Færslur

Kópavogur

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, skrifaði um minnismerki í Kópavogi:

Kópavogsfundurinn 28. júlí 1662

Kópavogur

Kópavogsfundurinn – skilti.

Árið 1660 hófst breyting stjórnskipunar konungsríkisins Danmerkur til einveldis. Vald konungs jókst, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundinn og afnumin voru viss réttindi aðalsins. Áður var konungur kjörinn á stéttaþingum.
Friðrik III Danakonungur var hylltur á Alþingi 1649, árið eftir að hann tók ríki. Þegar hann varð einvaldur 1661 skyldi staðfesta nýja eiða í löndum hans. Í þeim erindagjörðum kom Henrik Bjelke aðmíráll og hirðstjóri á Íslandi, sumarið 1662.
Borist höfðu bréf til landsins þá um vorið um að sendir skyldu fulltrúar á Alþingi til að hylla Friðrik III sem erfðakonung. Ekki var minnst á einveldishyllingu í þeim bréfum.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um Kópavosgfundinn 28. júlí 1662.

Hingaðkoma Bjelkes tafðist um þrjár vikur, þinghaldi var lokið við Öxará þegar skip hans kom að landi í Skerjafirði. Eiðarnir voru því ekki undirritaðir á Alþingi. Fyrsta verk Bjelkes 12. júlí 1662 var að senda valdsmönnum bréf; þeirra var vænst við Bessastaði 26. júlí. Daginn eftir, sem var sunnudagur, skyldu eiðarnir undirritaðir.
Árni Oddsson lögmaður setti þing í Kópavogi mánudaginn 28. júlí 1662, degi of seint. Ástæða tafarinnar liggur ekki fyrir en vísbendingar eru um að Árni og Brynjólfur Sveinsson biskup hafi mótmælt til varnar fornum réttindum landsins. ,,Var þann dag heið með sólskini” segir í Vallholtsannál.
Á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662 var Friðrik III hylltur sem ,,einn Absolut soverejn og erfðaherra”. Þannig varð hann hvort tveggja einvcaldskonungur og erfðakonungur. Undir eiðana rituðu 109 menn; báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, svo og landþingsskrifari, klausturhaldari og bartskeri.

Friðrik III

Friðrik III. Danakonungur 1663.

,,Og að þessum eiðum unnum og aflögðum gerði lénsherrann herra Henrich Bjelke heiðarlegt gestaboð og sæmilega veizlu öllum þar saman komnum og stóð hún fram, á nótt með trómetum, fiðlum og bumbum, fallstykkjum var þar og skotið, þ.remur í einu og svo á konungsskipi sem lá í Seilunni, rachetter og fyrværk gekk þar þá nótt, svo undurfm gegndi”. (Fitjaannáll)

Á þinginu voru ritaðar bænaskrár til konungs um að fá að halda fornum lögum og réttindum, áréttuð fátækt landsins og nýjum álögum hafnað., Ekki var minnst á einveldi í bænaskránum.
Með Kópavogsfundi minnkaði vald Alþingis. Konungur tók í ríkari mæli til sín löggjafarvaldið og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.

Þingstaðurinn í Kópavogi

Kópavogur

Kópavogur – Þingstaðurinn; skilti.

Land Kópavogsbæjar var áður í Seltjarnarneshreppi hinum forna. Mörk hans voru á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.
Frá gildistöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271 var sett í land Kópavogs hreppaþing og þriggja hreppa þing fyrir Seltjarnarneshepp, Álftaneshrepp og líklega Mosfellssveit.
Á þingstaðnum í Kópavogi gengu dómar sýslumanna í héraði og var þá dómstigið fyrir neðan Öxarárþing. Dómabækur Gullbringusýslu, þ.m.t. Kópavogsþings eru nokkrar til í Þjóðskjalasafni, sú elsta frá 1696.
Eldri vitnisburðir um Kópavogsþing en sjálfar dómabækurnar eru fáeinir til. Elstu þekktu ritaðar heimildir eru frá 1523. Þá fékk Hannes Eggertsson hirðstjóri forvera sinn Týla Pétursson dæmdan og tekinn af lífi eftir ránsferð Týla og flokks hans um Bessastaðagarð í átökum um völd og embætti.

