Fornasel – Raufhóll – Hrafnabjörg

Hrafnabjörg

Ætlunin var að ganga í svonefnt Fornasel norðan Arnarfells, en þar ku hafa verið forn selstaða frá Þingvallabænum.
Fornasel-22Þá átti að halda upp með ofanverðri Hrafnagjá að Rauðhól, en grunur er um að þar sunnan hólsins kynnu að leynast mannvistarleifar. Loks átti að ganga inn með vestanverðum Hrafnabjörgum að svæði sem ekki ólíklega kynni að geyma leifar Hrafnabjarga-bæjarins hins forna.
Fornasels er getið á landakorti og er það staðsett norðan undir Arnarfelli norðaustan Þingvallavatns. Þegar gengið var áleiðis að selinu var komið inn á gamla götu er lá áleiðis að Arnarfelli. Gatan var augljós þar sem sem hún kom undan kjarrinu. Selstígurinn lá af henni niður undir gróinn bakka og að seltóftunum ofan vatnsbakkans. Beint undir þar sem stígurinn kemur niður er ferhyrnd hleðsla, gróin. Í Fornaseli eru augljóslega bæði eldri og nýrri seltóftir. Þær eldri eru sunnan þeirra nýrri. Í þeim sést móta fyrir a.m.k. tveimur rýmum og virðast þau hafa verið óreglulegri en sjá má í nýrri seltóftunum. Í þeim eru fjögur rými; eldhús vestast, baðstofa og búr og hliðarrými austast. Gæti hafa verið fiskgeymsla. Stekkurinn er suðaustan við selið og sést móta fyrir honum.
Fornasel-26Þegar nýrra selið er skoðað má telja líklegt að það hafi verið byggt af sama aðila og Sigurðarsel þarna norður af, en stærð þess og gerð virðist svo til nákvæmlega eins. Þessar tvær selstöður hafa þá líklega verið í notkun samtímis, enda virðast gróningarnar í tóftunum nánast eins í þeim báðum.
Þá var haldið upp með ofanverðri Hrafnagjá, framhjá Svínhólum og norður Hlíðarveg neðan Hlíðargjár. Glögg augu komu fljótlega á stíg upp í og yfir gjána. Honum var fylgt áleiðis að Hrafnabjörgum. Svo heppilega vildi til að gatan leiddi þátttakendur beint að hinum fornu rústum Hrafnabjargabæjarins. Þar mátti enn sjá hleðslur í veggjum og a.m.k. þrjú rými, hluti af garðhleðslu og brunn. Bæjarstæðið er á fallegum stað, snýr mót suðri með útsýni yfir að fjallinu tignarlega.
Hrafnabjorg-24Sigurður Vigfússon skrifaði m.a. eftirfarandi í Árbókina 1880-1881: „Vestr frá Hrafnabjörgum sést votta fyrir gömlum bæjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármannssögu er talað um bæ undir Hrafnabjörgum.“ Brynjúlfur Jónsson getur um rústina í skrifum sínum í Árbókinni 1905: „Sé á hinn bóginn Hrafnabjargarústin hin rétta Grímsstaðarúst, þá virðist orðunin: »ok svá til Grimsstaða« vera ofaukið í frásögninni um ferð Indriða. Og víst er um það, að úr því Indriði fór Jórukleif, þá var beinna fyrir hann að fara ekki um Grímagil, heldur vestar. Og að Grímsstöðum átti hann varla erindi, úr því viðkomandi fólk var alt burt þaðan.

Hrafnabjorg-25

En hugsanlegt er, að söguritarinn hafi ekki athugað þetta, og því talið víst, að Indriði kæmi að Grímsstöðum áður hann fór vestur. En líka getur verið, að Grímastaðir hafi þá verið bygðir og Indriði farið þar um af einhverjum orsökum, og væri þá að eins stafvilla í sögunni: »til Grímsstaða«, i staðinn fyrir: »til Grímastaða«, eða enn heldur: til »Grímarsstaða«, sem að öllum líkindum er upprunanafn þessa býlis. Þannig hneigist eg helzt að þeirri ætlun, að Grímsstaðir, þar sem Grímur lítli bjó, hafi verið undir Hrafnabjörgum.“

Raufholl

Eftir að hafa skoðað rústirnar var kíkt á Prestastíginn, en hann liggur framhjá tóftunum með stefnu til norðurs og suðurs. Presthóll sést ekki frá bæjarstæðinu. Um Prestastíginn skrifaði Brynjúlfur: „Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.“
Í bakaleiðinni var gengið um Gildruholt með viðkomu í Rauðhól. Líklegt má telja að hljóðvilla hafi breytt nafninu á einhverju stigi því líklegra er að hann hafi heitið Raufhóll. Í hólnum er varðað skjól. Engin ummerki eftir mannvistarleifar var hins vegar að sjá sunnan undir hólnum, nema ef vera skyldi Gjábakkafjárskjólið.
Tækifærið var notað til að hnitsetja Hrafnabjargagötuna.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, 1880-1881, bls. 43.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur.