Þríhnúkar og nágrenni
Haldið var að Þríhnúkum með það fyrir augum að skoða gíginn og næsta nágrenni. Bönd voru með í ferðinni, en þegar á hólminn var komið reyndust þau óþörf því Björn „bergrisi“ í „Þríhnúkum“ reyndist betri en nokkurt reipi.
„Þríhnúkar“, eða „Insidethevolcano“ hafa verið með ferðir fyrir ferðamenn í Þríhnúkahelli. Lyftubúnaði hefur verið komið fyrir yfir opinu og eru ferðamenn ferjaðir skipulega upp og niður, alla daga sumarsins (fram til 20. ágúst). Agað og gott skipulag virðist vera á ferðunum þar sem sérstök áhersla er lögð á öryggi og ánægjulega upplifun þátttakenda. Aðstaða í nágrenni gígsins er til mikillar fyrirmyndar og naut FERLIR hennar í þessari ferð, í slagveðursrigningu eins og hún getur verið hvað verst á þessum árstíma á þessu svæði. Boðið var upp á skjól og upphitað húsnæði aukin heldur kjötsúpu og heitt kaffi.
Byrjað var að skoða umhverfi gígsins, eða öllu heldur gíganna, og m.a. komið við í Bólunni; athvarfi í hraunbólu suðvestan gíganna sem rjúpnaveiðimenn komu sér upp á sjöunda áratug síðustu aldar.
Kvikuþró er á milli gíganna og má vel sjá hvernig hraunkvikan hefur oltið upp úr Þríhnúkagíg niður hlíðar hans og fyllt tjörnina. Tjörnin hefur síðan tæmst að mestu þegar leið fyrir kvikuna opnaðist til norðurs og steyptist niður hlíðarnar og myndaði Þjófahran.
Þríhnúkagígurinn sjálfur er gígur sem liggur í norðaustasta Þríhnúknum, rúma 4 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Niður frá gígopinu gengur gríðarmikill gíghellir, Þríhnúkahellir. Hann er eitt stærsta og merkasta nátturufyrirbæri sinnar tegundar á jörðinni.
Gígopið er þverhnípt og um 4 sinnum 4 metra stórt. Fyrst var sigið niður í gíghellinn 1974, og 1991 var hann svo kannaðar ítarlega og kortlagður. Þríhnúkahellir er flöskulaga ketill sem er um 150 þúsund rúmmetrar að stærð. Botninn er á stærð við fótboltavöll og er 120 metra undir yfirborði jarðar, og þaðan liggja svo gígrásir niður á um 200 metra dýpi.
Í ljósi þess hvað hann þykir sérstakur hafa verið settar fram hugmyndir um hvernig megi bæta aðgengi að honum, sem fæli m.a. í sér að bora göng inn í hann miðjan og byggja útsýnispall inni í honum.
Á vefsíðu Náttúrfræðistofu Kópavogs (en svæðið er í umdæmi Kópavogs) má lesa eftirfarandi um gíginn og fyrirhugaðar væntingar um nýtingu hans: „Þrír litlir hnúkar standa á hálendisbrúninni um 15 km suðaustur af höfuðborgarsvæðinu. Lítt þekktir en sjást greinilega við sjóndeildarhringinn. Þetta eru Þríhnúkar. Norðaustasti hnúkurinn er gjall- og kleprakeila. Gaus hann litlu hrauni rétt eftir landnám. Gosrásirnar tæmdust að gosi loknu og ná þær nú niður á rúmlega 200 m dýpi.
Gíghvelfingin stendur vegna styrks jarðmyndana í þaki og hinum miklu klettaveggjum gígpottsins. Opið í toppi hnúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur, sem mælist 48 x 60 m á botni. Fyrst var sigið í gíginn 1974. Gosrásirnar voru fullkannaðar og mældar 1991.