Friðrik II

Friðrik II. Danakonungur 1581.

5. apríl 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út opið bréf um að Alþingi skyldi flutt á þingstaðinn í Kópavogi. Þessi tilskipun, var líkt og margar aðrar, hundsuð af Íslendingum.
Síðustu aftökurnar í Kópavogi fóru fram 15. nóvember 1704. Þá var hálshöggvinn Sigurður Arason og drekkt Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ fyrir morðið á manni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Þjófnaðarmál frá 1749 er síðast þekkti dómurinn á Kópavogsþingi. Þing var sett í Reykjavík árið 1751 og þar með lýkur sögu þinghalds í Kópavogi þar til embætti bæjarfógetans í Kópavogi var stofnað 1955. Lægra dómstigið var á ný í Kópavogi uns lög um héraðsdóma tóku gildi 1992 og Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði var settur.
Þegar Landsréttur var stofnaður með lögum frá 2016 var hann settur í Kópavog, en hann er næst æðsta dómstig í landinu.

Systkinin frá Hvammkoti

Kópavogur

Kópavogur – minnismerkið um systkinin frá Hvammkoti.

Sunnudaginn 1. mars 1874 voru þrjú systkin á heimleið frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Þau þurftu að fara yfir lækinn á vaði nálægt þessum stað. Lækurinn var bólginn vegna leysinga og hættulegur yfirferðar.
Tvö systkinanna drukknuðu í læknum.
Þau hétu Þórunn Árnadóttir, 18 ára, Árni Árnason 15 ára.
Sigríður Elísabet Árnadóttir 17 ára komst lífs af.
Blessuð sé minning þeirra.

Gert á 140. ártíð, 1. mars 2014, Kópavogsbær og Sögufélag Kópavogs
Minnisvarðinn stendur í Kópavogsdal, móts við Digraneskirkju.
Kópavogslækurinn lætur ekki mikið yfir sér að sumarlagi þegar allt er í blóma, en að vetrarlagi gat hann verið hinn versti farartálmi, enda á köflum bæði djúpur og vatnsmikill. Hvammkot (Fífuhvammur) var austan við lækinn.

Guðmundur H. Jónsson (1.8.1923-22.11.1999) – Guðmundarlundur

Kópavogur

Kópavogur – Guðmundarlundur; minnismerki um Guðmund H. Jónsson.

Heiðursvarði um Guðmund H. Jónsson, fyrrverandi forstjóra BYKO. Heiðursvarðinn til umfjöllunar að þessu sinni var
reistur til heiðurs Guðmundi H. Jónssyni, stofnanda og forstjóra byggingarvörufyrirtækisins BYKO, sem lést árið 1999. Varðinn stendur í fallegum lundi sem ber nafn hans, Guðmundarlundi í Kópavogi.
Lundinn afhentu Guðmundur og fjölskylda hans Skógræktarfélagi Kópavogs árið 1997 og er hann um 6,5 hektarar að stærð. Guðmundur og fjölskylda hófu skógrækt á svæðinu árið 1967, sem þá var illa gróinn berangur og náðu undraverðum árangri.
Guðmundarlundur er núna vöxtulegur skógur þar sem byggð hefur verið upp afar aðgengileg útivistaraðstaða.
Heiðursvarðinn er gjöf frá BYKO og var afhjúpaður við hátíðlega athöfn árið 2003 þegar útivistaraðstaða var tekin í notkun á svæðinu og það opnað formlega fyrir almenningi. Nú er þetta afar vinsælt útivistarsvæði fyrir Kópavogsbúa og aðra. -Jón Geir Pétursson

Brjóstmyndin er eftir rússneskan listamann.
Minnisvarðinn stendur í Guðmundarlundi.

