Þorgeirsstaðir/Þorláksstaðir ofan Hafnarfjarðar
„Þorgeirsstaðir/Þorláksstaðir“ var fyrrum bær ofan Hafnarfjarðar, milli Hvaleyrar og Áss.
Í dag er fátt, sem minnir á bæinn því bæði hefur verið byggt á gamla bæjarstæðinu og hraðbraut; Reykjanesbrautin, verið lögð í gegnum jörðina. Sorglegt dæmi um hvernig fornleifar hverfa undir framkvæmdir vegna vanskráningar og áhugaleysis hlutaðeigandi aðila. Þó má enn sjá leifar tveggja útihúsa suðaustan mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Strandgötu; austan Ástorgs.
Í Morgunblaðinu sunnud. 7. júlí 1918, má sjá eftirfarandi auglýsingu:
„Jarpur hestur , 6 vetra gamall, hefir tapast frá Þorgeirsstöðum við Hafnarfjörð. Mark: blaðstýft aftan hægra, biti fratnan, og blaðstýft framan vinstra. Finnandi beðinn að skila honum til Þorgeirs Þórðarsonar, Þorgeirsstöðum, Hafnarfirði.“
Í Morgunblaðinu föstud. 16. jan. 1920 er jörðin auglýst til sölu:
„Til sölu er býlið »Þorgeirsstaðir« við Hafnarfjörð ásamt meðfylgjandi erfðafestulandi, sem er 13,5 dagsláttur, þar af eru 7 dagsl. ræktaðar í túni sem gefur af sér ca. 100 hesta af töðu.
Býlinu fylgir íveruhús 10×10 1/2 alin, heyhús 10×10 1/1 al. og peningshús með safnþró undir. alt bygt úr hlöðnum grásteini, og áfast hvað öðru. Beitiréttur getur fylgt.
Semja ber við eiganda og ábúanda Þorgeir Þórðarson, Þorgeirsstöðum.“
Í Morgunblaðinu fimmtud. 9. des. 1926 er jörðin enn auglýst til sölu:
„Jörðin Þorgeirsstaðir, við Hafnarfjörð, fæst til kaups og ábúðar í næstu fardögum. — Túnið gefur af sjer um 100 hesta. Jörðinni fylgir íbúðarhús, hlaðið, fjós og safnþró, alt úr steini.
—Lysthafendur snúi sjer til eigandans Brynjólfs Pálssonar, Þorgeirsstöðum eða Sigurðar Kristjánssonar, kaupfjelagsstjóra í Hafnarfirði.“
Og í Morgunblaðinu miðvikud. 27. nóv. 1929, birtist enn ein sölutilkynningin:
„Jörð til sölu.
Býlið Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð er til sölu og laust til ábúðar frá næsta vori. Túnið gefur af sjer 100 hesta. — Allar byggingar eru úr steini. Þar á meðal fjós fyrir 5 kýr, haughús og hlaða sem tekur 200 hesta.
Allar nánari upplýsingar viðvikjandi sölunni gefur Björn Jóhanneson.
Vesturbrú 9. Hafnarfirði. Sími 87.“
Í Morgunblaðinu laugard. 12. nóv. 1962, er auglýsing:
„Jörð til sölu.
Jörðin Þorgeirsstaðir við Hafnarfjörð, ásamt íbúðar og peningshúsum úr steini, er til sölu. Túnið gefur af sjer ca. 120 hesta af töðu.
Upplýsingar gefur Sigurður Kristjánsson, Hótel Hafnarfjörður, sími 24.“
Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, Jólablaðinu 1965, segir:
„Jófríðarstaðir eru býli á Jófríðarstaðahæð næst fyrir utan Kvíholt.
Jörðin hét að fornu Ófriðarstaðir (nafninu breytt 1875), og mun það nafn eiga rætur að rekja til einhvers ófriðar, sem hér geisaði fyrr á öldum, en hér var róstusamt á 15. og 16. öld.
Þá liggur bílabrautin sunnan undir Hvaleyrarholti, en þangað hefur kaupstaðurinn teygt byggð sína á síðustu árum. Sunnan vegar er Ásfjall með mælingavörðu á kolli. Undir því stendur bærinn Ás ofan við Ástjörn. Brautin liggur um tún Þorgeirsstaða sunnan við Hvaleyrarholt. Bærinn hét áður Þorláksstaðir, og fylgir því nafni sú sögn, að þar á holtinu hafi að fornu staðið kapella helguð heilögum Þorláki.“
Í Fornleifakönnun fyrir Reykjanesbraut árið 2001 segir:
„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var þar nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum.“
„Framan í því var staður nefndur fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“ segir í örnefnalýsingu. Þorlákstún er nú klofið af Reykjanesbraut. Þorlákstún var sunnan við vestustu íbúðarhúsin sunnan Reykjanesbrautar. Sjálft býlið hefur horfið vegna íbúðarhúsabyggðar norðan Reykjanesbrautar. Grasi vaxið hraun og enn sjást leifar girðingarinnar sem girti túnið af. Íbúðarhús eru norðan túnsins.“
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri segir:
„Á há-Hvaleyrarholti, austan vegarins, er býlið Þorgeirsstaðir. Í gamla daga var það nefnt Þorlákstún, gömul móabörð með þýfi og garðlögum. Síðan tekur fjallið til og hækkar unz við tekur Ásfjall, er síðar getur (sjá Ás).“
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir:
„Suður og upp frá Hvaleyrartúnum liggur Hvaleyrarholt. Skammt sunnan við traðarhliðið, uppi í holtinu, var uppspretta, nefnd Heiðarbrunnur. Þar var gott vatn, en þraut í þurrkum og frostum. Hér hærra var komið að garðlaginu forna, sem lá ofan úr Hvaleyrarholtsklettum vestur og niður af á sandinn og suður í Gjögur. Í klettunum, undir brúninni, var Hvaleyrarréttin, en uppi voru hjallarnir. Þangað var í fyrri daga borinn fiskur, kasaður og síðan þurrkaður. Hér nefndist einnig Hjallarétt, og var fé rekið að hér, þegar hin réttin hafði verið lögð niður. Syðst í þessum hluta Hvaleyrarholts var skógarítak Gufuneskirkju. Lægð var hér í holtinu, nefndist Skarðið. Þá tók við háholtið. Framan í því var staður nefndum fyrrum Þorláksstaðir. Þar eru sagnir um, að verið hafi kapella. Seinna nefndist hér Þorlákstún og þá Þorgeirstún og nú Þorgeirsstaðir.“
Heimildir:
-Morgunblaðið sunnud 7. júlí 1918, bls. 4.
-Morgunblaðið föstud. 16. jan. 1920, bls. 3.
-Morgunblaðið fimmtud. 9. des. 1926, bls. 2.
-Morgunblaðið miðvikud. 27. nóv. 1929, bls. 1.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. Jólablað 1965 (24.12.1965), bls. 16-18.
-Reykjanesbraut 2 – Fornleifakönnun; Reykjanesbraut, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingi Ara Gíslasonar fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri.