Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af “síðasta strandinu í Grindavík” birtist í Faxa 1947:
“Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.
Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall. Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni. Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn” í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Hraun

Hraun.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan” flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi. Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.
Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni”. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.
Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn” telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.