Sr. Gunnar Árnason (1901-1985)

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um sr. Gunnar Árnason og fr. Sigríði Stefánsdóttur.

Hér stóð hús Sigríðar Stefánsdóttur og sr. Gunnars Árnasonar sem var fyrsti sóknarprestur í Kópavogi (1952-1971)

Sr. Gunnar Árnason þjónaði Bústaðaprestakalli frá 1952 en hafði aðsetur í Kópavogi. Árið 1964 var Kópavogsprestakall skipt út úr Bústaðaprestakalli og varð sr. Gunnar fyrsti prestur prestakallsins, alltaf með aðsetur í Kópavogi. Minnisvarðinn er á grunni húss hans rétt ofan Vogatungu í Kópavogi.

Ólafur Kárason

Minnismerki um Ólaf Kárason er við Smiðjuveg gegnt Íspan. Á stöplinum er skjöldur. Á honum stendur:

Hjá lygnri móðu í geislaslóð
við græna kofann
hann sá hvar hún stóð hið fríða fljóð
fráhneppt að ofan.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki um Ólaf Kárason.

Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.

Á hann leit hún æskuteitu
auga forðum
það var kvöld í sveit og hún kvaddi hann veit ég kærleiksorðum.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.

Inst í hjarta augað bjarta
og orðið góða
hann geymir sem skart uns grafarhúm svart
mun gestum bjóða.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma. -H.K.L.

Norrænn vinalundur

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki við Norrænan vinarlund.

Lundurinn var gróðursettur í tilefni af 100 ára afmæli Norræna félagsins á Íslandi 2022. Við hann er skjöldur á steini. Á skyldinum stendur:
Saman erum við sterkari – Norræna félagið.

Lundurinn er í Fossvogsdal, neðan við Álfatún í Kópavogi.

Þótt lundur þessi geti ekki talist stór að umfangi umfaðmar hann fjölmargar ólíkar trjátegundir frá öllum Norðurlöndunum, þ.m.t. Grænlandi og Færeyjum. Vonandi eiga græðlingarnir eftir að fá að dafna í framtíðinni og standa saman sem tákn um vindáttu hinna norrænu þjóða.

Agnar Kofoed-Hansen 1915-1982

Kópavogur

Kópavogur – minnisvarði um Agnar. Kofoed Hansen við Sandskeið.

“Sviffljúga er þó að mínum dómi fegursta íþrótt sem til er. Manni líður aldrei betur. Maður leitar eins og fuglinn að heppilegum loftstraumi að bera sig – og ferðin er hljóðlaus; aðeins kliðurinn í vængjunum. [A.K-H. Á brattann. Jóhannes Helgi skráði.]

Agnar Kofoed Hansen fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1915. Ungur fékk hann áhuga á flugi og fór til flugnáms í Konunglega Danska Sjóliðsforingjaskólanum og útskrifaðist þaðan 1935. Þær flugvélategundir sem Agnar flaug á námsárunum voru Avro Tutor, Heinkel 8 og DH Moth.

Kópavogur

Kópavogur – skjöldur á minnismerkinu.

Árið eftir að náminu lauk, var Agnar flugmaður hjá Det Danske Luftfartselskap. Þar flaug hann flugvélum af gerðinni Fokker FXII. Veturinn 1937 starfaði hann hjá Wideröe í Noregi og flaug Waco flugvélum Hann tók próf í næturflugi og flaug þá JU 52 flugvél frá Berlín til Parísar.

Agnar var aðalhvatamaður að stofnun Svifflugfélags Íslands og Flugmálafélagsins 1936. Hann var einnig aðalhvatamaður að stofnun Flugfélags Akureyrar 1937, og fyrsti flugstjóri þess og framkvæmdastjóri frá 1937 til 1939. Félagið keypti flugvél af gerðinni Waco YKS-7, TF-ÖRN og ávalt nefnd Örninn. Hún kom til landsins 1938.

