Innstidalur
Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður, einn eigenda Asgard ehf., og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.
„Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.
Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.
Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Sleggjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.
Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.
Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.
Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).
Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.
Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.
Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.
Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.
Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.
Njótið útivistarinnar.“
Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/