Reykjanesskagi – útivistarperla II

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á „Tyrkjahellinum“ á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.