Agnar lagði mikla vinnu í að leita að, og kortleggja hentuga lendingarstaði á Íslandi og notaði til þess flugvél af gerðinni Klemm KL-25E.

Agnar var lögreglustjóri í Reykjavík frá 1940 til 1947, síðan flugvallastjóri ríkisins 1947 til 1951. Hann var ráðinn flugmálastjóri 1951 og gegndi því embætti til dauðadags 23. desember 1982.

Kópavogur

Kópavogur – lágmynd af Agnari á minnisvarðanum.

Frumkvöðulsstarf Agnars var mikið, bæði á sviði flugsins og lögreglumála.
Með stofnun Flugfélags Akureyrar árið 1937 kom hann af stað samfelldum flugrekstri á Íslandi, sem enn er í örum vexti og teygir sig nú langt út fyrir landsteinana.

Með aðstoð sinni við stofnun svifflugfélaga, lagði Agnar grunn að flugnámi fjölda íslendinga, sem síðan sköpuðu nýja stétt atvinnuflugmanna í landinu. Og sem flugmálastjóri lagði hann grunninn að flugþjónustu eins og við þekkjum hana í dag, þar sem alþjóðasamskipti eru í heiðri höfð og öryggi í fyrirrúmi.

Agnar ritaði fjölda blaðagreina og flutti fyrirlestra um flugmál og miðlaði þannig af sinni miklu reynslu og þekkingu á flugmálum til samtíðarmanna sinna við uppbyggingu þessa nýja atvinnuvegar sem var í sköpun og hefur haft mikla þýðingu fyrir þjóðina.

Brjóstmyndin er eftir Sigurjón Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur við miðstöð svifflugs á Sandskeiði.

Stúpa á Hádegishólum
Stúpa við Lindakirkju! Á Hádegishólum, fyrir aftan Linda

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki; stupa.

kirkju, stendur stúpa sem reist var árið 1992. Elstu tegundir tilbeiðslustaða búddadóms eru svokallaðar stúpur sem eru litlar byggingar reistar til að minna á Búdda og kenningar hans. Hátt í annað hundrað manns af ólíku þjóðerni og trú komu að gerð stúpunnar. Einkennisorð stúpunnar á Hádegishólum eru jákvæðni, friður, viska og kærleikur.

Á skilti, skrúfað á grágrýtisbjarg, við stúpuna má lesa: “Lýsandi innri stupa – Stupa er byggð á erfðavenju, sem má rekja til Budda sem lifði fyrir 2500 árum.
Þessi stupa nefnist að stíga niður frá Tushita. nafngiftin kemur frá atburði, þegar hugljómuð vera kom frá heimi sem kallast Tushita til að hjálpa lífverum jarðarinnar að losna undan oki hverskonar óhamingju og þjáningu með því að leiðbeina þeim hvernig öðlast megi hamingju og hugljómun.

Kópavogur

Kópavogur – minnismerki; stupa.

Stupan táknar hug sem hefur verið hreinsaður af öllum neikvæðum eiginleikum og takmörkunum og hvar ríkir hamingja og friður.
Stupa er táknræn fyrir leið til visku og kærleika.
Stupa býr yfir lækningamætti og hefur eiginleika til að umbreyta neikvæðri orku í jákvæða í nærliggjandi umhverfi.
Þessi stupa er tileinkuð alheimsfriði, fórnalömbum stríðs og sjúkdóma hvar sem er í heiminum. Að friður og farsæld megi ríkja á Íslandi og allar lífverur megi feta braut innri þroska og kærleika.
Stupan er byggð af listamönnum, sem tilheyra mismunandi trúarbrögðum og þjóðernum”.

Heimildir:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/kopavogur-minn/
2006 Agnar Kofoed-Hansen | Flugsafn Íslands

Kópavogur

Kópavogur – Minnismerki um Guðmund H. Jónsson í Guðmundarlundi.

