Vatnsendi

Stefnan var tekin á Vatnsendahlíð. Ætlunin var að skoða þar sitt hvora fornleifina, báðar leifar breitarhúsa.

Beitarhúsatóftin

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Árið 1807 var með konungsboði sett á laggirnar nefnd til varðveislu fornminja í Danmörku og nýlendum hennar. Árni Helgason (1777 – 1869), dómkirkjuprestur í Reykavík árin 1814 – 1825, svaraði nefndinni árið 1821. Í fornleifaskýrslu sinni telur hann upp þrjá gripi, alla tilheyrandi Dómkirkjunni í Reykjavík. Í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 1. mars sama ár, barmar Árni sér yfir fátækt sóknarinnar. Hann segir: “Hún er fyrst ein sú fátækasta á landinu af gömlum Menjagripum, þad sem hingad hefur komid, er jafnodum burtflutt til Kaupenhavnar af þeim utlendu er hellst hafa reist um sudurland. Af Sogum vorum er ecki ad ráda ad her á Nesi hafi nockud Hof verid i fornöld, þes siást ej heldur Menjar. Eingin veit her til Hauga, nema Óbóta manna sem dysiadir eru nálægt Kopavogi, Þingstad fornum her i Sveit. Þad er furdulegt ad í þeim stad sem fyrst bygdist á landinu skuli hvérgi siást neitt þeirra handaverk og nærri hvergi í Sögum getid þeirra sem hér hafa búid.”

Beitarhúsatóftin - syðsti hlutinn

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Lýsingar af þessu tagi voru algengar um allt land og ekkert einsdæmi að prestar teldu sínar sóknir skorta fornaldarminjar jafnt sem önnur gæði. Í bréfi sem Árni prestur sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Hafa ber í huga þegar þetta var skrifað í byrjun 19. aldar voru þær minjar, sem nú eru friðlýstar og þykja merkilegar, hluti af “nútímanum” og því lítt merkilegar. “Til eru aðrar heimildir en skriflegar um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra alveg til fulls.”

Vatnsendaheiði

Beitarhús á Vatnsendaheiði.

Í Fornleifaskrá Kópavogs, 2000, eftir Bjarna F. Einarsson, er getið um tvær fornleifar á hæðum ofan Vatnsenda, auk tveggja varða, á og við Vatnsendahlíð. Hin fyrrnefnda er “rúst (stekkur?) undir Vatnsendahvarfi. Rústin er fornleg að sjá. Ekki er sennilegt að um stekk sé að ræða, mun heldur beitarhús frá Vatnsenda. Uppblástur er einhver við rústina og tryggja þarf að hún verði honum ekki að bráð, annaðhvort með því að stöðva uppblásturinn eða rannsaka rústina. Með vaxandi byggð mun rústinni stafa ákveðin hætta og áður en að hún fer að verða fyrir spjöllum þarf að rannsaka hana til að komast að tegund hennar og aldri.

Vatnsendi

Beitarhús frá Vatnsenda við Litlabás.

Fallegar hleðslur

Vegghleðsla í beitarhúsinu á Vatnsendaheiði.

Hin er beitarhús suður af Litlabás. “Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. Svæðið í kring um beitarhúsið er kjörið útivistarsvæði og mætti hugsa sér að nýta það til að segja sögu fjárbúskapar fyrr á öldum.” Um þessa fornleif ofan við Litlabás segir ennfremur: “Beitarhús, engin hætta á raski, ágætt ástand, aldur 1550-1900 og minjagildi talsvert.”
Rústin stendur nokkuð hátt í grasi gróinni hæð. Af byggingarlagi að dæma má telja líklegt að rústin, sem er þrískipt; tvö fjárhús og heimkuml, sé frá því á seinni hluta 19. aldar. Veggir eru vandlega hlaðnir og tiltölulega sléttu mógrjóti, sem líkega er meginástæða staðsetningarinnar, auk þess sem vænlegt hefur þótt að hafa hana á vinsælum stað svo snjó festi síður við húsin. Þá hefur svæðið allt og verið kjarri vaxið og því ekki mörgum öðrum stöðum til að dreifa en þarna á hæðinni. Veggir standa nokkuð vel og má vel sjá byggingarlagið. Hlaðinn garður er eftir miðju syðstu tóftarinnar. Vandað hefur verið til verka. Fróðlegt væri að vita hver, eða hverjir, hafi verið þarna að verki. Líklegt má telja að fjárhús þetta hafi verið frá Vatnsenda. Mun stærri fjárhústóftir frá Elliðavatni er ekki svo langt frá, suðaustan við Vatnsendavatn, sjá HÉR.

