Sel – Seltjarnarnesi

Stórasel

„Nafn býlisins Sels bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið selstaða frá Vík.“ Áður fyrr voru stundum útihús í högum oft langt frá bæjum, þar sem búfénaður var látinn ganga á sumrum. Slík hús voru nefnd sel og var þetta kallað að hafa í seli.
Storasel 201Árið 1367 er Sel talið sem eign Jónskirkju postula í Vík, samkvæmt Hítardalsbók. Litlum sögum fer af Seli næstu aldirnar. Í Jarðbókinni frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, ábúandi er einn Ólafur Benediktsson. Heimilismenn 8 og níundi heilsuveikur mágur bóndans, torfrista, stunga og móskurður í Víkurlandi frí. Heimræði er árið um kring og lending sæmileg, ganga skip ábúandans eftir hentugleikum.
Jarðardýrleki er en óviss um 1835-1845 þegar Johnsen skráir, en þá er Bráðræði skráð sem hjáleiga Sels. 1803 segir fyrst frá Bráðræði, sem hjáleigu frá Seli, og Litla-Sel nefnir bæjarfógeti einn, sem hjáleigu þaðan. Prestur telur 5 býli á öllu Seli, en bæjarfógeti telur eigi ábúendur. Prestur, en enginn annar telur Sauðagerði með 5 býlum.
Seint á 18. öld bjó í Seli Þorfinnur Þorbjarnarson frá Skildinganesi. Hann var lögréttumaður um skeið og er þess getið í heimildum að hann hafi setið á Alþingi á tímabilinu 1787-1793. Með konungsúrskurði 1809 var ákveðið að prestsetur skyldi vera í Seli. Þangað fluttist Brynjólfur Sigurðsson (Sívertsen) dómkirkjuprestur (d. 1837). Sel var innlimað í Reykjavík 1835. Það átti jarðamörk að Hlíðarhúsum og Reykjavík. Sels bæirnir voru síðast fimm. Á lóðinni Holtsgata 41b stendur Stóraselsbærinn enn, reistur um 1885. Ívarssel, nú Vesturgata 66b, reis um 1870. Litlasel og Jórusel eru sambyggð hús á lóðinni Vesturgata 61. Litlasel mun vera reist fyrir aldamót en Jórusel síðar.
Litlasel 201Hér voru varir, Litla-Selsvör, og aðeins suðvestar, norðan við Sóttvarnarhúsið, sem nú er Mið- Selsvör, suðvestan hennar er svo Stóra-Selsvör, og Lágholtstangi gengur hér fram í sjó.
Á mbl.is árið 2005 segir eftirfarandi: „ÍVARSSEL kvaddi Vesturgötuna í nótt. Húsið þurfti að víkja af sinni upprunalegu lóð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags á svæðinu. Húsið, sem var byggt árið 1869, var flutt á Árbæjarsafnið þar sem það mun standa sem sýningarhús.
Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu en hinir nefndust Stórasel, Litlasel og Jórunnarsel. Húsið mun vera elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis.
Þau tómthúsbýli sem byggðust upp í landi Sels drógu mörg nafn af heimajörðinni og breyttist nafn Sels þá í Stórasel. Selsbæirnir voru síðast taldir fimm og voru, auk Stórasels, Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel og Ívarssel. Síðasta bæjarhús Stórasels, steinbær sem reistur var 1884, stendur enn á lóðinni Holtsgötu 41b. Einn ábúandi var í Seli 1703. Heimili í Stóra-Seli voru 3 samkvæmt manntalinu 1845 og er eitt af þeim Pálshús. Steinbærinn frá 1884 stendur enn á dálítilli torfu á sameiginlegri baklóð Sólvallagötu 80-84, Ánanausta 15 og Holtsgötu 31-41.
Er stærstur hluti bakgarðsins tekinn undir bílastæði og virðist Jorunnarsel 201hann hafa verið lækkaður eitthvað ef miðað er við hæð torfunnar sem bærinn stendur á. Sé um að ræða elsta bæjarstæði Sels, þá verður það að teljast nokkuð raskað, en vegna þeirrar torfu sem enn er eftir í kringum steinbæinn og að um er að ræða bæ með nokkuð langa búsetu er mögulegt að enn geti verið að finna nokkuð þykk mannvistarlög á þessum slóðum.
Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Litlasels er fyrst getið sem hjáleigu frá Seli í jarðalista bæjarfógeta frá árinu 1844. Árið 1848 var sonur Steingríms, Ólafur, talinn eigandi að þeim hluta Selslands þar sem Litlasel var byggt. Á Litlaseli munu um tíma hafa verið mörg býli og bjó Ólafur Steingrímsson á einu þeirra, á öðru Jakob bróðir hans, á þriðja býlinu bræðurnir Jón og Grímur Guðnasynir og á því fjórða Ívar Jónatansson, en það býli var alltaf kallað Ívarssel til aðgreiningar frá hinum. Árið 1881 byggði Magnús Pálsson tómthúsmaður timburhús rétt suðvestan við bæinn á Litlaseli sem síðar var kennt við Jórunni Eiríksdóttur ekkju og kallað Jórunnarsel.
Þremur árum síðar reisti Grímur Jakobsson íbúðarhús úr bindingi og múrsteini austan við Litlasel, nálægt því þar sem Vesturgata og Seljavegur mætast nú. Ivarssel 201Árið 1885 seldi Ólafur Steingrímsson syni sínum, Guðmundi Kristni Ólafssyni skipstjóra, hálfan Litlaselsbæinn og fjórum árum síðar fékk Guðmundur leyfi til að „byggja um bæ sinn á sama stað og með sama lagi og áður“. Þá byggði hann steinbæinn sem enn stendur á lóðinni.
Árið 1895 seldi Guðmundur eign sína Sigurði Einarssyni útvegsbónda. Tíu árum síðar var Sigurður látinn en ekkja hans, Sigríður Jafetsdóttir, bjó enn í Litlaseli ásamt dætrum þeirra. Litlasel var þá einnig heimili Magnúsar Einarssonar og fjölskyldu hans en í Jórunnarseli bjuggu Jóhann Þorbjörnsson tómthúsmaður, Halldóra kona hans og tveir synir. Árið 1913 seldi Sigríður Jafetsdóttir eign sína Karveli Friðrikssyni sjómanni og árið 1924 voru Litlasel og Jórunnarsel virt saman sem húseign hans. Ári síðar lét ekkja Karvels, Guðbjörg Kristjánsdóttir, stækka og endurbæta Litlasel og var þá innréttuð sérstök íbúð í risinu. Árið 1935 eignuðust Axel R. Magnússen og Margrét Ólafsdóttir húsin að Vesturgötu 61 og bjuggu þar síðan lengi og afkomendur þeirra eftir þau. Á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld höfðu íbúar Litlasels og Jórunnarsels flestir framfæri sitt af fiskveiðum, líkt og ábúendur hinna Selsbæjanna. Þeir sem gerðu út árabáta réru frá þremur vörum á þessum slóðum, Litlaselsvör sem var rétt neðan við vesturenda Vesturgötu, Miðselsvör dálítið suðvestar, neðan Miðselstúns, og Stóraselsvör enn suðvestar, þar sem göturnar Hringbraut og Eiðsgrandi mætast nú. Ekki er ljóst hvort húsin frá 1881 og 1889 sem eru númer 61 við Vesturgötu eru á elsta bæjarstæði Litla-Sels. Þó má gera því skóna að þau séu á svipuðum slóðum ef marka má textann úr skráningargögnum Minjasafns Reykjavíkur hér að framan þar sem segir að þau hafi verið byggð „á sama stað og með sama lagi“ og eldri bæir.
Miðsel, steinhús reist 1874, er nú horfið en stóð þar sem nú er húsið nr.19 við Seljaveg… Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Eru örlitlar líkur á að einhverjar leifar Miðselsbæjarins sé að finna í bakgarðinum fyrir aftan Seljaveg 19 eða í götunni fyrir framan húsið.“