Vatnsendi

Stefnan var tekin á Vatnsendahlíð. Ætlunin var að skoða þar sitt hvora fornleifina, báðar leifar breitarhúsa.

Beitarhúsatóftin

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Árið 1807 var með konungsboði sett á laggirnar nefnd til varðveislu fornminja í Danmörku og nýlendum hennar. Árni Helgason (1777 – 1869), dómkirkjuprestur í Reykavík árin 1814 – 1825, svaraði nefndinni árið 1821. Í fornleifaskýrslu sinni telur hann upp þrjá gripi, alla tilheyrandi Dómkirkjunni í Reykjavík. Í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 1. mars sama ár, barmar Árni sér yfir fátækt sóknarinnar. Hann segir: “Hún er fyrst ein sú fátækasta á landinu af gömlum Menjagripum, þad sem hingad hefur komid, er jafnodum burtflutt til Kaupenhavnar af þeim utlendu er hellst hafa reist um sudurland. Af Sogum vorum er ecki ad ráda ad her á Nesi hafi nockud Hof verid i fornöld, þes siást ej heldur Menjar. Eingin veit her til Hauga, nema Óbóta manna sem dysiadir eru nálægt Kopavogi, Þingstad fornum her i Sveit. Þad er furdulegt ad í þeim stad sem fyrst bygdist á landinu skuli hvérgi siást neitt þeirra handaverk og nærri hvergi í Sögum getid þeirra sem hér hafa búid.”

Beitarhúsatóftin - syðsti hlutinn

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Lýsingar af þessu tagi voru algengar um allt land og ekkert einsdæmi að prestar teldu sínar sóknir skorta fornaldarminjar jafnt sem önnur gæði. Í bréfi sem Árni prestur sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Hafa ber í huga þegar þetta var skrifað í byrjun 19. aldar voru þær minjar, sem nú eru friðlýstar og þykja merkilegar, hluti af “nútímanum” og því lítt merkilegar. “Til eru aðrar heimildir en skriflegar um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra alveg til fulls.”

Vatnsendaheiði

Beitarhús á Vatnsendaheiði.

Í Fornleifaskrá Kópavogs, 2000, eftir Bjarna F. Einarsson, er getið um tvær fornleifar á hæðum ofan Vatnsenda, auk tveggja varða, á og við Vatnsendahlíð. Hin fyrrnefnda er “rúst (stekkur?) undir Vatnsendahvarfi. Rústin er fornleg að sjá. Ekki er sennilegt að um stekk sé að ræða, mun heldur beitarhús frá Vatnsenda. Uppblástur er einhver við rústina og tryggja þarf að hún verði honum ekki að bráð, annaðhvort með því að stöðva uppblásturinn eða rannsaka rústina. Með vaxandi byggð mun rústinni stafa ákveðin hætta og áður en að hún fer að verða fyrir spjöllum þarf að rannsaka hana til að komast að tegund hennar og aldri.

Vatnsendi

Beitarhús frá Vatnsenda við Litlabás.

Fallegar hleðslur

Vegghleðsla í beitarhúsinu á Vatnsendaheiði.

Hin er beitarhús suður af Litlabás. “Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. Svæðið í kring um beitarhúsið er kjörið útivistarsvæði og mætti hugsa sér að nýta það til að segja sögu fjárbúskapar fyrr á öldum.” Um þessa fornleif ofan við Litlabás segir ennfremur: “Beitarhús, engin hætta á raski, ágætt ástand, aldur 1550-1900 og minjagildi talsvert.”
Rústin stendur nokkuð hátt í grasi gróinni hæð. Af byggingarlagi að dæma má telja líklegt að rústin, sem er þrískipt; tvö fjárhús og heimkuml, sé frá því á seinni hluta 19. aldar. Veggir eru vandlega hlaðnir og tiltölulega sléttu mógrjóti, sem líkega er meginástæða staðsetningarinnar, auk þess sem vænlegt hefur þótt að hafa hana á vinsælum stað svo snjó festi síður við húsin. Þá hefur svæðið allt og verið kjarri vaxið og því ekki mörgum öðrum stöðum til að dreifa en þarna á hæðinni. Veggir standa nokkuð vel og má vel sjá byggingarlagið. Hlaðinn garður er eftir miðju syðstu tóftarinnar. Vandað hefur verið til verka. Fróðlegt væri að vita hver, eða hverjir, hafi verið þarna að verki. Líklegt má telja að fjárhús þetta hafi verið frá Vatnsenda. Mun stærri fjárhústóftir frá Elliðavatni er ekki svo langt frá, suðaustan við Vatnsendavatn, sjá HÉR.