Vatnsendi

Beitarhúsið við Litlabás.

Í skýrslunni (frá 2000) kemur m.a. fram að í Kópavogi eru nú; “22 fornleifar á 19 stöðum horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar við ósa Kópavogslækjarins og Kópavogsþingsstaður. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins.
GuðmundarlundurEins og fram hefur komið eru fornleifar sbr. lögum 100 ára eða eldri. Af þessu leiðir að fljótlega munu fleiri minjar teljast til fornleifa svo sem minjar um fyrstu þéttingu byggðarinnar upp úr 1936, minjar um hersetuna,samgönguminjar o.s.frv. Trúlega verða fleiri minjar skilgreindar sem fornleifar síðar enda á það sama við okkur sem lifum í dag og Árna prest Helgason upp úr 1800, við sjáum ekki lengra en skilningur og þekking okkar leyfir.”
“Í hugum margra er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Það má vissulega til sanns vegar færa þar sem sveitarfélagið sjálft er ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936 (Lýður Björnsson 1990:46 og 146). Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ (Kålund 1984:15).
SitkagreniðKópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar (Magnús Þorkelsson 1990(a):160). Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammkot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammkotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm (Guðlaugur R. Guðmundsson 1970:26 og 29).
Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Er liggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ (Ísl. fornbréfasafn I 1857-76:507). Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur. J hvamme c leigv. J digranesi iij merkur:“ (Ísl. fornbréfasafn II 1888:377).
Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. (Ísl. fornbréfasafn IX 1909-13:139-142). Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en 1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viij alne vatmell.“ (Ísl. fornbréfasafn XII 1923-32:577).
Danska nefndin fyrrnefnda fékk nafnið Commissionen for oldsagers opbevaring. Nefndin sendi spurningalista til allra sókna konungsveldisins og til Íslands bárust þessir listar árið 1809, á dönsku.

Í Guðmundarlundi

Í bréfi sem Árni prestur Helgason sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Árni skrifar: Vel tog Ingolf den förste Landnamsmand sig Boepæl i Reykevig; men baade dadlede hans Folkl da strax, denne hans Beslutning, og sagde de havde reist over alt for frugtbare Strækninger for at nedsætte sig her paa den nögne Kyst; og tillige fortælles at Jngolf siden efter, fandt det raadeligt at flytte her fra til Ølveset i sine ældre Aar, hvor hans Gravhöj ogsaa er at see. … Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad på Alftenes … Her af synes jeg det er rïmeligt at paa dette Sted skulle man ikke vænte at finde Oldsagers Levninger.
GuðmundarlundurÁ þessum árum var skilgreining manna á fornleifum talsvert önnur en í dag og rústir í venjulegum skilningi ekki taldar til fornleifa. Yfirleitt áttu menn við leifar frá hinum glæsta þjóðveldistíma, sérstaklega tengdar þinghaldi og trúarbrögðum.”
Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: “
Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit noðrur í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efna haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.
GuðmundarlundurÞað er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hafi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásinn eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niður og eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíefldum krafti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðaberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a:
-Skilti Skógræktarfélags Kópavogs við Guðmundarlund.
-Bjarni F. Einarsson – Fornleifaskráning Kópavogs 2000.

Í Guðmundarlundi