Heimildir:
-mbl.is, 4. maí 2005 (lesið 14. mars 2012).
-Húsakönnun, drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Minjasafn Reykjavíkur 2007.
-Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaðir við Sund. 3 bindi, bls.38.
-Íslenskt fornbréfasafn III. bindi, bls.220.
-J.Johnsen. Jarðatal, bls.121..neðanmálsgrein.
-Pál Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 3. bindi, bls. 39.
-Vigfús Guðmundsson (1936).
-Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarnes.
-Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Húsakönnun. Seljavegur-Ánanaust-Holtsgata-Vesturgata. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 135, bls. 10-11.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, bls. 121, 462.
-Jón Helgason: Reykjavík. Þættir og myndir úr sögu bæjarins 1786-1936, bls. 47.
-Klemens Jónsson: Saga Reykjavíkur. 1. bindi, bls. 269.
-Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr. 1560) – Borgarskjalasafn: Aðf. 751-757. Brunatrygging húsa 1896-1943 (Br.nr. 200 og 327;; – -Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Ágúst Jósefsson (1959) Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, bls. 85 -Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarness –Páll Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi, Lykilbók, bls. 66-67.
-Guðjón Friðriksson (1991). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870-1940. Fyrri hluti, bls. 87.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Gullbringu- og Kjósarsýsla, bls. 252.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr.1560).

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.