Vatnsendi

Beitarhúsið við Litlabás.

Í skýrslunni (frá 2000) kemur m.a. fram að í Kópavogi eru nú; “22 fornleifar á 19 stöðum horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar við ósa Kópavogslækjarins og Kópavogsþingsstaður. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins.
GuðmundarlundurEins og fram hefur komið eru fornleifar sbr. lögum 100 ára eða eldri. Af þessu leiðir að fljótlega munu fleiri minjar teljast til fornleifa svo sem minjar um fyrstu þéttingu byggðarinnar upp úr 1936, minjar um hersetuna,samgönguminjar o.s.frv. Trúlega verða fleiri minjar skilgreindar sem fornleifar síðar enda á það sama við okkur sem lifum í dag og Árna prest Helgason upp úr 1800, við sjáum ekki lengra en skilningur og þekking okkar leyfir.”
“Í hugum margra er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Það má vissulega til sanns vegar færa þar sem sveitarfélagið sjálft er ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936 (Lýður Björnsson 1990:46 og 146). Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ (Kålund 1984:15).
SitkagreniðKópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar (Magnús Þorkelsson 1990(a):160). Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammkot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammkotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm (Guðlaugur R. Guðmundsson 1970:26 og 29).
Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Er liggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ (Ísl. fornbréfasafn I 1857-76:507). Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur. J hvamme c leigv. J digranesi iij merkur:“ (Ísl. fornbréfasafn II 1888:377).
Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. (Ísl. fornbréfasafn IX 1909-13:139-142). Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en 1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viij alne vatmell.“ (Ísl. fornbréfasafn XII 1923-32:577).
Danska nefndin fyrrnefnda fékk nafnið Commissionen for oldsagers opbevaring. Nefndin sendi spurningalista til allra sókna konungsveldisins og til Íslands bárust þessir listar árið 1809, á dönsku.

Í Guðmundarlundi

Í bréfi sem Árni prestur Helgason sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Árni skrifar: Vel tog Ingolf den förste Landnamsmand sig Boepæl i Reykevig; men baade dadlede hans Folkl da strax, denne hans Beslutning, og sagde de havde reist over alt for frugtbare Strækninger for at nedsætte sig her paa den nögne Kyst; og tillige fortælles at Jngolf siden efter, fandt det raadeligt at flytte her fra til Ølveset i sine ældre Aar, hvor hans Gravhöj ogsaa er at see. … Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad på Alftenes … Her af synes jeg det er rïmeligt at paa dette Sted skulle man ikke vænte at finde Oldsagers Levninger.
GuðmundarlundurÁ þessum árum var skilgreining manna á fornleifum talsvert önnur en í dag og rústir í venjulegum skilningi ekki taldar til fornleifa. Yfirleitt áttu menn við leifar frá hinum glæsta þjóðveldistíma, sérstaklega tengdar þinghaldi og trúarbrögðum.”
Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: “
Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit noðrur í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efna haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.
GuðmundarlundurÞað er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hafi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásinn eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niður og eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíefldum krafti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðaberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.”
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a:
-Skilti Skógræktarfélags Kópavogs við Guðmundarlund.
-Bjarni F. Einarsson – Fornleifaskráning Kópavogs 2000.

Í Guðmundarlundi