirkjuvogskirkju, sem hófust árið 2009. Þá var um það bil fjórðungur skálans grafinn upp og benti margt til þess að um merkilegan fund hafi verið að ræða, segir dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur í samtali við Fréttablaðið en hann stýrir rannsókninni.

„Þegar skáli finnst á Íslandi er að öllu jöfnu gengið út frá því að þar sé um venjulegan bóndabæ að ræða en þá verða að vera fleiri byggingar í næsta nágrenni, líkt og fjós, smiðja, búr og skemmur og þess háttar. Þrátt fyrir mjög ítarlega leit, bæði með jarðsjá, prufuholum og loftmyndum, finnast engin önnur hús í næsta nágrenni við skálann og þá veltir maður því fyrir sér hverslags byggingu er um að ræða.“

Vog-3

Bjarni bætir því við að niðurstöður kolefnisaldurs-greiningar gefi nú til kynna að skálinn hafi verið yfirgefinn á árabilinu 770 til 880, sem gefi tilefni til að áætla að hann hafi verið byggður fyrir hið „sagnfræðilega landnám“ sem er jafnan miðað við árið 874.

„Mín vinnukenning er sú að um sé að ræða útstöð frá Norður-Evrópu, Skandinavíu eða bresku eyjunum, þar sem menn komu hingað í þeim erindagjörðum að nýta sér þær auðlindir sem hér var að finna, til dæmis bjargfugl og egg, fisk, hvalreka, og ekki síst rostungstennur.“

Bjarni segir þetta kollvarpa hefðbundnum skýringum á landnámi Íslands. „Þannig hefur búseta á Íslandi þróast úr því að vera útstöð hluta úr árinu yfir að endanlegu landnámi. Það kemur í stað þess að ímynda sér síðhærðan, reiðan kóng í Noregi sem rak höfðingja í burtu til Íslands. Það er hreinasti tilbúningur og rómantísering á upphafi okkar, til að réttlæta Íslendinga sem hluta af efri stétt Skandinava.“

Bjarni bætir við að þó að ljóst sé að gamlar „kreddukenningar“ um upphaf Íslandsbyggðar séu fallnar að hans mati, eigi aðrar kenningar erfitt með að rata inn í sögubækur vegna hinnar eðlislægu íhaldssemi sagnahyggjunnar.

Rannsóknum í Höfnum er þó ekki að öllu lokið þar sem nú stendur yfir uppgröftur á miðhluta skálans og lokahnykkurinn verður næsta sumar.“

Heimild:
Fréttablaðið 4. júní 2011, bls. 4Vog-1