Þríhnúkar tilheyra Bláfjallafólkvangi, en til hans var stofnað með friðlýsingu árið 1973. Bláfjallanefnd fer með stjórn fólkvangsins. Alls 13 sveitarfélög á suðvesturhorni landsins eiga aðild að rekstri fólkvangsins. Sjálfur Þríhnúkagígur er í lögsögu Kópavogs.
Hraunhellar og jarðmyndanir þeim tengdum njóta sérstakrar verndar á Íslandi og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er (Lög um náttúruvernd nr. 44/1999, 37. gr.).
Gott aðgengi og fræðsla almennings er mikilvægur þáttur í skynsamlegri umgengni og verndun hraunhella. Liður í þeirri fræðslu er að gera valda hraunhella aðgengilega og koma upplýsingum þar vel og skilmerkilega á framfæri.
Hraunhellar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Fjölmargir hraunhellar þola umferð án skaða. Myndunarferli kalkhella og hraunhella ásamt innviðum þeirra, eru mjög ólík. Hraunhellar eru yfirleitt aðgengilegri en kalkhellar. Ekki þarf að síga, nema afar takmarkað, og oft eru á þeim fjöldi opa.
Í mörgum aðgengilegum hellum eru viðkvæmar jarðmyndanir, sem hætt er við að hverfi ýmist óvart eða af ásetningi. Viðkvæmar jarðmyndanir höfðu ýmist mjög látið á sjá, eða voru að mestu horfnar úr þekktum hraunhellum hérlendis upp úr 1980. Tveim ríkulega skreyttum smáhellum, Jörundi og Árnahelli, sem fundist hafa síðan, hefur verið lokað fyrir almennri umferð vegna verndunarsjónarmiða.
Vinna að verndun og aðgengi Þríhnúkagígs er nú hafin. Þessi sýning er liður í þeirri vinnu. Verkefnið er krefjandi, en nauðsynlegur liður í þeirri þróun sem á sér stað í íslensku samfélagi á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðamennsku. Ætlunin með sýningunni er að kynna náttúrundrið Þríhnúkagíg, fá fram viðbrögð fólks við hugmyndum um nýtingu hans og bregðast við þeim.
Árni B. Stefánsson tók ljósmyndir í gígnum á árunum 1983–1997. Árni smíðaði einnig líkanið af Þríhnúkagíg eftir gögnum sem hann safnaði og vann ásamt félögum sínum 1991.
Miklar og vaxandi skemmdir hraunhellanna, hvarf jarðmyndana og eyðilegging var að verða fólki stöðugt ljósari á uppeldisárum Árna. Jarðmyndanir bókstaflega hurfu fyrir framan augu þeirra sem til þekktu, án þess þeir fengju rönd við reist.
Ýmsar tillögur hafa komið fram um aðgang að þessum mikla gíghelli. Fyrsta raunhæfa tilllagan kom fram í grein í Morgunblaðinu 4. janúar 2004. Þar er lagt til að aðgengi verði um 200 m löng göng á svalir í hellinum. Svalirnar standa út í rýmið í miðjum gígnum á 64 m dýpi og í 56 m hæð frá botni.
Upprunalegar jarðmyndanir þekja veggina í þessari hæð. Yfir svölunum er lokuð gosrás, eða strompur upp á við. Svalirnar eru í vari fyrir hugsanlegu hruni að ofan, varðar undir slútandi bergi. Útsýn niður í gígpottinn er mikilfengleg. Tvö 20 hæða hús myndu komast fyrir neðan svalanna, ef þau mjókkuðu lítillega upp.“
Útgerðin kringum Þríhnúka er bæði mikil og kostnaðarsöm. Upplifunin er líka eftir því. Gígurinn sjálfur hefur verið upplýstur svo líta má dýrina með báðum augum eins og hún er. Annars má telja sérstakt að gestir í Þríhnúkagíg eru 98% útlendingar, eins nærtækt og jarðfræðifyrirbærið er annars innlendum.
Heimildir:
-wikipedia.org
-http://www.natkop.is/page.asp?ID=122